Áramót 2005/2006

   Við fjölskyldan erum búin að hafa það einstaklega gott yfir áramótin og tókum fagnandi á móti nýju ári!

Við Einar byrjuðum gamlársdag á því að baka sannkallaða áramótabombu! Börnin höfðu gist á Bakkastöðum um nóttina og því gafst nægur tími til að baka marengs og útbúa hnausþykkt súkkulaðikrem. Hér sést Einar bera sig fagmannlega að því að setja herlegheitin saman!

Með hnallþóruna í farteskinu var svo haldið á Bakkastaði þegar líða tók að kvöldi! Hjónamyndataka við jólatréð þar á bæ verður ef til vill að föstum áramótasið í það minnsta stóðumst við ekki mátið að mynda okkur með þetta stórglæsilega tré í baksýn en það er einmitt annað af tveimur jólatrjám sem voru í okkar eigu skömmu fyrir hátíðirnar (sjá jólaalbúm!). Hvernig datt okkur í hug að þetta ferlíki kæmist fyrir inni í stofu hjá okkur?!?

Meðan beðið var eftir því að fleiri gestir bættust í hópinn dundaði Hugi sér við að lesa dagblöðin ... en ekki hvað?!

Við Einar bökuðum ekki bara áramótabombu heldur útbjuggum við líka heimagerða karamellu (bæði mjúkar og harðar!) ...

... og útbjuggum þessa fínu Tiramisu-praliner mola sem María sést hér bera á borð!

Hugi var fljótur að þreytast á blaðalestri og bið eftir gestum og um það leyti sem allir voru mættir og matur á borð borinn var hann steinsofnaður í stólnum!

Hann bærði ekki einu sinni á sér þótt við hin smelltum á hann áramótahatti! (Ég vona að þetta uppátæki okkar minni ekki um of á brjálað bandaríska háskólanema í vorleyfi!)

Hann vaknaði ekki heldur þegar við fluttum hann á þægilegri svefnstað og þar lúllaði hann meðan við hin gæddum okkar á kalkún, sætri kartöflustöppu, trönuberjasultu, rjómalöguðum perlulauk og sósu! Við vorum hins vegar allt of upptekin við að borða til að taka nokkrar myndir af borðhaldinu!

Eftir að við vorum búin að borða og Hugi var vaknaður eftir góðan lúr settumst við niður til að horfa á fréttaannála og skaup. Maríu og Huga þóttu Jóhanna og Andrea með eindæmum fyndnar og veltust um af hlátri yfir einhverjum Macintosh-brandara sem þær stóðu fyrir!

Eftir skaupið (sem var nánast sársaukafullt) skelltum við okkur út á pall til að fylgjast með skotglöðum samborgurum okkar. Hugi var spenntur fyrir þessu öllu saman í fyrstu en þegar nágranni ömmu í næsta húsi tók að puðra upp með miklum látum leist honum ekki á blikuna og flúði inn!

Hann fékk þó að prófa stjörnuljós þrátt fyrir að þora ekki út og bar sig bara nokkuð mannalega ...

... en var reyndar fljótur að koma því í hendurnar á pabba þegar blossarnir færðust neðar eftir prikinu!

Við erum lítið fyrir flugeldakaup en Siggi hefur gjarnan séð okkur fyrir einni stórri bombu á hverju ári sem hann sést hér munda!

Elli gerir sig kláran í stjörnuljósin!

Ógeðslega hress systkin með pípuhatta!

Mæðgur úti með stjörnuljós með flassi ...

... mæðgur úti með stjörnuljós án flass!!! Við erum sko nýbúin að fjárfesta í risastóru, þungu og allt of dýru flassi á myndavélina okkar (þar sem flassandspyrnan var farin að koma illþyrmilega niður á mér, sérstaklega á þessum árstíma) og nú einkennast allar okkar myndatökur af mikilli tilraunamennsku!

María var með rétta útbúnaðinn og bar sig vel ... svona framan af!

Elli lét öllum illum látum!

Hugi var skíthræddur við þetta allt saman og vildi bara vera inni og kúra sig í ömmufang.

Í fyrra var Einar á vakt þegar nýtt ár gekk í garð og ég saknaði hans óskaplega. Gleði mín var því tvöföld ... nei, þreföld eða jafnvel fjórföld, yfir því einu að hann skyldi vera hjá okkur þetta árið!

Þegar lætin í flugeldunum voru sem mest um miðnættið var Huga nóg um og heimtaði að allir „kallarnir“ kæmu inn aftur!!!

En „kallarnir“ létu illa að stjórn og vildu endilega vera úti í látunum og tóku jafnvel þátt í þeim með alls kyns blysum og vitleysu! Þegar þarna var komið við sögu var Maríu þó nóg boðið og flúði hún inn í ömmufang líka! Þrátt fyrir hetjulega baráttu til að byrja með var henni allri lokið um það leyti sem nýtt ár gekk í garð og sat inni og grét fögrum tárum bæði af því að hún var svo hrædd um að heimurinn myndi springa en líka af því að hún vorkenndi gamla árinu svo agalega!

Er það nema furða að börnin hafi verið dálítið skelkuð?! Jóhanna var hins vegar hvergi smeyk við blysin og lagði meira að segja í tvö í einu!!!

Þegar árið 2006 var formlega gengið í garð skáluðum við í kampavíni og gæddum okkur á áramótabombunni okkar Einars. Því miður gleymdist alveg að taka mynd af henni óskorinni en þið verðið bara að ímynda ykkur hversu ótrúlega glæsileg hún var!

Ekki er annað að sjá en að nýtt ár leggist vel í vinkonurnar Gurru og Imbu!

Maríu og Huga fannst rétt að taka á móti nýju ári með teikningum við hæfi. Hugi dró upp eldspúandi dreka en María ákvað að teikna mynd af nýju bestu vinkonum sínum þeim Jóhönnu og Andreu. Þeim leist að sjálfsögðu ekki illa á það og tóku sínar eigin myndir af listamönnunum! Svo mikið var lagt í myndina að væntanlegir eigendur voru farnir til síns heima þegar hún var loks tilbúin og bíðum við því spennt eftir að afhenda hana með viðhöfn á næstu dögum! Sjálf héldum við heim skömmu síðar með litlu listamennina dauðþreytta, lögðumst til hvílu í mjúkum og hlýjum rúmum og áður en svefninn sigraði reyndum við að gera okkur í hugarlund hvað nýtt ár bæri í skauti sér. Eitt er víst ... það verður eitthvað frábært!!!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir öll þau gömlu!