Prjónabrjálæði

Ég hef áður sagt frá því hér á þessari síðu hvernig ég prjónaði sem óð væri fyrir jólin 2007. Ég átti hins vegar alveg eftir að monta mig af afrekunum! Hér koma því nokkrar myndir af öllu því sem ég prjónaði á tveggja mánaða tímabili, það er að segja frá því í um miðjan október til miðs desember.

Þetta teppi prjónaði ég handa honum Arnaldi Kára vini mínum sem fæddist 19. desember. Ég var dálítið stressuð um að ná ekki að klára það þar sem ég byrjaði ekki að prjóna það fyrr en sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag! Ég reiknaði hins vegar út að ég þyrfti ekki að prjóna nema sex umferðir á dag (hver umferð að vísu hátt í 300 lykkjur!) til að ná þessu. Arnaldur Kári var líka svo tillitssamur að koma ekki í heiminn fyrr en 9 dögum eftir ásettan dag þannig að ég fékk smá aukatíma til að pressa og ganga frá endum! Eins og kannski sést á blómamunstrinu var ég sannfærð um að Arnaldur Kári væri stelpa þegar ég valdi mér verkefni!

Stórt blóm ...

... og lítið blóm!

Þetta er frekar stórt teppi (eins og kannski sést á þessari mynd þekur það um það bil þriðjung af hjónarúminu) og það varð því frekar fyrirferðarmikið þegar ég var komin vel á veg. Það gerði þó ekkert til því ég gat bara breitt það yfir mig um leið og ég prjónaði! Garnið er úr yndislegri blöndu af merinoull og kasmírull þannig að þetta var afskaplega notalegt og hlýlegt verkefni!

Meðfram teppinu prjónaði ég svo nokkrar jólagjafir! Ég gerði tvo svona kraga sem ég bullaði bara upp úr mér úr grófri en ótrúlega mjúkri merinoull.

Þar sem það er ekkert að marka það hvernig svona kragi lítur út liggjandi flatur á borði  neyddist ég til að taka myndir af sjálfri mér með hann enda því miður ekki öðrum fyrirsætum til að dreifa hér á Konsulentvägen! Svona lítur kraginn út á hálsi ef maður bindur slaufu á dúskaböndin ...

... og svo er líka hægt að hafa hann bara svona lausan.

Og svo voru það blessaðar húfurnar!!! Ég prjónaði einar sjö svona eplahúfur fyrir jólin. Fyrstu tvær voru handa mínum eigin börnum og hugsaðar fyrir jólakortamyndatökuna. Þegar þær voru tilbúnar var ég svo ánægð með árangurinn að ég ákvað að prjóna eina húfu handa öllum börnum sem ég gef jólagjafir! Það var náttúrulega nett tímafrekt en aðallega var það ægilega stressvaldandi þar sem ég hafði enga uppskrift að styðjast við og varð því að giska á allar stærðirnar! Nokkrum vikum fyrir jól sat ég því í öngum mínum með dúkkusafnið hennar Maríu og mátaði á þær ungbarnahúfur, mældi á þeim kollana og var með skýrslur Maríu og Huga úr ungbarnaverndinni á lofti!!! Þrátt fyrir alla þessa útreikninga virðist mér hafa tekist að gera næstum allar húfurnar of litlar ... týpískt!!!

Allar dömurnar fengu svona lítinn „daggardropa“ á laufblaðið.

Húfur herranna voru hins vegar lausar við allt prjál!

Að lokum gerði ég eina svona kirsuberjahúfu. Þetta er reyndar ekki akkúrat sú húfa heldur alveg eins húfa sem ég prjónaði eftir áramótin handa Maríu minni. Ég var nefnilega komin á síðasta snúning með að senda alla pakka frá mér þannig að þegar upprunalega kirsuberjahúfan var prjónuð var ég varla búin að fella af síðustu lykkjuna fyrr en henni hafði verið vöðlað inn í jólapappír og stungið ofan í kassa á hlaupum út á pósthúsið! Það gafst því aldrei neitt tækifæri til myndatöku.

„Daggardropinn“ á þessari húfu er reyndar aðeins öðruvísi en á öllum hinum, bæði stærri og svo sést ekkert í gegnum hann. Hvor gerðin finnst ykkur koma betur út? (Æ, ég sé reyndar að þessi daggardropi myndast voðalega eitthvað illa og verður meira eins og lítill spegill og hinn daggardropinn myndast óvenjuvel þannig að ég get sjálfsagt ekkert tekið mark á skoðunum sem miðast við þessar myndir!)

Sæt en lasin kirsuberjastelpa!

Þessi húfa er hér á fölskum forsendum þar sem hún var ekki prjónuð fyrr en löngu eftir jól og tilheyrir því ekki tveggja mánaða prjónabrjálæðinu! Ég er hins vegar miklu ánægðari með sniðið á henni en hinni ungbarnahúfunni svo hún fær að fljóta hér með. Ég hef verið að gæla við að gerast bara prjónakona að aukastarfi og prjóna eplahúfur og selja vinum og vandamönnum milli þess sem ég skrifa stórbrotnar bókmenntaritgerðir! Vandinn er hins vegar að það er löngu hætt að framleiða ljósgræna garnið í laufblaðinu (ég notaði afgang sem ég átti frá því ég prjónaði peysu á Huga í stærðinni 0-6 mánaða!!!) og enginn sambærilegur til lengur. Ég þarf því að finna nýt garn eða áður en ég get hafið stórtæka framleiðslu á eplahúfunum mínum!!!

Þessari tilteknu húfu hefur hins vegar verið pakkað inn í silkipappír og nú er hún um það bil að leggja af stað í langferð alla leið til Akureyrar þar sem hennar bíður lítil sæt snúlla!

Minnið mig svo endilega á það ef þið heyrið mig einhvern tímann lýsa því yfir að ég sé að hugsa um að prjóna allar jólagjafir að það er afar slæmt fyrir geðheilsuna!