Halti-Hugi

Í síðustu viku fékk Hugi enn eitt heltiskastið. Hann vaknaði á þriðjudagsmorgni og gat ekki gengið heldur skreið um fram eftir degi svo að foreldrarnir sáu þann kost vænstan að koma honum beint til læknis. Daginn eftir vaknaði hann svo með hita og tókst þannig að hræða bæði foreldra og lækna. Ekki reyndist þó vera um sýkingu í mjaðmarlið að ræða eins og óttast var á tímabili heldur svokallað mjaðmakvef sem drengurinn virðist fá endurtekið.

Meðan hitinn var sem hæstur var Hugi ansi slappur. Auk þess tók nokkuð á að fara í blóðprufur, röntgenmyndatöku og ómskoðun allt á sama deginum. Hann rúllaði því út af í hægindastólnum enda vildi hann hvergi annars staðar vera og margítrekaði að það væri of kalt í öllum rúmum heimilisins!

Drekinn kom og passaði hann meðan hann svaf! Hann lítur nú út fyrir að vera ósköp lítill þar sem hann kúrir sig þarna í stólnum!

Daginn eftir var Hugi mun hressari þó enn bæri nokkuð á að hann heyfði sig eins og Stekkjastaur. Hann fékkst í það minnsta til að borða súkkulaðikleinuhring!!!

Einbeittur með kleinuhringinn.

Tjáningarrík svipbrigði Huga þegar hann segir frá eru oft kostuleg!

Nokkrum dögum síðar var drengurinn orðinn stálsleginn, farinn að ganga eðlilega og fylltist á ný þeim krafti og hreysti sem einkennir hann vanalega!