Sumarfrí á Gotlandi

 

Við eyddum viku í júní í helstu sumarleyfisparadís Svía, á eyjunni Gotlandi.. Þar leigðum við ægifagurt kalksteinshús sem gengur undir nafninu Hvíta húsið og eyddum svo dögunum í að keyra eyjuna þvera og endilanga, njóta þess að ganga eftir hvítum ströndum, baða okkur í ´ísköldum sjónum og þræða þröngar götur Visby.

Sunnudagurinn 13. júní

Siglt til Gotlands, Hvíta húsið tekið út og pizzur borðaðar í Hemse.

Við keyrðum til Nynäshamn snemma að morgni og þaðan tókum við ferjuna til Gotlands. Ferjurnar (sem fara margar ferðir á dag) eru risastórar og þessi sem við fórum með tekur um 1500 manns og var þétt bókuð. Þarna erum við á veitingastaðnum um borð en vorum svo forsjál að hafa líka bókað káetu til að geta haft það sem allra best þessa rúmu þrjá tíma sem siglingin tekur.

Í káetunni borðuðum við ís og horfðum á sjónvarpið. Hugi og María voru ánægð með þetta allt saman og sjálfsagt hefði alveg nægt þeim sem ævintýraferð að fara bara einn hring með bátnum og svo aftur heim!

Einar útskýrir fyrir Baldri Tuma að ís sé bannaður fyrir litla stráka!

Það sér til lands ... Gotlands!

Þegar ferjan hafði lagt að landi brunuðum við með bílnum beinustu leið til Sjaustre í Östergarnslandet sem liggur á austurströnd eyjunnar. Það gekk vel að finna Hvíta húsið þrátt fyrir að leiðbeiningarnar hafi verið dálítið úreltar og við tekið nokkrar vitlausar beygjur. Það var líka einstaklega afslappandi að keyra þvert yfir þessa fallegu eyju. Enn betra var þó að stíga út úr bílnum, sjá þetta sæta hús blasa við sér og heyra hafsniðinn í fjarska.

Og ekki var síðra um að litast inni í húsinu. Hér mætast eldhús og stofa, allt svo bjart og fallegt. Þegar ég var að finna okkur hús til að leigja setti ég það sem algjört skilyrði að það væri kalksteinshús. Hér á árum áður, þegar Gotland var bara afskekkt eyja en ekki vinsæll ferðamannastaður, var fátt um fína drætti í byggingarefni. Lítið var um timbur en undirlag eyjunnar hins vegar allt úr kalksteini og þar sem flestir eyjaskeggjar voru fátækir bændur völdu þeir einföldu og ódýru leiðina. Byggingarstíllinn á Gotlandi skilur sig því heilmikið frá hefðbundum sænskum falurauðum timburhúsum. Eftir að Gotland komst á kortið sem ferðamannastaður urðu þessi hús ægilega vinsæl og sem betur fer hefur mörgum verið vel við haldið og nostrað við þau. Það er ekki „ekta“ Gotland nema vera í hvítu kalksteinshúsi!

Hér er eldhúsið fína.

Og hér er svefnherbergið sem við Einar deildum með Baldri Tuma.

Baldur Tumi var farinn að stíga nokkur skref óstuddur á þessum tíma og við vorum því dálítið smeyk um hann á steingólfunum. María passaði því vel upp á hann þegar hann vildi æða um og skoða nýju híbýlin.

Huga leist vel á þetta allt saman, sérstaklega trampólínið úti í garði!

Hér sést Einar taka stöðuna frammi fyrir galtómum ísskápnum og ákveða að næsta mál á dagskrá sé að finna opna búð og kaupa inn!

Búðin í næsta smábæ reyndist vera lokuð og við vorum orðin dálítið hrædd um að við fyndum ekkert opið svona seint á sunnudagskvöldi og myndum neyðast til að borða gras fram á næsta dag! En í Hemse reyndist opin Ica og þar að auki þessi „glæsilegi“ pizzustaður þar sem við fengum okkur kvöldmat eftir innkaupin.

Baldri Tuma þykja pizzuendar mjög góðir og var því ánægður með þetta!

Mánudagurinn 14. júní

Rölt um Visby, múrinn skoðaður og draumar um crêpes í Straujárninu látnir rætast.

Í símaskránni fyrir Gotland sáum við að þar er starfrækt fyrirtæki undir heitinu Tumes Åkeri. Okkur fannst það eiga ákaflega vel við þennan litla mann sem keyrir stóla, púða og kolla um öll gólf, gjarnan með einhver mikilvægan farangur (eins og plastglös) meðferðis!

Hér sjáið þið Maríu leika kanínu með afar sannfærandi hætti!

Bláklædd feðgin.

Húsið var svo fallegt, allt í hvítum og gráum tónum með smá bláum og rauðum innslögum. Allt nema þetta hressa horn! Ég bendi sérstaklega á hressu bananakonuna þarna á veggnum til vinstri! Einar vildi endilega að ég tæki mynd af þessu horni og birt á síðunni ... held að það hafi aðallega verið til þess að ég afhjúpaði það hér hvað ég er mikil pjattrófa að hafa eitthvað verið að setja út á þetta horn!

Þennan fyrsta heila dag okkar á Gotlandi keyðrum við til höfuðastaðarins Visby. Hér erum við í Almedalen sem er Hljómskálagarður þeirra Gotlendinga. Hér er haldin hin árlega Almedalsvika en þá mæta fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna til Gotlands og kynna stefnumál sín. Við vorum hins vegar ekki með nein önnur stefnumál á dagskrá en að skoða Visby og hafa það gott. Já og ég vonaðist til að finna crêperiu sem ég hef oft séð í fínu blöðunum og látið mig lengi dreyma um að koma á.

Þetta er í síðasta sinn sem ég reyni að taka vatnaliljumyndir!!! Mér þykja vatnaliljur alltaf svo fallegar og langar alltaf svo að ná þeim á mynd en þegar ég skoða afraksturinn er þetta yfirleitt meira myndir af skítugum tjörnum, fljótandi rusli og hálfvisnuðum laufblöðum!

Kindur eru afar vinsælar á Gotlandi. Eiginlega eru þær ekki bara vinsælar heldur táknmynd eyjunnar. Sauðfjárrækt er þar stunduð af kappi og Gotlandskynið þykir alveg einstakt, sérstaklega gæruskinnið sem er krullað, glansandi og einstaklega mjúkt. Á götum Visby úir allt og grúir af steyptum kindum og hér er María að gera sér dælt við eina þeirra.

         

Hugi lét kindurnar eiga sig en klifraði í staðinn upp í gamlar rústir. Í Visby er nefnilega allt fullt af vel varðveittum rústum frá miðöldum.

Huggulegur veitingastaður í Visby. Bæði er nú myndin dálítið skökk en svo stóð hann í þverhníptri brekku sem lætur hana líta út fyrir að vera enn skakkari.

Vínviður í blóma.

         

Magnaðar klausturrústir mitt í Visby.

María og Einar svipast um inni í rústunum gegnum læst hlið.

Gamli bærinn í Visby er óendanlega fallegur og maður gæti alveg eins verið á Ítalíu eða í Frakklandi. Innan um hinar ævafornu rústir eru svo gömul hús frá ýmsum tímum og hlaðnar götur.

Stóru börnin mín, sá litli svaf.

Á rölti í Visby. Glöggir lesendur taka eftir að Baldur Tumi er búinn að eignast nýja kerru en hún var keypt sérstaklega fyrir þessa ferð. Ef við hefðum ætlað að taka rauða vagninn með okkur hefðum við nefnilega ekki getað haft neinn farangur með nema nærbuxur í vösunum! Ég mæli annars með því að fara akandi og/eða með bílaferju í ferðalög, það er óendanlega þægilegt að geta bara pakkað farangrinum í skottið fyrir utan heima hjá sér og þurfa ekki að hrófla við honum fyrr en maður er kominn á áfangastað!

Hér er dómkirkjan í Visby.

Hana prýddu margar ufsagrýlur og sumar voru ekki neitt sérstaklega ógnandi! Þessi glaðhlakkalegi karl horfði út yfir bæinn og virtist skemmta sér hið besta!

Þetta hús gæti verið upp úr einhverju Grimms ævintýrinu.

Þessi stóra og mikla klifurjurt (sem ég kann ekki að nefna) vex bara þarna upp úr stéttinni og hlýtur að vera eldgömul miðað við hvað stofnarnir eru þykkir.

María, Hugi og múrinn. Það er nefnilega þannig að stór og mikill varnarmúr frá miðöldum umlykur gamla bæinn í Visby. Gotland liggur svo að segja úti í miðju Eystrarsalti og gegndi mikilvægu hlutverki við verslun og siglingar hér endur fyrir löngu. Hansakaupmennirnir í Visby urðu auðvitað að verja eigur sínar svo þeir byggðu múr í kringum borgina og niður að höfninni. Múrinn var tilbúinn 1288 og stendur svo að segja heill enn í dag! Gamli bærinn í Visby og múrinn umhverfis hann eru á heimsmynjaskrá UNESCO.

Horft yfir norðurhlið múrsins (fyrir utan bæinn) og niður að sjó. Ægifagurt!

Svæðið innan múrsins, er eins og áður sagði, vel varðveitt. Fæstar bygginganna eru þó frá miðöldum en gamlar samt! Þarna er ákaflega eftirsótt að búa, sérstaklega að búa í húsi upp við múrinn. Þetta agnarsmáa hús rúmar væntanlega ekki mikið meira en rúm og stól en kostar áreiðanlega margar, margar milljónir.

Hugi og María uppi í einum varðturninum með útsýni yfir Visby. Til hægri sjást dómkirkjuturnarnir.

Múrinn er 11 metra hár og varðturnarnir auðvitað mun hærri. María og Hugi eru agnarsmá í samanburðinum.

Fyrir endanum á götunni (miðri mynd) má sjá slökkviliðsstöðina í Visby. Við María höldum að þetta hljóti að vera krúttlegasta slökkviliðsstöð í heimi og hefði sómt sér vel í leikmynd fyrir Kardimommubæinn.

Það er örugglega gott að vera kisa í Visby og kúra á gluggasyllu.

Þegar degi var tekið að halla og við búin að ganga okkur upp að hnjám í Visby uppgötvaði ég að ég hafði ekki enn gengið fram á crêperiuna mína. Ég hafði einhvern veginn treyst á að Visby væri svo lítill bær að ég þyrfti ekkert að muna heimilisfangið eða leita á korti. Sem ég segi við Einar að ég nái nú sennilega ekki að finna crêperiuna í þessari ferð blasir hún við mér beint framundan! Styrkjärnet crêperie & logi dregur nafn sitt af húsinu sem gengið hefur undir heitinu Straujárnið vegna sérstaks (og dásamlegs!) lags síns. Á neðri hæðinni eru sem sagt serveraðar crêpes og galettes og uppi í risinu er íbúð sem hægt er að leigja. Íbúðina hef ég líka margoft séð í fínu blöðunum og hún er ótrúlega fallega innréttuð í gotlenskum stíl, allt hvítt og gæruskin á gólfunum! Áhugasömum bendi ég á heimasíðu staðarins.

Það kom auðvitað ekkert annað til greina en að fara inn og við fengum okkur sæti á dásamlegri verönd með útsýni yfir bæinn og hafið. Við vorum öll ægilega kát með þetta (líka Hugi þótt það megi lesa annað út úr myndinni!).

Ég gerði margar tilraunir til að fanga þetta stórkostlega útsýni á mynd en það tókst því miður ekki betur en þetta. Þið verðið bara að trúa mér ... eða fara þangað sjálf!

Áður en við fundum crêperiuna höfðum við verslað dálítið í leikfangaversluninni í Visby og Baldur Tumi fékk að prófa nýja dótið sitt.

Ég fékk mér crêpe með jarðaberjum, hvítu súkkulaði, rjóma og heimagerðum vanilluís. Ég get ekki lýst því hvað þetta var gott!

Hugi fékk sér crêpe með hunangi, sítrónu og vanilluís.

Og Baldur Tumi fékk jarðaber í skál þar sem ég vissi að ég fengi annars aldrei að hafa mín ber í friði. Barnið getur borðað þyngd sína í jarðaberjum!!!

María pantaði sér ekki neitt þar sem hún sagðist södd en ég sé ekki betur en að hún hafi verið farin að sjá illilega eftir því á þessum tímapunkti þegar við Hugi munduðum hnífapörin!

Einar fékk sér hins vegar crêpe með smjörsteiktum eplum, kanil og rjóma. Það var svo gott að hann gleymdi að taka mynd áður en hann byrjaði að borða. Við yfirgáfum crêperiuna með fyrirheitum um að koma þangað sem oftast á meðan á Gotlandsdvöl okkar stæði!

Heima í Hvíta húsinu um kvöldið var hins vegar allt í hers höndum. Ferðarúmið sem fannst loksins eftir mikla leit reyndist ekki samvinnufúst! Það tók okkur áreiðanlega að tvo tíma að fá langhliðar rúmsins til að smella í læsta stöðu en hinar festust aldrei. Eftir mikinn svita, pirring og næstum því tár (sjá mynd!) ákváðum við að gefast upp, hafa Baldur Tuma bara á milli okkar og skila %&&%$#$ rúminu aftur í geymsluna. Þá vildi hins vegar svo illa til að við gátum ekki heldur fellt rúmið saman! Að endingu losnaði önnur hliðin en hin gaf sig ekki hversu mikið sem við reyndum! Á þeim tímapunkti var mér skapi næst að kveikja bara í því og láta það fuðra upp í arninum en að endingu settum við það bara í geymsluna allt í rugli og neyddumst svo til að skrifa eigendunum útskýringarbréf þegar heim var komið.

Þriðjudagurinn 15. júní

Ekið um gotlenskar sveitir, ostar keyptir og crêperian heimsótt á ný.

Hér sjáið þið krúttlegustu búð í heimi. Þetta er gårdsbutik á bóndabænum Stafva gård þar sem seldir eru unaðslegir ostar sem framleiddir eru á staðnum, dásamlegt truffluhunang (það vaxa trufflur á Gotlandi) og ýmislegt fleira spennandi.

Það er sjálfsafgreiðsla í búðinni og þar sem við Einar vorum að leggja pening í kassann kom bóndinn hjólandi framhjá kampakátur og kannaði hvort þetta gengi ekki allt saman vel hjá okkur áður en hann hélt áfram sína leið.

Eftir bíltúr um sveitirnar enduðum við aftur á crêperiunni. Í þetta sinn sátum við inni en þar er alveg jafnkósí og úti á verönd. Baldri Tuma líkaði þetta alla vega afskaplega vel.

Maríu og Huga líka. Og í þetta sinn var María staðráðin í að missa ekki af kræsingunum!

Einar í Straujárninu.

Það er ekki bara staðurinn sem er huggulegur og smekklegur í frönskum anda heldur smellpassa þjónarnir inn í umhverfið!

Crêpe með súkkulaði, hvítu súkkulaði, ristuðum möndlum og vanilluís!

Hugi valdi sér crêpe með smjöri og kanil en þegar til kom fannst honum það ekki líta alveg nógu girnilega út fyrir myndatöku svo hann fékk lánaðan smá rjóma hjá Maríu (sem fékk sér það sama og ég deginum áður) og sítrónubát hjá Einari (sem fékk sér það sem Hugi hafði fengið deginum áður) til að piffa þetta aðeins upp!

Baldur Tumi fékk pönnuköku að narta í ...

... og gera alls kyns munnlegar tilraunir með!

Miðvikudagurinn 16. júní

Haldið til Fårö, dætur Sylvi heimsóttar, tánum dýft í sjóinn við Sudersand og raukarnir við Långhammar skoðaðir.

Daginn eftir ákváðum við að halda til Fårö sem er eyja við norðurenda Gotlands. Fårö er kannski einna frægust fyrir þær sakir að þar bjó Ingmar Bergman frá því á sjöunda áratugnum og til dauðadags. Nokkrar af myndunum hans eru auk þess teknar þar. Þessi mynd er hins vegar ekki frá Fårö heldur Slite á austurströnd Gotlands sem við keyrðum í gegnum á leiðinni. Á myndinni má sjá gríðarstóra kalknámu sem var svo stór og mikilfengleg að það næst engan veginn á mynd.

Ég hefði aldrei trúað því að mér ætti eftir að þykja náma falleg en þessi var það svo sannarlega. Og í glampandi sólskini var birtan af hvítum steininum yfirþyrmandi. Það má reyndar segja um birtuna á Gotlandi að hún er alveg sérstök. Allt undirlagið þarna er hvítt og ljósgrátt og svo er sjórinn auðvitað allt um kring sem eykur á endurvarpið þannig að hvar sem maður er þá er maður umlukinn sterkri hvítri birtu.

Eftir að hafa ekið lengi og farið yfir Fårösund með bílferjunni vorum við loksins komin á áfangastað. Einar var kátur ...

... Baldur Tumi var í banastuði ...

... María var sæl og glöð ...

... og Hugi hress ...

... enda ekki annað hægt þar sem við vorum komin á Sylvi's döttrar hembageri! Í þessu litla bakaríi er hægt að kaupa alls kyns góðgæti og allt er bakað af mikilli alúð og úr ekta smjöri. (Hafandi þurft að vera á mjólkursnauðu fæði um tíma get ég vottað það að bakaríisbakkelsi er nánast undantekningalaust bakað úr jurtafeiti og var því yfirleitt ekki til vandræða).

Eftir að hafa byrgt okkur upp af bulla hjá dætrum Sylvi héldum við að Sudersand sem er ein stærsta ströndin á Gotlandi og þriðja vinsælasta baðströndin í allri Svíþjóð. Ekki að undra þegar maður horfir á þessa mynd!

Baðsjúku börnin mín urðu tryllt af gleði þegar þau sáu ljósan sandinn og tært vatnið!

Sjórinn var að vísu ískaldur enda bara miður júní og ekki búnir að koma neinir steikjandi heitir dagar. En María og Hugi láta slíkt ekki stoppa sig og vildu að minnsta kosti bretta upp skálmarnar til að geta vaðið aðeins út í.

Einar ætlaði hins vegar ekki að láta hafa sig út í neitt rugl og var því kappklæddur á ströndinni!

Einskær gleði og hamingja við Sudersand.

Við hefðum alveg eins getað verið stödd einhvers staðar í Suðurhöfum!

Það var fámennt á ströndinni enda sumarleyfis- og túristatíminn ekki hafinn fyrir alvöru og enn kalt í sjónum eins og áður sagði. Það er áreiðanlega líka gaman að vera þarna þegar allt er krökkt af fólki en það var algjörlega dásamlegt að hafa svigrúm til að rölta eftir strandlengjunni og vaða í sjónum óáreittur. Ég á enn bágt með að trúa því þegar ég skoða þessar myndir að þær séu teknar í Svíþjóð!

Oj bara!

Eftir smá stund héldu börnunum engin bönd lengur og þau rifu sig úr buxunum til að geta vaðið almennilega út í!

Baldur Tumi deilir ekki ást systkina sinna á söltum sjó og sandi! Sandurinn við Sudersand er líka ótrúlega fíngerður (og mjúkur!) og fýkur því auðveldlega upp svo kannski hefur það eitthvað verið að angra hann. Á þessari mynd lítur hann hins vegar út fyrir að skemmta sér hið besta á ströndinni.

Það er vandasöm og flókin aðgerð að skipta á bleiu á ströndinni!

Bláklæddir feðgar í stíl!

Það eru engin orð til til að lýsa svona mynd!

Á göngu eftir strandlengjunni. Hugi er guli punkturinn þarna langt fyrir framan. Þegar hann kemst á strönd þá nær maður eiginlega engu sambandi við hann, hann bara hleypur um og nýtur lífsins í eigin hugarheimi!

Einar!

Sandlúkur.

Frelsi!

         

Hugi á harðahlaupum eftir ströndinni.

Fjölskyldumynd I! (Ég er ekki að meika þessar krútttásur þarna til hægri!!!)

Á þessari útgáfu fær litla táin á Einari að vera með!

Baldur Tumi sem hafði verið frekar stúrinn og ekki viljað koma við sandinn skipti skyndilega og óvænt um skoðun og arkaði af stað með aðstoð pabba.

         

Og var heldur betur ánægður með sig!

Ég held að þetta verði mögulega kosin sætasta mynd ársins hér á Okkar síðu!

  

En bíddu nú við, á hverju eru þau eiginlega að láta mig ganga? ... Er þetta þessi ógeðslegi sandur?!

Nei, hingað og ekki lengra! Maður lætur nú ekki plata sig út í hvað sem er!

Eftir dásamlega dvöl á Sudersand héldum við yfir á hinn hluta Fårö, ströndina við Långhammar

Sú strönd er ekki sandströnd heldur eru þar langar breiður af hvítu fjörugrjóti og svo náttúrufyrirbærinu sem Gotland er þekkt fyrir, raukar. Hér er Hugi uppi á klett sem þó var ekki rauk heldur bara svona venjulegur!

Hafið þið séð svona bláan himinn og hvíta kletta áður? Eða svona fín börn?!

Og þarna eru þeir, raukarnir! Ég veit því miður ekkert hvað þetta fyrirbæri kallast á íslensku en ef einhver lesandi veit það má hann gjarnan skilja svarið eftir í kommentakerfinu.

Rauka-María (gæti verið einhver finnsk þjóðsagnapersóna!).

Í Långhammar fengum við okkur nestið sem við höfðum keypt okkur hjá dætrum Sylvi fyrr um daginn.

Máfur.

Þarna líkaði feðgunum nú aldeilis lífið.

Mér fannst þessi rauk eins og brjóstmynd af konu í prófíl með hnút hátt upp á höfðinu. Svona sem stærðarviðmið held ég að maður sem stæði upp við raukinn næði kannski hálfa leið upp „hálsinn“ á henni.

Ótrúlega flott! Ég held að þessi staður sé einn sá kyngimagnaðasti sem ég hef komið á, alla vega utan Íslands!

Hvítt fjörugrjót. Ég hef oft ergt mig á steinasöfnunaráráttu Maríu sem er yfirleitt með vasana fulla af grjóti. En þarna stóðst ég sjálf ekki mátið og tíndi slatta af steinum sem ég tók með mér heim.

Birtan þarna var alveg svakaleg, varla að maður gæti verið með opin augun, samanber Huga á myndinni! Í fjarska sjást einhverjir aðrir ferðamenn sem eru ágætis stærðarviðmið við raukana.

Það er ekki bara mögnuð birta á Gotlandi heldur verða allir litir svo djúpir og fallegir þarna. Sjórinn svo blár og innan um þessa ljósu tóna standa allir litir svo út eins og guli mosinn á raukunum á þessari mynd.

Fjölskyldumynd II frá Fårö!

Fimmtudagurinn 17. júní

Þjóðhátíðardagurinn haldinn hátíðlegur í Hvíta húsinu og baðað við Danbo strönd.

Baldur Tumi í blómahafi að morgni þjóðhátíðardagsins. Hann er þarna við fæturna á okkur Einari sem settumst í yfirbyggðu róluna sem stóð í garðinum, drukkum morgunkaffi og lásum bækur. Ekkert betra!

Þar sem við höfðum verið á svo miklu ferðalagi daginn áður ákváðum við að halda okkur heima þennan dag. Að vísu röltum við yfir á „strönd hússins“, Danbo strönd sem var bara í 10-15 mínútna göngufjarlægð. Hugi var fljótur að komast í sinn vanalega strandgír og hljóp um í eigin heimi.

Það var líka fallegt þarna þótt þetta hafi kannski ekki alveg jafnast á við Sudersand.

Oj bara II!

Þau virðast finna lítið fyrir kulda þessi börn mín!

Og þó, þarna var nefnilega að finna lítinn „poll“ sem ekki hafði tæmst í síðustu fjöru og þar var vatnið mun hlýrra og notalegra svo þau héldu mest til þar og kölluðu „heita pottinn“.

Samtaka nú!

Baldri Tuma var enn meinilla við sandinn og sjóinn en hafði þó nokkurn áhuga á að fylgjast með því hvað stóru systkini sín væru að gera.

Feðgarnir í könnunarleiðangri.

         

Stórkostlega María!

Alsæll stór strákur.

Einar reyndi ýmislegt til að hafa ofan af fyrir óhressum Baldri Tuma.

En honum stökk ekki bros á vör og lét ekki plata sig í neina asnalega strandgöngu aftur! Á endanum fóru þeir feðgar heim á undan okkur hinum sem nutum þess aðeins lengur að busla í sjónum/liggja í sandinum. Ég held að þessi hálftími sem ég lá þarna og las í bók hafi gefið mér orku fyrir næstu fimm árin eða svo!

Þótt það hafi kannski virst sem María og Hugi væru aðallega að tæma sín orkubatterí er ég viss um að þau hlóðu þau alveg fullt líka!

Sandurinn þarna var mun grófari en á Fårö en dásamlegur samt. Það er bara fátt betra en vera með sand milli tánna (alla vega ef maður er ekki Baldur Tumi).

Sandur, melgresi og himinn í fallegri litasamsetningu. Náttúran er yfirleitt besti hönnuðurinn! Haldið þið ekki að þessir litir myndu gera sig vel saman í röndóttri peysu til dæmis? Það er hér með komið á prjóna-stefnuskrána mína.

Á leið heim eftir planka.

Meira að segja María og Hugi voru sammála mér að litirnir í náttúrunni væru fallegri á Gotlandi en annars staðar og saman dáðumst við að þessum rauðleita gróðri sem er þarna til vinstri en myndaðist ekki alveg nógu vel.

Plankinn endar og skógurinn tekur við.

Sýnist ykkur þau ekki farin að þreytast pííínulítið á öllum þessum myndatökum?!

Á Gotlandi vaxa ekki bara trufflur heldur líka villtar orkideur í ótal afbrigðum. Þarna held ég að ég hafi einmitt rekist á eitt þeirra.

Utan á Hvíta húsinu óx hins vegar vínviður í blóma.

Föstudagurinn 18. júní

Stenugnsbageriet í Rute heimsótt, ekið gegnum norðurhluta Gotlands og endað í Visby.

Við fengum Gotlands Tidningen í póstkassann meðan á dvöl okkar stóð og gátum því fylgst með fréttum frá staðnum. Þetta var forsíðufréttin þennan daginn! Einhvern veginn held ég að maður hljóti að búa á góðum stað þegar hún fjallar um kettlinga sem bjargað var úr ruslatunnu!

Og heil opna var lögð undir ferðalag svanapars með ungana sína yfir götu og út á vatn!

Stenugnsbageriet í Rute var annað fyrirheitna landið mitt í þessari ferð. Það er varla að maður lesi eða heyri neitt um Gotland án þess að það bakarí sé rómað í bak og fyrir og þangað bara varð ég að koma! Það var reyndar skítkalt framan af þessum degi og þar sem það er bara hægt að sitja úti í Rute flúðum við inn í gróðurhúsið sem stendur við bakaríið.

Baldur Tumi lét kuldann hins vegar ekkert á sig fá og fékk sér kaffi!

Við vorum ekki einu gestirnir í Rute! Nei, nei þar var líka mótorhjólagengi sem greinilega hafði ekki heldur farið varhluta af orðspori stenugnsbakaríisins. Gotland var reyndar uppfullt af mótorhjólagengjum þessa daga því þar fór fram hið svo kallaða Lelle-träff sem mætti útleggja á íslensku sem Lalla-hittingurinn! Einhvern veginn virðumst við fjölskyldan ekkert geta farið út fyrir bæjarmörkin án þess að þar séu mótorhjólaträff í gangi! Hvað um það, mótorhjólagengi missa dálítið broddinn þegar maður hefur heyrt meðlimi þess segja „... och jag tar en kanelbulle också“!!!

Rute liggur ekki alveg við ströndina en þeir í bakaríinu höfðu bara reddað því!

Litli kúturinn í fínu kerrunni (sem ég get mælt heilshugar með, það er eins og maður sé að gera töfrabragð þegar maður leggur hana saman!!!) fyrir framan gróðurhúsið.

Maður þarf að eiga nóg af viði þegar maður rekur steinofnsbakarí.

Það er svo rétt að það komi fram að bakaríið stóð fyllilega undir væntingum sem þó voru ærnar fyrir! Brauðið þarna var himneskt og við keyptum nokkrar tegundir til að taka með okkur heim.

Gömul saumavélaborð fyrir utan bakaríið.

Smá antistemmning svona við lítið sveitabakarí en samt kannski það sem gaf ferðinni einna mestan lit!

Frá Rute keyrðum við sem leið lá til Lickershamn að skoða Jungfruklint sem er hæsti rauk Gotlands. Þar var reyndar skítkalt og við nenntum ómögulega að labba upp að rauknum en ég held að þetta sé hann sem gnæfir upp þarna fyrir miðri mynd!

María og Hugi í Lickershöfn.

Einar alltaf með Baldur Tuma, ég alltaf með myndavélina!

Einar kenndi krökkunum að fleyta kerlingar í smá stund en svo drifum við okkur bara aftur í bílinn og keyrðum til Visby með nokkrum stoppum á leiðinni.

Við ákváðum að halda fram hjá crêperiunni og fara á annað kaffihús til að geta fengið okkur þjóðarrétt þeirra Gotlendinga, saffranspönnuköku með salmbärsultu (hvað er eiginlega salmbär og hvað heitir það á íslensku?!). Baldur Tumi fékk nýja bleiu og tjillaði í bakgarðinum á Rosas café.

Þessi þurftu enga bleiu!

Einar með fullan maga af saffranspönnukökunni sem var mjög góð. Þetta er að vísu engin hefðbundin pönnukaka heldur kaka sem er bökuð í grunnu formi og hefur grjónagraut að meginuppstöðu! Bragðast mun betur en það hljómar!

Allir strákarnir mínir.

Þetta kaffihús er rekið á neðstu hæðinni í gömlu íbúðarhúsi og bakgarðurinn er því bara eins og bakgarðar eru flestir nema með stólum og borðum. Og leiðin inn og út liggur um þröngt húsasund. Mjög krúttlegt allt.

         

Götumyndir frá Visby.

Þegar heim var komið spiluðu María og Hugi badminton ...

... og Baldur Tumi fylgdist með trylltur af gleði!

   

Þetta var annars helsta dægradvöl krakkanna meðan á dvölinni stóð!

   

Hoppsería af Huga!

Deginum lauk svo að sjálfsögðu með hefðbundum heimagerðum föstudagspizzum. Maður rýfur ekkert svona hefð þótt maður fari í ferðalög!

Laugardagurinn 19. júní

Baðferð, prinsessubrúðkap og blúnduorgía.

Loksins var hann runninn upp, dagurinn sem ég er búin að bíða eftir svo lengi! Minnugir lesendur muna kannski eftir opna bréfinu sem ég skrifaði til Viktoríu krónprinsessu áður en ég flutti hingað þar sem ég bað hana að gifta sig meðan ég byggi í Svíþjóð svo ég fengi að njóta konunglegs brúðkaups úr návígi. Ég ætlaði mér að vísu alltaf að standa í Stokkhólmi og veifa fána en þar sem við vorum stödd á Gotlandi gekk það ekki alveg upp og ég varð að sætta mig við að fylgjast með herlegheitunum í sjónvarpinu. Við hituðum upp með góðri baðferð í Danbo og grófum tærnar í sandinn meðan Viktoría lét næla á sig blúnduslöri Sofiu drottningar!

Mikið vildi ég að allir morgnar gætu byrjað svona!

Það var ekki laust við að Baldur Tumi væri aðeins að taka ströndina í sátt, hann fékkst alla vega til að sitja eða standa á handklæðinu hjá mér og horfa út á sjó án þess að kvarta!

María lætur ekki sjóböð nægja heldur fer líka í sandböð.

 

Þarna sé ég eitthvað með spennandi tökkum sem ég þarf að prófa!

Feðgana ber við himin.

Kannski við ættum að flytjast til Suðurhafa, búa í strákofa og selja kókoshnetur á ströndinni? Þá myndu allir morgnar raunverulega byrja svona!

Eftir sjó og sand var tími til kominn að drífa sig heim þar sem fínu brúðkaupsgestirnir voru um það bil að hefja gönguferð sína úr höllinni og yfir í Storkyrkan. Við vorum auðvitað með tertu! (Kertastjakinn þarna á bakvið er hefðbundið gotlenskt skraut.)

Terta fólksins.

Við skemmtum okkur öll stórkostlega yfir brúðkaupinu. Meira að segja Hugi sat sem límdur fyrir framan skjáinn og var farinn að þekkja allar helstu prinsessur Evrópu eins og ekkert væri og hrópaði „Þarna er Maxima/Mary/Mette-Marit“ eins og um góðar vinkonur væri að ræða! Mér sýnist ég þarna voteyg yfir tárum Daniels í kirkjunni!

Eftir vígsluathöfnina héldu brúðhjónin í hefðbunda hestakerruferð en við misstum því miður af því þar sem við vorum búin að mæla okkur mót við listakonuna Ulriku Björkman á vinnustofunni hennar í Roma. Ulrika rekur fyrirtækið Women before us og býr til veggmyndir úr gömlum hekluðum dúkum. Þeir sem þekkja mig vita að fátt þykir mér fegurra en blúndudúkar þannig að þegar ég rakst á myndirnar hennar Ulriku fannst mér eins og ég hefði hitt sálufélaga! Þegar ég uppgötvað að hún býr og starfar á Gotlandi ákvað ég strax að setja mig í samband við hana og spyrja hvort við mættum koma í heimsókn og skoða verkin hennar og vinnuaðstöðu. Ég var í sæluvímu þegar ég sá þessar hillur úttroðnar af blúndudúkum!

Þúsundir blúndna saman á einum stað! Eiginlega hefðuð þið þurft að sjá mynd af Ulriku líka en ég kunni nú ekki við að biðja hana að sitja fyrir. Þið verðið bara að ímynda ykkur litla valkyrju með ljósgult hár í converse strigaskóm! Já og eiginlega hefðuð þið þurft að sjá restina af húsinu sem vinnustofan er í. Það er nefnilega gamalt bíóhús sem fjölskyldan Björkman keypti og er að gera upp. Þau voru komin með eldhús í áhorfendasalinn og rúm upp á svið! Í anddyrinu og tröppunum upp á aðra hæð var svo skreytt með hundruðum gamalla rósóttra postulínsbolla. Ótrúlega fallegt!

Þetta er sjálfsagt fallegasta herbergi sem ég hef komið inn í! Þarna sjást tvær af myndunum hennar Ulriku. Ég sé enn dálítið eftir að hafa ekki keypt þessa minni með textanum „Kom ihåg din dödlighet“ ristum í viðarplötuna. Mér fannst það svolítið þungur boðskapur að hengja upp á stofuvegginn en hann er þó alveg í takt við hugmyndina að baki verkunum. Nú kann ég auðvitað ekki að segja nógu vel frá þessu en Ulrika er upptekin af því að handverkskunnáttan muni kannski deyja út á næstu árum þar sem færri og færri kunna tæknina við að gera svona blúndur. Myndirnar eru hennar leið til að varðveita þær og jafnframt veita lífsstarfi liðinna kvenna uppreisn æru. Upphafið að því að hún fór að gera þessar myndir var að hún fann úttroðna poka af hekluðum dúkum á ruslahaugnum og fannst hún verða að bjarga þeim, þeir hefðu væntanlega verið ævistarf einhverrar óþekktrar konu. Í dag hefur orðspor Women before us farið nógu víða til að Ulrika fær blúndur með póstinum á hverjum degi sem gamlar konur senda henni þar sem þær segja enga afkomendur hafa áhuga á þeim og þær því vera fegnar að einhver geti notað þær.

Ég reyndi að sannfæra Einar um að hann skyldi bara vera þakklátur að ég vildi bara kaupa litla mynd og tvær litlar flísar (nýjasta afurð Women before us eru keramikflísar með blúndumynstri) þar sem við fréttum af því að skömmu áður hefðu hjón frá Stokkhólmi nánast verið skilin á tröppunum hjá Ulriku þar sem frúin hemtaði að kaupa þessa mynd meðan maðurinn reyndi að sannfæra hana um að hún kæmist alls ekki í bílinn!

Eftir þessa blúnduorgíu fórum við aftur heim og héldum áfram að horfa á prinsessubrúðkaup. Það má því segja að það hafi jaðrað við ofskammt af rómantík og dúlleríi á einum degi!!!

Sunnudagurinn 20. júní

Hvíta húsið yfirgefið og Gotland kvatt frá hæsta punkti.

Daginn eftir var kominn tími til að halda heim á leið. María passaði Baldur Tuma úti í garði meðan við Einar þrifum húsið hátt og lágt.

         

Yndislegur lítill draumaprins í grasinu.

Það er aðalmálið þessa dagana að benda og æpa „ahh“!

Þrjú í rólu.

Baldur Tumi þurfti auðvitað að fá að prófa trampólínið líka.

Gilli gilli gill! (Asni er ég að birta allar þessar myndir af Maríu að passa Baldur Tuma og ljóstra þannig upp að ég var eiginlega bara að taka myndir þegar ég átti að vera að þrífa!!!)

Þrátt fyrir iðjuleysi mitt kláruðust þrifin nú samt og við neyddumst til að kveðja Hvíta húsið með söknuði og von um að fá að koma þangað einhvern tímann aftur.

Við nutum þess að keyra yfir Gotland í síðasta sinn í bili í fallegu veðri.

Ég er annars að hugsa um að sleppa Suðurhafsdraumnum og stefna frekar á að kaupa mér sumarhús á Gotlandi svo ég geti sem oftast notið svona umhverfis.

Við áttum ekki bókað með ferjunni fyrr en seinni partinn þannig að við gátum farið síðustu ferð á crêperiuna og svo keyrðum við út að hæsta punkti Gotlands, Högklint, rétt fyrir utan Visby þar sem þessi mynd er tekin.

Stóru alsæl í lok frábærs sumarfrís!

Horft út yfir Visby.

Ég veit að þetta fer að verða þreytt með litina á Gotlandi og þetta djúpbláa haf þannig að þetta er síðasta myndin af slíku!

Þessi frú var búin að koma sér þægilega fyrir og setja upp sólstól á klettasyllu! Það væri nú ekki dónalegt að eiga eitt af húsunum þarna í baksýn!

Síðasta Gotlandsmyndin af þessum tveimur saman!

Þegar við vorum að leggja af stað aftur í bílinn stoppaði Hugi mig og bað mig að taka eina mynd í viðbót af sér. Svo stillti hann sér upp svona hoppandi á öðrum fæti. Ég fattaði ekki alveg hvað hann var að pæla fyrr en það rifjaðist upp fyrir mér svolitlu síðar að ég hafði eitthvað verið að tala um það þarna á klettinum að það væri svo týpískt að eitthvað kæmi fyrir einmitt þegar maður væri í síðustu ferðinni. Við værum því að útsetja okkur fyrir fótbroti eða einhverju álíka með því að fara í þessa síðustu skoðunarferð. Hugi hefur greinilega viljað gera þessa pælingu ódauðlega á mynd, þið sjáið náttúrulega að hann er fótbrotinn!!! Það er hins vegar skemmst frá að segja að við komumst bæði heil niður af Högklint og heim á Konsulentvägen síðar um kvöldið eftir langa ferju- og bílferð.

Mánudagurinn 21. júní

Góssið skoðað!

Þegar heim var komið og töskurnar tæmdar leið mér eins og ég hefði látið greipar sópa í Visby alveg eins og ræningjarnir sem múrinn átti að halda úti!!! Í það minnsta kom ansi mikið af fínu dóti með mér heim og flest átti það sameiginlegt að vera hvítt eða með blúndumunstri! Gæruskinnið er undanskilið en það fer enginn til Gotlands án þess að koma með Gotlandsgæru með sér heim! Skinnið er undursamlega mjúkt og dásamlegt, keypt af bændahjónum í sveitinni. Og hettupeysan úr flísi er frá ægilega vinsælu merki hér í Svíþjóð sem ég uppgötvaði sem sagt í þessari ferð að er gotlenskt eins og allt gott! (P.s. Borðstofuborðið er nýtt/gamalt, hluti af verkefninu „Gerum heimilið meira eins og í dönsku blöðunum“! Þarf að birta betri mynd af því við tækifæri.)

Þetta er Women before us myndin mín! Ég er þegar farin að plotta að komast aftur í heimsókn til Ulriku sem fyrst til að kaupa meira af henni og helst eitthvað stærra!

Og hér eru Women before us flísarnar. Getið þið ímyndað ykkur hvað baðherbergi með svona flísum yrði dásamlegt?! Ég ætla hins vegar bara að nota mínar tvær eins og lítil listaverk og stilla þeim upp á einhverjum fínum stað í stofunni.

Meira dót í hvíta blúnduþemanu. Vasi og þrjár kertakrúsir.

Kertastjakarnir í nærmynd. Þessi lengst til vinstri er eins og blúnda úr keramik en hinir eru gerðir með því að þrýsa hekluðum blúndum í postulínið áður en það er brennt. Þannig er vasinn sem glittir í þarna á bak við líka gerður. Þetta er samt allt eftir sitthvora sænsku listakonuna (nema náttúrulega kertakrúsirnar tvær sem eru í stíl).

Ég missti næstum andann þegar ég sá þetta gamla box í dásamlegri búð í Visby. Ég elska svona gömul box en þau eru yfirleitt frekar dýr hérna svona miðað við og ég hef sjaldan séð nokkuð sem er peninganna virði. En þetta var ekki bara undursamlega fallegt í uppáhaldslitunum mínum heldur líka ódýrt. Það hýsti kaffi hér fyrir einhverjum áratugum og á lokinu er mynd af mömmu að hella rjúkandi heitu kaffi í bolla barnsins síns meðan pabbinn fylgist ánægður með! Hringinn í kringum boxið eru svo vetrarlegar myndir.

Haldið þið ekki að það verði fínt undir einhverjar jólasmákökur að hálfu ári liðnu?!

Takk Gotland fyrir allt fína dótið en þó aðallega fyrir allar fallegu minningarnar. Við komum aftur sem fyrst!