Ísafjarðarferð Mótettukórsins til Lundúna

Þann 9. júní 2006 hélt Mótettukór Hallgrímskirkju upp í merkilega ferð til Ísafjarðar. Förin var ævintýraleg fyrir margar sakir, ekki síst þær að nokkrum vikum fyrir brottför hafði í skyndi verið ákveðið að kórinn legði leið sína til Lundúna í staðinn fyrir að sækja höfuðstað vesturlands heim, öllum til mikillar gleði (nema auðvitað þeim sem höfðu ákveðið að gefa skít í Ísafjörð og fara til Tenerife á sama tíma!).

Föstudagurinn 9. júní

Ferðin hófst með ævintýralegum hætti fyrir mig persónulega! Rétt eftir að ég var mætt í flugstöðina lenti Einar sem var að koma frá Stokkhólmi. Hann hafði meðferðis pappíra sem ég þurfti nauðsynlega að undirrita til þess að hægt yrði að ganga frá kaupum okkar á litla dúkkuhúsinu í Uppsölum. Það má með sanni segja að hugmyndin „life in the fast lane“ hafi átt við um okkur hjónaleysin á þessu augnabliki þar sem vasast var í milljónaviðskiptum á flugvellinum, á leið frá eða til ólíkra stórborga!

Þar sem hlutirnir þurftu að gerast hratt voru næstu kórmeðlimir gripnir og látnir votta pappírana. Evu og Snorra þökkum við kærlega fyrir sinn dygga stuðning og bjóðum þau að sjálfsögðu sérstaklega velkomin í gestaherbergið á Konsulentvägen í framtíðinni!

Fluginu seinkaði um heila tvo tíma en það gerði ekkert til þar sem félagsskapurinn var svo skemmtilegur. Þessar tafir höfðu hins vegar þau áhrif að við vorum komin ansi seint á hótelið okkar í London en við Eva, Sigga Ásta og Judith redduðum því bara með því að panta samlokur í room service og drekk bjórinn úr minibarnum!

Laugardagurinn 10. júní

Lundúnaborg tók blíðlega á móti okkur með 30° hita, glampandi sól og mildum andvara. Það voru því glaðir og kátir kórfélagar sem héldu út í daginn og hér sjást þær Eva, Sigga Ásta og Judith rétt við hótelið okkar huggulega. Staðsetning þess var einstaklega heppileg og stutt til allra átta ... ef hægt er að segja það um borg eins og London á annað borð!

Við stöllurnar nýttum þann frjálsa tíma sem gafst þennan fallega dag til að gramsa á Portobello markaðnum. Við vorum síður en svo sviknar þar, í það minnsta kom ég heim með armband, fuglamynd og indverskt, handgert ullarsjal sem reyndist þó ekki þörf á að nota í sólinni!

Sigga Ásta fann þetta frábæra kaffihús, Kitchen and Pantry, í hliðargötu út frá markaðnum. Þar fengum við frábæran hádegismat og nesti fyrir rútuferðirnar sem í hönd fóru.

Síðari hluti laugardagsins var nýttur til tónleikahalds og messusöngs ... já og rútuferða! Við vorum svo heppin að Inga, Vignir, Björt Inga og Ísleifur Elí komu alla leið frá Hollandi til að slást í för með okkur. Ísleifur fékk að sitja með okkur Evu í rútunni í dágóða stund okkur til mikillar ánægju enda enginn venjulegur sjarmör þarna á ferð!

Hann var þó um síðir sóttur af mömmu sinni sem hér sést með fádæma glæsilega eyrnalokka sem eru kannski og kannski ekki týndir! Ef þeir skyldu vera farnir á fund feðra sinna birti ég a.m.k. þessa mynd af Ingu með þá til minja!

Fyrsti viðkomustaður Mótettukórsins var Southwark Cathedral þar sem syngja átti Evensong. Kirkjan var frábærlega vel staðsett rétt við Borough Market þar sem Jamie Oliver kaupir allt sitt hráefni! Því miður gafst kórfélögum ekki tækifæri til að spóka sig um þar og leita að stjörninni því okkar beið upphitun.

Rannana, sannana, rannana, sannana, rannana, sannana, rannana, sannana ...

Eftir upphitunina var dagskráin æfð inni í kirkju og létu tenórarnir og altarnir sitt ekki eftir liggja og vildu endilega lofa eina þá!

Guðfinna og Emilie með fagurlega skreytta kirkjuna í baksýn. Þetta er ein af uppáhaldsmyndunum mínum úr ferðinni.

Bekkir kirkjunnar eru augljóslega gerðir fyrir fólk í öðrum stærðum en meðlimir Mótettukórsins!!!

Það er alltaf í nógu að snúast rétt fyrir tónleika, allir hjálpast að við að renna upp kjólum og hnýta bindi, síðan þarf að raða nótunum rétt og að sjálfsögðu setja á sig smá gloss rétt áður en stigi er á svið!

Eftir velheppnaða messu, þar sem meðal annars var beðið fyrir heimsmeistaramótinu í knattspyrnu(!), stillti kórinn sér upp ásamt stjórnanda í þessari fallegu kirkju. Ekki verður annað sagt en að kórinn taki sig vel út í nýju búningunum sem Sigga Ásta hannaði af landskunnri snilld.

Guðbjört, -finna og -rún fyrir framan heimili Bridget Jones! Eftir messuna í Southwark var stigið upp í rútuna og í þetta sinn var haldið til krúttbæjarins Rochester þar sem halda skyldi tónleika um kvöldið.

Rochester Cathedral er næstelsta kirkja Englands og ákaflega falleg. Enn og aftur þurfti kórinn að raða nótum og hér sjást Gunnar Örn, Björg, Halldís og Guðfinna hjálpast að!

Ein lítil Björt Inga í einni risastórri kirkju!

Halla, Eva, Kristín og Guðrún ... allar í gullskóm! Mikið gullæði greip um sig í sópran og alt þegar búningaharðstjórinn gaf leyfi fyrir gylltum fótabúnaði við nýju kórkjólana ... aðeins nokkrum klukkustundum síðar mátti sjá ákafar kórstúlkur í Kringlum, Smáralindum og á Laugavegum í leit að hinu eina sanna pari!

Judith Amalía og John de Bradfield í stuði!

Tónleikarnir gengu ákaflega vel og fjöldi tónleikagesta var framar björtustu vonum. Almenn ánægja ríkti því meðal meðlima Mótettukórsins eins og sést á þessari mynd af Bjarneyju Ingibjörgu, Halldísi, Höllu, Björgu og Filippu.

Altarnir Lenka, Kristín og Ingibjörg Alda voru auðvitað kátar líka á þessu fallega sumarkvöldi!

Við Inga vorum þó hugsanlega kátastar af öllum að vera saman á ný!

Andspænis kirkjunni var þessi glæsilegi kastali. Ekki þarf annað en að ímynda sér eldspúandi dreka þarna á topnnum og að Judith sé flýjandi prinsessa til að hann smellpassi inn í hvaða ævintýri sem er.

Ísleifur var kátur með ALLT í þessari ferð!

Ísleifur og aðdáendaklúbburinn í Rochester, Eva, ég, Inga mamma og Judith.

Eftir tónleikana var borðað á ítölskum stað í Rochester. Fyrr um daginn hafði eitt af skemmtilegri augnablikum ferðarinnar einmitt átt sér stað þegar hinn virti organisti Rochester Cathedral  þuldi upp pizzaálegg fyrir okkur hvar við sátum á þessum helga stað, þannig að hægt væri að panta fyrirfram fyrir hópinn!!! Hvað um það, Björt Inga virðist hins vegar ekki alls kostar sátt við veitingarnar!

Sunnudagurinn 11. júní

Eldsnemma á sunnudagsmorgninum var enn á ný stigið upp í rútu og við tók nokkurra klukkustunda akstur til stuðbæjarins Grimsby! Við Eva sváfum mestalla leiðina og vorum því endurnærðar þegar komið var á áfangastað og litið inn á grískan veitingastað. Tzatzikiið var gott og vertinn var sveittur!!!

Þegar allir voru orðnir mettir tóku við æfingar í kirkjunni í Grimsby en þar átti bæði að syngja í messu Íslendingafélagsins á staðnum og halda stutta tónleika í kjölfarið. Hér sjást sópranar og bassar syngja upphitunaræfingar af kappi!

Hinar dönsku Helle og Emilie æfa og Hörður leikur á orgelið í baksýn.

Eftir eftirminnilega messu og tónleika þar sem m.a. einn áheyrendanna lá sem örendur í gólfinu, hélt kvenfélagið á staðnum, Freyjurnar, kórnum höfðinglega móttöku á hóteli staðarins þar sem rjómatertur og pönnukökur voru snæddar. Við Kristín og Judith vorum ánægðar með þetta allt ... jafnvel þótt það hafi verið útfjólublá ljós á klósettum hótelsins!

Í rútunni á leiðinni heim var mikið fjör og hvert lagið á fætur öðru sungið! Hér eru Judith og Kristín í brjálaðri stemmningu.

Við Eva tókum reyndar smá blund í þessari rútuferð líka en hresstumst allar þegar byrjað var að syngja og létum m.a.s. um tíma hafa okkur út í að dreypa á koníaki ... og er þá mikið sagt!!!

Arngerður gefur tóninn!

Sunnudagskvöldið var síðasta kvöld kórferðarinnar og við fögnuðum saman á frábærum indverskum veitingastað, La Porte des Indes. Staðurinn var dásamlegur og okkur stallsystrum og borðfélögum, mér, Judith, Siggu Ástu og Evu, fannst stundum eins og þjónarnir læsu hugsanir. Í það minnsta mættu þeir með kalt hvítvín um leið og einhver okkar hafði leitt að því hugann!

Hér eru Sigga Ásta og Eva, sætar og sumarlegar, einmitt með kalt hvítvínsglas í forgrunni!

Eva og forréttirnir sem voru hver öðrum betri!!!

Vinkonur að njóta lífsins!

Tvö systkinasett, Filippa og Emilie, Snorri og Björg!

Gunna og Stebbi eiturhress að vanda.

Maturinn var bara fáránlega góður. Ég tárast enn við tilhugsunina um kryddaða lambakjötsréttinn (og ekki bara af því að hann var svo sterkur!).

Kantorshjón og prestshjón í góðum félagsskap!

Helga Sigga, Inga og Áskell njóta matarins dásamlega.

Einar Melax (sofnaður?), Ingibjartur (kátur!) og Helga Sigga (hress, eins og alltaf!).

Ég sé að við þetta borð hefur verið önnur stemmning en á mínu og kalda hvítvíninu hefur verið skipt út fyrir rautt og volgt!

Það er rétt að taka það fram að það var Gunnar Ólafsson, bassi, sem tók þessar frábæru myndir af kórnum á La Porte des Indes ... eigandi myndavélarinnar var of upptekinn við að sötra kalt hvítvín til að hafa tíma fyrir myndatökur!

Hörður hélt ræðu og tárin byrjuðu að streyma ...

... og táraflóðið fór augljóslega ekki vel með meiköppið mitt! Allir komust þó upp úr táradalnum fyrr en síðar og þá hélt fjörið vitaskuld bara áfram!

Desertarnir voru girnilegir eins og allt annað á staðnum!

Eftir vel heppnaða máltíð var stuðinu haldið áfram á hótelinu þar sem byrjað var á að syngja „Sofðu unga ástin mín“ yfir þessari sextugu ættmóður sem sést sofa vært í sófanum. Kristínu sem skemmti sér augljóslega vel yfir uppátækinu! Er það til marks um hve alþjóðlegt tungumál tónlistin er að þegar annað erindið var hálfnað stökk dóttir konunnar á fætur og hrópaði upp yfir sig: „It's a lullaby!“

Því næst var afmælissöngurinn sunginn fyrir eiginmann hinnar sofandi! Afmælisbarnið kunni vel að meta framlag kórsins til hátíðahaldanna, eins og sjá má.

Kristín hlær, Halldóra er komin úr skónum, Stefán skrafar við Siggu Ástu sem virðist skemmt og Steinar fylgist grannt með öllu!

Þrjár úr fyrsta sópran sem allar kvöddu kórinn sinn (í bili að minnsta kosti) þetta kvöld. Halldís, ég og Bjarney Ingibjörg.

Starfsmenn hótelsins sýndu partýglöðum kórnum einstaka þolinmæði og buðust meira að segja til að halda áfram að veita drykki þrátt fyrir að barinn væri lokaður. Hér sjást Eva og Arngerður einmitt bíða eftir að næsta pöntun verði tekin!

Ísafjarðardaman Ingibjörg í London. Kannski getur kórinn farið í Lundúnaferð til Ísafjarðar næst og heimsótt hana?!

Inga og Judith óumræðilega sætar og skemmtilegar!

Mér finnst að það ætti að gera það að hefð í kórferðum að fara á veitingastaði sem leysa dömurnar út með orkideum! Við upplifðum það í París, nú aftur í London ... spurning hvað gerist á Ísafirði?!

Stefán sá um „dinnertónlistina“ ... gætum við fengið að heyra eitthvað íslenskt, eitthvað svona 18 ára og ekkert rosalega gott!!!

Þessir sópranar, Guðbjört, Halldóra og Guðfinna, sáu til þess að ljúfir tónar liðu um sali hótelsins.

Við eignuðumst nokkra aðdáendur þetta kvöld, meðal annars kjólklæddu konuna lengst til vinstri sem tjáði viðstöddum að hún hreinlega eeeeelskaði að versla í Debenhams! Hún er hér í góðum félagsskap Helle og Ingibjargar Öldu. Kvöldið leið við söng, gleði og drykkju allt þar til hótelstarfsmennirnir misstu þolinmæðina og bönnuðu frekari leik á flygilinn og hættu að afgreiða drykki!

Mánudagurinn 12. júní

Síðdegis á mánudegi sneri meirihluti kórsins aftur heim til Íslands í rigninguna og rokið. Nokkrir kórfélagar höfðu hins vegar verið svo snjallir að framlengja ferðina og þeirra beið ekkert annað en hiti og heiðríkja! Við Eva röltum um borgina þennan dag og nutum þess að sitja á Carluccio's á St. Christophers Place, sleikja sólina og sötra, já hvað haldið þið ... jú, kalt hvítvín!

Vinkonur, herbergisfélagar og nágrannar í sólskinsskapi! Það var mikið, mikið heitt í borginni þennan dag!

Um kvöldið fórum við öll saman að borða á sushistaðinn Itsu. Um staðinn liðast færiband sem flytur með sér einstaklega girnilegt sushi og aðra japanskættaða rétti. Judith átti í erfiðleikum með að ákveða hvað hún ætti að fá sér enda af nógu að taka!

Ég átti hins vegar ekki í miklum vandræðum með að velja og kippti til mín flestum þeim túnfiskréttum sem rúlluðu framhjá! Skemmst er frá því að segja að ég borðaði svo yfir mig að ég þurfti að taka fullkomlega ótímabæran leigubíl heim til að geta legið á meltunni!

Þessar myndir eru þó teknar áður en ósköpin dundu yfir og við Eva vorum hreint út sagt ótrúlega hressar og kátar ...

... enda ekkert venjulega girnilegir hindberjamohito í boði á staðnum!!!

Judith lét freistast líka en Ingibjörg Alda hélt sig við dannaðri drykki!

Skyldi Tuna Sashimi "New Style" vera að nálgast?!

Þriðjudagurinn 13. júní

Á þriðjudagsmorgninum skellti nær allur hópurinn sér á Brick Lane þar sem second hand búðir voru þræddar og unaðslegur kryddilmur frá indverskum stöðum látinn leika um vitin. Við enduðum inni á þessu skemmtilega kaffihúsi og hér sjást Snorri, Halla, Björg og Halldís sötra vatn og sýna hvert öðru í poka eftir velheppnuð kaup!

Kristín og Sigga Ásta ...

... og Eva mín!

Ég dáðist mikið að þessu húðflúri! Þrátt fyrir að vera lítill aðdáandi slíkra líkamsskreytinga gat ég ekki annað en fallið í stafi yfir handbragðinu á þessu! Reyndar sat til skamms tíma við hliðina á okkur maður sem var augljóslega nýstiginn út af húðflúrstofu með eldrauðan og bólginn handlegg með glóðvolgu, kolsvörtu munstri þvert yfir. Það var hins vegar óheyrilega ljótt og efldi mig enn frekar í sannfæringu minni að húðflúr sé ekkert fyrir mig!!!

Um kvöldið fórum við saman út að borða á Asia de Cuba. Að sjálfsögðu var byrjað á mohito delux í fordrykk meðan beðið var eftir borði!

Þar skáluðum við fyrir sænska húsinu mínu en skrifað hafði verið undir kaupsamninginn fyrr um daginn! Ef eitthvað er að marka þessa mynd hef ég verið voðalega glöð með þetta!!!

Puff Daddy and his bitches! Borðið sem við sátum við á veitingastaðnum gengur undir nafninu Puff Daddy borðið enda ku það vera frátekið fyrir kappann þegar hann snæðir á staðnum ásamt fylgdarliði sínu. Snorri var eini strákurinn í hópnum og tók að sjálfsögðu að sér að vera Puff Daddy kvöldsins. Halla er hins vegar í þann mund að fara að gæða sér á öndinni sem var einn af fjölmörgum dásamlegum forréttum sem bornir voru á borð fyrir okkur.

Maturinn var óheyrilega góður og sælustunur hljómuðu ítrekað frá borðinu þegar nýir réttir voru bragðaðir.

Hér sýnast mér Björg og Halla vera að skammta sér Thai Beef Salad sem var annar af uppáhaldsforréttunum mínum (hinn var túnfisktartar ... nema hvað!).

Eva var svo sæt í kirsuberjakjólnum sem hún keyti sér á Brick Lane fyrr um daginn. Ég eigna mér allan heiður að velheppnðum fata- og ilmvatnskaupum Evu í þessari ferð enda hafði ég yfirumsjón með slíku sem sérlegur innkaupastjóri hennar!

Það var mikið hlegið þetta kvöld ...

... MIKIÐ!

Ekki spillti heldur túnfiskurinn með wasabi kartöflumúsinni gleðinni ... eða súkkulaðikakan sem borin var fram í eftirrétt. Aðrar eins dásemdir hef ég aldrei á ævi minni bragðað!

Þetta kvöld var svo sannarlega frábær endir á frábærri ferð! Daginn eftir nýttum við vel í verslunum Lundúna áður en flogið var heim um kvöldið eftir farsæla Ísafjarðarferð!

Að lokum þetta:

Mótettukór Hallgrímskirkju er besti kór í heimi!!!