María verður 6 ára

Þann 23. apríl 2006 varð María Einarsdóttir hvorki meira né minna en sex ára gömul! Foreldrarnir trúa því vart að heil sex ár séu liðin frá því þau gengu inn í algjörlega nýtt líf án þess svo mikið sem að líta til baka enda bliknaði allt í samanburði við litla ungann sem lá í fanginu á þeim og skoðaði heiminn.

María vaknaði eldsnemma að morgni afmælisdagsins síns og naut þess að drekka kakó með pabba og Huga. Móðirin var fjarri góðu gamni enda stödd í London. Hún lét sitt þó ekki eftir liggja við afmælisundirbúninginn og var búin að kaupa forláta afmæliskjól á stelpuna sína og þennan ótrúlega flotta skemmtigarð sem er fín viðbót við Zamiloo borgina sem afmælisbarnið stýrir með styrkri hendi dagsdaglega!

Daman í fína kjólnum! Mæðgurnar voru svo sameinaðar seint um kvöldið þegar sú stutta fékk að sækja mömmu sína á flugvöllinn um „miðja nótt“. Vakti það ævintýri mikinn fögnuð og ljóst er að það að hafa mömmu heima allan daginn hefði aldrei jafnast á við glæfraför eftir Keflavíkurveginum í kolniðamyrkri og bið í mannmargri Leifsstöð!!!

Hugi var alveg salírólegur og las bíóauglýsingarnar að morgni afmælisdags stóru systur.Hann virðist ekkert ætla að þreytast á því að skipuleggja hvaða kvikmyndir við fjölskyldan eigum að fara á og velur yfirleitt þær sem líta helst út fyrir að vera ógnvekjandi og hræðilegar!

María er nýtin stúlka og hér sést hún í miðjum klíðum við að föndra úr afmæliskortinu frá mömmu!!!

Nokkuð dróst hins vegar að halda veislu til heiðurs afmælisbarninu og tókst það ekki fyrr en þann 7. maí. Veislan var með hefðbundnu sniði og vakti kakan sem Jódís frænka bakaði (með dyggri aðstoð frá ömmu á Bakkastöðum og Hrappi frænda) jafnmikla aðdáun og vanalega. Að þessu sinni hafði María valið sér stelpu á hjólabretti en samkvæmt hennar hugmyndum er það nánast orðabókarskilgreining á pæju!!!

   

Kveikt á kertunum ... afmælissöngurinn sunginn ... og blása!!!

 

Að þessu sinni voru nánast eingöngu stelpur í veislunni, hér eru Harpa Kristín og Kristín Klara.

Afmælisprinsessan ... eða ætti ég kannski að segja afmælispæjan!

 

Hér eru Jóhanna og Ester að gæða sér á veitingum.

 

Bríet og Hekla voru sætar og prúðar.

Hugi hélt uppi heiðri karlkynsins við borðið en Hrappur frændi var þó mættur til veislunnar líka en gaf sér ekki tíma til að setjast að snæðingi þar sem hann var upptekinn við að leika með sjóræningjaskipið!

 

Högna Sól og Snædís sætar og fínar.

Einhvern veginn virðist myndavélin alveg hafa gleymst í öllum atganginum sem svona afmælum fylgir ... það var ekki fyrr en Hugi mætti skyndilega fram í stofu í þessari glæsilegu múnderingu undir lok veislunnar að við vorum áþreifanlega minnt á hve illa við höfðum nýtt Kodak mómentin. Létum þó þetta tækifæri til að mynda sjálfan Kobba Kló ekki fram hjá okkur fara!

María þakkar afmælisgestunum fyrir frábæran dag og öllum þeim sem glöddu hana í tilefni sex ára afmælisins með kveðjum og símtölum fyrir sýndan hlýhug!!!

María lítil

María þriggja ára

María fjögurra ára og fjögurra ára afmælisveisla

María fimm ára