Sumarvindar

Hér á Konsulentvägen hafa frísklegir sumarvindar blásið undanfarnar vikur. Þeir hafa sveiflað krónu bjarkarinnar til og frá, blásið sænskum og íslenskum fánum baráttuanda í brjóst og feykt okkur mannfólkinu í nýjar áttir.

Þann 11. júní voru merk tímamót hjá Maríu sem lauk þá formlega veru sinni í 1. bekk A í Vänge Skola. Hér tekur hún á móti viðurkenningu frá Kajsu kennara og fær handgert sumarkort frá Ceciliu ...

... og þiggur auk þess almennilegt bangsaknús! Það voru ekkert smá stoltir foreldrar og litli bróðir sem klöppuðu þessari duglegu stúlku lof í lófa!

  

Eftir kveðjuathöfn í kennslustofunni var hefðbundin skemmtun á útisviði skólans. Að þessu sinni var það 6. bekkur sem sá um fjörið svona til að kveðja gamla skólann sinn áður en þau halda í gagnfræðaskóla inni í Uppsölum í haust. Þau rifjuðu upp gamla tíma og endurfluttu meðal annars atriðið sem þau höfðu flutt á jólaskemmtun í 1. bekk þar sem þau léku froska og grísi!

Og að því loknu lá auðvitað beinast við að bjóða núverandi 1. bekk velkominn á sviðið til að flytja tvö lög! Kannski þau eigi eftir að endurflytja þetta atriði að fimm árum liðnum með voteyga foreldra í áhorfendahópi?!

Að lokum var það svo rektor Holger sem sleit skólanum formlega. Því miður flutti hann ekki frumsamið ljóð í þetta sinn en þess í stað lét hann falla nokkur inspíreruð og ljóðræn orð um allt það sem útskriftarnemarnir þurfa að huga að á næstu árum.

Þann 13. júní kom Una Björk í heimsókn til okkar - aftur!!! Við Konsulentarnir gleðjumst mjög yfir tíðum ferðum heilbrigðisráðuneytisins á ráðstefnur og fundi í Stokkhólmi! Hér er gesturinn ljúfi að snæða nautasteik með heimagerðu pestói og bakaðri kartöflu. Við kvöddum hana svo morguninn eftir þegar hún sneri aftur heim, reynslunni ríkari um norræn almannatryggingamál og töskunni þyngri!

Hér á heimilinu hefur ríkt gífurlegt fánaæði undanfarnar vikur! Börnin sitja löngum stundum við borðstofuborðið og lita fána auk þess sem Hugi tekur sig til inn á milli og litar landakort!

Okkur þótti nú samt nóg um þegar hann var farinn að vakna eldsnemma og setjast við fánagerðina í dagrenningu áður en aðrir heimilismenn voru komnir á fætur!

Bóndarósin mín er útsprungin en nú ber svo við að hún er allt í einu einkrýnd þótt hún hafi verið fjölkrýnd í fyrra!!! Ég skil hvorki upp né niður í þessu, hélt að þetta færi algjörlega eftir tegundum, sumar væru fjölkrýndar og sumar ekki og ómögulegt væri fyrir einu og sömu plöntuna að svissa þarna á milli. Ef einhver lesandi getur útskýrt þessa stökkbreytingu fyrir mér væri það vel þegið! (Og ef þið trúið mér ekki getið þið skoðað þetta albúm frá því í fyrra til að sjá myndir af bóndarósinni í fjölkrýndu ástandi!)

Hér eru svo tómataplöntur heimilisins úti að viðra sig og fá sér smá sólbað. Við treystum þeim ekki til að flytja út fyrr en næturhitinn hefur stigið lítið eitt aðeins til viðbótar. Þarna sjást líka dalíurnar sem merkilegt nokk eru enn við góða heilsu! Ljósbleikublómin sem þarna sjást voru orðin gömul og eru því dálítið skrælnuð en plantan er eldhress og blómstrar af krafti! Nú hef ég meira að segja gerst svo vongóð að ég keypti mér risastóra dalíu sem ég ætla að setja út þegar rokinu slotar lítið eitt.

Sunnudag einn í júní skelltum við fjölskyldan okkur til Skokloster. Hér erum við á leiðinni upp að hvítu höllinni ...

... framhjá kirkjunni og kirkjugarðinum.

Þarna undir turninum settumst við niður til að njóta veitinga á kaffihúsi staðarins.

         

Systkinin voru hress og kát og létu frískan sumarvindinn (lesist: hífandi rokið!) ekkert á sig fá.

Eftir góðan málsverð skoðuðum við okkur aðeins um í höllinni. Næst þegar við förum til Skokloster er ég staðráðin í því að fá leiðsögn um innstu afkima hallarinnar sem mér virtist mjög svo spennandi en lagði ekki í að bjóða börnunum upp á að þessu sinni. Við fórum líka í göngutúr um hallargarðinn og enduðum niðri við bakka Mälaren.

Þar gerðust hins vegar voveiflegir atburðir!!! Þar sem ég stóð og horfði út yfir vatnið sá ég hvar snákur liðaðist um í sefinu fyrir neðan og rétt eftir að hann hvarf sjónum sá María hvar annar snákur lá hringaður undir steini. Brrrrrrr ... ég fæ hroll bara af að skrifa um þetta! Þarna sjáið þið glitta í hann ... oj, hvað hann er ógeðslegur!!! Rétt eftir að ég smellti myndinni af skreið þessi líka hljóðlaust í burtu og þá fannst mér ég allt í einu ekki geta verið lengur þarna niðri við vatnið og átti von á snák að hringa sig upp fótlegginn á mér á hverri stundu! Við snerum því aftur í bílinn og munum gæta þess mjög að setjast ekkert niðri við vatnið næst þegar við sækjum Skokloster heim!

Á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga þann 17. júní stóð Íslendingafélagið hér í Uppsölum fyrir grilli í Stadsskogen. Þarna eru grillmeistararnir Einar og Össi að störfum við gríðarlega erfiðar aðstæður! María fylgist áhugasöm með.

Meðan beðið var eftir pulsunum skelltu systkinin sér á þennan gormahest sem miðað við allt og allt virðist vera ætlaður töluvert minni börnum en þeim!

María brosir í kvöldsólinni (með pulsubita í kinninni).

Þegar allir voru orðnir mettir tóku Pálmi og Össi fram gítarana og svo voru þjóðlögin sungin af miklum móð í skógarrjóðrinu!

Og auðvitað voru allir með íslenska fánann á lofti!

Ekki veit ég nú fyrir víst hvort þessi hundur var íslenskur en mér finnst alla vega að hann gæti auðveldlega heiti Kátur!

Svo var farið í leiki ...

... og reipitog í kvöldsólinni.

Stelpur á móti strákum!

Og svo fékk ég aðeins að knúsa Litla bróður Jóhönnu- og Gíslason. (Ég veit reyndar alveg hvað hann heitir en þið megið ekki vita það ... na-na-na-bú-bú!) Verst að það sést ekki fyrir þessari stöng hvað hann er ómótstæðilega sætur!

Ég er að reyna að endurvinna gamla ritgerð upp í grein og um daginn áttaði ég mig á því að einn kaflinn var í algjörri óreiðu. Mér fannst ég ekki hafa nægilega yfirsýn yfir hann með því að skrolla bara upp og niður í tölvunni þannig að ég prentaði hann út, klippti hann allan í sundur og límdi svo saman samkvæmt nýjum hugmyndum! Blaðið varð auðvitað svo langt að það var ekki hægt að geyma það neins staðar nema hangandi uppi á vegg!

Við (eða alla vega ég!) erum búin að kvíða lengi fyrir því að kveðja leikskólann hans Huga. Þann 19. júní var síðasti dagurinn hans og við vildum kveðja starfsfólkið almennilega og segja þeim hvað við erum þakklát fyrir að hafa lent einmitt hjá þeim. Eftir næstsíðasta skóladaginn hans Huga dreif ég þau systkinin því með mér í smá föndurstund!

Fyrst rúlluðum við endalaust magn af litlum kúlum úr silkipappír ...

Svo límdum við þær í „blómakrans“ á grænt kort, Hugi skrifaði „Glad sommar“ í miðjuna og við Einar útbjuggum svo hugglegan og mátulega væminn texta til að skrifa inn í kortin!

Kortin fylgdu svo þessum lillabláu pelargónum sem við færðum öllum fóstrunum hans morguninn eftir á síðasta skóladegi Huga á Hemmings förskola!

Og hér er hann, útskriftardrengurinn okkar, eftir síðasta daginn sinn sem leikskólastrákur! Tímamótunum var auðvitað fagnað með risakanelbulla á Café Linné!

Systkinin saman ... takið eftir að þessi riiiisastóru kanelbulla eru þegar horfin!

Eftir kaffihúsaferðina komum við við í Linnégarðinum og hér stillir útskriftardrengurinn sér upp, íklæddur sömu peysu og hann var í fyrsta daginn sinn á Hemmingsförskola. Hendurnar standa hressilega fram úr ermunum, alveg eins og þessi litli strákur hefur farið fram úr öllum þeim væntingum sem við þorðum að gera okkur fyrir tveimur árum þegar hann byrjaði í nýjum skóla, í nýju landi þar sem talað var nýtt tungumál!

Við litlu tjörnina fyrir miðjum garðinum er margt að sjá og systkinin hefðu alveg getað legið á bakka hennar og horft út í vatnið í leit að smáseiðum, ormum og salamöndrum fram á kvöld!

Ég hafði hins vegar mestan áhuga á vatnaliljunum sem eru alveg að fara að springa út!

Midsommarafton er einn stærsti hátíðisdagur Svía. Þá kemur fólk saman, reisir maístöng sem dansað er í kringum (sömu dansar og dansaðir eru kringum jólatréð!) og fjölskyldurnar hittast og borða hátíðarmat (sami matur og borðaður er á jólum og páskum ... hvar er fjölbreytnin?!). Þetta er í fyrsta sinn sem við Konsulentarnir erum í Svíþjóð á Midsommar og við vorum nú að hugsa um að gera sem mest lítið, kannski grilla góðan mat á pallinum og borða färskpotatis! Þá vorum við óvænt boðin í midsommarfest til nágranna okkar, Lars Uve og Kerstin. Það er nefnilega þannig að Lars Uve á dóttur sem flutti til Íslands á nákvæmlega sama tíma og við fluttum til Svíþjóðar! Dóttirin, Martina, og barnabörnin, Tuva og Bjarki (sem eru hálfíslensk), heimsækja gamla landið reglulega og búa þá hér í næsta húsi og þannig kynntumst við. Lars Uve og Kerstin eru okkur afskaplega góð og vilja allt fyrir okkur gera. Þetta er ekki í fyrsta sinn og örugglega ekki það síðast sem þau bjóða okkur til veislu! Hér er Kerstin að bjóða Gary frá San Fransico velkominn og þarna fyrir aftan er Lars Uve og sonur Kerstinar, Kalle.

Hugi sat prúður og sommarfínn í grasinu og hlustaði á ræðuhöld.

Tuva og María eru jafngamlar og tala báðar sænsku og íslensku, önnur íslensk og býr í Svíþjóð, hin bæði íslensk og sænsk og býr á Íslandi. Skemmtilegar þessar tilviljanir!

Agnes litla var auðvitað miðpunktur athyglinnar! Agnes er dóttir Jenny sem er hin dóttir Lars Uve, sem sagt systir Martinu sem býr núna á Íslandi. Flókið?!

Fjórar sætar stelpur í hengirúminu, María og Tuva og Karin og Titti sem eru dætur Kerstinar. Í bakgrunni sést svo Anette sem er mamma systranna Martinu og Jenny, sem sagt fyrri eiginkona Lars Uve. Flókið?!

Börnin fengu að hafa sitt eigið pikknikk á grasflötinni og gæddu sér á góðu veitingunum.

Við fullorðna fólkið borðuðum á langborði undir eplatrjánum og Lars Uve gekk um og skenkti snapsa. Sem sagt, en riktig skön midsommarafton! Okkur finnst við ekkert smá heppin að eiga svona góða nágranna sem bjóða okkur að taka þátt í svona skemmtilegri veislu!

Hugi var líka alsæll og undi hag sínum vel í körfustólnum fram eftir kvöldi. Nú er þessi sæti strákur kominn í sumarfrí og systir hans líka. Mamman ætlar að halda áfram að klippa og líma greinina í tvær vikur í viðbót en þá fer pabbinn í sumarfrí líka. Og þá má sumarvindinum slota, sólin brjótast fram og baka okkur og ylja næstu fimm vikurnar!!!