Svipmyndir úr sumarfríi á Íslandi

Frá 17. júní til 14. júlí vorum við í sumarfríi á Íslandinu góða. Við vorum einstaklega heppin með veður, það byrjaði að rigna hér í Svíþjóð sama dag og við fórum og rigndi meira og minna allan þennan mánuð sem við vorum í burtu. Að sama skapi komum við til Íslands rétt um það leyti sem hitinn steig upp í tveggja stafa tölu og meðan á dvöl okkar stóð kom varla dropi úr lofti, sólin skein og hitamet voru slegin ... en það vitið þið náttúrulega öll!

Eitt af því fyrsta sem við gerðum í Íslandsheimsókninni var að smygla okkur inn á sumarhátíð á Drafnarborg. Krökkunum (og mér!) þótti ótrúlega gaman að hitta börn og fóstrur aftur og við áttum frábæran dag í vesturbænum. Hugi var glaður að hitta Ágúst vin sinn og eins og sjá má var Ágúst glaður að hitta hann.

María var ekki síður glöð að hitta sína vini. Hér er hún að hlaupa í skarðið ásamt öðrum börnum, foreldrum og leikskólakennurum.

Eva og Freyja voru auðvitað á svæðinu líka enda var Freyja arftaki systkinanna á þessum góða leikskóla!

María með Jóhönnu og Sóldísi vinkonum sínum. Mikið voru þær glaðar að hittast aftur eftir langan aðskilnað!

Eftir sumarhátíðina röltum við í heimsókn til ömmu á Sóló. Á leiðinni komum við þó við á ýmsum fornum slóðum svo sem rólóinum á Landakotstúni. Það er skemmtilegt að segja frá því að þetta var eini dagurinn sem börnin fóru í regnjakkana og stígvélin. Það reyndist að vísu engin þörf á þar sem það hafði bara dropað smá fyrr um daginn en hélst alveg þurrt meðan við vorum á þessu randi okkar. Hvorki pollagallar né vatnsheldur fótabúnaður voru dregnir fram það sem eftir var ferðar! Magnað!

Systkinin sætu við Reykjavíkurtjörn á rölti eftir dansleik ... djók!

Um það bil viku eftir komuna til landsins var okkur boðið í brúðkaup, það fyrra af tveimur sem við sóttum í þessari ferð. Hérna sjást Sylvía og Kjartan ganga í það heilaga í Kristskirkju þann 23. júní 2007.

Yndisleg stund sem við vorum ótrúlega þakklát fyrir að fá að taka þátt í með brúðhjónunum hjartahlýju.

Frú Sylvía og Herra Kjartan ganga út úr kirkju í hrísgrjónaregni.

Yndislegt!!!

Enn einn sólskinsdagurinn upp runninn! Amman, sem stóð fyrir pönnukökukaffi úti á palli, sést hér knúsa ömmukríli númer eitt og tvö.

Skömmu síðar skiptu systkinin yfir í sumarklæðnað enda allt of heitt til að vera í langerma eða síðum gallabuxum! Ég hafði tekið mjög meðvitaða ákvörðun um að pakka sem minnstu niður af sumarfatnaði fyrir ferðina en var þeim mun betur búin af þykkum peysum og skjólflíkum! Ég var eitthvað svo innstillt inn á þá línu að ég var oft búin að troða börnunum í þykk föt áður en ég fattaði að það væri allt of hlýtt í veðri fyrir slíkan útbúnað!

         

Útsýnið frá Bakkastöðum er stórfenglegt og síst versnar það nú þegar maður hefur verið fjarri heimalandinu í heilt ár! Útsýnið yfir Maríu og Huga er líka alltaf jafndásamlegt!

Hugi óskaði sérstaklega eftir að mynd yrði tekin af þessari uppstillingu hans!

Svo þurfti líka að ná mynd af því þegar bunan sprautaðist úr vatnsbyssunni ... sú ósk var líka uppfyllt!

Mæðgur og sóleyjar.

Hugsanlega er þessi mynd af fjalldalafífli uppáhaldsmyndin mín úr ferðinni!

Þessi uppstilling fer að verða jafnklassísk og til dæmis ávextir í skál!!!

Einn daginn skruppum við niður á Austurvöll með Inga Birni. Hugi var að sjálfsögðu á staðinum ...

... og María líka en Einar var fastur í vinnunni á heilsugæslustöðinni á Selfossi.

Ingi sýnir mér eitthvað merkilegt í Lesbók vikunnar.

Hugi vildi endilega klára mynd sem hann hafði byrjað að lita á kaffihúsi fyrr um daginn. Þrátt fyrir að aðstæður á Austurvelli væru fremur slæmar til litunar lauk hann við þessa frábæru mynd af afmæliskökum, blöðrum, pökkum og „drekafánum“.

Um kvöldið var ég boðin í Hafnarfjörðin til hennar Siggu Ástu þar sem við Eva fengum að vera heiðursgestir á fundi skemmtinefndar Mótettukórsins. Í hinni dásamlegu borðstofu sitja frá vinstri: húsmóðirin Sigga Ásta, Kristín, Hrefna, Egill, Eva og Sverrir.

Sverrir segir stelpunum frá eiginkonunum tveimur og börnunum þremur ... já og árunum 97!

Á Bakkastöðum í miðnætursól í byrjun júlí. Í fjarska skip.

Ótrúlega fallegt.

Þetta var svo dásamlegt kvöld, Einar var í vinnu á Selfossi, mamma í Slóveníu og börnin sofnuð þannig að ég var bara ein úti á palli í kvöldkyrrðinni að taka myndir.

Í byrjun júlí var okkur boðið í mat til Svanhildar, Sigurðar og Ástþórs Arnar í Hlíðarhjallann. Krakkarnir fengu pizzur og voru að vonum alsæl. Fyrst tók Hugi hláturskast ...

... svo tók Ástþór við! María kærði sig hins vegar kollótta um lætin í strákunum!

Við vinkonurnar dálítið úr fókus en það gerir ekkert til, dregur bara úr hrukkum og öðrum ófögnuði ef eitthvað er!

Humarinn kominn á borðið fyrir fullorðnu deildina ... nammmm!!!

Tveir flottir að horfa á spólu! Hugi var nýbúinn að fá þennan læknabúning og hlakkaði þessi ósköp til að sýna Ástþóri vini sínum hann og hafði því fataskipti eftir matinn. Ástþóri ákvað hins vegar að fækka fötum!

Við Konsulentarnir vorum ekki einu Íslendingarnir í sumarfríi á heimaslóðum! Þorgeir, Villa og synirnir þrír komu alla leið frá Þýskalandi í heimsókn á Bakkastaði og með þeim fórum við í fjöruferð.

Læknabúningurinn er til margs gagnlegur, Huga þykir hann til dæmis einkar góður í fjöruferðir!

Gunnar, yngsti Þorgeirssonur, kastar steinum í sjóinn.

María og Einar Njáll eru jafnaldrar, voru meira að segja saman í ungbarnasundi fyrir um það bil sjö árum! Þau náðu strax vel saman þótt langt sé síðan þau hittust síðast.

Til gamans er hér ein tæplega sjö ára gömul mynd af þessum góðu vinum!

En úr Skálatúnslauginni og aftur í fjöruna (sem raunar er bara steinsnar frá lauginni!). Úff, ekki er ráðlegt að senda þennan lækni inn á skurðstofu!

Friðrik, Einar Njáll, María og Hugi að grafa.

Hugi fann forláta fjöður og smellti henni í vasann við hliðina á skærunum og eyrnaskoðunartækinu! Hún gæti til dæmis komið sér vel við taugaskoðun!

Í fjörunni I.

Í fjörunni II.

Bleikt og blátt í fjörunni.

Krabbi og skel.

Þann 07.07.07 var okkur boðið í brúðkaup ... nema hvað! Í þetta sinn voru það Kristján bróðir Einars og Fanný sem giftu sig í Vestmannaeyjum sem er heimabær brúðarinnar. Við Einar flugum þangað snemma að morgni brúðkaupsdagsins og eyjarnar skörtuðu sínu fegursta í sumarblíðunni. Þar sem enn var dágóð stund í að athöfnin hæfist notuðum við tækifærið og röltum aðeins um eyna ... í kjól, háum hælum og jakkafötum sem eru, eins og allir vita, afar ákjósanlegur búnaður í útvist!

Brúðkaupið fór fram í Stafkirkjunni sem sést hér neðst til hægri.

Hitaveitutankur sem hraunstraumurinn hefur eyðilagt. Magnað!

Það er bara ótrúlega fallegt í Eyjum!

Ljósmynd á la Einar!

Við hjónaleysin í Vestmannaeyjum en þar eru æskustöðvar pabba míns, Einar afi var læknir í Eyjum áratugum saman.

Og svo byrjaði athöfnin sjálf, allt gekk vel og á tilsettum tíma skilaði hringapúðinn sér upp að altari. En úbbs, hvar voru hringarnir tveir sem Fanný átti að bera?!

Allir fóru að leita og kirkjunni var bókstaflega snúið við næstu mínúturnar. Annar hringurinn fannst skömmu síðar en hinn skilaði sér ekki.

Að lokum varð að halda athöfninni áfram þrátt fyrir að enn vantaði hringinn og Fanný og Kristján voru gefin saman sæl og glöð.

Rétt áður en athöfninni lauk fann presturinn hinn hringinn sem var í snarheitum dreginn á fingur brúðarinnar og allt féll endanlega í ljúfa löð. Ég minni á að fall er fararheill!

Frú Fanný og Herra Kristján að athöfn lokinni.

Milli hjónavígslu og veislu röltum við Einar meira um í Vestmannaeyjum og sitjum hér á bekk í miðbænum.

Við unnum Önnu Björgu og Fannar í keppninni um stærsta pakkann!!! Eftir velheppnaða veislu flugum við svo aftur til Reykjavíkur, ánægð með góðan dag í Eyjum.

Nokkrum dögum síðar vorum við komin í sumarbústaðinn til ömmu á Sóló. Túnfisksalat, brauð úr Bernhöfts, snúðar og Hi-C ... ekta ömmustemmning!

Hugi með hring á hverjum fingri!

Sírenan við bústaðinn var í blóma og ótrúlega falleg.

María tíndi fífuvönd í sólinni.

Um kvöldið kíkti Einar í heimsókn til okkar frá Selfossi. Það var notalegt að sitja á pallinum í kvöldsólinni og blankalogni enda minnst af mýi þar.

Þegar hér var komið sögu var farið að líða að lokum Íslandsferðarinnar og við komin austur fyrir fjall eina ferðina enn. Nú í fylgd með Inga Birni að heimsækja hestana í Glóru. Í fyrstu vildu þeir ekkert við okkur tala og hlupu bara í burtu þegar við nálguðumst.

Tvær merar voru komnar með folöld og voru þær að vonum nokkuð styggar. Hér er Sól á harðaspretti undan okkur með sitt brúna litla í eftirdragi!

Hin nýbakaða mamman stóð í öruggri fjarlægð uppi á næsta hól ásamt sínu afkvæmi.

Smátt og smátt áttuðu hryssurnar sig þó á því að við kæmum í friði ... og værum meira að segja með brauð í poka!

María og Hugi að klappa Össu.

         

Assa var meira að segja svo góð að hleypa systkinunum á bak. Sjáið þið stoltið í svip Huga ... honum fannst þetta algjört æði, jafnvel þótt þetta væri bara fylfull meri sem stæði kyrr úti í haga!!!

Mæðgin.

Systur að klóra hvor annarri.

Seinna fórum við í hesthúsið og sóttum hann Leikni sem er alvöru reiðhestur. María lagði í að fara smá ferð jafnvel þótt Leiknir hefði rétt áður stigið á tærnar á henni.

Sjáið þið mína stelpu hvað hún er stolt og dugleg!

Hugi vildi hins vegar ekki þiggja reiðtúr með Leikni, skildi eiginlega ekkert í hvers vegna við vorum að bjóða honum það og kvaðst nýbúinn að vera á hestbaki (þið munið, fylfulla merin í haganum!). Hann vildi hins vegar gjarnan fá að leika hestasvein og halda í beislið.

Þetta var traustatak!!!

Tveir niðursokknir ungir menn.

Ein í viðbót af þessum sætu strákum!

María kannar meiðslin ... sem þóttu smávægileg!

Ingi fékk sér örlítinn reiðtúr sjálfur ...

... og börnin horfðu aðdáunarfull á eftir honum á harðaspretti út heimreiðina.

Síðasta kvöldið okkar á Íslandi (í bili!) bauð amma á Bakkastöðum Ella og Ásu í mat og svo fengum við Ingu í kaupbæti!

Eftir matinn sátum við úti á palli í kvöldsólinni, sötruðum rauðvín og spjölluðum.

Elli gekk í barndóm ...

... og María og Hugi nýttu síðustu klukkustundirnar á Íslandi til að leika sér úti á róló með Ingu. Innan við hálfum sólarhring síðar vorum við mætt út á Keflavíkurflugvöll. tilbúin að kveðja fósturjörðina eftir dásamlegan mánuð uppfullan af björtum sumarnóttum, sólskini, lóusöng, blóðbergsilmi og síðast en ekki síst góðum vinum og fjölskyldu!

Takk fyrir samveruna þið öll! Við hlökkum til að koma aftur til Íslands og hitta ykkur en þangað til munið þið náttúrulega að þið eruð alltaf velkomin á Konsulentvägen!