Krútt og keisarar

Nokkrar nóvembermyndir

Hér er smá sýnishorn úr næsta hannyrðaalbúmi. Baldur Tumi fékk nefnilega loksins sitt eigið teppi og hér sést hann vígja það grunsemdafullur á svip.

Við nánari athugun reyndist þetta þó hið ágætasta teppi.

„Baða litla bangsamann með burst' og sápu mamma kann.“ Ja að vísu notum við hvorki sápu né bursta en Baldur Tumi skemmtir sér stórvel í baðinu og skvettir vatni í allar áttir, systkinum sínum til gríðarlegrar skemmtunar.

Voðalega er erfitt að ná tökum á þessu skrýtna dóti!

Stóreygur strákur í bala.

9. nóvember 2009 og Baldur Tumi nýbúinn að velta sér í fyrsta sinn, svona líka montinn með sig.

Nú hefur hann ekki minnsta áhuga á að liggja bjargarlaus á bakinu lengur og byrjar að snúa sér í loftinu áður en maður leggur hann á teppið! Honum liggur líka mikið á að verða stór og vill helst komast af stað, reygir sig og sperrir ef maður vogar sér að setja hann í ömmustól og virðist telja að hann þurfi bara að losna úr beltinu og þá séu honum allir vegir færir!

Hann er samt enn óttalegt smælki þótt hann fatti það ekki alveg sjálfur!

María nennir alltaf að leika við lítinn mann.

Hér sit ég á skrifstofunni minni og er að lesa merkilega skýrslu um krókódíla ...

... og þegar ég verð þreyttur halla ég mér bara aðeins upp að stóru systur.

Amma Imba kom í heimsókn til okkar á leiðinni á ráðstefnu í Osló. Hún byrjaði á bingói með ömmukrílunum þremur.

Við gerðum okkur ýmislegt til skemmtunar meðan amma var í heimsókn, meðal annars skruppum við í bæjarferðir, fórum í búðir og á kaffihús og svo fór amma með stóru börnin í bíó. Að öllu þessu loknu gafst þó stund til að mynda ömmuna og krílin.

Baldur Tumi fer blíðum höndum um ömmu en María og Hugi brosa til ljósmyndarans.

Hér er annað sýnishorn úr væntanlegu hannyrðaalbúmi (ég fer nú að verða búin að forsýna bróðurpartinn af því sem þar verður boðið upp á!). Körfuna sem Baldur Tumi er með á hausnum heklaði ég á nokkrum klukkutímum. Hefði sjálfsagt gert hana á einum og hálfum tíma ef uppskriftin hefði ekki veirð alveg ómöguleg og ég alls ekki getað komið þessu heim og saman þannig að ég rakti allt upp hundrað sinnum! Þetta var svona hekl-kit sem ég keypti með garni úr afgöngum af bómullarefni, heklunál og uppskrift og utan á pakkanum stóð að hekl róaði hjartslátt og andadrátt og slakaði á vöðvum en mín reynsla var ekki aaaalveg þannig! En karfan varð fín á endanum þótt ég fengi lykkjufjöldann aldrei til að stemma og það sem meira var, það var svo mikið garn afgangs að ég gerði aðra stærri körfu aukalega.

Keisarinn af Konsulentvägen heilsar lýðnum!

Eins og áður hefur komið fram (eða kannski ekki?) höfum við verið að hressa upp á gestaherbergið og setja upp nýjar bókahillur þar. Þessum framkvæmdum hafa fylgt ýmiss konar tiltektir og hér eru systkinin að flokka dvd diska og raða. Baldur Tumi tók virkan þátt í verkefninu eins og hans er von og vísa. (Í fjarska glittir einmitt í hekluðu körfuna farna að þjóna sínu hlutverki sem prjónakarfa.)

Hér kemur smá Baldurs Tuma sería!

Hann var í miklu stuði þegar myndirnar voru teknar og baðaði út öllum öngum og barði taktfast á bumbuna. Þetta er einmitt æsingssvipurinn hans sem sést hér!

Hæ Litli!

Þessi er svolítið úr fókus en verður að fá að fljóta með þar sem hún er sætari en allt sem sætt er!