Aftur í Uppsölum

Eins og glöggir lesendur síðunnar hafa væntanlega áttað sig á erum við komin aftur til Uppsala eftir góðar vikur á íslenskri grundu. Hin borgin okkar tók vel á móti okkur og skartaði sínu fegursta í sól og blíðu þegar flestar myndanna í þessu glænýja Uppsalaalbúmi voru teknar.

    

Systkinin Hugi og María voru kát með að vera komin aftur heim þótt vissulega sakni þau mjög ættingja og vina á Íslandi. Það er þó heilmikil bót í máli að geta buslað svolítið í sólinni og ég er ekki frá því að þess konar athafnir slái nokkuð á hvers kyns söknuð! Hér eru þau einmitt að undirbúa eitt gott busl.

Fyrir framan húsið okkar eru stórir og miklir rósarunnar sem voru rétt að byrja að springa út þegar við fórum til Íslands. Við vorum dálítið spæld að missa af hápunktinum en það var þó bót í máli að við náðum síðustu rósunum við heimkomuna.

Þetta er alveg ótrúlegt magn af rósum og vonandi fáum við að upplifa allt ferlið næsta sumar!

    

María búin að skipta yfir í sundfötin og kannar vatnið ... sem að vanda er íííískalt!

Svona er útsýnið þegar maður drekkur kaffi og les í góðri bók á útidyratröppunum!

    

María mús og Hugi hákarl! Þessi flottu hákarlasundgleraugu fylgdu með Tomma og Jenna blaði sem við festum kaup á úti í Maxi um daginn og er strákurinn að vonum afar ánægður með þau. Á myndinni telur hann sig vera að brosa!

Þau eru nokkuð vel útbúinn, finnst ykkur ekki, svona miðað við vatnsmagnið?! Þessi staða sem Hugi er í er það allra nýjasta þegar hann sér myndavélina í lofti ... okkur Maríu þykir hann nú heldur svona stífur!

María prófar að vera álíka stíf og hátíðleg og Hugi á síðustu mynd!

En auðvitað eru þau hvorki stíf né hátíðleg svona í eðli sínu ... bara kátir og yndislegir krakkar sem þykir gaman að sulla í sólinni!!!

Einar þurfti því miður að fara strax aftur að vinna eftir að við komum frá Íslandi en við María og Hugi erum enn í fríi (ég er það svo sem alltaf en það er önnur saga!). Einn daginn tókum við strætó niður í bæ til að hitta Einar að vinnudegi loknum, fórum á kaffihús, ég skoðaði hvað hafði bæst nýtt við í vöruúrvali búðanna meðan ég var í burtu og að lokum settumst við niður við ánna til að njóta þessa fallega síðdegis.

Þar sem áin rennur í gegnum miðbæinn hefur eins konar bryggja verið sett upp meðfram henni og þar liggur fólk í sólbaði á góðviðrisdögum, borðar nesti og spjallar. Huga fannst spennandi að halla sér fram af bryggjunni og kíkja á litlu fiskana sem syntu fyrir neðan vongóðir um að við myndum kasta til þeirra brauði eins og fólkið sem sat næst okkur!

Fjölskyldan mín fallega umvafin helstu kennileitum Uppsala, Fyrisån, Järnbron og Uppsala domkyrka!

Gamla fólkið.

Það var hlýtt og notalegt við ánna og við drifum okkur úr skóm og peysum.

Fallegasta María!

Hver að sýsla í sínu á bökkum Fyrisån.

Ég uppgötvaði nýlega að það er mikil snilld að nota skýjamyndir sem bakgrunna á msn-inu. Þær eru frísklegar og sumarlegar en samt er þægilegt að lesa textann ofan á þeim. Ég tók því nokkrar í þeim tilgangi. Það var ekki fyrr en ég fór að skoða þær í tölvunni að ég sá að flestar þeirra sem ég taldi að væru skemmtilegar myndir af háum skýjum og lágum í bland voru í raun myndir af snigli ... nánar tiltekið snigli af þeirri gerð sem Svíar kalla hinu dramatíska nafni „mördarsneglar“! Sjáið þið hann líka skríða þarna inn á myndina með augun á stilkum og hvassar tennur í fýlulegum munninum?!

Kátir Konsulentar!

Hér sáið þið sólina skína á hús og tré í Uppsölum ...

... og hér sjáið þið nákvæmlega sömu sýn speglast í ánni fyrir neðan!

Uppsalir eru nú falleg borg, það verður að segjast! Þegar við snerum aftur í bílinn kom í ljós að við höfðum fengið okkar fyrstu stöðumælasekt í Svíþjóð og hljóðaði hún upp á 350 sænskar krónur ... aðeins bara!!! Ég er þó ekki frá því að þessi fjölskyldustund við ánna hafi algjörlega verið 3500 króna virði ... að minnsta kosti!

Finnst ykkur húsið mitt ekki fínt í sumarbúningi?! Finnst ykkur ekki líka fínt að sjá Einar koma út um dyrnar með volgar, nýbakaðar langlokur sem hann er akkúrat að fara að bera á borð í lundinum?!

Vanalega þegar ég tek svona „finnst-ykkur-húsið-mitt-ekki-sætt-myndir“ tek ég þær úr fjarsta horni garðsins. Svona lítur húsið mitt hins vegar út frá götunni séð. Alveg jafnsætt finnst ykkur ekki?!

Veðrið var dásamlegt þennan dag ... varla ský á himni.

Húsmóðirin á Konsulentvägen var glöð í bragði í sólinni og langði að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni.

Úr varð að ákveðið var að fara í skógarferð. Fyrir þó nokkru síðan fréttum við af því að hér í nágrenni Vänge væri að finna friðað svæði í náttúrunni þar sem skógur hefði ekki verið hogginn áratugum, já, gott ef ekki öldum, saman. Í miðju svæðinu átti að vera að finna lítið stöðuvatni og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að eiga notalegan göngutúr í skóginum og geta svo endað á því að setjast niður við vatnið og krakkarnir gætu jafnvel baðað að sænskum sið. Við skelltum okkur því af stað í Fiby urskog!

Ég virðist hins vegar seint ætla að læra að skógarferðir eru alls ekki fyrir mig! Fyrir það fyrsta þykir mér ömurlegt að þvælast um á ókunnugum slóðum, vita ekkert hversu langt er eftir og vera stöðugt að velta því fyrir mér hvort það sé kannski bara best að snúa við áður en það er um seinan. Í öðru lagi gleymi ég því ítrekað að það er fátt kósí við skógarbotna, allra síst í svona úrskógum! Trjárætur, könglar, skuggi og síðast en ekki síst mýgrútur af skordýrum. Í Fiby urskog var sérstaklega mikið um svo kallaðar bromsur, ógeðslegar gráar flugur sem bíta fólk sér til skemmtunar. Bromsurnar virtust einstaklega hrifnar af mér og undir það síðasta var ég alveg komin með kökk í hálsinn af sjálfsvorkunn! Ég var reyndar ekki ein um að vorkenna mér og sjá eftir að hafa lagt af stað í skóginn, við vorum eiginlega öll fjögur sammála um að ef til vill væri best að snúa við ... þótt María reyni að setja upp bros fyrir ljósmyndarann!

Við píndum okkur hins vegar til að ganga áfram og notalegar letistundir í sólinni við vatnið góða héldu okkur gangandi síðasta spölinn. Og mikil var gleði okkar þegar við sáum grilla í vatnið milli trjánna. Þegar við komum nær sáum við þó að okkur var vandi á höndum. Milli okkar og vatnsins var mýrlendi og þegar því sleppti mannhæðarhátt sef sem óx alla leið út í vatnið. Það voru sumsé ekki neinar letilegar stundir í sólbaði við vatnið í boði ... ekki nema við kærðum okkur um að liggja í þarna á botni sefsins með bara hausinn upp úr vatninu! Þar sem okkur þótti þess konar útivist ekki mjög aðlaðandi var ekki um annað að ræða en að snúa við og börðumst við því við grenitré og bromsur í góðar 40 mínútur í viðbót áður en við komumst aftur í bílinn. Dæs!

Það verður samt að viðurkennast, svona eftir á, að það var um margt mjög fallegt í úrskóginum. Þarna erum við til dæmis að ganga eftir hinum svo kallaða geitarhrygg, skemmtilegum klettahrygg sem liggur í sveigjum þar sem skógurinn stendur sem hæst. Ég gæti því alveg hugsað mér að fara þangað aftur en þá búin fyrir útivist en ekki strandferð ... og vitanlega án allra væntinga um letistundir við skógarvatn!

Daginn eftir ævintýrið í úrskóginum héldum við hins vegar í heimsókn til Erlu Kristínar, Berglindar og fjölskyldna sem leigt höfðu sér sumarhús í Tyresö, sumarparadís sem er aðeins í 40 mínútna akstursfjarlægð frá miðborg Stokkhólms. Húsið þeirra stóð í brattri hæð og þaðan var dásamlegt útsýni yfir skerjagarðinn.

Mæðginin Erla Kristín og Árni Pétur fengu sér síðdegiskaffi í sólinni.

Einar þambaði kaffi og dáðist í sífellu að útsýni og umhverfi.

Birgir Tjörvi sat við borðsendann milli þess sem hann lagaði kaffi ofan í þyrsta gestina.

Erla Kristín milli vinkvennanna Maríu og Kristínar Klöru en þær eru fæddar með um það bil tveggja mánaða millibili árið 2000.

Þetta er auðvitað alveg glötuð mynd og fær bara að fljóta með af því að hún sýnir svo vel óviðjafnanlegt útsýnið úr húsinu! Ekki amalegt að vera með svona fyrir utan gluggann!

Hér er aðeins betri mynd af stofunni sem var ákaflega hugguleg, eins og reyndar allt húsið ... tjah, að „the environmental toilet“ undanskildu!!!

Einar á pallinum. Í víkinni sigldu bátar og á nærliggjandi nesum og hólmum var allt fullt af krúttlegum sumarhúsum.

Eftir notalegan málsverð í sólinni á pallinum ákváðum við að skella okkur að skoða Tyresö Slott.

    

Við höllina tók svartur köttur á móti okkur og krakkarnir stóðust ekki mátið að klappa honum dálitla stund.

    

Hugi er mikill kisustrákur og var enn að klappa þótt hin börnin væru löngu farin á vit ævintýranna í höllinni. Kisi naut blíðuhótanna út í ystu æsar og tók að velta sér nautnalega í mölinni. Huga stóð ekki alveg á sama um þessa undarlegu tilburði kattarins!

Höllin sjálf var því miður lokuð og við gátum því ekki skoðað innviði hennar ... en það var svo sem alveg í góðu lagi þar sem umhverfið og byggingarnar voru svo fallegar.

Toscana eða Tyresö?!

Í þykjó eru leynigöng úr hallarsvítunni sem liggja að þessum dyrum ... svona ef einhver þyrfti að flýja í húmi nætur!

    

Berglind virðir höllina fyrir sér úr garðinum fyrir neðan.

Vinkonur og frænkur.

    

Meðfram stígnum undir höllinni voru þessi fallegu blóm ... sem fleiri dáðust augljóslega að en ég!

Litli malarstígurinn lá að brú sem lá aftur út í lítinn hólma.

Feðgarnir á brúnni.

Einar, Berglind og Hugi kíkja eftir fiskum.

Það var lakkrísilmur af hvönninni og Jón Tómas vildi ólmur smakka.

Feðgarnir undir sænskum fána ... Hugi flottur!

Krakkarnir léku sér á sólbökuðum klettunum. Þarna úti í hólmanum var lítið kaffihús sem var því miður um það bil að loka þegar okkur bar að garði en við fjölskyldan á Konsulentvägen munum áreiðanlega gera okkur ferð aftur að Tyresö Slott og heimsækjum þá án efa kaffihúsið góða. Á þessum litla hólma var líka baðaðstaða þannig að hver veit nema sundfötin verði með í för næst!

Hugi í nýju myndastellingunni með kaffihúsið í baksýn!

Jón Tómas prílaði upp í tré en komst ekki niður aftur fyrr en Kiddi pabbi kom til bjargar!

Sæta fjölskyldan frá Lúxemborg!

    

Huga finnst Jón Tómas svona frekar flottur og varð auðvitað að klifra upp í sama tré líka. Hann þurfti þó á aðstoð síns pabba að halda bæði við að komast upp og niður!!!

Fallegar blómastúlkur á engi við Tyresö Slott. Eftir þessa frábæru hallarferð borðuðum við saman á litlum veitingastað í nágrenninu og drukkum svo kvöldkaffi í fallega sumarhúsinu áður en við Konsulentarnir þurftum að halda heim á leið. Takk fyrir frábæran dag elsku Erla, Birgir, Berglind, Kiddi, Jón Tómas, Kristín Klara og Árni Pétur!!!

Eftir þessa dásamlegu helgi fór að rigna. Systkinin þurftu því að vera pollagallaklædd þegar þau fóru með pabba sínum út í matjurtabeð að taka upp kartöflur. Ég tek það þó fram að það var engin þörf á lambúshettunni sem Hugi er með enda í kringum 20° hiti úti! Honum fannst bara einhvern veginn tilheyra að setja hana upp með pollagallanum!

Hugi byrjaði á að tína kartöflurnar upp í litla skóflu og notaði svo skófluna til að sturta þeim í þar til gerða fötu! Algjör óþarfi að hafa ferlið einfalt þegar maður getur gert það flókið!

    

Börnin voru ægilega stolt af uppskerunni! María hafði mestan áhuga á smælkinu en Hugi vildi að sjálfsögðu sem stærstar og flestar kartöflur!

Spædermann regnhlífin kemur í góðar þarfir þegar taka á upp kartöflur!

María gaf sér tíma til að líta upp úr grænmetisbeðinu og kveðja lesendur síðunnar í bili!