Undir eplatrjánum!!!

Nú höfum við fjölskyldan hafið líf okkar undir eplatrjánum í Svíþjóð! Hér koma nokkrar myndir frá fyrstu dögunum okkar sem Uppsalabúar!

26. júlí

  

Við flugum út til fyrirheitnalandsins eldsnemma að morgni 26.júlí eftir svefnlitla nótt (við foreldrarnir vorum reyndar algjörlega svefnlaus!). Eftir lendingu á Arlanda flugvelli sóttum við bílaleigubíl og brunuðum inn til Uppsala. Fyrsti viðkomustaður okkar var útibú Nordea bankans en þar átti að fara fram afsal vegna hússins okkar. Fundurinn gekk stórslysalaust og aðeins nokkrum klukkustundum eftir komuna til landsins vorum við orðnir húseigendur þar! Því var fagnað á frábærum veitingastað niðri við ána! Maríu og Huga leist vel á sig í nýrri heimaborg enda varla annað hægt þar sem sólin skein glatt og 30° hitinn yljaði manni á sál og líkama eftir langvinnt rigningarsumar í Reykjavík!

María tók þessa mynd af okkur Huga!

Einar er þegar orðinn góðkunningi starfsmanna Nordea útibúsins ... ef til vill vegna þess að honum virðist ævinlega fylgja einhver misskilningur og létt klúður!!!

Mér fannst við hæfi að fagna litla sæta húsinu mínu með einum svalandi bláberja mojito!!! Svona drykk munu allir mínir gestir hér í Uppsölum þurfa að neyða ofan í sig þar sem ég mun nota allar heimsóknir sem átyllur fyrir að svolgra hann í mig!

Það ætti þó ekki að vera mikil þrautaganga ... þetta er besti drykkur í heimi!!! (Ég minni á að ég var ekkert búin að sofa í einn og hálfan sólarhring þegar þessi mynd var tekin!)

Eins og lesendur ef til vill sjá á þessari mynd eru Uppsalir einstaklega fallegur bær. Áin sem rennur í gegnum hann heitir Fyrisån og er til mikillar prýði. Gamli bærinn í kringum háskólann er líka sérdeilis notalegur og sætur!

Eftir að allir voru orðnir mettir var haldið „heim“ á Konsulentvägen! Húsið olli okkur engum vonbrigðum, þaðan af síður garðurinn!

27. júlí

Fyrstu dagarnir á Konsulentvägen voru heldur tómlegir! Við fengum fjóra hermannabedda lánaða fyrsta kvöldið og þeir voru einu húsgögnin í þessu tæplega 140 fermetra húsi! Við sváfum reyndar ljómandi vel á beddunum en útilegustemmningin var töluvert þreytandi til lengdar! Fyrstu næturnar sváfum við öll saman í stofunni en færðum okkur svo hvert í sitt herbergi nokkrum dögum síðar.

Þessi ótrúlega sæti erlufugl kom með mér frá Íslandi! Hann stendur í gluggakistunni þannig að laufskrúðið beri við og minnir mig á eftirlætisfuglategundina mína, maríuerlur!

María í galtómu eldhúsi! Eldhúsið var allt tekið í gegn fyrir um einu og hálfu ári síðan og er óskaplega fínt og vel tækjum búið! Þar eins og víða annars staðar í húsinu þurfti hins vegar að útrýma veggfóðri en Svíarnir hafa mikið dálæti á því svo ekki sé meira sagt!

Hugi skellti sér út í garð með Litla hund og týndi rifsber ...

... á meðan María systir hans skoðaði hindberjarunnana. Í garðinum okkar er auk þess að finna sólber ... en þeim erum við nú vön að heiman!

Hádegishressingin snædd á eldhúsgólfinu ...

... og litað á stofugólfinu!

Einar skoðar símaskrár og kort og skipuleggur ferðir fjölskyldunnar þennan dag!

Þessi fyrsti heili dagur okkar í Uppsölum fór í ýmsar útréttingar þar sem meðal annars var sótt um kennitölu hjá skattapínunni! Það var gott að setjast inn á kaffihús í hitanum og fá sér svaladrykki og gott kaffi!

28. júlí

Næsti dagur fór að sjálfsögðu einnig í ýmsar útréttingar! Meðal annars þurfti að skrifa undir eyðublöð til að hægt yrði að leysa gáminn út úr tollinum. Til þess þurfti að komast í nettengda tölvu og því hófst mikið þramm um bæinn í leit að slíkum kostagrip! Þarna eru systkinin hress og kát í garði rétt við höllina (Uppsalir státa líka af höll!) en fyrsti viðkomustaður okkar var háskólabókasafnið sem er þar rétt við.

Á háskólabókasafninu fannst engin tölva en hins vegar afar notalegt kaffihús! Þar plantaði fjölskyldan sér, sötraði kaffi, sleikti ís og lagði á ráðin um næstu skref!

Einar hafði enga ástæðu til að vera svona þungur á brún því skömmu seinna fannst nettengd tölva og prentari á öðru bókasafni! Þar með var því bjargað og hægt að fara í enn eina Ikea ferðina!

Kvöldmaturinn var snæddur á veitingastað í miðbænum enda engin áhöld til að elda með heima! Hugi gerði brandara ...

... sem Maríu fannst mjög fyndinn!!!

Fyrstu húsgögnin keyptum við að kvöldi þessa dags ... garðhúsgögn á pallinn! Að sjálfsögðu var farið að rigna og því ekki sem þægilegast að sitja úti. Feðgarnir létu það ekki á sig fá enda fegnir að gera tyllt sér annars staðar en á linan hermannabedda eða klósettsetu!

29. júlí

Morguninn eftir var klárað að setja garðhúsgögnin upp. Hér er Einar að baksa með sólhlífina!

Mikil var gleði okkar að geta loksins setið á almennilegum stólum og það við borð! Ekki spillti sólhlífin fallega fyrir gleðinni! Að sjálfsögðu byrjaði þó að rigna aftur nokkurn veginn um leið og allt var klárt!

Í garðinum okkar eru þrjú eplatré. Eitt er með vetrareplum og ber fáa ávexti, eitt er með ljósgulum eplum sem eru óðum að verða þroskuð núna og loks tréð sem sést á myndinni sem gjörsamlega svignar undan eplum sem þó eru ekki alveg tilbúin. Það verður nóg að gera hjá okkur við eplatínslu fram eftir hausti!

Ótrúlega fallegt!!!

Ég er sérstaklega ánægð með hindberjarunnann í garðinum enda eru hindber uppáhalds ber okkar Maríu. Því miður virtist tími þeirra að mestu liðinn þegar við komum þar sem fá voru eftir á runnunum en þau voru að sjálfsögðu tínd hið snarasta!

Konsulentvägen 2, 74020 Vänge, Sverige!

Fyrsti pósturinn kominn í litla bláa póstkassann okkar!

Bílaleigubíllinn sem við vorum með fyrstu dagana reyndist ómetanlegur í öllu því stússi sem fylgir því að koma sér fyrir í nýju landi og á nýju heimili. Ég veit ekki hvar við hefðum verið án hans! Hér erum við sjálfsagt að leggja af stað í enn eina Ikea ferðina!!!

30. júlí

  

Sunnudaginn eftir að við komum var veðrið hreint út sagt frábært og því tilvalið að María og Hugi vígðu nýju buslulaugina sína með stæl í garðinum! Það voru svo sannarlega alsæl systkin sem busluðu í ísköldu vatni þennan dag!

Foreldrarnir settust líka út í sólina milli málningarumferða innanhúss!

Er ekki eitthvað sérstaklega fallegt við það að busla í sólinni undir eplatré?!

Dálítið vont að labba berfættur í mölinni upp að húsinu og maður þarf að telja í sig kjark áður en lagt er af stað!

María gerir fyndið!

Feðgin í sólskinsskapi enda ekki annað hægt þegar veðrið er svona gott, stór fiðrildi flögra um allt og fuglasöngur berst af hverri grein!

Hugi var auðvitað líka alsæll!

Sætasti strákurinn í Svíþjóð ...

... og sætasta stelpan!

Síðdegis fórum við í kaffisölu sem við höfðum séð auglýsta á ferðum okkar um þjóðveginn. Í ljós kom að um er að ræða sætustu veitingasölu í allri Svíþjóð ... án nokkurs vafa! Gömlum sveitabæ, Ekeby By, sem minnir einna mest á Kattholtið hans Emils, hefur verið breytt í eins konar byggðasafn þar sem hægt er að skoða híbýli og verkfæri frá fornu fari. Í einu rauðmáluðu húsanna er svo selt kaffi, heimalagað hindberjasaft og heimabakaðar kökur, bollur og smákökur. Þegar okkur bar að garði voru tvær gamlar konur að afgreiða, önnur berfætt! Eftir að hafa keypt af þeim saft og kaffi settumst við út í góða veðrið, nutum umhverfisins og höfðum það svo ósköp gott!

Húsfreyjan á Konsulentvägen var alsæl með sænsku veitingarnar!

Helsti markhópur Ekeby By virðist vera fólk um og yfir sjötugu og skutum við fjölskyldan því skökku við þarna í garðinum!

Á lítilli hæð ofan við bæinn stendur óskaplega falleg mylla og að sjálfsögðu gátum við ekki látið vera að skoða hana örlítið nánar!

Ef ég vil eiga einhverjar myndir af mér verð ég víst að sjá um þær sjálf!

Á leiðinni upp að myllunni þurftum við að ganga í gegnum mikið hunangsfluguger. Síst skárra tók við þegar toppnum var náð og systkinin sjást hér gaumgæfa aðra pöddutegund ...

... maura!!! Í þúsundatali skriðu þeir um allt og fyrr en varði voru þeir komnir upp leggina á okkur og farnir að bíta Maríu!!!

  

Fjölskyldan flúði því í ofboði niður aftur!

Niðri við Ekeby By stendur skrælnuð midsommarstang!

Á þennan stað (ásamt þeim sem selur bláberjamojitoinn) verða allir mínir gestir dregnir!!!

Skordýralífið hérna er nokkuð fjölskrúðugt! Hér að ofan hefur verið minnst á fiðrildi, hunangsflugur og maura en geitungar eru líka mjög áberandi! Innan við 10 mínútum eftir að við komum á Konsulentvägen var Hugi stunginn af einum slíkum og frá því þá hefur okkur ekki staðið alveg á sama! Geitungarnir hér eru líka mun árásargjarnari, kvikari og leiðinlegri en heima. Því var brugðið á það ráð að kaupa geitungagildru á pallinn sem virkar sem betur fer vel! Hér sést einn félagi svamla um í hunanginu sem við notum sem beitu!

María undir eplatrjánum!

Þessi sæta stelpa ætlar að byrja í skóla eftir nokkra daga!!!

Huga langar auðvitað líka til að byrja í skóla en verður þó að láta leikskólann duga næstu tvö árin!

  

Rétt við húsið okkar er þessi risastóra rennibraut sem vakið hefur mikla lukku hjá systkinunum!

Í einni af fjölmörgum Bauhausferðum okkar keyptum við þetta óskaplega fína grill!

Fyrsta heimalagaða máltíðin snædd!

Við vonum að fjölskyldulífið fari óðum að færast í eðlilegt horf og þessi máltíð var einn liðurinn í því!

31. júlí

Til að byrja með voru eldhúsáhöld af skornum skammti og neyddin kenndi naktri konu að spinna ... og manni að skera lauk með leatherman!

Hugi er ánægður með rólurnar í garðinum!!!

Hugi Einarsson Uppsalabúi!