Hrekkjavaka 2007  

Getur maður ekki alveg farið að kalla það árlegt sem gerst hefur tvö ár í röð? Ef svo er þá er það árlegur siður hjá okkur á Konsulentvägen að halda hrekkjavöku með hefðbundum hætti!

Hér í Svíþjóð er haustleyfi í vikunni sem hrekkjarvökuna ber upp á. Í þetta sinn tók Einar sér líka frí þannig að við höfum átt góða daga saman fjölskyldan á Konsulentvägen. Þann 31. október skelltum við okkur í smá skógargöngu áður en hefðbundin hrekkjavökustörf hófust og gengum stysta hringinn í Hammarskog.

Ef eitthvað var hræðilegt á þessum mikla horror-degi þá var það hárið á mér!!! Held að það toppi allan hrylling alla daga!!! Mikið er það böl að búa í Svíþjóð lengst í burtu frá almennilegum hárgreiðslustofum og góðum hárgreiðslukonum!!!

    

María var kát og hress í skógarferðinni en Hugi var, eins og sést gjörla á þessari mynd, heldur fúll því honum finnst svo agalega leiðinlegt að ganga!

    

Þær eru svo ótrúlega fallegar þessar hvítu bjarkir, sumar eru næstum eins og þær hafi verið kalkaðar! Mér finnst oft að björkin sem tré eigi alveg sérstakan stað í huga sænsku þjóðarinnar og það er kannski ekki skrýtið þegar maður sér tré á borð við þetta!

Meðfram öllum skógarstígnum eru skilti með náttúruspurningum. María hafði ákaflega gaman af þessum þrautum og við lærðum eitt og annað um umhverfið á þessum stutta göngutúr okkar.

Það var dálítið kalt þennan dag og María dúðaði sig vel þegar leið á göngutúrinn. Við vitum eiginlega ekki alveg hvaða hlífðarbúnað við eigum að bjóða henni upp á í -20° fyrst hún kýs að klæða sig svona þegar hitinn er rétt yfir frostmarki!!!

    

Þessi undarlegi runni raðaði sér meðfram skógarstígnum. Hann er risastór og á honum var krökkt af þessum bláu berjum sem líkjast bláberjum nema hvað þau eru mun stærri, með stóran kjarna og ógeðslega vond! Ef einhver veit hvað þetta er þá má hann gjarnan uppfræða mig!

Þegar heim var komið tóku við hefðbundin hrekkjavökustörf. Við vorum búin að kaupa tvö stór grasker og hugðumst flysja úr þeim allt kjöt til að laga graskerssúpuna okkar góðu, rista fræin og svo auðvitað skera luktir út úr restinni. Hér er Einar önnum kafinn við að tína fræin úr kjötinu.

María ákvað að auka aðeins á hryllingsstemmninguna og málaði sig sjálf í framan. Í andliti hennar má sjá þrumuský, kónguló, blóð og sitthvað fleira ógnvænlegt!

Við Einar sáum að mestu um útskurðinn þar sem María og Hugi höfðu meiri áhuga á barnatímanum! Það gerir svo sem ekkert til, ég myndi aldrei treysta þeim með beitta hnífa og svo þykir okkur Einari svona föndur alveg óheyrilega skemmtilegt!

    

Einars kall til vinstri og minn til hægri. Mér finnst minn náttúrulega miklu flottari!

Yfirburðir mínir sem graskerssmiðs komu þó fyrst í ljós þegar körlunum var komið fyrir úti á palli og kertaljós tendruð inni í þeim. Einars kall lýsti fyrir það fyrsta fremur illa og í öðru lagi slokknaði ítrekað á kertunum inni í honum. Einar reyndi að skýla sér bak við vindáttir og einangrun en ég held að staðreyndin sé nú bara að hann er ekki nógu góður í þessu!!!

Þeir voru nú samt ótrúlega flottir báðir tveir þar sem þeir glottu framan í okkur utan úr myrkrinu!

Meðan Einar lagaði graskerssúpu og ristaði graskersfræ bakaði ég þessa girnilegu peru- og lingonköku í eftirrétt. Það er svo sem ekkert hrekkjavökulegt við hana ... nema maður ímyndi sér að lingonberin á glassúrnum séu blóðdropar í snjó eða eitthvað svoleiðis!

Við höfum verið margvöruð við því að það gætu komið krakkar á dyrnar hjá okkur að bjóða valmöguleikann „bus eða godis“ og því þorðum við ekki annað en að byrgja okkur upp af sælgæti. Það kom hins vegar enginn í fyrra og því áttum við svo sem ekkert frekar von á neinum núna. Hugi var samt klár í slaginn með gotteríið í blóðrauðri skál.

Einar gat hins vegar lagað súpuna algjörlega óáreittur fyrir dyrabjöllunni og frekum krökkum ... okkur hjónunum til mikils léttis en systkinunum Maríu og Huga til mikilla vonbrigða!

Meðan við hin dáðumst að kökunni eða maukuðum grasker klæddi María sig hljóðlega í útiföt og læddist út.

Skyndilega var bankað á dyrnar úti á pall og þegar við fórum til að gæta að hvað væri á seyði stóð þar uppábúin hrekkjavökustelpa og bauð okkur að velja „grikk eða gott“. Huga þótti þetta aldeilis skemmtilegur leikur og saman sáu systkinin til þess að nammið hvarf á örskotsstundu!

... en úti bíður andlit á glugga!

Með þessari óhuggulegu mynd af hrekkjavökuskrímsli á Konsulentvägen kveðjum við október en til upprifjunar og graskerssamanburðar má finna slóð á hrekkjavökumyndir ársins 2006 hér fyrir neðan!

Hrekkjavaka 2006