Svipmyndir úr sumarfríi

Frá 7. júlí hefur fjölskyldan á Konsulentvägen 2 verið í sumarfríi - loksins! Þessi tími hefur einkennst af frostpinnaáti, sólböðum og sulli, kökubakstri, kærleika og hamingju! Hér eru nokkrar myndir ... eða réttara sagt alveg heill hellingur af myndum!

Við höfum verið dugleg að borða morgun- og hádegisverð úti á nýju stéttinni í sumarfríinu. Hvaða Konsulent er nú með undarlegasta munnsvipinn?!

Í byrjun sumarfrísins keypti ég mér nýja bakstursbók og í henni er að finna þessa uppskrift að dásamlegu gulrótarbrauði. Brauðið atarna hefur verið bakað nokkuð reglulega undanfarnar vikur og slegið í gegn hjá bæði fjölskyldumeðlimum og gestum!

Hér er bókin sem ber ábyrgð á næstum öllum bakstri mánaðarins! Ég er reyndar ekki viss um að hún Leila vinkona mín yrði ánægð með þessa mynd af sér þar sem hún virðist með alveg ógnarstórar mjaðmir og brjóst en pínulítið höfuð!!!

Loksins fékkst Hugi til að samþykkja að hjálpardekkin yrðu tekin undan. Hingað til hefur hann nefnilega alveg séð það í hendi sér að það hljóti að vera mun betra að vera með fjögur hjól en tvö! Hann var þó ekki lengi að ná tökum á hjólinu eftir að hjálpardekkjanna naut ekki lengur við og brunar nú um allt stoltur og glaður ... eins og myndin sýnir svo glöggt!

Sæti og duglegi hjólastrákurinn minn ... sem vill helst bara vera í loðfóðruðu gúmmístígvélunum sínum þessa dagana!

Þrátt fyrir velgengi í hjólamálum hafa nú einstaka slys orðið við æfingarnar og hér má til dæmis sjá eina sprungna vör.

Hjólað heim eftir Konsulentvägen.

Sumarkvöld í Vänge og Hugi spilar fótbolta úti í garði ...

... meðan við hin lögum sólberjasaft og bökum svo sólberjaköku úr afgangsberjum.

Kvöldkaffi á Konsulentvägen. Sólberjakakan var reyndar ekkert svakalega góð (sólber eru náttúrulega út af fyrir sig ekkert svakalega góð!) en saftið er alveg himneskt!

Einn fagran laugardag skelltum við okkur til Vaxholm ásamt Lindu, Sindra, Sindra Degi og Elínu Lilju til að horfa á sýningu á Ronju ræningjadóttur í kastalaganum. Sýningin fór fram undir beru lofti í afar viðeigandi umhverfi og við skemmtum okkur stórvel. Eftir leikhúsið skelltum við okkur í smá gönguferð í kringum kastalann sem liggur á sér eyju rétt fyrir utan Vaxholm. Hér er María í forgrunni við höfnina en mæðgurnar Linda og Ella fyrir aftan.

Í kringum kastalann er fullt af alls kyns fallbyssum sem börnunum þótti spennandi að skoða. María, Sindri Dagur og Ella reyndu að skjóta úr einni, sem betur fer án árangurs.

Kastalakóngur!

Svo sigldum við aftur yfir til Vaxholm og komum við á kaffihúsi áður en báðar fjölskyldurnar héldu heim, hvor í sína áttina þó: önnur með báti á leið til Stokkhólms, hin með bíl á leið til Uppsala.

Á leiðinni heim tókum við hins vegar skyndiákvörðun um að koma við í Sigtuna en það hefur verið á dagskránni hjá okkur ansi lengi ... eiginlega bara síðan við fluttum hingað. Sigtuna ku vera elsti bærinn í Svíþjóð og er rómaður fyrir gömul og vel varðveitt hús, litlar þröngar götur og árlegan jólamarkað. Við féllum fyrir bænum um leið og við stigum út úr bílnum! Hér erum við stödd í lítilli hliðargötu sem liggur milli aðalgötunnar og strandgötunnar sem liggur meðfram Mälaren (sem dyggir lesendur síðunnar vita náttúrulega að er þriðja stærsta vatnið í Svíþjóð!).

Tant Brun stóð vaktina fyrir utan samnefnt kaffihús. Tant Brun er þekkt sögupersóna úr bókum eftir Elsu Beskow (næstfrægasta barnabókahöfund Svía) sem fjalla um tant Grön, tant Brun och tant Gredelin. Tönturnar munu vera byggðar á móðursystrum Elsu sem bjuggu einmitt í Sigtuna.

Önnur lítil og sæt gata í Sigtuna.

Hugi bendir á mjööög skakkt og mjööög bleikt hús!

Við hjónaleysin í lítilli hliðargötu sem liggur frá aðalgötunni og niður að vatninu (sem sést þarna í fjarska). Einar er stórskaðaður á höfuðinu eftir garðvinnuna nokkrum dögum áður!

Skyldi þetta vera sætasta bíó í heimi? Þau gerast alla vega ekki mikið krúttlegri kvikmyndahúsanöfnin en „Græna hlaðan“!

Við vorum seint á ferðinni í Sigtuna og því búið að loka öllum búðum. Það gafst hins vegar einstakt tækifæri til að dást að húsunum sætu og þessari litlu og þröngu verslunargötu.

Ráðhúsið í Sigtuna er frá árinu 1744, bæði teiknað og byggt af bæjarstjóranum sjálfum! Nóttina eftir að það var vígt braust út eldur í bænum en ráðhúsið sjálft slapp og hýsti bæjarstjóra næstu 700 ár á eftir!

  

Við ráðhústorgið var lítill sætur veitingastaður, einnig nefndur eftir persónu úr bókunum góðu eftir Elsu Beskow, Farbror Blå. Þar settumst við fjölskyldan niður og nutum frábærra veitinga í óviðjafnalegu umhverfi. Maríu líkaði lífið vel!

Hugi bað mig sérstaklega um að taka mynd af sér að þykjast vera sofandi.

Farbror Blå á veitingastaðnum Farbror Blå!

Hugi sagði brandara með tilþrifum meðan við biðum eftir matnum ...

... og við mæðgurnar hlustuðum mátulega áhugasamar á!

Daginn eftir Sigtunaferðina bökuðum við þessa ótrúlega góðu böku með bæði rabarbara og hindberjum úr garðinum. Hugi greyið hafði lognast út af um sexleytið og var því ekki með þegar þessi mynd var tekin. Ilmurinn hefur þó þrengt sér inn í draumalandið og vakið hann því hann var kominn niður bara nokkrum mínútum síðar og borðaði böku með bestu lyst.

Stundum gefum við foreldrarnir okkur frí frá kvöldlestrinum og þá tekur María það að sér í staðinn að lesa fyrir litla bróður. Hér er það hin fræga landabók sem lesið er úr. Bókin er aðallega fræg fyrir þær sakir að í henni er mynd af áströlskum frumbyggja að dansa stríðsdans sem Hugi er hræddari við en allt annað! Einn morguninn nú í sumar vöknuðum við með andfælum við að Hugi var að öskra inni í sínu herbergi. Við héldum að eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir og hlupum inn til hans. Eftir að öskrin höfðu breyst í grát með ekka stundi hann því upp að hann hefði verið að skoða landabókina og óvart flett á blaðsíðuna með „hræðilega manninum.“ Bókin er hins vegar of vinsæl til að við getum fjarlægt hana með öllu þannig að lendingin var að líma ótal post-it miða yfir hræðilega manninn.

Nýja stéttin er ekki bara dásamleg fyrir þær sakir að við getum notið sólar fyrri part dags í garðinum heldur höfum við nú loksins eignast stað til að kríta á! Og eins og það sé ekki nóg þá hefur líka komið í ljós að steinarnir eru alveg fullkomnir að lögun til að gera fána á ... en fánalitun er eitt helsta áhugamál Huga um þessar mundir.

Mamman krítaði þessa mynd af börnunum sínum.

Tómatarnir á tómataplöntunum okkar eru óðum að þroskast. Það urðu mikil vatnaskil í lífi plantnanna þegar þær fengu loksins að flytja út nú í sumar eftir margra mánaða gluggaveru!

Rifsberjauppskeran okkar í ár er hins vegar alveg hörmuleg! Undanfarin tvö sumur hafa greinarnar svignað af berjum og við ekki haft undan að tína en nú er öldin önnur! Fyrir það fyrsta eru klasarnir fáir og í öðru lagi fá ber á hverjum klasa. Eitthvað virðast fuglarnir líka hafa komist í berin og auk þess hefur sést til lítils ljóshærðs stráks stelst í þau fáu sem eftir eru!

Hitabylgjan kom við hjá okkur í Svíþjóð á leið sinni til Íslands! Í heila viku gerðum við ekkert annað en að liggja í sólbaði, sulla og skvetta. Hér eru María og Hugi komin í laugina og hoppa fyrir ljósmyndarann.

Endalaust skemmtilegt!

Þessi krúttlega engispretta spilaði fallega tónlist fyrir mig þar sem ég lá í sólbaði á pallinum og las bók.

Ég vil taka það fram að við vorum hvorugt allsbert þegar þessi mynd var tekin jafnvel þótt hún gefi annað til kynna!

Mér finnst ég svo oft sjá skemmtilegar skýjamyndir hér í Svíþjóð en næ því miður sjaldnast að festa þær á filmu. Og á þessari mynd sem mér þó tókst að smella af eru skýin svo eiginlega í aukahlutverki þar sem þessi brjálæðsilega skökku hús sem líta út fyrir að vera að rúlla af stað niður brekku taka upp alla athyglina!

Um daginn fengum við Siggu í smá kveðjuhádegisverð áður en hún flutti til Íslands. Því miður gleymdist með öllu að taka myndir af heimsókninni fyrir utan þessa mynd sem ég tók af óbakaðri krusberjaböku sem ég bauð upp á. Nú langar mig mjög að vera með krusberjarunna í mínum garði!

Enn einn sólardagurinn í Vänge, enn eitt hoppmaraþonið í buslulauginni!

         

Hitastigið í lauginni steig úr 11-12° upp í 26° á einum sólarhring! Þar var því bara notalegt og svalandi að svamla um í hitanum.

         

Gaman er að lifa!

Uppi á palli sat Einar og hafði vakandi auga með börnunum. Takið sérstaklega eftir að húð hans virðist meira sjálfslýsandi en snjakahvíta sólhlífin!

Hugi æfði kafsund af miklu kappi í sumarblíðunni. Hér hafði hann sérstaklega beðið mig að taka mynd af þeim stórkostlega árangri sem hann hafði náð! Mögulega er það bara höndin sem heldur fyrir nefið og hárlokkur úr toppnum sem í raun fer undir vatnsyfirborðið!

Svalandi mango lassi í skugganum undir sólhlífinni.

Feðginin eldspræk í sólinni.

Samvaxið þríburajarðaber!

Við borðum næstum engan mat þessa dagana nema hann hafi farið á grillið fyrst! Hefur þetta mikla grillæði okkar Íslendinganna vakið athygli og undrun hér í Vänge! Kannski hefur hluti af þeim viðbrögðum verið vegna þess að við erum yfirleitt að kveikja í grillinu þegar sænskir góðborgarar í húsunum í kring eru að draga fyrir og slökkva ljósin fyrir nóttina!!!

Grillaðir hamborgarar á la Einar ... namm!

  

Bingó í kvöldsólinni. Bingóstjórinn stynur enda er voðalega flókið að átta sig á því hvor tiltekin tala sé sextíuogfimm eða fimmtíuogsex ... nema þetta sé kannski níutíuogfimm eða fimmtíuogníu. Eins gott að pabbi situr við hliðina á og getur aðstoðað mann í svona klemmu!

Þann 26. júlí áttum við tveggja ára Svíþjóðarafmæli! Þeim áfanga fögnuðum við daglangt á pallinum í yfir 30° hita og sól. Dagurinn var reyndar daumadagur fyrir Huga að öðru leyti því um morguninn hafði hann loks fengið leyfi til að láta langþráðan draum um að eignast kafaraútbúnað rætast! Hér er hann vel útbúinn fyrir kafsund í 15 cm djúpu laugarvatninu!

Takið eftir að þrátt fyrir allar græjurnar hefur köfunarstíllinn lítið breyst!

María fékk að prófa líka ...

... og beitti svipaðri tækni og litli bróðir!

Við fengum okkur síðbúinn hádegisverð á pallinum og í tilefni dagsins reyndi ég að endurskapa fyrsta drykkinn sem ég drakk á sænskri grundu, bláberjamojito (reyndar átti ég engin bláber og notaði nokkur rifsber í staðinn). Myndir af mér að drekka bláberjamojito og öðrum viðburðum fyrstu dagana okkar í Svíþjóð má sjá í þessu albúmi.

Sælir og glaðir Konsulentar í sumarsólinni.

Grilluð bruschetta er viðeigandi hádegisverður í svona hita.

Og að sjálfsögðu má borða eins marga frostpinna og mann bara langar á dögum sem þessum.

Eftir því sem leið á daginn urðu systkinin flinkari og flinkari í kafsundinu!

Um kvöldið var hátíðarkvöldverður á pallinum. Þrá mín eftir hvítlauksristuðum humarhölum eykst með hverjum deginum en humarhala virðist ómögulegt að fá í Svíþjóð. Í staðinn keyptum við risarækjur og prófuðum að grilla þær með sömu aðferð. Árangurinn varð því miður ekkert í samræmi við íslensku humarhalana! Rækjurnar keyptum við frá fiskbílnum sem ekur um íbúðahverfi og selur fisk eins og ísbíllinn! Að vísu kemur ísbíllinn vikulega en fiskbíllinn bara á fjögurra mánaða fresti.

Við þrjú, ég, Einar og María skáluðum fyrir Svíþjóð en Hugi hrópaði: „Skál fyrir Írlandi af því það hefur unnið Eurovision tvö ár í röð“!!! Eurovisionæðið ætlar engan enda að taka en rétt er að taka það fram að hann hefur eiginlega bara landfræðilegan áhuga á keppninni, lögin og flytjendurnir skipta hann engu!

Í eftirrétt var himnesk súkkulaðikaka, ís og hindber úr garðinum! Dásamlegt!

Daginn eftir héldum við til Fjällnora til að baða og sóla. Systkinin vildu ólm prófa köfunarútbúnaðinn í alvöru hákarlavatni og hér er Einar að aðstoða þau. Í fjarska sést stökkbrettið á flotbryggjunni og fullt af sóldýrkandi Svíum.

María á orðið gríðarstórt safn sundfata sem hún fær vonandi tækifæri til að nota sem mest það sem eftir lifir sumri!

Feðgarnir á leið upp á land eftir köfunartúr.

Ávallt viðbúinn!

Haldiði ekki að María sé farin að drekka gos svona á gamals aldri! Að vísu getur hún ekki hugsað sér að drekka neitt nema Fanta og er þá iðullega frekar grettin á svip en uppástendur að sér þyki þetta samt mjög gott!

Systkinin borða epli uppi á steini.

María gerir sig klára í eina köfunarferðina enn. Vatnið var 23° heitt og því bara notalegt að svamla þar í hitanum.

Durumm, durumm, durumm ...

Það er heldur betur munur á köfunarstílnum frá því bara örfáum dögum áður!

Það er samt notalegt eftir sundsprettinn að koma upp úr og vefja sig handklæði og láta svo sólina verma og þurrka kroppinn meðan maður fylgist með mannlífinu á ströndinni.

Við föttuðum allt of seint að hafa krakkana í stuttermabolunum sínum úti í vatninu. Þegar við héldum heim vorum því orðin skíthrædd um að þau væru skaðbrunninn en sem betur fer reyndist það ekki svo. Sólin var hins vegar mun sterkari þarna við vatnið en á pallinum hér heima svo við munum gæta okkar mjög næst þegar við förum til Fjällnora að maka sterkri sólarvörn á börnin á kortersfresti.

Maríu þykir afskaplega skemmtilegt að fá að útbúa svona jógúrtdrykk handa þeim systkinunum í hádegismat. Og okkur Einari þykja þau algjörar dúllur þar sem þau sitja hvort með sitt glas og sötra.

Nú er júlí búinn en sem betur fer er enn dálítið eftir af sumarfríinu okkar! Við sjáumst í ágúst!