Júlídagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

27. júlí 2007

Þrjúhundruðsextíuogfimm

Í gær var nákvæmlega ár liðið frá því við fluttum hingað til Uppsala. Þegar ég vaknaði í morgun í notalega Hätensrúminu mínu, fór niður í fallega eldhúsið, drakk morgunkaffi, las Dagens Nyheter og leysti eins og tvær sudoku gátur meðan börnin horfðu á Hej, hej sommar í sjónvarpinu var mér hugsað til morgunsins fyrir nákvæmlega ári, morgunsins sem ég vaknaði á Konsulentvägen í fyrsta sinn, reis stirð upp úr lánsbeddanum til að borða morgunmat standandi við eldhúsbekkinn áður en haldið var niður í bæ til að reyna að skrá fjölskylduna inn í landið og sækja um kennitölur. Einn af venjulegustu dögum lífs míns andspænis einum af þeim óvenjulegustu!

Þennan dag fyrir ári síðan þegar við sátum á ókunnugu kaffihúsi í þessari ókunnugu borg man ég að ég horfði út um gluggann á krákuhóp. Krákurnar spígsporuðu drjúgar með sig eftir litla strætinu, flögruðu um, tylltu sér á hnakka hjólanna sem lagt hafði verið meðfram húsveggnum andspænis okkur og voru svo öruggar með sig að það hefði ekki komið mér neitt á óvart þótt þær hefðu bara lagt vængina á stýrið og þeyst af stað si svona. Og ég man að ég öfundaði þær pínu af þessu sjálfstrausti, af því hversu vel þær þekktu þetta umhverfi og kunnu á það. Og um leið hugsaði ég með mér að maður hlyti nú að vera ansi hætt kominn þegar maður væri farinn að öfunda krákur!

Á þessu ári sem liðið er frá því ég fylgdist með krákunum hef ég þó sjálf öðlast öryggi og sjálfstraust á ýmsum sviðum, lært eitthvað nýtt á hverjum degi um þetta nýja heimaland mitt, þjóðina sem hana byggir, tungumálið hennar, nýju borgina mína, kerfið sem heldur þessu öllu saman og síðast en ekki síst sjálfa mig og fjölskylduna mína.

Ég veit að ég get lært að rata í nýrri borg ... og ekki bara það heldur keyrt bíl um hana þvera og endilanga.

Ég veit að ég get boðið 20 sænskum leikskólakrökkum í barnaafmæli heim til mín, spjallað við foreldra þeirra og jafnvel hringt í föður fjögurra ára stúlku til að segja honum að dóttirin sé í öngum sínum yfir týndum svörtum vettlingum.

Ég veit að ég get ein og óstudd komið biluðum bíl frá Arlanda flugvelli á verkstæði í Märsta og útskýrt slitna viftureim fyrir bifvélavirkjum á sænsku.

Og síðast en ekki síst veit ég að maður hefur ekki eins gott af neinu eins og að stofna sjálfum sér í hættu af og til!

Til upprifjunar eru hér eru nokkrar myndir frá fyrstu fimm dögunum okkar í Svíþjóð (hjálpi mér hvað börnin hafa stækkað!) og að neðan eru glænýjar myndir frá dögum númr sirka 359 til 363!

Aftur í Uppsölum

Góða helgi!

 

17. júlí 2007

Allt í kringum litla húsið á Konsulentvägen æða þung og grá óveðursský. Í fjarska heyrist í þrumu eins og ógnarstór risi hlaupi rymjandi í áttina til okkar. Svo er eins og himnarnir opnist og regnið steypist niður, bylur á litla þakinu, eplatrénu og rifsberjarunnanum. Mér finnst það fallegt. En ég er líka dálítið melankólísk í dag.

Kannski af því að nú er ég komin heim frá Íslandi og veit ekki hvenær ég hitti fólkið mitt næst?

Kannski af því að ég er syfjuð þar sem sólarhringur fjölskyldumeðlima hefur algjörlega snúist við og ég er að reyna að rétta okkur af ... og bara búin að drekka einn kaffibolla í dag - lítinn!

Eða kannski bara af því að ég er svo nálægt Finnlandi!

En svo allt í einu eins og hendi sé veifað styttir upp, gráu skýjabólstrarnir þeysast lengst austur yfir Konsulentvägen og sólin skín í gegnum heiðblá göt á himninum. Börnin eru rokin út og inn um svefnherbergisgluggann berst sönglið frá þeim og ískrið í rólunum. Mér finnst það líka fallegt.

Hvað um það, hér eru tvö albúm í viðbót með Íslandsmyndum:

         

                             Sjö ára afmælisveisla Maríu                     Svipmyndir úr sumarfríi á Íslandi

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar