Skerjagarðsferð

Laugardaginn 23. september ákváðum við Konsulentarnir að skella okkur í ökuferð um sænska skerjagarðinn.. Töluvert stórt svæði hér skammt frá virðist ómögulega geta ákveðið hvort það ætlar að vera sjór eða land og reynir því að vera bæði. Eyjar og sker stinga grænum kollum upp úr glitrandi hafinu, mávarnir sveima í hægðum sínum yfir og bátskellir óma úr fjarlægð ... hrein dásemd!

  

Þetta fallega fiðrildi beið fyrir utan Konsulentvägen meðan ég læsti útidyrunum þess albúin að halda í skemmtilegt ferðalag. Mér fannst það hljóta að veita á gott!

Við byrjuðum ferðalagið reyndar á uppáhaldskaffihúsinu mínu í Uppsölum, Ofvandahls hovkonditori, enda ómögulegt að leggja af stað í ferðalag á tóman maga. Feðgarnir voru sáttir við veitingarnar ...

... og ég er enn að gleðjast yfir að hafa loksins fundið kaffihús hér í bæ sem selur sæmilega gott kaffi!

Ofvandahls er gamalt og rótgróið kaffihús og umhverfið þar minnir einna helst á íburðamikil heimili fyrirfólks um þarsíðustu aldamót. Þetta er mikið stúdentakaffihús þótt þangað sæki vissulega fólk úr öllum þjóðfélagshópum. Hér er opnað snemma á morgnana til að þreyttir nemendur með stírur í augunum geti hellt í sig kaffi og fengið sér morgunmat áður en kennsla hefst ... vantar okkur ekki eitthvað svona á HÍ-svæðið?!

María borðar lasagne með tilþrifum!

Feðgarnir að tyggja!!! Eftir þennan huggulega hádegisverð var haldið af stað. Einar sat við stýrið en ég var á kortinu. Að sjálfsögðu sá ég til þess að við misstum af réttri beygju út af hraðbrautinni! Allt fór þó vel að lokum og eftir dágóðan akstur um sænskar sveitir og þorp sáum við glitta í sjóinn milli allra trjánna!

  

Fyrsti viðkomustaður okkar var Vaxholm sem mér skilst að kalla megi höfuðstað skerjagarðsins. Hugi var sybbinn eftir góðan lúr í bílnum og við hin dálítið stirð en öll hresstumst við fljótt í fersku sjávarloftinu. Við höfnina var heilmikið líf og fjör, fullt af fólki naut lífsins á bryggjunni en úti fyrir sigldu smábátar,seglskútur og ferjur.

Fyrir utan Vaxholm eru fjölmargar eyjar með fullt af dásamlega fallegum húsum (sem sjást því miður ekki nógu vel á myndinni). Það hlýtur að vera gaman að fara allra sinna ferða á bátum! Ég sæi það að minnsta kosti í anda að ég hefði unun af því að segjast ætla að skreppa á bátnum í búð, sigla í bankann og svo framvegis.

Á lítilli eyju fyrir utan Vaxholm stendur þetta vígalega virki sem á sínum tíma hefur væntanlega verið þýðingamikill hluti varna skerjagarðsins en hann ku hafa verið auðvelt skotmark óvinaárása fyrr á öldum. Í dag er þó annað uppi á teningnum og ef eitthvað er eru „friður“ og „ró“ sjálfsagt fyrstu hugmyndirnar sem koma upp í kollinn þegar maður hugsar um þetta landsvæði! Það er kannski til marks um þessa breyttu tíma að á myndinni sést lítil ferja leggjast að bryggju á þessari mynd, uppfull af prúðbúnum og glöðum brúðkaupsgestum!

Við ákváðum að taka okkur stutta gönguferð um Vaxholm og ég varð heillaðri með hverju skrefinu! Er þetta ekki unaðslega dásamlegt og ævintýralegt?!

Hvað skyldi fólkið dreyma hinumegin við þessa galopnu glugga?

Byggingastíllinn í Vaxholm er dálítið sérstakur, að minnsta kosti miðað við allt annað sem ég hef séð hér í landi (og tel ég mig nú vera orðinn þó nokkurn sérfræðing í sænskum byggingastíl eftir margra mánaða húsnæðisleit í vor!). Eins og sést á myndinni eru mörg húsanna eru með einhvers konar litlum turni á og svo eru þau að sjálfsögðu flestöll máluð í björtum og glaðlegum litum. Þetta svæði er fremur hæðótt og klettótt, eins og reyndar allmargir staðir hér í landi, og inn á milli húsa og klappa liðast litlar götur og krákustígar.

Dvölin í Vaxholm gerði það að verkum að ég eignaðist alveg nýjan draum: á þessari stundu langar mig fátt meira en að Einar gerist skerjagarðslæknir! Ég myndi þá vera í gúmmístígvélum allan daginn, þeysast um allt á litla bátnum mínum, baka kanilbulla og sjóða lingonsultu, lesa heimsbókmenntirnar á bryggjunni í sólskininu meðan ég dýfi tásunum í volgan sjóinn þar sem Einar kennir Maríu og Huga að synda í frístundum ... leggst svo hamingjusöm til hvíldar á hverju kvöldi í litla turninum mínum, horfi á stjörnurnar út um gluggann og hlusta á öldugjálfrið og einstaka máv sem svífur gargandi framhjá ... aaahhhh!

Það versta er að ég hef alltaf verið svolítið hrædd við sjóinn. Það myndi þó sjálfsagt alveg reddast ef ég væri alltaf með svona ótrúlega fallegan björgunarhring við höndina! Því eins og allir vita skiptir fátt meira máli en fegurð og sjarmi þegar kemur að því að bjarga fólki úr sjávarháska!

Eftir gönguferðina settumst við inn á eitt af fjölmörgum krúttlegum kaffihúsum staðarins. Ekki minnkaði aðdáun mín á Vaxholm við það, allra síst þegar ég bragðaði á þessari unaðslegu ananas ostaköku sem sést á myndinni!

Einar og börnin fengu sér heimalagaðan, ítalskan kúluís.

Á öllum borðum voru gamlir postulínsvasar með lifandi blómum sem virtust einna helst hafa verið týnd í næsta garði.

  

María var hugsanlega aðeins sætari en vanalega inni á þessu sæta kaffihúsi í þessum sæta bæ!

Hugi var auðvitað líka sætur en mamman skilur ekkert í því hvaða ótrúlega geðklofa hárið á henni var haldið þennan dag!

Það var nóg að gera á þessu frábæra kaffihúsi! Verst að ég var eitthvað svo hugfangin af öllu þarna að ég steingleymdi að gá hvað það heitir!

Á kaffihúsinu nafnlausa var hægt að blaða í gömlum dagblöðum og tímaritum. Hér er ég með eitt frá árinu 1923.

Ég veit að aðdáun mín á þessu kaffihúsi fer að jaðra við sturlun en þessar myndir lýsa fegurð þess bara svo vel að þær verða að fá að fljóta með.

Á hillum uppi undir lofti standa ýmsir gamlir og fallegir munir.

Við höfum að sjálfsögðu ákeðið að allir okkar gestir verði að komast í skoðunarferð í Vaxholm þar sem endað verður á nákvæmlega þessu kaffihúsi!

Til að komast áfram leið okkar eftir skerjagarðinum þurftum við að fara um borð í bílaferju. Á tveimur stöðum á leiðinni sem við ókum er óbrúað en í staðinn flytja þessir stóru prammar bílana með reglulegu millibili yfir daginn. Ferjurnar eru hluti af sænska vegakerfinu, maður keyrir um borð, siglir yfir og ekur svo beint af stað aftur ... og borgar ekki krónu. Þetta er óneitanlega dálítið krydd í ferðalagið!

Horft yfir Vaxholm úr ferjunni.

Þetta glæsilega hús er Hotel Vaxholm sem var hannað af Erik Lallerstedt árið 1899. Lallerstedt þessi er einn af þekktustu arkitektum Stokkhólms.

Ferjan nálgast land aftur.

Hér eru Einar og María um borð í næstu ferju. Maríu fannst þetta ansi mikið sport og talaði af innlifun um að þetta hefðu verið fyrstu bátsferðirnar sínar. Við foreldrarnir vonum nú að hún komist fljótlega í meira spennandi bátsferðir en með einhverjum bílaprömmum!

Næsta stopp var við höfnina í Gustavsberg. Jú mikið rétt, héðan koma klósettin okkar!

Kirkjuturninn í Gustavsberg.

María og Hugi kát og hress í Gustavsberg. Það var heldur lítið við að vera þarna þegar okkur bar að garði. Öll söfn, verslanir og markaðir höfðu lokað tveimur tímum áður þannig að við stoppuðum stutt. Við skellum okkur bara í sérferð seinna til að skoða allt þetta postulín sem heimamenn framleiða í miklu magni!

Fjölskyldufaðirinn í síðdegissólinni.

Á leiðinni heim var kortalesarinn í tómu tjóni! Í tvígang lentum við í ógöngum og á endanum varð bílstjórinn að taka völdin! Mér til afsökunar segi ég að allar vegvillur tengdust blaðsíðuskiptum í kortabókinni góðu en þá tapast yfirsýnin algjörlega! Fjölskyldan á Konsulentvägen komst þó heim seint og um síðir ... ekki þó það seint að við gætum ekki pantað okkur ljúffengar Vänge pizzur til að hafa í síðubúinn kvöldmat eftir þessa frábæru ferð!