Handavinnuuppgjör

Vegna óléttu og ungbarnastúss hef ég ekki náð að prjóna eða sauma eins mikið og ég hefði viljað á þessu ári. Hér er þó uppgjörið fyrir fyrstu átta mánuði ársins.

Þessa peysu hafið þið séð annars staðar á síðunni en þetta er sem sagt það eina sem ég náði að búa til handa litla mínum áður en hann fæddist. Frekar lélegur árangur hjá konu sem þykist handavinnuóð!

Peysan er alfarið prjónuð úr garnafgöngum og ég var sérstaklega glöð að geta notað síðasta þráðinn af þessu ljósgræna garni (sem mér þykir afskaplega vænt um og er hætt að framleiða) í eitthvað svona dýrmætt!

Ég eignaðist litla frænku í byrjun mars, systurdótturina Sigrúnu Mörtu. Þessa silkihúfu og -vettlinga sendi ég henni í sængurgjöf. Ég prjónaði líka svona ljósblátt sett handa guðsyni mínum Arnaldi Kára í fyrra en klikkaði á að taka mynd af því.

Sigrún Marta fékk líka teppi ...

úr svona fallegu efni ...

... og svo fékk hún auðvitað líka vikuskammt af smekkjum!

Þótt ég hafi ekki náð að ljúka við neitt handa litlanum mínum áður en hann fæddist er svo sem ekki eins og ég hafi setið auðum höndum meðan ég gekk með hann. Meðfram sængurgjafagerð prjónaði ég nefnilega handa honum teppi sem hefði beðið hans ef hann hefði fæðst á réttum tíma. Hann var hins vegar svældur út tæpum þremur vikum fyrir áætlun og þótt ég hafi haft mig alla við meðan ég lá á meðgöngudeildinni náði ég ekki að klára. Teppið góða var annars hefðbundinn hluti af rapporti ljósmæðranna við vaktaskipti og gjarnan þegar nýjar ljósmæður komu á vakt og heilsuðu upp á mig í fyrsta sinn sögðu þær „Hér er víst eitthvað teppi sem maður þarf að kíkja á“! Kannski ekki skrýtið því teppið er jú engin smásmíð eins og sést á myndinni sem tekin var rétt áður en ég felldi af.

Ef mér reiknast rétt til prjónaði ég 155.229 lykkjur í þessu teppi!

Það er prjónað úr dásamlegri blöndu af merino- og kasmírull og er því bæði hlýtt og mjúkt.

Ég myndi alveg vilja eiga heima í svona litlu húsi.

Hér er dálítið skondið verkefni. Ólin á úrinu mínu datt endanlega í sundur í vor sem var ansi bagalegt, sérstaklega í upphafi brjóstagjafar þar sem maður þarf stöðugt að vera að líta á klukkuna til að átta sig á hvort kominn sé tími á næstu gjöf. Svo bagalegt að mér datt í hug að binda úrið bara um úlnliðinn á mér með einhverju bandi. Sú hugmynd þróaðist svo smátt og smátt yfir í að sauma ól á úrið og þótt ég sé nú vanalega ekki mikil framkvæmdamanneskja dreif ég í að prófa.

Ég hafði keypt þennan krúttlega Rauðhettu-borða í einhverju græðgiskasti þótt ég hefði ekkert við hann að gera. Var því glöð að finna honum tilgang.

Sko, klukkan er þrjár mínútur yfir þrjú og ólin tilbúin! Á myndinni má jafnframt sjá eitt myggbit en þetta var einmitt í upphafi faraldursins ógurlega.

Vinir mínir hafa verið afskaplega frjósamir að undanförnu og hér eru fleiri sængurgjafir. Í London fæddist lítil vinkona sem heitir Embla. Hún fékk líka silkihúfusett og kisuteppi.

Og auðvitað smekki! Þessir eru í stíl við teppið ...

... þessir eru bleikir ...

Og þessir eru með ævintýraþema (efst er Mjallhvít, fyrir neðan til vinstri er Rauðhetta og til hægri er blanda af ýmsum ævintýrum, Stígvélaða kettinum, Hans og Grétu, Öskubusku, Rauðhettu og Þyrnirós).

Um svipað leyti fæddist líka lítil vinkona í Reykjavík sem fékk nafnið Lena Charlotta. Hér eru hennar smekkir.

Smátt og smátt fjölgar verkefnunum handa litla kút. Hér er kimono sem ég saumaði (með miklum harmkvælum, bölvi og ragni!) á einni kvöldstund.

Mér finnst efnið svo fallegt og í mínum huga er það ævinlega tengt kaflanum í Ronju ræningjadóttur þar sem Ronja og Birkir finna villihestana í skóginum.

Einarsson mátar ...

... en finnst þetta ekki flott!!!

Stóru börnin fá enn einstaka handunnar gjafir þrátt fyrir allt litla fólkið sem fæðst hefur að undanförnu! Hér er María í sumarkjól sem ég saumaði og er ótrúlega stolt af! Ég byrjaði á honum kvöld eitt og gerði þá allt vitlaust og endaði á að henda því sem ég var búin með áður en ég fór að sofa (með tilheyrandi bölvi og ragni!). Ég átti sem betur fer enn nóg efni eftir í kjól (bara aðeins styttri) og byrjaði því aftur morguninn eftir og kláraði í eftirmiðdaginn.

Nærmynd af „smokkinu“ (ég veit ekki hvað svona rykkingar heita á íslensku ... kannski bara rykkingar?!) Þetta lítur töluvert flóknara út en það er. Í gamla daga voru svona rykkingar allar saumaðar í höndunum og voru mikil vinna en nútíma saumakonan notar teygjutvinna - með næstum sama árangri!

Svo kann ég líka að búa til ótrúlega falleg börn ... en við það verkefni fékk ég reyndar góða aðstoð!