Handavinna að hausti

Ég var aldrei búin að setja inn montalbúm fyrir allt sem ég bjó til í höndunum frá september til og með desember. Hér kemur því mjög síðubúið uppgjör!

Ég er svo ótrúlega snjöll að ég gerði mér sumarkjól einmitt þegar haustið gekk í garð! Þennan fína bleika kjól hef ég því aldrei notað! Ég hugsa reyndar að ég smelli á hann hlírum fyrir sumarið og svo er hann með voðalega smart vösum sem sjást ekki á myndinni.

Ég elska þetta efni, svo sumarlegt og sætt.

Öfganna á milli! Næst á eftir sumarkjólnum skellti ég mér í að prjóna vetrarvettlinga. Þessir áttu upphaflega að vera útskriftargjöf handa Inga Birni en þar sem ég prjóna svo fast urðu þeir allt of litlir, bara rétt pössuðu á mig. Þeir hafa því yljað mér í vetur þegar ég keyri vagninn og ég dreif í að prjóna annað par (á stærri prjóna) handa Inga.

Svona til þess að fá ekki algjört ógeð breytti ég aðeins litunum í þeim. Var á endanum mun ánægðari með þá hvíta í grunninn.

Og fyrir prjónaáhugafólk er þetta sem sagt munurinn milli prjóna númer 2,5 og 3!

Og af því ég er svo asnaleg má ég til með að birta mynd af útskriftargjöf Inga Björns innpakkaðri. Ég elska nefnilega að pakka inn en fannst ákveðin áskorun að pakka inn gjöf handa karlmanni. Held ég geti ekki gert neitt mikið karlmannlegri pakka en þetta!

Loksins dreif ég í að gera teppi handa mínu eigin barni, búin að gera allnokkur handa öðrum.

Kiðlingarnir sjö, mamma þeirra og úlfurinn handa Baldri Tuma.

Úr afgangnum af efninu gerði ég tilraun til að gera slefsmekk.

Hann heppnaðist ágætlega en hefur þó fallið dálítið í skuggann af þessum hefðbundu sem ég tók mig til og gerði í stórum stæðum handa barninu nokkrum mánuðum síðar líkt og greint verður frá í komandi albúmi!

Þessar hekluðu körfur hafa nú birst hér á síðunni í öðru albúmi og í öðru samhengi! En hér sjást þær sem sagt í sínu eiginlega hlutverki. Þetta var nú bara eitthvað kit sem ég keypti með garni og uppskrift. Dugði í tvær körfur, báðar meira að segja töluvert stærri en uppskriftin gerði ráð fyrir. Garnið er ægilega sniðugt, unnið úr afgöngum úr efnaverksmiðju en þetta eru sem sagt kantarnir af prjónuðu bómullarefni sem eru skornir af og hefðu að öðrum kosti farið í ruslið.

Mig minnir endilega að þetta verkefni hafi verið unnið síðasta haust frekar en núna í byrjun ársins. Í öllu falli var ég orðin dálítið þreytt á öllu draslinu sem hlóðst á ísskápinn og eitt sem ég pirraði mig á voru seglarnir sem komu úr hinum og þessum áttum. Við María bjuggum því bara til okkar eigin segla til að leysa þá af hólmi. Ég tók nú bara myndir af nokkrum þeirra en allt í allt eru þetta 15 seglar.

Þetta er ótrúlega einfalt en sniðugt verkefni fyrir föndurstund! Ég keypti svona hnappa sem maður getur yfirdekkt sjálfur, tók hankann aftan á þeim burt og límdi þá svo á segla. Finito!

Þessi er svo sætur, sérstaklega með þessa krúttlegu bókstafi þarna í bakgrunn!

Svo má ég til með að birta mynd af verkefnalistanum sem ég gerði fyrir jólinn þegar mér fannst hausinn á mér vera alveg að springa af góðum hugmyndum að föndur-, skreytinga- og saumaverkefnum! Ég er nú ekki enn búin að framkvæma alveg allt af listanum en slatta!

         

Æ, já og blessaðar jólagjafirnar. Ég ákvað snemma að gera engar handunnar jólagjafir í ár. Vissi sem var að það yrði alveg nægilegt verkefni að kljást við lítið barn að ég færi ekki að drekkja mér í handavinnu í ofan á lag. Ég hef líka allt of oft endað í brjáluðu stresskasti við saumavélina/með prjónana í höndunum á síðustu stundu og í ár ætlaði ég svo sannarlega að læra af reynslunni. Smátt og smátt fór ég þó að selja sjálfri mér hugmyndir að alls kyns litlum verkefnum sem væru svo fljótleg og svo sniðug að það væri í raun bara tímasparnaður að gera þau frekar en að arka bæinn þveran og endilangan í leit að gjöfum. Þessar hárspennur voru þar á meðal (unnar með sömu aðferð og seglarnir).

Ég gleymi því alltaf þegar ég plana „fljótleg föndurverkefni“ að það tekst yfirleitt ekki allt í fyrstu tilraun þegar maður er að þróa svona sjálfur og það geta farið margir dagar í þannig vinnu þótt sjálft verkefnið taki ekki nema hálftíma að gera. Þannig var það einmitt með þessi blessuðu hjörtu sem ég setti í jólapakka til næstum allra. Mamma og Jódís fengu hvor sitt brúna hjartað. Upphaflega áttu öll hjörtun að vera brún en það er kannski einmitt til marks um alla undirbúningsvinnuna að ég hafði keypt rúmlega hálfan metra af efni en þurfti að henda öllu nema því sem fór í þessi tvö hjörtu!

Hjarta í nærmynd.

Þar sem brúna efnið sem upphaflega var ætlað til verksins reyndist dálítið erfitt gerði ég restina af hjörtunum úr hvítu bómullarefni. Mig minnir að ég hafi gefið fimm svona hvít hjörtu en var auðvitað á síðustu stundu og náði ekki að taka mynd af þeim. Ég bjó hins vegar til eitt handa sjálfri mér sem sést hér.

Mitt hjarta fékk bráðabirgðastað fyrir framan hurðina út á pall en svo vonast ég nú til að geta farið að hafa þessa hurð meira opna á næstunni og þá þarf nú að flytja það annað!

Já og svo voru það blúndumyndirnar! Úff hvað það fóru ótrúlega margir strammar til spillis í tilraunastarfseminni í kringum þær! Og ég hef ekki enn komist í að gera almennilega mynd handa sjálfri mér heldur er með misheppnuðu eintökin til skrauts hér heima. Þarf að bæta úr þessu!

Það er nú á mörkunum að ég geti sett svona föndur inn í albúm sem á að vera helgað prjóni og saumum en þær fá að fljóta hér með. Svo er ég tilbúin með fullt af efni í fyrsta handavinnuuppgjör ársins 2010 sem birt verður innan skamms!