Hrekkjavaka 

Svíarnir eru Hrekkjavökuóðir! Ekki veit ég hversu lengi það hefur tíðkast hér að vera með tilstand á þessum degi, hvort þetta er rótgróinn siður í sænskri menningu eða nýtilkomin ameríkanísering! Hverju sem því líður hefur verið mikið Hrekkjavökutilstand í samfélaginu undanfarna daga og þar sem við fjölskyldan á Konsulentvägen erum orðin svo sólgin í nýjar lífsreynslur ákváðum við að taka þátt í fjörinu.

30. október 2006

Í stórmarkaðnum okkar hefur að undanförnu staðið risastór kassi fullur af graskerum. Þar sem María og Hugi eru í vetrarfríi um þessar mundir ákváðum við að kaupa tvö og stytta okkur stundir við að skera út í þau andlit. Hér eru systkinin klár í slaginn daginn fyrir Hrekkjavökuna sjálfa.

Það kom þó fljótt í ljós að það að skera í grasker er ekki við hæfi barna! Það var því móðirin sem mundaði beittustu hnífa heimilisins, hjó og jagaði. María fylgdist af athygli með þessu öllu saman og faðmar hér fyrra graskerið sem er næstum tilbúið.

Hugi reynir að benda mömmunni á góðar hugmyndir í bókinni Play With Your Food sem er í miklu uppáhaldi á heimilinu. Það var hins vegar fljótlega ljóst að miðað við aflið sem þurfti til að beita hnífnum myndi móðirin seint leggja í slíkt fínerí!

Sá fyrri kominn með tennur og klár í slaginn! María var alveg heilluð af honum. Ég vona svo sannarlega að þetta sé ekki það sem koma skuli, þ.e.a.s. að hún muni ekki hrífast af svona „bad boys-týpum “ í framtíðinni!!!

Þegar kom að því að gera þann seinni var ég að sjálfsögðu orðin uppfull sjálfstraust og ætlaði að gera eitthvað alveg rosalega flott! Það mistókst hins vegar allt og á endanum var fallið frá öllum metnaðarfullum áætlunum og ákveðið að gera algjörlega hefðbundið andlit í staðinn til að fela klúðrið. Fyrir vikið er seinna graskerið dálítið fíflalegt, með stór augu og dálítið opinmynntur!

María var svolítið leið að fá ekkert að skera út en sá samt að þetta væri ekki verkefni við hennar hæfi. Í staðinn fékk hún að skera út í epli með venjulegum borðhníf og undi sátt við sitt!

Báðir gaurarnir saman! Finnst ykkur þessi til vinstri ekki aulalegur og skondinn?! Ég myndi nota líkinguna að hann væri á svipinn eins og hann væri alveg tómur í hausnum ef hann væri ekki galtómur í raun og veru!!!

Sæta stelpan og púmpurnar!

31. október 2006

Þegar við vöknuðum daginn eftir á sjálfri Hrekkjavökunni var allt hvítt af snjó úti! Systkinin réðu sér ekki fyrir kæti og drifu sig út skömmu eftir morgunmatinn!

Snjórinn var samt óskaplega blautur og í ofan á lag rigndi á börnin smáu. Þegar þau komu inn nokkru seinna voru útigallarnir eins og þeim hefði verið dýft ofan í baðkar!

  

Síðar um daginn skellti María sér í nornabúning. Hún fékk lánaðan kjól hjá mömmu sinni sem einnig bauð upp á förðun með eigin snyrtidóti! Síðan var að sjálfsögðu sett upp hræðileg nornagretta. Huga leist hins vegar ekkert á þetta og hljóp á eftir systur sinni með blautt handklæði og vildi endilega þvo óskapnaðinn framan úr henni enda skíthræddur þrátt fyrir að hún reyndi nú að brosa blítt og Maríulega inn á milli!

Graskerjaköllunum okkar stilltum við upp á handriðið úti á palli þannig að þeir blöstu við inn um stofugluggana og settu dálítið draugalegan svip á umhverfið ...

... væri flassinu beint að þeim voru þeir hins vegar ekki vitund draugalegir lengur og litu bara út eins og tvö grasker að bryðja sprittkerti!

Um kvöldið var svo graskerssúpa búin til úr því sem til féll við graskerjaskurðinn. Súpan var alveg hreint ótrúlega góð ... með kókosmjólk og kóríander. Og í þessum skrifuðu orðum eru graskersfræ að ristast inni í ofni með sjávarsalti og þurrkuðu chilli-i og verða notuð sem snakk yfir tvöfalda Desperate Housewifes þættinum á eftir!