Hugi verður 4ra ára

Já, loksins rann hann upp, fjórði afmælisdagur Huga!  Hann var reyndar minnst spenntur fyrir honum sjálfur enda fullviss um að það væri pabbi sem ætti afmæli. Einar átti nefninlega afmæli fyrir um mánuði síðan og sá dagur situr greinilega fastur í minni drengsins. Eftir því sem leið á daginn rifjaðist þó upp fyrir Huga um hvað það snýast að eiga afmæli. Pakkar, kökur og fullt af skemmtilegum gestum ... jú, hann gæti kannski sætt sig við þetta!!!

Dagurinn byrjaði með fyrstu afmælisgjöfinni en Hugi fékk þetta ótrúlega töffarahjól frá foreldrum sínum og systur. Rauða þríhjólið var orðið allt of lítið og orðið tímabært að hann fengi farskjóta við sitt hæfi. Hjólakostur móðurinnar, föðurins og sonarins hefur því allur verið endurnýjaður á undanförnum mánuðum og þá er bara María eftir. Kannski hún fái líka nýtt hjól áður en langt um líður og þá munið þið ef til vill sjá Bárugötufjölskylduna þeysast saman um götur bæjarins þegar sól hækkar á lofti?!!!

Síðar um daginn hófst svo afmælisveislan sjálf! Jódís frænka sá um afmæliskökubakstur eins og áður og að þessu sinni tók drengurinn ekki annað í mál en að fá Harry Potter köku. Harry Potter er nýjasta æðið hans, þrátt fyrir að hann skorti tilfinnanlega nákvæmari upplýsingar um galdrastrákinn! Til að mynda telur hann að um Harry Potter hafi verið skrifaðar bækurnar Harry Potter og svanaprinsinn, Harry Potter og ljónið og Harry Potter og manneskjan!!!

Fjórar kynslóðir í beinan kvenlegg bíða eftir að veislan hefjist! Amma á Sóló, amma á Bakkastöðum, mamman á Bárugötunni og litli Bárugötuengillinn. Allar þessar föngulegu stúlkur eru fyrstu börn sinna foreldra ... nema amma á Sóló en hún er þó elsta stúlkan!

Þessar sætu vinkonur voru í stíl í afmælinu! Bleikur litur virðist ekkert ætla að tapa stöðu sinni sem eftirlætislitur allra stúlkna á aldrinum 3-10 ára! Að minnsta kosti ekki ef þær vinkonur Kristínu Klöru og Maríu er að marka! Sjálf óx ég snemma upp úr bleika tímabilinu en datt inn í það aftur um tvítugt og hef ekki jafnað mig síðan!

Gestirnir sestir við borðið og tilbúnir að hefja veisluna formlega með kertablæstri, söng og kökuáti. Jón Tómas virðir afmælistertuna  fyrir sér og við hlið hans sitja systkinin Emil og Pála ásamt mömmu sinni Evu.

Hugi sat að sjálfsögðu við borðsendann eins og afmælisbörnum sæmir. Mamman kveikti á kertunum og svo var afmælissöngurinn sunginn svo undirtók í gömlum gólfborðum Bárugötunnar.

Svo var komið að því að blása á kertin fjögur! Tvö fóru í fyrstu tilraun, svo eitt og að lokum tókst að slökkva á þeim öllum. Ekki fylgir sögunni hvort Hugi óskaði sér einhvers en víst er að ef hann hefur gert það þá hefur óskin snúist að töluverðu leyti um Harry Potter, sjóræningja eða grimm dýr! Nema það hafi verið heimsfriður ... það má náttúrulega ekki að útiloka það alveg!!!

Jódís bakarameistari sá um að brytja Harry Potter niður og skenkja svöngum börnum bita á diska.

Björn og Sigrún sáu til þess að allt færi vel fram á austurvígstöðvunum!

Bjartur Guðmundsson tók fullan þátt í borðhaldinu þrátt fyrir ungan aldur og virtist nokkuð sáttur með snúð og safa!

Hugi afmælisherra var ánægður með veitingarnar enda væri hann hvar og hvenær sem er tilbúinn að fórna nánast öllu fyrir sneið af góðri súkkulaðiköku!

Þær voru ekki lítið dömulegar við borðið vinkonurnar Kristín Klara, Högna Sól og María. Frú Ragna gullmamma stóð fyrir aftan og fylgdist með!

Hrappur var íbygginn á svip meðan hann sporðrenndi Harry Potter.

María fær sér snúð og spáir í heimsmálin.

Matthildur bragðaði á kökunni ...

... og við hlið hennar fylgdist Snædís stóra systir með tónlistartilburðum Bjarts.

Sætu systurnar saman á mynd!

Amma með sjarmörinn!

Pála gaf sér tíma til að líta til ljósmyndarans þrátt fyrir að vera önnum kafin við súkkulaðikökkuát.

 

Ekki þarf að hafa mikið fyrir því að fá stórt bros frá Orra! Honum tekst hvar og hvenær sem er að heilla viðstadda með sínu sólskinsviðmóti. Einhverjar óljósar fregnir hafa þó borist af því að þyngra sé í kappanum á tímabilinu 12-04 á næturnar! Af þessum myndum að dæma er þó ekki flugufótur fyrir þeim sögusögnum!!!

Keli tók að sér að leysa lífsvandann fyrir viðstadda! Ekki er annað að sjá en að Sigrún, Björn og Erla Kristín hafi nýtt sér þessa ókeypis þjónustu!

Bjartur kom sér í var og kúrði upp á skáp meðan íbúðin var yfirfull af börnum að leik!

Bjartur lék sér í barnaherberginu innan um stóru krakkana.

Matthildur fór í barbí og skipti á litlum dúkkubörnum.

Það var þreyttur en dálítið uppspenntur afmælisstrákur sem var klæddur í náttfötin seint þetta kvöld! Hugi er alltaf í leit að hláturvekjandi skemmtiatriðum og sá sér leik á borði þegar nýi prinsessukjóllinn hennar Maríu var skyndilega á lausu!

Hugi prinsessa!

Íklæddur prinsessukjólnum (á röngunni!) hringsnerist hann svo skærbleikt tjullið þyrlaðist í kringum hann. Þannig dansaði Hugi Einarsson  fjórða afmælisdaginn sinn út, glaður og kátur!