Nóvemberdagbók 2007

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

26. nóvember 2007

E=mc²

Í gær tilkynnti Hugi okkur hróðugur að hann væri 13 langur! Í kjölfarið var mamman mæld og reyndist hún ekki vera nema 6 löng. Hvernig skyldi þessi merkilega niðurstaða hafa verið fengin? Jú, mælingin fer þannig fram að maður telur frá einum og upp úr meðan maður rennir höndinni létt alveg frá tám og upp á hvirfil. Maður er þá jafnlangur og talan sem maður segir þegar maður er kominn alla leiðina upp.

Þessi nýstárlega aðferð sonar míns við að meta lengd hefur orðið mér innblástur. Ég er nú búin að hanna aðferð sem mælir fegurð og samkvæmt henni er ég sætasta kona í heimi. Loksins!

Ef ykkur langar að sjá myndir af fjölskyldu fegurðardrottningar legg ég til að þið smellið á blåmesinn hérna fyrir neðan.

 

19. nóvember 2007

Ég sit við eldhúsborðið með stóran kaffibolla. Við hlið mér malar uppþvottavélin notalega og húsið allt ilmar af nýbökuðum sólblómafræssnittum sem ég var að enda við að baka. Ekkert hreyfist nema hægri hönd mín sem er í óða önn við að skrifa póstkort til lítillar þriggja ára vinkonu minnar sem ég sakna svo mikið. Fyrir utan er rétt að byrja að rökkva og rúmlega hálffullt tungl klífur upp himinhvolfið.

Lífið er gott.

 

14. nóvember 2007

Enn er von!!!

Þegar ég er búin að keyra Maríu og Huga í skólana sína á morgnana tek ég mér stundum göngutúr í skóginum sem liggur hér við Vänge. Í morgun þegar ég var rétt lögð af stað eftir stígnum og naut þess að hlusta á snjófölina marra undir fótum mér, heyrði ég þrusk frá trjánum. Ég heyri svo sem oft þrusk frá trjánum þegar ég er í skóginum enda er nóg af fuglum þar sem flögra milli greinanna. En þetta þrusk var einhvern veginn miklu stærra svo ég staldraði við og skimaði upp eftir öllum trjábolum í kringum mig. Og þá sá ég hann! Á grein nokkru fyrir ofan mig sat íkorni!!! Lítill og sætur með stór eyru og loðið skott, dálítið hræddur en samt svo forvitinn! Í góða stund horfðumst við í augu og meðan kuldinn beit í kinnarnar reyndi ég á mínu besta íkornamáli að segja honum að ég byggi aðeins steinsnar í burtu og bauð hann velkominn í garðinn hér á Konsulentvägen 2. Ég sagði honum frá eikartrénu, hnetunum sem ég gef fuglunum mínum og lofaði að gera vel við hann líka ef hann vildi líta í heimsókn. Svo kvaddi ég hann, stakk höndunum djúpt í vasana og hélt áfram leið minni glöð og með vonarneista í hjarta! Kannski er ég dálítil Mjallhvít eftir allt saman!

 

8. nóvember 2007

Írónía

Vinir og vandamenn biðja mig stundum um að útskýra ýmis bókmenntafræðileg hugtök sem vefjast fyrir þeim.* Mér datt því í hug að nota þessa síðu til að útskýra eitt algengasta hugtakið, íróníu, með litlu dæmi:

Ein af helstu ástæðunum fyrir því að ég flutti til Svíþjóðar var að mig langaði að upplifa aðeins fjölskrúðugra dýralíf en á Íslandi. Ég sá mig fyrir mér sem sannkallaða Mjallhvíti þar sem ég stillti mér upp á útidyratröppunum, syngi nokkrar trillur og undireins drifi þar að dýr af öllum stærðum og gerðum. Íkornar myndu stinga kollunum út úr grænu laufskrúðinu, dádýrskálfar myndu nálgast mig feimnislega og hnusa af hendi minni, á grasflötinni myndu refir, hérar og greifingjar kútveltast hver um annan, að ekki sé nú talað um smáfuglahópinn sem myndi drífa að og flögra í kringum mig í kapp við litskrúðug fiðrildi. Á kvöldin ætlaði ég að setja út skál með mjólk handa broddgeltinum og fylgjast með skuggum hjartardýranna sem reikuðu hljóðlaust inn á milli trjánna í skóginum. Ég var jafnvel farin að hlakka lúmskt til að fá heimsóknir frá drukknum elgum sem hefðu borðað gerjuð epli og þurfa að læsa mig inni meðan hungraðir skógarbirnir ráfuðu um í garðinum!

Nú hef ég búið í Svíþjóð í rúmt ár. Ég held að hápunktur dýralífsins sem ég hef upplifað hérna séu dauðu refirnir sem lent hafa fyrir bíl og liggja eins og hráviði meðfram þjóðvegunum, alblóðugir og með inniyflin úti. Nema það séu mýsnar sem við Einar veiðum í gildrur og hendum svo hálsbrotnum í ruslið! Hingað til hef ég þó huggað mig við að fuglalífið hér á Konsulentvägen sé nú töluvert. Ég ákvað því að taka þann þátt faununnar með trompi og keypti mér litla bók um sænska fugla. Í fyrsta kafla bókarinnar er skilmerkilega greint frá því að margir af smáfuglunum hérna séu með salmonellu og því verði að koma öllu fóðri fyrir á þann veg að þeir geti ekki kúkað í það meðan þeir fá sér að borða og þannig smitað enn fleiri fugla!

Og þetta, lesendur góðir, er það sem maður kallar íróníu!

*Ókei, þetta er helber lygi, það hefur aldrei nokkur maður beðið mig um að útskýra fyrir sér bókmenntafræðilegt hugtak en í þykjó er þetta svona!

 

4. nóvember 2007

Sko mig ...

haldiði að ég hafi ekki bara náð að merja eitt októberalbúm í viðbót OG sé búin að setja inn nokkrar nóvembermyndir!!!

          

                             Hrekkjavaka 2007                                                   Fyrsti snjórinn

Rosalega held ég að ég verði frábær heimasíðustjóri í nóvember!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar