Í frosti og snjó

Eins og fram kom í síðasta myndaalbúmi snjóaði loksins hjá okkur upp úr miðjum janúar. Kættust þá allir, menn, konur og þó sérstaklega börn. Veðrið hefur þar að auki verið með besta móti síðan, stillt og yfirleitt bjart þannig að það er gaman að vera úti þrátt fyrir að það sé kalt. Reyndar náði frostið sögulegum lægðum hér í síðustu viku, a.m.k. miðað við okkar dvöl í landinu. Miðvikudaginn 22. janúar vöknuðum við í 20° frosti og höfðum þá upplifað sirka 50° hitamun frá heitasta deginum okkar hér og þeim kaldasta!

Þessi mynd af litla húsinu mínu er einmitt tekin umræddan dag þegar hitamælirinn í eldhúsglugganum sýndi u.þ.b. -20°. Takið sérstaklega eftir hversu ótrúlega vel hefur verið mokað heim að húsinu!!! En ok, ég veit að ég hef sagt þetta áður en finnst ykkur húsið mitt ekki ótrúlega sætt í vetrarbúningi?!

Mokarinn verður að láta sér nægja að taka sjálfsmynd að afreki loknu! Eins gott að égvar svo forsjál að kaupa mér hnausþykka dúnúlpu í 66°Norður í jólafríinu ... hún hefur heldur betur komið að góðum notum að undanförnu. En ég var farin að örvænta aðeins (að ekki sé talað um svitna!) þegar hitinn var enn í +10° um miðjan janúar!

Skyldi litlu fuglunum mínum ekki vera kalt? Þeir eru þó a.m.k. ekki bæði kaldir og svangir því þeir klára úr einu svona húsi á örfáum dögum!!!

Þessi litli Talgoxe horfir ásakandi augum á ljósmyndarann ... honum finnst kannski ekki nógu gott nasl á boðstólum?

Núna þegar við erum voða mikið bara fjögur saman heima á kvöldin og um helgar erum við dugleg að spila. Jólasveinnin var meira að segja svo forsjáll að gefa börnunum dálítið af spilum í skóinn þannig að nú er nóg úrval. Hér erum við einmitt að spila Sirkússpilið sívinsæla eftir kvöldmat en fyrir háttatíma.

Á bóndadaginn var ég föst heima yfir veikum Huga og komst því ekki til að kaupa blóm eða annan glaðning handa Einari. Hann fékk því síðbúinn vönd nokkrum dögum seinna með tveimur gerðum af túlípönum, þessum sem sjást á myndinni ...

... og þessum hérna.

  

Þó að það sé óskapleg gaman að hafa loksins fengið veturinn þá er nú líka hressandi að gera dálítið vorlegt innandyra!

Síðasta laugardag skelltum við okkur í Hammarskogen vopnuð snjóþotum. Þar var samankominn mikill mannfjöldi enda er aðstaðan þarna frábær fyrir svona fjölskylduútiveru. Snjóþotubrekkan er löng og há og efst í henni eru borð og bekkir þar sem hægt er að hvíla lúin bein, drekka kakó af brúsa og borða nesti. Allt í kring og inni í skóginum eru svo stígar sem eru mikið notaðir af gönguskíðafólki á veturna. Nú svo má auðvitað ekki gleyma herragarðinum sem selur þeim veitingar sem ekki nenntu að smyrja!

María kemur upp brekkuna eftir fyrstu salíbununa niður.

Í Svíþjóð fer enginn á snjóþotu nema vera með hjálm á höfði! Í fystu fannst mér þetta bara vera enn eitt dæmið um öfgakennda öryggisfíkn Svíanna en svo sá ég í blaðinu að hér verða reglulega dauðsföll tengd snjóþotum þannig að þetta er kannski ekki úr lausu lofti gripið. Hér er Hugi alla vega ákaflega vígalegur með sinn hjálm um það bil að fara að leggja af stað niður. Síðast þegar farið var með Huga á snjóþotu trylltist hann úr hræðslu og varð að snúa við með hann heim á Bakkastaði eftir að búið var að draga hann svona 20 metra á jafnsléttu! En það er af sem áður var! Ég hef sjaldan séð barnið eins æst og þegar við komum í Hammarskogen, hann fleygði sér umyrðalaust niður á snjóþotuna, virtist alveg sama í hvaða átt hann stefndi eða hvort hann myndi lenda á fólki á leiðinni ... hann hugsaði bara um að renna!!!

Sætasta María!

Við Einar skelltum okkur sitthvora ferðina með dömunni ... og hjálpi mér hvað þetta er hrikalega skemmtilegt! Við mæðgurnar hlógum í það minnsta alla leiðina niður!

Tekið hef ég hvolpa tvo!

Hugi, varla kominn upp þegar hann leggur af stað niður aftur!

Systkinin gera sig klár í slaginn ... ásamt fjölda annarra Uppsalabúa.

Fullkomlega hreinræktuð og frumstæð gleði!

  

Við tókum okkur smá hlé frá snjóþotunum og skelltum okkur inn á herragarðinn, fengum okkur heitt kakó með rjóma, kökur og kruðerí. Þetta er sami herragarður og við fórum á í jólahlaðborð í desember og hann tapar ekkert sjarmanum þótt hátíðirnar séu liðnar!

Besti pabbi í heimi!

María vildi finna lyktina af litlu rósunum sem stóðu á borðinu ...

... og þá var náttúrulega ekki að spyrja að því að Hugi þurfti að finna lyktina líka!

Ég fékk mér aftur piparmyntumarengs eins og fyrir jólin ... hann er eitthvað svo mikið æði!

Við mæðginin ... Hugi ekki í miklu fyrisætustuði. Hann fullyrðir nú að hann sé enn mömmustrákur þótt það sé deginum ljósari að pabbi klífi ofar eftir vinsældarlistanum á degi hverjum! Ég er raunar farin að óttast að hann sé ekki sannur mömmustrákur nema bara yfir blánóttina því þá virðist honum lífsnauðsynlegt að bora tánum í mig. Ég get reyndar lítið sagt enda bora ég tánum í Einar sjálf allar nætur!

Eftir kakó og kökur fórum við aftur út að renna. Þá var reyndar farið að skyggja dálítið og fækkað hafði í brekkunni. Konsulenthjónin notuðu tækifærið og tóku mynd í klassískri og sívinsælli uppstillingu!

Hugi lagður af stað í enn eina ferðina! Hann virtist ná ótrúlega góðu valdi á að stýra þotunni því hann endaði undantekningalaust á að klessa á dekkjastæðurnar sem sjá má þarna neðst í brekkunni. Það var augljóst hvað var aðalstuðið!

Herragarðurinn í ljósaskiptunum. Má ég eig'ann?

„Máninn hátt á himni skín ...“

Að endingu þurfti þotuliðið auðvitað að halda heim á leið. Þegar Hugi áttaði sig á hvað var í uppsiglingu trylltist hann af bræði, steig af snjóþotunni sem Einar var að draga hann á í átt að bílnum, greip sjálfur í hinn endann og togaði af alefli í átt að brekkunni aftur! Eins og sést á þessari mynd fylgdu mótmælaaðgerðunum hávær öskur!!!

Sáttasemjarinn María mætti þó fljótt á svæðið og talaði bróður sinn til ... það sést vel á myndinni hvernig strax fór að slakna á honum við fortölur stóru systur!

Að undanförnu finnst mér stundum eins og tilvera okkar hérna á Konsulentvägen sé eins og ein samfelld, löng sumarbústaðaferð. Við sitjum fyrir framan arinn, spilum, lesum bækur og höfum það gott saman ... alltaf! Hér eru systkinin að spila saman á sunnudagsmorgni ... Hugi virðist uggandi yfir stöðunni!

  

María spáir í spilin og Hugi fylgist spenntur með næsta leik!

  

Eftir að spilinu lauk var sett upp leirbakarí í eldhúsinu.

Iðnir bakarar að störfum.

Þessari frábæru helgi lauk svo með enn einu spilinu þar sem María rústaði foreldrum sínum í lúdói!