Desemberdagók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. desember 2007

Elsku vinir!

Við óskum ykkur af öllu hjarta gleðilegra jóla og vonum að hátíðin hafi fyllt hug ykkar og hjörtu af hamingju, gleði og friði. Takk fyrir að nenna að fylgjast með okkur hérna á Konsulentvägen og enn meira takk þið sem nennið að gleðja okkur með kommentum og sætum kveðjum! Við hlökkum til að deila árinu 2008 með ykkur.

Með ást, virðingu, hamingju og gleði, ykkar vinir Einar Þór, Guðrún Lára, María og Hugi.

 

21. desember 2007

Barn er oss fætt ...

og sonur er oss gefinn! Reyndar ekki okkur Einari heldur Svanhildi og Sigurði ... en mér finnst ég auðvitað eiga heilmikið í honum líka. Við hérna á Okkar síðu óskum fjölskyldunni í Hlíðarhjalla að sjálfsögðu hjartanlega til hamingju með litla jóladrenginn!

Hér á Konsulentvägen er jólaundirbúningur í fullum gangi. Fyrstu jólagestirnir, Elli og Ása, komu í gær og Imba amma kemur svo til okkar á Þorláksmessu. Það er því nóg að gera á stóru heimili þar sem hamborgarhryggir og hangikjöt eru reytt upp úr ferðatöskum, piparkökur bakaðar, jólaóróar hengdir upp og gjöfum pakkað inn. En einhvern veginn tókst mér samt að pota inn einu feitu jólaalbúmi. Ta ta ...

Jólagleði og jólastress

Bara þrír dagar til stefnu!

 

11. desember 2007

Þankar Jóseps smiðs

Mér hefur alltaf þótt persóna Jóseps stórlega vanmetin í öllu þessu jóladæmi. Það hlýtur að hafa verið ótrúlega frábært fyrir Maríu að hafa verið valin til þess að eignast son Guðs og náttúrulega enn frábærara fyrir Jesú að eiga svona merkilegan pabba. En hvað með aumingja Jósep?! Í öllum frásögnum og táknmyndum jólanna tekur hann möglunarlaust þátt í öllu havaríinu í kringum fæðingu Jesú jafnvel þótt það þurfi engan snilling til að átta sig á að varla hafi þetta verið einhlýt gleðistund í hans lífi. Ekki aðeins er konan hans að eignast barn með öðrum aðila heldur eru sendar fréttatilkynningar um atburðin um allan heim! Þetta hlýtur að hafa verið stórkostlegur, víðsýnn og óendanlega góður maður! Aldrei hefur mér þótt nokkur listamaður túlka tilfinningar Jóseps almennilega. Ekki fyrr en ég heimsótti Ålandskyrka fyrir rúmri viku!

Í þessari litlu sænsku sveitakirkju var búið að koma hagalega fyrir jólaskreytingu sem samanstóð af nokkrum leirstyttum sem túlka áttu atburðina í Betlehem fyrir 2007 árum. Þarna er María svo sæl og glöð og horfir svo undurblítt á þetta litla kraftaverk sitt. Og litli Jesú horfir hlýlega en rannsakandi í augu móður sinnar. Jósep stendur hins vegar álengdar og fylgist með. Aldrei áður hef ég séð svo mikla álúð lagða við að túlka stöðu hans. Það hvernig hann stendur utan við þessa einingu móður og barns, þátttakandi en samt ekki almennilega með ... þessi hugsandi stelling, þessi mildi en undrandi svipur á andlitinu ... svona Jósep hef ég aldrei séð áður! Undanfarna viku hef ég aftur og aftur dregist að þessari mynd og Jósep á athygli mína alla! Hvað skyldi hann vera að hugsa? Hvernig skyldi honum líða? Hvað myndi standa í hugsanablöðru þessa merkilega en oft og tíðum vanmetna manns?

Hvað leggið þið til, kæru lesendur? Hvað er Jósep eiginlega að hugsa?

 

4. desember 2007

Það er handagangur í öskjunni hér á Konsulentvägen. Jólaundirbúningur stendur sem hæst núna, þremur vikum á undan áætlun, sem skýrist af því að við þurfum að senda nánast allar jólagjafir frá okkur með póstinum á föstudaginn! Heimilisfaðirinn á afmæli á morgun og slíkt þarf auðvitað að undirbúa líka og í ofan á lag er ég svo önnum kafin við að prjóna jólagjafir fyrir föstudaginn að ég er að hugsa um að stofna sweatshop í stofunni! Í það minnsta er ég búin að ráða Einar til mín í dúskagerð fyrir svívirðilega lág laun! (Það jafnast þó ekki á við það þegar ég í örvæntingu minni kvöldið fyrir próf, rétti Einari þykka skáldsögu sem var á leslistanum, skipaði honum að lesa hana og segja mér svo um hvað hún væri!!! Hann hlýddi mér ekki, merkilegt nokk!)

Einhvern veginn tókst mér þó í þessu annríki öllu saman að setja inn nokkrar myndir frá frábærum degi hjá okkur Konsulentunum:

Fyrstu sunnudagur í aðventu

Lifið heil!

 

2. desember 2007

Nu tändas tusen juleljus
på jordens mörka rund
och tusen, tusen stråla ock
på himlens djupblå grund.

Og hér á Konsulentvägen 2 á einmitt eftir að gera þúsund, þúsund hluti áður en hátíðin gengur í garð! Eitt á þó ekki eftir að gera, ekki lengur það er að segja, og það er að setja jólaútlit á litlu heimasíðuna okkar. Hér er allt með hefðbundum hætti, snjókorn og frost, kristsþyrnar og dádýr og svo auðvitað mannlegi aðventukransinn á forsíðunni!

Og talandi um aðventukrans - annað sem hægt er að strika út af listanum er hinn hefðbundni aðventukrans heimilisins sem föndraður var síðustu nótt!

Aðventukrans 2007

Og þá er bara að snúa sér að öllum hinum verkefnunum ... prjóna allar þessar milljón jólagjafir sem ég ætla að prjóna, pakka inn, skrifa jólakort, baka, hlusta á jólalög og Jólaóratóríuna, horfa upp í himininn og vonast eftir snjó, drekka kakó við arineldinn og láta sig hlakka til!

Gleðilega aðventu! 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar