Snjór og sætindi

Við vorum alveg jafn léleg í ljósmyndun í febrúar og við vorum í janúar! Það sem flestar þeirra fáu mynda sem teknar voru eiga sameiginlegt er hins vegar að það er annað hvort verið að stunda einhverjar vetraríþróttir á þeim eða borða kökur!

Við byrjum hins vegar mánuðinn í kirkjunni í Läby þar sem María söng í fjölskylduguðsþjónustu þann 8. febrúar ásamt barnakórnum sínum sem nú hefur fengið hið fína nafn Himlakören. Að vanda stóðu þau sig með prýði.

Í Läby virðast menn telja að Kristur hafi verið danskur!

Að messu lokinni stóð heimasíðustjórinn fyrir því að taka nýjar forsíðumyndir af fjölskyldumeðlimum. Afraksturinn af þeirri myndatöku hafið þið auðvitað séð fyrir löngu síðan. Það sem ekki sést á forsíðunni er hins vegar þegar við borðuðum góðu jarðaberjatertuna að verki loknu!

María og Hugi eru auðvitað þaulvanar fyrirsætur og áttu svo sannarlega skilið eina eða tvær sneiðar af tertunni í verðlaun fyrir vel unnin störf! Þess má geta að þessi girnilega jarðaberjaterta er næstum því heilsukaka!

Feðgarnir voru hressir, sérstaklega var þó Einar ánægður með að húsmóðirin skyldi strax eftir fyrstu lotu sætta sig við myndirnar sem hann tók af henni!

Við mæðgurnar vorum líka hressar enda alltaf þungu fargi létt af heimasíðustjóranum þegar þessum skyldustörfum er lokið!

Lítið gleður vesælan! Ég elska Ramlösa sódavatn og drekk marga, marga lítra af því á viku. Uppáhaldsbragðtegundirnar mínar eru granatepli og kaktus. Ég hef hins vegar lengi beðið spennt eftir nýju bragði enda dálítið síðan vinir mínir hjá Ramlösa brydduðu síðast upp á nýjungum. Daginn áður en þessi mynd var tekin hafði ég verið ein í smá búðarferð og ákvað að ganga gosganginn þótt ég ætti nægar byrgðir af sódavatni bara svona ef ske kynni að komið væri nýtt bragð. Í huganum hló ég að því hvað ég væri ótrúlega kjánaleg ... alveg þangað til ég rak augun í áður óþekktan miða á flöskunum í hillunni! Viti menn, Ramlösa með mangóbragði hafði litið dagsins ljós! Ég var himinlifandi og enn kátari þegar ég komst að því að mangósódavatnið er svo gott að það kemst hæglega á topplistann!

Þann 9. febrúar átti ég afmæli! Ég fékk marga, marga fína afmælispakka, meðal annars þessi glös frá Einari sem ég kalla gæsaglösin en hann vill meina að séu svanaglös. Lesendur eru vinsamlega beðnir að leggja sitt álit í púkk í kommentakerfinu!

Glösin eru framleidd af Smålands glasbruk sem ég held að sé ekki til lengur og eru frá því í kringum 1960. Mynstrið minnir mig endalaust mikið á söguna af Nils Holgersson eftir Selmu Lagerlöf (þar af leiðir að fuglinn getur bara verið gæs frá mínum sjónarhóli!), ekki síst barnaþættina sem gerðir voru eftir henni og sýndir í Ríkissjónvarpinu fyrir rúmum 25 árum síðan. Í upphafsatriðinu sást Nils einmitt fljúga á gæsinni yfir stjörnubjartan himin og lagið sem spilað var undir hljómar í eyrum mér í hvert sinn sem ég lít glösin augum! Að vísu man ég að mér þóttu þetta ákaflega leiðinlegir þættir en eins og með svo margt annað eru þeir nú hjúpaðir dýrðarljóma æskunnar! Og glösin eru æði!

Upp úr pakka frá mömmu minni kom meðal annars þetta dásamlega silkigarn í fimm mismunandi litum.

Eftir skemmtilega afmælisbæjarferð (sem þó var í styttri kantinum þar sem það var óóógeðslega kalt úti!) komum við heim og fengum okkur hina dásamlegu bökuðu ostaköku með hvítu súkkulaði. Það eru margir, margir mánuðir síðan ég bakaði hana síðast og ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið kærir endurfundir!

Daginn eftir afmælið mitt var allt hrímað utandyra. Það tókst hins vegar ekki alveg nógu vel að festa það á filmu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

         

Á sjálfan Alla hjärtans dag var dásamlegt veður, heiðskírt og hörkufrost, og við Konsulentarnir ákváðum að skella okkur í snjóþotuferð í Hammarskogen. Hér er María á leið upp brekkuna eftir sína fyrstu salíbunu.

Ég held bara að þetta sé hin fullkomna snjóþotubrekka, löng og mátulega brött og svo er útsýnið auvitað óviðjafnanlegt á svona góðum degi sem þessum.

Hugi var ekki alveg jafnspenntur fyrir snjóþotunum í þetta sinn eins og síðast þegar við fórum (sjá hér). Honum fannst við nefnilega svo hræðilegir foreldrar að hafa neytt hann til að vera með lambhúshettuna því hann var alveg sannfærður um að allir færu að hlæja að sér. Hann mýktist þó upp þegar í ljós kom að samrennurum okkar hefði ekki getað staðið meira á sama um höfuðbúnað hans!

Það sést því miður ekki á myndinni en úti á Mälaren var fullt af fólki á skautum. Í góðu færi er rudd braut milli Hammarskogen og Sunnersta og svo skautar fólk á milli á svo kölluðum langferðaskautum. Reyndar er líka hægt að fara milli Uppsala og Stokkhólms á skautum ef Mälaren frýs nægilega og haldin árleg keppni í slíkum hetjuskap. Gott ef hún var ekki einmitt daginn eftir að þessar myndir voru teknar.

Hugi spáir í næstu ferð.

Við í frostinu. Kraginn minn og húfan hans Einars eru prjónuð úr sama garninu og við erum því ægilega lummulegt par í stíl!

Þegar allir voru búnir að renna nóg fengum við okkur nesti, heitt kakó og kaffi á brúsa, kex og kökur.

Ég held að mazarínur séu kellingalegustu kökur í heimi en hef engu að síður tekið gríðarlegu ástfóstri við þær!

Við urðum heldur betur undrandi einn daginn þegar við fundum langa dröfnótta fjöður í garðinum okkar enda könnuðumst við ekki við á hafa fengið heimsókn af nokkrum slíkum fugli. Daginn eftir var leynigesturinn þó afhjúpaður þegar við sáum fasanahænu á stjákli í snjónum.

Við höfum ekki hugmynd um hvað hún var að gera svona inni í miðri byggð en hún hefur verið reglulegur gestur síðan og er meðal annars búin að éta upp grænkálshaus í matjurtabeðinu okkar sem hafði lifað bæði frost og snjó af.

Við tókum bolludaginn snemma í ár og Einar bakaði hinar hefðbundnu vatnsdeigsbollur degi of snemma. Hugi var voðalega eitthvað miður sín þegar þessi mynd var tekin en ég er nú ekki betri mamma en svo að ég man ómögulega hvað var að angra hann.

Hann var þó fljótur að hressast enda fátt betra en þessar góðu bollur sem við fáum bara einu sinni á ári.

Hér er mynd af sigri Einars í keppninni um stærsta munnbitann!

María lét sitt ekki eftir liggja þótt ekki kæmist hún á verðlaunapall.

Síðasta dag febrúarmánaðar drifum við okkur á skauta. María var í glænýju pari sem keypt hafði verið handa henni daginn áður. Hér í Svíþjóð er algengt að börn fari á skauta og jafnvel skíði í skólaleikfimi og slíkur útbúnaður er því standard á öllum heimilum. María hefur hins vegar ekki átt neina skauta eftir að hún óx upp úr pari sem við fengum gefins fyrir margt löngu og í vetur hafa því ítrekað komið upp vandræði þegar íþróttakennslan hefur átt að fara fram á svellinu. Í tvö skipti hefur okkur tekist að komast hjá þessu, í það fyrra fékk María lánaða skauta hjá bekkjarsystur sinni sem var í leikfimi í tímanum á undan og í seinna skiptið var leikfimikennarinn blessunarlega(!) veikur og skautaferðin féll niður. En í þriðja sinn sem tilkynnt var um skautaleikfimi ákváðum við að taka okkur saman í andlitinu, keyptum skauta og bættum um betur með því að fara með dömuna í æfingaferðir á svellið við skólann.

Hugi fór auðvitað með enda passa gömlu skautarnir hennar Maríu akkúrat á hann. Þetta var frumraun Huga á skautum og hann áttaði sig því ekkert á því að skautarnir sem hann var settur í eru algjörlega úr sér gengnir, bitlausir og ryðgaðir! Okkur fannst það þó allt í lagi svona í fyrstu ferðinni enda vorum við ekki einu sinni viss um að við fengjum hann út á svellið hvað þá meir. Hann gerði sér hins vegar lítið fyrir og brunaði beint af stað!

Við vorum alveg hissa á því hversu fljótur hann var að ná tækninni og það er ljóst að Hugi þarf að eignast betri búnað fyrir næsta vetur.

María var líka ótrúlega fljót að ná þessu og var farin að skauta um allt svellið eftir örskamma stund. Fínu skautarnir hennar eru listdansskautar svo hún rann svona mjúklega eftir ísnum meðan Hugi var meira í að böðlast eitthvað áfram á ryðguðu hokkískautunum sínum!

Einar fékk skauta í afmælisgjöf frá okkur í fyrra en þá frysti aldrei nægilega til að hægt væri að renna sér. Hann vígði því sína skauta þennan dag og ó, hvað ég öfundaði hann! Ég held að skautar séu eina íþróttin sem ég hef haft gaman af að stunda! Á næsta ári verðum við því líka að kaupa skauta handa mér svo við getum farið öll saman.

Ísprinsessan.

Hugi fann sér afar hentuga leið til að ferðast um svellið án þess að detta, hann ýtti bara hokkímarki á undan sér! Ekki er ég nú viss um að rektor Holger hefði þó orðið ánægður ef hann hefði séð aðfarirnar!

Markmiðið er svo að ná upp í tvö albúm í mars!