Valborgarmessa

1. maí ár hvert fagna Svíar Valborgarmessu. Hátíðahöldin eru þó að megninu til daginn áður og er sá dagur kallaður Valborgmässafton eða einfaldlega „sista april“. Heilög Valborg virðist þó flestum gleymd í dag því Valborgarmessan er fyrst og fremst hátðið vorsins auk þess sem þetta er einn helsti hátíðisdagur stúdenta, a.m.k. hér í háskólabænum Uppsölum.

Á slaginu klukkan 15:00 þann 31. apríl stendur rektor Uppsalaháskóla á svölum bókasafnsins Carolina Rediviva og lyftir stúdentshúfunni sinni hátt á loft.

Mannfjöldinn sem safnast hefur saman í brekkunni fyrir neðan bókasafnið svarar með því að lyfta sínum húfum. Þessi atburður er táknrænt upphaf vorkomunnar en eftir því sem ég best fæ skilið tíðkaðist ekki að bera hvítu húfurnar nema á vorin og sumrin frá og með þessum degi.

Húfur á lofti efst í Drottningargötunni! Ég er hræðilega veik fyrir öllum svona uppákomum þar sem fjöldi manns sameinast til að fagna eða mótmæla einhverju ákveðnu. Ég er áreiðanlega eina manneskjan sem er með stöðugan kökk í hálsinum og tár í augunum á Gay Pride og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég á bágt með mig þegar fjallkonan stígur á stokk á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga! Mér fannst þessi húfuuppákoma alveg hreint dásamlega hátíðleg og skemmtileg og var hálfskælandi meira og minna allan tímann!

Allir hvítu kollarnir komnir á sinn stað! Sumar húfurnar voru ansi „lifaðar“ og hafa greinilega tekið þátt í mörgum Valborgarmessum enda snjáðar og skítugar eftir því!

Húfuberar voru á ýmsum aldri, ungir sem aldnir. Það kom mér dálítið óvart að það virðast einkum vera eldri stúdentar sem mæta með húfurnar í bæinn og „skála“ við rektorinn. Nemendur við Uppsalaháskóla virðast lítið taka þátt í því enda eru þeir uppteknir við ýmislegt annað þennan dag. Yfirleitt er byrjað í kampavínspikknikk eldsnemma um morguninn. Því næst er keppt í siglingu á ánni þar sem málið er að vera með sem frumlegastan bát og helst í búningum líka. Í hádeginu er svo snæddur hefðbundinn sillunch ... Svíar eru alltaf með síld á borðum þegar mikið stendur til! Það sem eftir lifir dags keppast nemendafélögin, svo kallaðar nationir, við að laða fólk til sín. Hvert félag heldur úti eins konar skemmtistað og þar safnaðist fólk saman, hlustaði á lifandi tónlist, dansaði og drakk enn meira kampavín!

Við Konsulentarnir héldum hins vegar í háskólagarðinn framan við Universitatsaulan. Ég hef einhvern tímann kallað einmitt þessa byggingu aðalbyggingu háskólans en komst sem sagt að því um daginn að það er hún alls ekki, a.m.k. ekki í þeim skilningi sem ég lagði í titilinn. Þarna eru engar skrifstofur, hvað þá kennslustofur heldur ýmsir viðhafnarsalir þar sem bæði eru haldnar ráðstefnur og tónleikar.

Þennan dag ár hvert heldur karlakórinn Orphei Drängar vortónleika í stærsta salnum sem tekur 2000 manns. Aðsóknin er hins vegar svo mikil að fólk byrjar að safnast í röð fyrir utan löngu áður og ef maður ætlar að fá sæti inni í salnum verður maður því miður að sleppa því að fylgjast með húfulyftingunni í Carolinabrekkunni. Þeir sem ekki komast inn í húsið þurfa hins vegar ekki að örvænta því tónleikunum er varpað í hátalarakerfi út yfir háskólagarðinn fyrir framan. Ég veit ekki hversu vel það sést á myndinni en þegar okkur bar að garði stóðu enn mörghundruð manns í biðröð! Í þessu samhengi má ég til með að segja ykkur að kórinn Orphei Drängar var stofnaður árið 1853. Þá geisaði kólerufaraldur í Uppsölum og borgin var sett í einangrun. Undir þessum ömurlegu kringumstæðum ákvað hópur stúdenta að safnast saman og syngja í von um að þannig mætti hrekja leiðindin á brott að minnsta kosti tímabundið. Meðal þess sem þeir sungu voru lög eftir Bellmann og eitt þeirra, „Hör, I Orphei Drängar“ varð til þess að fremsti tenór Uppsala á þeim tíma fékk þá hugmynd að stofna formlega samnefndan kór. Í dag er þetta lag upphafsnúmer allra tónleika kórsins. Finnst ykkur þetta ekki rómantísk og æðisleg saga?!

Í háskólagarðinum hafði safnast saman fullt af fólki, allir með útbreidd teppi, samlokur, jarðaber og kampavín.

Ótrúlega hugguleg stemmning.

„Hvenær fæ ég svona flotta hvíta húfu eins og allir eru með?“ gæti María verið að hugsa.

Einar og stúdentarnir. Í baksýn er háskólasafnið Gustavianum.

Mér finnast þessi svo ótrúlega krúttleg eitthvað!

   

Hugi elskar að tína lítil blóm!

Stemmningin í háskólagarðinum var svo ótrúlega frábær, fjölskyldur höfðu safnast saman og skáluðu í kampavíni, allir hlógu og voru glaðir og allt um kring hljómuðu vorsöngvar Orphei Drängar.

Margir háskólanemanna voru hins vegar búnir að vera að frá því fyrir átta um morguninn og eftir slíka kampavínsdrykkju er nauðsynlegt að létta á sér af og til!

Í miðbænum var hálfger 17. júní stemmning og María og Hugi fengu vindrellur.

Ótrúlegt hvað hann er sætur þessi strákur!

    

Hún snýst!!!

Í bænum voru ýmsar uppákomur og þarna niðri við ánna voru til dæmis brasstónleikar.

Systkinin við gamla kirkjugarðinn.

Einmitt á þessu augnabliki stöðvuðum við foreldrarnir ferð þeirra eftir kirkjugarðsveggnum þar sem við sáum að þau stefndu beint í ælu!

Fólk var fyrirfram búið að vara okkur útlendingana við að það væri voða mikið fyllerí að Valborgarmessu. Mér fannst svolítið skondið að það hefði svona miklar áhyggjur af því að við yrðum eitthvað hneyksluð því það er jú ekki eins og við könnumst ekki eilítið við þessa stemmningu frá okkar ástkæru fósturjörð! Ég verð hins vegar að játa mig sigraða eftir þennan dag og veita Svíunum norðurlandameistartitil í fylleríi utanhúss án atrennu!!! Þessi mynd var til dæmis tekin klukkan hálffjögur að degi til ... ég hef aldrei séð svona rosalega mikið rusl áður og átti þetta þó bara eftir að versna! Myndin sýnir auðvitað ekki fylleríið en svona miðað við tíma dags myndi ég segja að Svíar hafi vinninginn yfir Íslendinga! Við myndum kannski ná þessu ef allir skólar dimmitteruðu á sama degi ... og þá allir árgangar í einu! Það er rétt að taka það fram að myndin er tekin í Ekonomikumparken en það var einmitt þar sem allir háskólanemarnir söfnuðust saman í kampavínspikknikk um morguninn og þetta var þeirra helsta bækistöð yfir daginn, eðlilega var því mesta ruslið einmitt þarna. Dálítið ólíkt stemmningunni í háskólagarðinum!