Milli jóla og nýárs

Við höfðum það einstaklega gott vikuna milli hátíða. Systkinin voru í fríi frá skyldustörfum sínum á Drafnarborg, húsmóðirin ákvað að sinna engu öðru en jólabókalestri og fjölskyldufaðirinn var töluvert heima við þótt eitthvað þyrfti hann að sinna vinnu líka!

 

Okkur bárust síðbúnar jólagjafir frá Kristjáni, Fannýju og Gústavi Þór í Danmörku. Maríu færðu þau þetta glæsilega bollastell sem eigandinn átti að skreyta sjálfur. Það var nú eitthvað fyrir mína dömu! Heilan eftirmiðdag dundaði María sér við að mála katla, bolla og undirskálar og var að vonum stolt af afrakstrinum!

 

Meðan María málaði bolla fjöldaframleiddi Hugi jólasveina! Hann er nýbúinn að læra að teikna höfuðfætlinga og hefur verið iðinn við kolann æ síðan. Jólasveinarnir eru auðvitað mál málanna þessa stundina og drengurinn hefur teiknað að meðaltali þrjátíu stykki á dag í desember!

Meðan börnin máluðu og teiknuðu hafði mamman það ósköp gott!

Milli jóla og nýárs var einnig haldið í sérstakan skiptileiðangur í miðbæinn. Einhverjir fjölskyldumeðlimir voru svo óheppnir að fá bækur sem þeir áttu fyrir og því var ekki um annað að ræða en að skipta þeim fyrir aðrar. Úr þessu varð heimikil fjölskylduferð þar sem meðal annars var komið við á tjörninni til að gefa öndunum brauð og endað á kaffihúsi! Hér er María klár í slaginn ...

... og Hugi líka!

Áður en lagt var af stað stillti Einar sér upp við jólagjöfina sem hann fékk frá eiginkonu sinni og börnum. Þrátt fyrir að vera mikill hjólreiðagarpur hefur Einar aldrei átt nýtt hjól. Þegar síðasta ryðkálfi var stolið fyrir utan Landspítalann fékk hann hjólið mitt lánað og hefur því undanfarna mánuði þeyst um borgina á allt of litlu og illa förnu kvenhjóli! Úr þessu var bætt á aðfangadagskvöld þegar hann fékk flunkunýjan gæðing sem bíður þess ólmur að eigandinn stigi á bak og flengist um götur bæjarins!

Þegar við vorum um það bil að leggja af stað í þessa miklu bæjarferð ákvað myndavélin að gera uppsteyt og tæma batteríið. Það náðist því aðeins að smella þessari mynd af móður og börnum áður en vélinni var skilað inn og fjölskyldan æddi í bæinn til að troða brauði í endur, velja sér bækur og þamba kakó!