Ungviði og uppskera

Barnastúss, berjasaft og önnur bústörf.

Ágústmánuður fór rólega af stað hér á Konsulentvägen og menn voru slakir!

Og bara nokkuð hressir!

Eins og ykkur grunar kannski er þessi ungi maður í aðalhlutverki í þessu albúmi, væntanlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem slíkt gerist. Ekki er þó alltaf stemmning fyrir því að brosa þegar mamma reynir að taka brosmyndir!

  

En stundum er maður samstarfsfús!

„Ég gefst upp!!!“

  

Það er nú fátt yndislegra en þetta!

Feðgar á ferð og flugi.

Þessi mynd er forskot á væntanlegt albúm þar sem við greinum frá umbótum á hjónaherberginu í máli og myndum. Og svo er þetta náttúrulega líka sæt mynd af sætum strák!

Hugi er afskaplega duglegur og ábyrgðarfullur stóri bróðir. Sá litli má varla pípa án þess að hann sé mættur til að rugga, halda í höndina á eða segja „svona svona“ og oft þykir honum við foreldrarnir heldur sveifasein og kærulaus! Hér er hann að rugga litla bróður í ömmustólnum með fætinum.

Um daginn fengum við góða gesti frá Stokkhólmi þegar Alfreð, Björk, Pétur og Áslaug Margrét komu í heimsókn. Hér er Pétur að leika við Maríu og Huga og mátti vart á milli sjá hver naut sín best, hann að fá að leika við svona stóra krakka eða þau að fá að ráðskast með svona lítinn strák!

Áslaug Margrét æfði hins vegar uppistand og Björk rifjaði upp nýburaskeiðið meðan Alfreð horfði á.

Hress kall í kimono. Kimonoinn saumaði ég sjálf aaaalein, meira um það í þessu albúmi.

Ég birti svo mikið af myndum af þessum litla dreng að ég er að verða uppiskroppa með tilgangslaus krúttorð á borð við sætilíus, rúsína og litli kútur til að skrifa við þær. Lesendur eru því beðnir að velja sér sjálfir eitthvað nýtt orð og leggja í huganum við þessa krúttlegu mynd.

Systkin á spjalli, umræðuefnið greinilega fyndið.

Á meðan voru feðgarnir úti að taka upp kartöflur í sólinni. Við fengum því miður ekki sömu gerð af útsæði og í fyrra (ástarkartaflan Cherie sem var hrein upplifun að borða) en það sem kemur undan grösunum er samt afskaplega ljúffengt, sérstaklega með bráðnu smjöri og salti!

Þessi fær engar kartöflur en er samt svona ljómandi kátur!

Ársins 2009 verður sennilega minnst hér á Konsulentvägen sem saft ársins mikla (já og auðvitað ársins sem litlinn okkar fæddist!). Við erum búin að setja á flöskur 16 lítra af safti sem gerir þá um 60-80 lítra af tilbúnum drykk (fer svolítið eftir hversu sterkt maður blandar). Úr einhverjum flöskum höfðum við nú klárað þegar þessi mynd var tekin og einhverjar voru inni í ísskáp svo þetta er ekki einu sinni allt. Á myndinni eru þó allar tegundirnar, frá vinstri: flädersaft, rabarbarasaft, rifsberjasaft og sólberjasaft.

Gæti allt eins verið listaverk!

Tveir vinir og annar með duddu.

Nú virðist myggfaraldurinn loksins vera í rénum og við borðuðum  hádegisverð úti á stétt í fyrsta sinn síðan í byrjun maí! Systkinin kusu reyndar að snæða sitt pastasalat í tréhúsinu og sjást hér angistarfull yfir lítilli flugu sem festist í dressingunni þeirra!

Sá minnsti var á staðnum líka en fékk ekkert að borða!

Notalegt laugardagshádegi á Konsulentvägen.

Tómatarnir okkar eru óðum að þroskast þrátt fyrir að þeim hafi verið plantað heldur seint.

Og það stefnir í metuppskeru á plómum! Fyrsta sumarið okkar hér fengum við eina plómu, svona 5 það næsta og kannski 10 í fyrra en nú eru áreiðanlega 200 plómur á góðri leið með að verða fullþroska! Í fyrra nýtti ég uppskeruna í eina plómuböku, nú verð ég annað hvort að baka 20 plómubökur eða finna upp á einhverju nýju!

Eplatrén okkar svigna líka undan eplum. Eiginlega eru eplin of mörg sem hefur þær afleiðingar að hvert epli er frekar lítið og mörg skemmast. Við munum samt áreiðanlega ná í nokkrar krukkur af eplamús og eplachutney og að sjálfsögðu eplakökur og -bökur.

Veika eplatréð okkar teygir ekki greinarnar til himins heldur jarðar!

Á því eru þó ótal epli svo að segja fullþroskuð.

Fallegt!

Ég var næstum búin að eyða þessari mynd út hjá mér en fattaði svo allt í einu að ég á allt of fáar svona myndir sem eru teknar af akkúrat engu, þar sem enginn var tilbúinn eðar uppstilltur með sparisvipinn. Og allt í einu fannst mér þessi annars frekar misheppnaða mynd hafa ótrúlegt gildi og vera svo óendanlega falleg! Ég verð að muna að vera duglegri að smella af á svona augnablikum.

Ég er eitthvað aðeins að reyna að vera dugleg í garðvinnunni og keypti meðal annars þessi blóm til að gróðursetja undir plómutrénu. Þessi gerð var ekki bara valin vegna fegurðar heldur þar sem það safnaðist á hana ótrúlegt magn af fallegum fiðrildum þegar við vorum að velja blóm í gróðrarstöðinni! Fiðrildin hér á Konsulentvägen eru sem betur fer ekki minna hrifin!

Hér er Hugi búinn að tína sér epli af trénu sem hann maular meðan hann rólar sér í hengistólnum og hugsar um lífið og tilveruna.

Ekki eru allir fjölskyldumeðlimir jafnánægðir með að vera úti á stétt!

Hugi og Einar kasta bolta.

Sólhatturinn taka tvö: Velkomin í húsið á sléttunni!