María sjö ára

Þann 23. apríl árið 2000 fæddist merk stúlka sem 17. júní sama ár hlaut nafnið María Einarsdóttir. Enginn vissi þá hvað fyrir barninu ætti að liggja en foreldrar hennar efuðust þó aldrei um að það yrði eitthvað stórkostlegt enda var María strax á árdögum lífs síns hlaðin gáfum, fegurð og hvers kyns hæfileikum. Við skulum nú líta á nokkrar svipmyndir frá sjöunda afmælisdegi þessarar stórmerkilegu konu:

Boðað var til hefðbundins afmæliskakós í stofunni á Konsulentvägen að morgni afmælisdagsins. Afmælisbarnið var enn ögn syfjað en auðvitað spennt að sjá hvað dagurinn bæri í skauti sér.

Aðrir gestir við afmælisborðið ... mamman snjöll að koma sér bara tryggilega fyrir fyrir aftan linsuna!

Upp úr fyrsta pakkanum sem var frá mömmu, pabba og Huga kom þetta fína afmælispils.

Þetta árið sá afmælisbarnið sjálft um að lesa á öll kort og þetta fína með svönunum var frá Birnu frænku. Það átti einstaklega vel við þar sem systkinin hafa nú ekki ósjaldan farið niður að tjörn með henni að skoða svanina.

Og upp úr pakkanum frá Birnu frænku kom þessi skemmtilega bók um mannslíkamann sem mun án efa gagnast litlum spekingi.

Svo sótti pabbi stóru gjöfina!!!

Forláta hjól frá mömmu, pabba, Huga og ömmu!

Stóra stelpan mátar hjólið í forstofunni.

Eftir morgunverðinn fór Einar á heilsugæsluna og Hugi á leikskólann. Afmælisbarnið sjálft fór hins vegar á leiksýningu með bekknum sínum en fékk svo að vera í fríi frá skólanum eftir það. Það voru því þrjár kynslóðir í beinan kvenlegg sem héldu inn til miðbæjar Uppsala og létu greipar sópa í leikfangaversluninni BR! María var alveg hissa á hvað hún fékk margar afmælisgjafir en skýringuna var að finna í því að þarna voru meðal annars keyptar gjafir fyrir hönd fjarstaddra fjölskyldumeðlima. Daman gat því látið ýmsa drauma rætast í dótabúðinni og eignaðist loksins hafmeyjuna með hárið sem skiptir litum og dúkkuna sem má fara í bað! Að auki fékk hún ponyhest sem talar sænsku og biður um að vera mataður!

Skömmu síðar var annar draumur látinn rætast en Maríu langaði að fagna afmælisdeginum á hamborgarastaðnum MAX.

Sæl og glöð afmælisstelpa!

María og amma voru glaðar yfir því að geta fagnað þessum merku tímamótum saman.

Hugi var svo sóttur snemma á leikskólann í tilefni dagsins og við tók leikur á Konsulentvägen. Hér er hann með glæsilegt safn ýmissa leikfanga sem fundist hafa í garðinum, arfleifð frá fyrri eigendum hússins sem áttu tvo stráka. Huga finnst þetta flottasta dót í heimi (eins og kannski sést á myndinni!) og vill nú helst leika sér í garðinum fram á kvöld.

    

Auðvitað þurfti aðeins að prófa nýja hjólið úti á bílaplani. Maríu gekk vel að aðlagast stærri fáki og var strax farin að þeysast um á ljóshraða!

Nýja hjólið er vel útbúið með körfu, bögglabera og standara og Maríu finnst það mjög stórustelpulegt og flott! Mesta sportið er að sparka standaranum upp eða niður!

Meðan við vorum úti að hjóla kom pabbi heim úr vinnunni.

    

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á sjö árum!!!

Úpps, alveg að fara að detta!

    

Á leiðinni heim úr hjólaferðinni fór Hugi í fýlu. Ástæðan: Mamma hlýðir honum aldrei!!! Hann kaus því að príla einn upp tréhús og grenja þar í mótmælaskyni í smástund. Mömmunni óhlýðnu fannst hann aðallega bara ótrúlegt krútt en tók lítið mark á mótmælunum.

María valdi sér svo lasagna í kvöldmatinn. Við hin vorum líka ákaflega ánægð með það og þökkuðum fyrir að hún hefur ögn þroskaðri matarsmekk en litli bróðir sem valdi grjónagraut í sinn afmælismat!

Sætasta sjö ára stelpan sofnuð í mömmu og pabba rúmi þreytt en sæl eftir góðan afmælisdag!

Nostalgía:

María lítil

María þriggja ára

María fjögurra ára og fjögurra ára afmælisveislan

María fimm ára

María sex ára