Nokkrar nóvembermyndir

Jæja krakkar mínir, nú er nóvember bara alveg að verða búinn! Er þá ekki alveg tilvalið að birta hér nokkrar myndir frá mánuðinum sem er að líða? Það held ég! Gjörið þið svo vel!

    

Snemma í nóvember var haldið hrekkjavökuball í bekknum hennar Maríu þar sem allir áttu að koma í grímubúningum að eigin vali. Allt þetta hrekkjavökustand er enn dálítið nýtt fyrir okkur og því verð ég að játa að ég var hreint ekki viss í hvernig búning væri við hæfi að senda sjö ára gamalt barn á ball! Ég gerði mér grein fyrir því að það hefði verið mest í takt við þemað að búa hana út sem norn en þar sem það var sérstaklega tekið fram á boðskortinu að maður mætti vera í hvernig búning sem væri þá gat ég bara ekki hugsað mér að láta Maríu mæta með gervibólur á nefinu, úfið hár og í svörtum kufli ef allar hinar stelpurnar myndu mæta í prinsessu- og ballerínubúningum! Millilendingin var því að gera hana að svörtum ketti, ágætlega í takt við hrekkjavökuþemað en engin katastrófa innan um prinsessur! Þegar ég loksins fór á stúfana til að setja búninginn saman voru öll tilbúin kisueyru búin og þar sem ég var að sjálfsögðu á síðustu stundu var ekki um annað að ræða en að kaupa hárspöng, svart og bleikt filt og sitja fram á nótt við að föndra! Afraksturinn var þó ekki slæmur enda stúlkan yndisleg í hverju sem er!

Kisurnar gerast nú ekki mikið sætari en þetta! Það er svo rétt að geta þess að það voru ekkert nema nornir á ballinu, sumar meira að segja með grænt hár eða blóðtauma úr munnvikunum þannig að fyrir utan eina Línu langsokk var María sennilega langprúðust!

Þegar ég var lítil fann Gitta (sem er konan hans pabba míns) upp á ótrúlega skemmtilegum leik. Við teiknuðum andlit á blöð og svo dró hún fram gamalt snyrtidót frá sér, klessulega glossa, þurra maskara og augnskugga í litum sem komnir voru úr tísku, og svo máluðum við andlitin með snyrtidótinu. Þið getið sjálfsagt ímyndað ykkur hvað það var mikill draumur fyrir mig, átta eða níu ára gamla, að fá að handleika svona pæjudót! Við Gitta gerðum þetta reyndar bara einu sinni en það lifir enn í minningu minni sem eitt það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í. Ég hef því alltaf heitið því að endurtaka leikinn með minni eigin dóttur. Og í nóvember kom loks að því! Ég tíndi til ljótustu augnskuggana (hvað var ég að pæla að kaupa mér bláan og grænan augnskugga?!!), tyggjólega glossa og restar af kinnalitum og síðan hófumst við handa!

Og afraksturinn má sjá hér! Ég gerði tvær, María þrjár og ein var unnin í samvinnu. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að líta út fyrir að þjást af rosacea sem er langvinnur húðsjúkdómur sem gerir fólk óeðlilega rjótt í andliti!

    

Eitt nóvemberkvöldið héldu María og Hugi sirkús í sjónarps-/gestaherberginu. Eitt af atriðunum var áhættureið á hestbaki. Hugi gætti þess að hneigja sig djúpt að hverju atriði loknu!

Í nóvember hefur spæta nokkur lagt leið sína í garðinn okkar reglulega. Best þykir henni að gogga í stóra eplatréð en auk þess getur hún vel hugsað sér að nasla á hnetum úr fuglahúsinu inn á milli. Okkur þykir hún ægilega fín ... eða hann, þetta er víst karlfugl!

Um daginn sat ég í eldhúsinu og var að lesa blaðið og drekka kaffi í rólegheitunum þegar ég heyrði dynk innan úr stofu. Hljóðið var óþægilega kunnugt enda hefur lítill blåmes áður flogið á gluggarúðu hjá mér af fullum krafti! Og það stóð heima, þegar ég kíkti út um stofugluggann sá ég þetta litla grey liggja á handriðinu. Fyrst hélt ég að hann væri dáinn og var farin að kjökra þegar ég sá að hann blikkaði augunum og hjartað barðist eins og það ætlaði út úr brjóstinu á honum. Ég hringdi því neyðarsamtal á Akademiska sjukhuset og fékk samband við Einar Þór, lækni á öldrunardeild! Læknirinn ráðlagði mér að láta fuglinn vera og leyfa honum að jafna sig. Og viti menn, nokkrum mínútum síðar gat hann staðið upp en var enn of vankaður til að fljúga af stað heldur sat bara þarna á handriðinu og horfði ringlaður í kringum sig.

Sjáiði hvað hann er ótrúlega flúffí og mjúkur ... og sætur! Mér þóttu fæturnir á honum í svo skrýtinni stöðu og hafði mestar áhyggjur af því að hann væri fótbrotinn.

Ekki leið þó á löngu þar til hann var farinn að stjákla um þarna á handriðinu og fæturnir litu eðlilega út og virtust í besta lagi. Mig langaði að hrópa af gleði en vildi ekki hræða litla skinnið þannig að ég lét nægja að hugsa hvetjandi hugsanir hinum meginn við rúðuna. Nokkrum augnablikum eftir að þessi mynd var tekin flaug hann af stað eins og ekkert hefði í skorist!

Um miðjan nóvember áttu öll börnin og starfsfólkið í Vängeskola að mæta í skólann íklædd í gervi einhverrar sögupersónu. Mér fannst ég hafa leyst hrekkjavökudæmið nokku vel af hendi en það tók heilmikið á og ég var bara ekki viss um að ég réði við fleiri grímubúninga! Þetta skipti var þó jafnvel enn erfiðara þar sem búniningurinn þurfti líka að samræmast hefðbundnum skóladegi og dvöl á frístundaheimilinu þannig að leikfimibolir og tjullpils voru ekki beint ákjósanleg! Við María reyndum ákaft að setja saman Línu langsokk-búning en sáum að lokum að hún yrði því miður alltaf líkari Rympu á ruslahaugnum en Línu! (Rympa er kannski ekki alveg nógu fræg hér í Svíþjóð til að það hefði gengið!) Í örvæntingarkasti seint kvöldið fyrir búningadaginn stóð ég því fyrir framan bókahilluna hennar Maríu í leit að vænlegum sögupersónum. Þegar ég rak augun í eintak af Syrpu datt mér í hug að ég gæti kannski klambrað saman Mínu músarbúning! Kannski ekki beint hefðbundin sögupersóna en slíkt varð að liggja milli hluta á ögurstundu! Afganginn af svarta og bleika filtinu átti ég enn og aukaspöng sem ég hafði ekki getað skilað þannig að aftur sat ég fram á rauða nótt að klippa, líma og sauma! Enn og aftur vorum við þó ánægð með afraksturinn!

Þær gerast nú ekki mikið sætari en þetta, Mínurnar! Mesta klemman var reyndar að barnið á engin svört föt! Sokkabuxurnar hafði ég jú keypt fyrir kisubúninignn en í staðinn fyrir svartan bol varð ég að klippa gamla sokkabuxur af mér sundur og saman og næla upp á henni! Neyðin kennir naktri konu að spinna og örvæntingarfullri skólamömmu að búa til grímubúninga! Haldið þið svo ekki að það hafi komið tilkynning heim með barninu um að síðasta skóladaginn fyrir jól eigi allir að vera í músabúning! Þar sem ég er ekki alveg viss um að Mína mús teljist til hefðbundins músabúnings og þar sem þau eiga öll að vera með skott sé ég því fram á enn eina föndurtörnina innan fárra vikna!

Það er aftur kominn snjór hjá okkur! Hér eru Hugi og María úti að leika sér með stór klakastykki sem frosið höfðu ofan í snjóþotunum þeirra. Þau eru enn nokkrum dögum síðar alveg agndofa yfir þessum töfraklaka sem datt óvænt út úr þotunum þegar þeim var hvolft!

Það kemur auðvitað ekki annað til greina í snjó en að renna í nokkrar kúlur!

Annars hugar Hugi.

Eftir að börnin komu inn úr snjónum fengum við okkur afgang af ótrúlega góðu buttermilk kökunni með greipglassúrnum sem ég bakaði kvöldið áður! Ótrúlega góð og gamaldsags kaka (with a twist) sem ég gef uppskrift að þeim sem vilja!

María krúsídúlla stóð fyrir síðdegiskaffi síðustu helgina í nóvember, útbjó ávaxtasalat alveg sjálf, lagði á borð og tók fram drykki! Og með mynd af þessari litlu húsmóður kveðjum við ykkur í bili!