Júlídagbók 2006  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. júlí 2006

Eftir um það bil fimm klukkustundir leggjum við fjölskyldan af stað til Svíþjóðar. Á sama tíma á morgun verðum við væntanlega steinsofandi á hermannabeddum í galtómu en óskaplega sætu húsi! Ég veit ekki hvenær ég get uppfært síðuna næst þannig að ég kveð ykkur í bili með nokkrum júnímyndum og nokkrum júlímyndum.

Hlakka til að skrifa frá Svíþjóð!

 

21. júlí 2006

Til Mótettukórsins míns

Allt sem ég vildi hafa sagt í London en tókst ekki:

Fyrir rétt tæplega sjö árum síðan mætti ég í inntökupróf í Mótettukórinn. Ég var ekki búin að undirbúa neitt lag og söng, ef mig misminnir ekki, Ó Jesú bróðir besti! Ef ég hefði vitað hvað biði mín hefði ég sjálfsagt undirbúið mig betur. Ef ég hefði vitað af öllum góðu vinunum sem ég myndi eignast þar, af haustfögnuðum í félagsheimilinu í Faxaskjóli, af  Rachmaninov, Matteusarpassíunni, Fauré Requiem, Frank Martin messunni, Jólaóratoríunni og  Jóhannesarpassíunni, af klæðskiptingum í Kanada, karókíbar í París og vögguvísum á hótelbar í London, af Flotta hóp og af öllum hlátrinum, hamingjunni og hlýjunni ... já, ef ég hefði vitað af þessu öllu hefði ég án nokkurs vafa lagst í gólfið í norðursalnum, gripið grátandi um ökklana á Herði og Brynhildi og neitað að sleppa fyrr en þau hefðu tekið mig inn í kórinn! Fyrir einhverja guðlega forsjón og þrátt fyrir Jesú bróðurinn þurfti slíkt ekki til og Mótettukórinn hefur átt mig síðan árið 1999!

Á þessum sjö árum hafa margir dásamlegir félagar kvatt kórinn og stundum finnst manni að hann muni ekki lifa blóðtökuna af. En einhvern veginn, fyrir einhvern dularfullan galdur, er kórinn alltaf samur þrátt fyrir mannabreytingarnar. Maður kemur í manns stað og þó við söknum öll gömlu félaganna virðist kirkjan á hæðinni virka eins og segulstál á allt skemmtilegasta, sniðugasta og besta fólkið! Í þetta sinn er það ég sem kveð og legg langförul land undir fót. Lítinn hluta af mér langar mest að galdurinn hætti, að kórinn liðist í sundur fyrst ég á hann ekki lengur. Stærsti hlutinn af mér veit þó betur. Þið verðið að halda áfram að snerta himnaríki með röddunum ykkar og senda tónleikagesti í æðri heima. Þið verðið að halda áfram að flytja Víst ertu Jesú kóngur klár og Heyr himnasmiður í kirkjunni okkar. Og þið verðið að halda áfram að syngja um sædýrin og heilögu rækjuna! Þið verðið líka að bjóða nýja félaga velkomna til að Mótettukórinn haldi áfram að vera eilífur og óumbreytanlegur.Vonandi takið þið eins vel á móti þeim og ég upplifði þetta haust fyrir sjö árum! Einhver verður samt að passa að taka frá einn brakandi baststól fyrir þessa dóttur langholts og lyngmós sem nú kveður ykkur uppfull af söknuði en snýr aftur eftir nokkur góð ár undir sænskum eplatrjám!

Ég elska ykkur öll!

P.s. Ég færi ykkur fullt af Lundúnamyndum að skilnaðargjöf.

 

6. júlí 2006

Opið bréf til Viktoríu krónprinsessu Svía

Kæra Viktoría.

Lengi hefur mig dreymt um að vera viðstödd konunglegt brúðkaup. Mér væri svo sem sama þótt mér yrði ekki boðið í neina veislu en mig langar óskaplega að fá að veifa fána fyrir utan kirkjuna eða fylgjast með þegar hestvagninn með brúðhjónunum ekur framhjá mannfjöldanum. Hingað til hefur þó gengið illa að láta þennan draum rætast enda sætti ég mig ekki við annað en ríkisarfa. Ég missti af Hákoni krónprins Noregs (hafði nú reyndar hugsað mér að vera sú sem sæti við hlið hans í vagninum þannig þetta var missir í tvenns konar skilningi) og varð að láta mér nægja að horfa á Friðrik og Mary í sjónvarpinu. En nú loksins eygi ég von um að geta látið drauminn rætast!

Þannig er mál með vexti að við fjölskyldan flytjum til Svíþjóðar síðar í mánuðinum og hyggjumst búa þar næstu misserin. Ég myndi verða óskaplega þakklát ef þú værir til í að íhuga að gifta þig á þeim tíma, helst bara strax næsta vor svona til öryggis. Ég lofa að baka prinsessutertur í tilefni dagsins, flagga og hrópa margfalt húrra þegar þú keyrir fram hjá í hestvagninum. Hvað hestvagninn varðar var ég reyndar að velta fyrir mér hvort möguleiki væri á að þið kæmuð bara við í tilvonandi heimaborg minni Uppsölum á leiðinni frá kirkjunni? Þetta er ekki nema svona klukkutíma akstur frá Stokkhólmi þannig að það myndi ekki lengja ferðina svo neinu nemi. Allra best væri auðvitað að þú keyrðir bara fram hjá húsinu mínu og ég gæti þá staðið fyrir fagnaðarlátum undir eplatrjánum í garðinum. Þú munt áreiðanlega ekki eiga í neinum erfiðleikum með að finna húsið en það lítur svona út:

Ég hlakka þá til að sjá þig næsta vor og gangi þér vel að undirbúa brúðkaupið!

Kær kveðja, Guðrún Lára.

p.s. Ef þig vantar einhvern til að fara með þér í búðir að leita að brúðarkjól þá er ekkert mál fyrir mig að skreppa stöku sinnum til Stokkhólms til að vera þér innan handar, bara ekkert mál!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar