Janúardagbók 2006

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. janúar 2006

Valkvíði, verkkvíði, vitkvíði

Valkvíði - ég get ómögulega ákveðið hvað ég á að gera við þessa grein sem ég er að skrifa. Valið stendur milli þess að skila henni inn eins og hún er núna eða hræra helling í henni í viðbót. Mér finnast báðar hugmyndirnar góðar ... og báðar vondar! Ég get ekki heldur ákveðið hvernig ég vil halda upp á þrítugsafmælið mitt. Er búin að upphugsa ýmsar gerðir af veislum og þarf bara að velja besta kostinn. Ég er líka búin að láta mér detta í hug ýmislegt til að skrifa á þessa síðu en get bara ekki valið á hverju ég á að byrja.

Verkkvíði - ég þarf að gera svo ótrúlega margt! Verð, verð, verð að koma þessari grein frá sem allra fyrst þannig að ég geti snúið mér að mun mikilvægari málefnum, mastersritgerð og styrkumsókn. Ég kem mér samt ekki að efninu. Ég horfi dálítið á tölvuna en það nær ekki mikið lengra. Mig langar líka að skrifa eitthvað inn á þessa síðu og ég engist um af þrá eftir vorlegra útliti ... samt finnst mér einhvern veginn bara það að opna forritið vera eins og að taka 200 í bekkpressu!

Vitkvíði - af og til tekst mér að setjast niður til að lesa eða skrifa. En í hvert skipti sem ég smíða einhverja stórsnjalla bókmenntafræðilega kenningu, skrifa eitthvað af viti finn ég óstjórnlega flóttaþrá! Af einhverjum ástæðum flý ég alltaf af hólmi þegar ég geri eitthvað gott! Legg frá mér bókina ef ég fæ hugmynd þegar ég  er að lesa, stend upp frá tölvunni ef ég er að skrifa ... fer og geri eitthvað allt annað. Yfir þetta hef ég smíðað nýyrðið vitkvíði! Ég vil stundum bara ekki vita meira! Veit samt ekki af hverju þetta er svona?!

Ég lifi einhverju óttalegu slóvmósjon lífi þessa dagana ... finnst eins og tilveran þurfi aðeins að hinkra eftir mér meðan ég hristi þetta af mér og hleyp hana uppi. Þið megið ekki misskilja mig, ég er glöð og hamingjusöm! Mér líður bara dálítið eins og þegar maður reynir að hlaupa í martröðum en hvert skref er svo ótrúlega þungt, eins og maður sé að hlaupa í vatni. Sem betur fer er enginn ljótur kall á eftir mér eins og í martröðunum! Bara ritstjórar, kennarar, tómir bankareikningar ... og æstir áhangendur síðunnar minnar!!! Ég lofa uppfærslu 2. febrúar ... er þó búin að ákveða það!

 

17. janúar 2006

Myndir á myndir ofan!

                    

                                            Halti-Hugi                                                 Allt á kafi í snjó

Nú er hins vegar kominn tími til að ég reyni að koma einhverri mynd á greinina sem ég er að skrifa í staðinn fyrir að setja inn nýjar myndir!

 

8. janúar 2006

   

                              7. janúar 2002                                                                   7. janúar 2006     

Í gær voru fjögur ár liðin frá því að Bárugötuprinsinn Hugi kom í heiminn. Þetta angaskinn sem fyrir nokkrum augnablikum síðan grenjaði úr sér lungun oft á dag en hjalaði og brosti sínu ótrúlega breiða brosi þess á milli, nagaði á sér tásurnar og beit stundum af sér sokkana, kúrði í hálsakotinu á mömmu sinni og spýtti út úr sér snuðinu ... já, þessi nýfæddi drengur er nú allt í einu farin að lesa dagblöðin, leika ofurhetjur með heimatilbúnar skikkjur úr handklæðum á herðunum, skrifa stafinn sinn og teikna vonda kalla, dreka og Star-Wars sverð!!! Tímamótunum fagnaði Bárugötufjölskyldan daglangt í gær með gjöfum, kökum og góðum gestum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum:

Hugi verður 4ra ára

Hugi Einarsson þakkar hlýhug og góðar kveðjur á afmælisdaginn og hlakkar til að hitta ykkur öll sem fyrst!

 

5. janúar 2006

Hún Guðrún og hún Lára

Ég lendi ótrúlega oft í því að fólk sem ég kannast við kalli mig Láru. Það er eins og aðeins þetta seinna nafn mitt sitji eftir í nokkuð stórum hluta þeirra sem ég hef kynnt mig fyrir. Einhverjir þeirra sem kalla mig Láru virðast þó vera meðvitaðir um bæði nöfnin en hafa bitið það í sig að ég noti aðeins það seinna. Ég hef hins vegar aldrei beðið nokkurn mann um að kalla mig Láru! Reyndar man ég eftir því að einu sinni spurði mig kennari (sem hafði þá kallað mig Láru í nokkur skipti) hvort ég notaði kannski fyrra nafnið líka. Í einhverjum vandræðagangi yfir þessu öllu saman hafði ég sagt að reyndar gerði ég það en hann mætti svo sem alveg nota Lára ef hann vildi. Hann tók svari mínu sem staðfestingu á því að ég vildi aðeins nota síðara nafnið mitt og kallaði mig Láru langt fram eftir vetri. Mér fór hins vegar að þykja þetta óþægilegra og óþægilegra ... næstum eins og ég væri að villa á mér heimildir eða þykjast vera einhver önnur en ég er. Ég er afskaplega ánægð með nöfnin mín ... bæði tvö! En í hjarta mínu er ég Guðrún ... þessi Lára er einhver allt önnur stelpa og ég þekki hana ekki neitt!

Ég hef aldrei orðið vör við að Einar sé kallaður Þór og ég þekki til dæmis enga Birgittu í Kanada eða Bjarna í London (bara Kristínu og Kjartan!). Þess vegna skil ég ekki hvers vegna svona mörgum dettur þessi sama vitleysa í hug! Þegar ég stóð frammi fyrir því í vikunni að þurfa að ákveða hvort ég ætti að leiðrétta það í örugglega fjórtánda skiptið við tiltekinn einstakling að ég héti Guðrún Lára en ekki Lára fór ég að velta því fyrir mér hvort það gæti verið að það væri eitthvað sérstaklega Lárulegt við mig? Getur yfirhöfuð verið að nöfn beri með sér einhverja eiginleika og það sé þannig hægt að réttlæta hugmyndir á borð við Guðrúnarlegt eða Lárulegt? Mótum við nöfnin eða nöfnin okkur? Ætli það sé hægt að heita vitlausu nafni?!

Hvort er ég meiri Guðrún eða Lára? 

 

1. janúar 2006

Við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir allt gamalt og gott á þeim liðnu! Megi árið 2006 færa ykkur gæfu og gleði!

Þeim sem enn eru hálfsjúskaðir eftir hátíðisdagana bjóðum við að hressa sig við með því að skoða fullt, fullt af nýjum myndum!

           

                                           Milli jóla og nýárs                             Áramótin 2005/2006

Ég hlakka til að hitta ykkur og heyra frá ykkur sem oftast og mest á nýju ári! 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar