Valborgarmessa 2009

Stærsti hátíðisdagurinn í Uppsölum er sennilega Valborgarmessa. Dagurinn skipar stóran sess í lífi háskólastúdentanna sem fagna honum með ýmsum hætti ... já og við hinir borgarbúarnir fáum að vera með líka! Fyrir tveimur árum birti ég nokkrar myndir frá húfuathöfninni í Carolinabrekkunni og af tónleikum við Auluna. Í ár ákváðum við fjölskyldan hins vegar að leggja leið okkar í bæinn töluvert fyrr um daginn og fylgjast með hinum stórviðburði dagsins, nefnilega fossasiglingunni!

Forsränningen eða fossasiglingin fer þannig fram að stúdentar smíða fjölda lítilla báta sem þeir keppa svo í að sigla niður Fyrisánna. Á hverjum báti eru fjórir skipverjar og einna mestu máli skiptir að smíða sniðuga farkosti og vera í glaðlegum búningum. Aðaláskorunin er þó að koma bátnum heilum niður fossana tvo í miðborginni. Fossarnir eru þó ekki eiginlegir fossar heldur gamlar stíflur frá þeim tíma þegar áin knúði kvarnir og raforkuver. Það safnast gríðarlegur mannfjöldi meðfram ánni til að fylgjast með þessu þótt það sjáist kannski ekki alveg nógu vel þegar búið er að minnka myndina svona mikið.

Þeir áköfustu mæta eldsnemma morguns með klappstóla og bók, stilla sér upp á besta stað og bíða svo þolinmóðir þangað til fjörið hefst. Flestir koma þó seinna og þá eru bestu plássin yfirleitt búin svo menn príla upp á nærliggjandi veggi og byggingar til að eiga möguleika á að sjá eitthvað.

Við komum okkur vel fyrir rétt fyrir neðan efri fossinn og höfðum gott útsýni yfir bækistöð kafaraklúbbsins, lögreglunnar og sjúkraliðanna! Það er mikill öryggisviðbúnaður í kringum siglinguna þar sem flestum bátunum hvolfir nú a.m.k. einu sinni!

Það er mikilvægt að næra sig áður en maður fer að stunda miklar björgunaraðgerðir og þessi kafari sat í froskbúningnum á árbakkanum og gæddi sér á samloku.

Við vorum svo heppin að fyrir framan okkur voru nokkrir þýskir stúdentar sem höfðu komið sér vel fyrir á teppi með freyðivín og jarðaber (hefðbundinn morgunverður stúdenta á þessum degi!) og við höfðum því nokkuð gott útsýni yfir ánna.

Þýsku stúdentunum var líka mikið í mun að vera hugguleg við Maríu og Huga og buðum þeim bæði jarðaber og betra pláss á bakkanum. María þáði það með þökkum og þegar bátarnir fóru að sigla framhjá okkur var hún með besta útsýnið og lýsti beint fyrir okkur hinum!

Keppnin hófst þónokkru ofar í ánni með flugeldaskotum og það leið dágóð stund þar til við heyrðum á fagnaðar- og hvatningarópunum að fyrstu bátarnir nálguðust okkur. Við sáum þó mest lítið til að byrja með nema einstaka brak og skipverja á floti fram hjá okkur (sjá mynd)! María var þó eins og áður sagði í góðri stöðu og Hugi fékk að vera á háhest á pabba sínum svo þau fylgdust spennt með því sem fram fór.

Skömmu síðar opnaðist þó glufa í mannfjöldann og Einar gat tekið nokkrar myndir út yfir ánna. Og fljótlega birtist næsti farkostur undan brúnni.

Og fleiri fylgdu í kjölfarið. Siglingin gekk að vísu fremur brösulega hjá flestum enda voru bátarnir iðullega að stranda á steinum eða bökkum! Hér stefnir þó einn hraðbyri niður fyrri fossinn.

Og næsti sturtast niður ...

... að því er virðist í heilu lagi og allir bátverjar um borð! Mannfjöldinn fagnaði slíkum sigrum auðvitað gífurlega!

Annars var ekkert að óttast þótt illa færi því froskmennirnir biðu á bakkanum og hoppuðu út í um leið og einhver datt útbyrðis.

Eftir að flestir bátanna voru farnir fram hjá okkur ákváðum við að rölta aðeins um bæinn enda nóg um að vera. Á hverju horni voru seldar gasblöðrur, grillaðar pylsur, kaffi eða brenndar möndlur.

Já að ógleymdri aðalfæðu Uppsalabúa þennan dag: jarðaberjum! Það eru áreiðanlega seldir mörgþúsund lítrar af jarðaberjum á götum úti þennan dag.

Og einn þessara lítra rataði beinustu leið upp í okkur Konsulentana!

Við hjónaleysin á göngugötunni. Ég var í mæðraskoðun tveimur dögum áður og hafði þá sagt ljósmóðurinni að ég væri farin að fá svolítinn bjúg og hún hafði svarað: Já ég sé það! Ég skil svarið hennar mjög vel þegar ég skoða þessa mynd!

Á leiðinni heim úr bænum komum við við í Blomsterlandet. Þar fyrir utan blómstraði þetta fallega kirsuberjatré og undir því var ljósgulum Mustang lagt snyrtilega. Ef bílaauglýsing ætti mögulega að geta höfðað til mín þá væri hún einhvern veginn svona!

Fátt er fallegra en blóm kirsuberjatrjánna og heiðblár himinn.

Mér finnst alltaf að blómstrandi kirsuberjatré eigi betur heima í ævintýrum en hversdagslegri borg!

Já og ef einhverjir skyldu vilja rifja upp aðra Uppsalasiði á Valborgarmessu þá má finna myndirnar sem við tókum fyrir tveimur árum hér.