Gestir í mars

Nóg hefur verið að gera hjá ferðaskrifstofunni Konsulentinum í marsmánuði því í síðustu viku komu heilir þrír gestir í einu!!! Það voru amma á Sóló, Jódís og Hrappur sem heiðruðu okkur með nærveru sinni og áttum við sex skemmtilega daga með þeim.

Amma kom að sjálfsögðu með ferðatösku fulla af íslenskum kræsingum og hér er stórfjölskyldan að gæða sér á litlum páskaeggjum og lesa málshætti fyrsta kvöldið.

Mæðginin Jódís og Hrappur komu ekki heldur tómhent en Jódís færði mér meðal annars rúmlega fimm kíló af hvítu súkkulaði og eitt og hálft af súkkulaðirúsínum! Ég sé að þetta lítur af illa út fyrir mig!!!

María og Hrappur eru góðir vinir og náðu óskaplega vel saman í ferðinni. Hér eru þau í prinsessu- og drekaleik.

En Jódís flutti ekki bara súkkulaði hingað til Svíþjóðar heldur færði hún systkinunum ýmsar gjafir! Hér taka þau spennt á móti pökkunum!

Hugi fékk meðal annars þetta glæsilega sjóræningjasett í síðbúna afmælisgjöf (hann kann aldrei almennilega að setja á sig svona lepp ... sér held ég alveg jafnilla með því auga sem sem ekki er undir leppnum!)

Hér eru frændurnir Hrappur og Hugi í tvíburanáttfötum! Það eru aðeins þrír mánuðir á milli þessara stráka, Hrappur er fæddur í október 2001 og Hugi í janúar 2002. Emil frændi þeirra er svo bara einum mánuði eldri en Hrappur þannig að þetta er mikil frændasúpa!

Jódís er mikil föndurkona og hennar helsta verkefni núna (fyrir utan að vera guðfræðinemi) er að framleiða ótrúlega sæta fjaðrahatta sem seldir eru í Gyllta kettinum. Við fórum því í gríðarmikla innkaupaferð í föndurbúð Uppsalabúa þar sem fjaðrir voru keyptar í hundraðatali ásamt perlum, kristöllum og glitrandi steinum! Hér er hattagerðarkonan að fara yfir aðföngin!

Ég vildi bara benda mínu fólki á hvað Jódís er ótrúlega lík Áslaugu á þessari mynd!!! Ekki leiðum að líkjast á hvorn veginn sem er!

Þrátt fyrir að veðrið væri ekki sem best voru krakkarnir dugleg að fara út að leika. Hér sjást skötuhjúin María og Hrappur í óða önn að gera „heimafínt“ í tréhúsinu.

Inni sat hins vegar Jódís og föndraði hatta handa mér! Ég græddi heila tvo á þessari heimsókn hennar, einn svartan með slöri og svo þennan fallega bláa sem hún er í óða önn að búa til á þessari mynd!

Kiðlingarnir þrír fengu gefins þessa ansi „skemmtilegu“ lúðra í búð niðri í bæ. Hér eru þau að halda tónleika fyrir Einar eftir góða hvatingu frá mér (þess má geta að ég var einmitt sjálf á leiðinni út í búð á þessu augnabliki!).

Búúúúú búúúú búúúú búúúúú ... !!!

       

Jódís gaf mér ótrúlega fallegan vönd með rauðum og bleikum ranaculusum!

Dásemdin ein!

   

Á laugardeginum fengu krakkarnir að fara sjálf út í búð til að velja sér nammi. Því miður náðist ekki mynd af þeim þar sem þau leiddust af stað, það hefði sko orðið krúttleg mynd skal ég ykkur segja! Þessar þrjár verða því að duga af nammigrísunum!

Við Jódís sátum sem negldar yfir þessari „Hvar er Valli“ bók sem Jódís hafði keypt. María tók þessa stórgóðu mynd af okkur á laugardagsmorgninum þar sem við vorum að gera tilraun til að finna síðustu tvo atriðin í „finnið tuttugu villur“ leik. Það er rétt að geta þess að atriðin tvö eru enn ófundin! Hér er því komin gestaþraut Konsulenta sem lögð verður fyrir alla þá sem leggja munu leið sína til okkar í framtíðinni.

Um helgina leigðum við risastóran 9 manna bíl til að allir gætu komist með í skemmtiferðirnar sem fyrirhugaðar voru. Maríu og Huga fannst bíllinn það allra skemmtilegasta við heimsóknina! Hér eru krúttin búin að koma sér vel fyrir í öftustu sætaröðinni.

Allir komnir inn (eða næstum því) og rútan um það bil að fara að leggja úr hlaði með Einar bílstjóra við stjórnvölinn!

Við byrjuðum laugardagsreisuna á herragarðinum í Hammarskogen þar sem við fengum okkur góðan hádegismat. Hugi og guðmóðir hans voru sátt við þetta allt saman.

Sætur kall!

Herragarðs-María.

Einar og amma bíða eftir hádegismatnum.

Hrappur borðar spaghetti með tilþrifum!

Eftirrétturinn girnilegi (ég veit að það hefði komið betur út fyrir mig að sleppa þessari mynd svona fyrst ég asnaðist til að birta upplýsingarnar um súkkulaðikílóin!).

Þegar við komum út af herragarðinum var loksins farið að birta til eftir marga þungskýjaða daga. Útsýnið yfir Mälaren, þriðja stærsta vatn í Svíþjóð, var því fallegt.

Stórfjölskyldan fyrir framan herragarðinn, Jódís og fæturnir á Hrappi, amma á Sóló, Hugi, Einar og María.

Sætir krakkar að leika í skógarjaðrinum.

Hefðbundin uppstilling af okkur hjónaleysum (hmmm, ég sé að ég þarf að fara að lita rótina ... vandræðalegt).

Sæt frænka sem ég á!

Við frænkurnar. Jódís er búin að sækja um Nordplus styrk til að stunda nám við Uppsalaháskóla vorið 2008. Ég get hreinlega ekki beðið og er strax farin að skipuleggja alla mánuðina okkar saman algjörlega án tillits til þess að hún muni eitthvað þurfa að læra stúlkan! Nei, þetta verða endalausar Stokkhólmsferðir, kósíkvöld á náttbuxunum, kaffihúsa- og bíóheimsóknir, pönnukökur með sírópi á sunnudagsmorgnum og svo sólbað og svaladrykkir á pallinum þegar fer að vora. Það sér hver maður að það er ekki pláss fyrir lestur og próf í þessari dagskrá!

Krakkarnir fundu leynistað í gömlum trjástofni þar sem gaman var að leika.

Lítill Hrappur, stór tré.

María í byssó bak við tréð ... móðirin var dálítið sjokkeruð, hefur aldrei fyrr séð börnin sín leika með byssur!

Hugi horfir yfir vatnið og skóginn eins og stoltur landeigandi.

Það voru líka vorboðar í Hammarskogen!

Áður en Hammarskogen var yfirgefinn var komið við á þessu leiksvæði þar sem börnin þrjú nutu þess að fara í sjóræningjaleik á tréskipinu.

Frá Hammarskogen héldum við norður fyrir Uppsali og komum við á handverkssetri rétt við Bälinge. Feðgarnir horfa hér yfir fyrrum vatnsmyllustæði.

Strákarnir skoða ána sem rennur undir grindinni. Dálítið spennandi fyrir svona gaura!

   

Því miður virtist starfsemi handverkssetursins vera í lágmarki einmitt þegar okkur bar að garði. Við kellurnar skemmtum okkur þó við að skoða antiksölu sem þarna var staðsett og krakkarnir fundu þetta ótrúlega skemmtilega klifurhús!

Mig langar að eiga heima í þessu húsi og geta staðið við gluggann með stjörnunni!

    

Páskaliljur í Bälinge.

Frá Bälinge ókum við sem leið lá til Gamla Uppsala. Hér var bæjarstæðið áður fyrr og fyrir aftan þessa sætu krakka má einmitt sjá gömlu dómkirkjuna sem er fyrirrennari þeirrar frægu í Uppsölum sem ég hef margoft birt myndir af hér.

  

Þessi kirkja er frá 12. öld, gömul og sæt. Ég er alltaf veik fyrir Maríustyttum!

Gömlu Uppsalir eru þó ekki þekktastir fyrir gömlu dómkirkjuna heldur þessa víkingahauga sem hér sjást. Þarna eru þrír víkingakonungar heygðir ásamt skipum sínum og öðrum munum sem nauðsynlegt þótti að taka með sér yfir móðuna miklu.

Á þessum mikla víkingastað var að sjálfsögðu að finna víkingaskip!

Þrjár úr Garðhúsum!

Við enduðum þetta frábæra laugardagsferðalag á elsta ítalska veitingastaðnum í Uppsölum. Þar fengum við góðan mat og áttum notalega stund saman. Sérlega skemmtilegt var líka að verða vitni að óvæntum fagnaðarfundum á næsta borði. Skömmu eftir að við settumst komu miðaldra hjón inn ásamt ungu pari (við teljum að strákurinn hafi verið sonur hjónanna og stúlkan kærasta hans). Þegar þau voru nýsest birtist annað ungt par sem við höfðum einmitt séð vera að læðupokast eitthvað í bakherbergi á veitingastaðnum (við spáum því að stelpan hafi verið dóttir hjónanna og strákurinn kærasti hennar). Urðu þarna miklir fagnaðarfundir og ljóst að unga fólkið hafði komið sér saman um að koma gömlu hjónunum á óvart. Það var ótrúlega gaman að verða vitni að þessu og ég sá að það er greinilega gaman að láta koma sér á óvart (þetta fólk hló alla vega MIKIÐ). Ég heimta að þið byrjið nú þegar að skipuleggja einhverja óvænta uppákomu fyrir mig!!!

Um kvöldið spiluðum við unga fólkið Yatzy. Hver var það aftur sem vann í tvö skipti af þremur? Æ, já, alveg rétt, það var ég! Og hver var það aftur sem tapaði í öll skiptin? Mig minnir endilega að það hafi verið einhver sköllóttur spilakóngur ... hver gæti það hafa verið?!

Á sunnudeginum var svo brunað á rútunni út í hinn dásamlega Vaxholm! Fyrir ykkur sem ekki munið þá er Vaxholm, eftir því sem mér skilst, höfuðstaður stokkhólmska skerjagarðsins. Bærinn er einn af mínum uppáhalds í Svíþjóð, ef ekki bara heiminum öllum! Hér er stórfjölskyldan nýkomin eftir æsilegan akstur á sænskum hraðbrautum og stödd á aðalgötu bæjarins. Athugið að maðurinn í rauðu úlpunni er ekki í fjölskyldunni ... þótt hann rími reyndar vel við hinar rauðklæddu Jódísi, Maríu og ömmu.

Við byrjuðum á að fara á sama dásamlega kaffihúsið og síðast (sjá hér!) Börnin sátu stillt og prúð meðan fullorðna fólkið tíndi kræsingar á diska.

Er annað hægt en að elska þetta kaffihús? Ég held ekki!

Það er ekki bara að kaffihúsið sé sætt og yndislegt heldur eru veitingarnar unaðslegar og úrvalið af heimabökuðum kökum stærra en á nokkrum öðrum stað sem ég hef komið á.

Sæt mæðgin, Hrappur og Jódís.

Nöfnurnar ánægðar með kaffisopa og köku.

Amma vildi að það yrði tekin mynd af Einari þar sem það væri endalaust verið að taka myndir af mér!!! Mér þykri rétt að það komi fram að ég gerði nákvæma talningu á myndunum eftir að allt var komið inn í albúm og féllu atkvæði á þá leið að frá þessari viku voru til 12 myndir af mér en 65 af Einari!!!

Eftir kaffihúsið skoðuðum við okkur um í hólmanum. Hér eru Einar og kisubörnin kátu með kastalann í baksýn.

Ég varð að taka mynd af þessum sætu húsum úti á nærliggjandi skeri. Það var ekki fyrr en ég kom heim og var búin að hlaða myndunum niður í tölvuna að ég sá að húsið er merkt „Badholmen“. Nú er auðvitað ekki spurning um að ég mun leggja allt kapp á að finna út úr því hvernig er hægt að komast út á þenna litla hólma þannig að ég geti tekið sumargestina í baðferð þangað!

  

Við ströndina rákumst við inn í þessa dásamlegu búð, Magasinet. Þar létum við skvísurnar greipar sópa og komum út hlaðnar pokum og pyngjum, fullum af alls kyns litríkum gerviblómum, ljósaseríum og öðrum skrautmunum. Þetta verður sömuleiðis áfangastaður í öllum framtíðarheimsóknum (æ, Ingi minn ég skal lofa að sleppa þér við þetta samt!). Eins og sjá má höfðu börnin jafngaman af viðkomunni þarna og við dömurnar enda nutu þau þess að hlaupa um í vorveðrinu.

Skerjagarðísk fegurð!

Ég er búin að ákveða að flytja í þetta hús þegar ég verð stór. Þetta er húsið mitt, muniði, með turninum sem ég ætla að sofna í út frá mávagargi og öldugjálfri!

Vorboðar í Vaxholm.

Fjallageiturnar þrjár að príla.

Mér finnst bara eins og ég sé komin heim þegar ég geng þessar götur!

Mávur uppi á þaki, skerjagarðsrómantík!

Enn eitt fallega húsið sem ég gæti svo vel hugsað mér að búa í!

Hjúin litlu við vatnshana. Nóg að gera í bústörfum!

Við gegnum í gegnum kirkjugarðinn á Vaxholm og þar voru þessir dásamlegu vorlaukar. Eru þetta kannski bara krókusar sem eru búnir að opna sig svona mikið? Hvað segir fólkið með grænu fingurna?

Við fundum skemmtilegan leikvöll í hólmanum og þar fengu börnin útrás í dágóða stund!

Þetta var augljóslega mikið stuð!!! MJÖG mikið!!!

Einar ruggaði sér svolítið á hesti.

Huga fannst hinn mesti óþarfi að vera í skóm á rólóinum og komum við því að honum á sokkaleistunum í mölinni! Meira vesenið á þessu fullorðna fólki alltaf hreint!

María með sparibrosið í sólinni.

  

Systkinin á hvolfi!

Mikil átök á slánni.

Skammt frá leikvellinum voru vígalegar fallbyssur sem börnin vildu að sjálfsögðu skoða nánar. Eins og mig minnir að ég hafi áður sagt gegndi skerjagarðurinn mikilvægu hlutverki við varnir landsins og því má sjá ýmsar menjar um slíkt í Vaxholm.

Vaxholm kvaddi okkur með þessari gulu blómabreiðu og morguninn eftir kvöddum við á Konsulentvägen ömmu, Jódísi og Hrapp með sárum söknuði en þakklæti fyrir samveruna og þessa góðu daga. Við hlökkum til að sjá þau (og ykkur öll!) sem fyrst aftur í Uppsölum!