Gestaherbergið

´Í haust gerðum við smávægilegar breytingar á gesta- og sjónvarsherberginu okkar. Þetta voru nú svo léttvægar framvkæmdir hjá okkur að það voru ekki teknar neinar „fyrir“ myndir og þar af leiðandi verðskulda þær eiginlega ekki séralbúm. En það fór svo einstaklega illa á þessu með jólamyndunum svo á endanum sá ég mér þann kost vænstan að skutla þessari yfirferð á afvikinn stað!

Aðalbreytingin fólst í bókahillunum. Þær sem voru þarna fyrir nýttust einstaklega illa og voru svo dökkar og miklar að þær soguðu í sig alla birtuna í herberginu eins og lítið svarthol. Uppröðun húsgagnanna jók svo enn á þetta en helsti íverustaðurinn, sófinn, stóð í mesta skúmaskoti herbergisins. Þar standa nú nýju bókahillurnar sem eru ósköp venjulegar Billy hillur úr Ikea sem Einar setti lista og smá falskan vegg í kringum og líta út fyrir að vera ægilega fínar innbyggðar hillur! Þær leystu auk þess öll vandamál tengd plássleysi því eins og lesendur sjá komast miklu fleiri bækur fyrir í hillunni en nú eru. Ég vandaði mig annars rosalega við að raða í hillur og komst að því að (samvkæmt mínu mati) var alls ekki sama hvar maður setti bækurnar ef heildarsvipurinn átti að vera réttur. Þetta var því margra daga ferli og bókastaflar fluttir til og frá en það var vel þess virði þar sem ég var mjög ánægð með útkomuna.

Skemmtilegast finnst mér að hafa (enn!) pláss fyrir fínar punthillur! Þetta er fína hillan og eins og þið sjáið prýða hana einmitt rammar með glænýjum ljósmyndum  af börnunum(sbr. hér!) Svo er þarna blúndumynd sem ég bjó til sjálf, afraksturinn af tilraunastarfsemi í jólagjafaföndri (myndirnar sem ég gaf voru töluvert betur heppnaðar en þessi ... vona ég!). Ísbjörninn og hyacintan standa svo fyrir smá vetrar- og jólastemmningu.

Í næstu hillu fyrir ofan er annað föndurverkefni. Ég beit það í mig að ég yrði að mála nokkrar bækur hvítar og stilla þessum litla postulínsfugli upp ofan á. Ég tímdi náttúrulega ekki að eyðileggja neinar af mínum eigin bókum svo 20 króna hillan í antikbúðinni minni sá mér fyrir efniviði. Ég átti að vísu líka svolítið erfitt með að eyðileggja þær og fylltist á ögurstundu vissu um að þetta væru allt gleymdar perlur og ómetanlegar vörður menningarsögunnar (líka Bonniers Månadshäften!) en á endanum lét ég mig hafa það. Þetta var nú eitthvað flottara eins og ég var búin að sjá það fyrir mér en betra en tómar hillur!

Handavinnu- og föndurbækurnar eru í heiðurssæti í þessum hillum (allar fínu bækurnar eru náttúrulega í svörtu skápunum í stofunni) og mér fannst ég rosa sniðug að setja þetta „&“ milli sauma- og prjónabókanna. Prjónabókunum raðaði ég annars í litaröð eftir að hafa reynt ýmsar aðrar uppstillingar. Þið verðið bara að trúa því að þetta var miklu fínna svona en á nokkurn annan veg þrátt fyrir að litaröðin sé út af fyrir sig ekkert áberandi. Í hillunni fyrir ofan er svo allur japanski handavinnulitteratúrinn minn og allra fínustu saumabækurnar.

Frá bókahillunum yfir í sófahornið sem er reyndar alls ekki tilbúið. Ég á alveg eftir að hengja upp myndir á veggina og setti þessi jólapóstkort bara upp yfir hátíðirnar. Það sem er aðallega eftirtektarvert á þessari mynd er gamla litla hliðarborðið okkar sem við Einar lökkuðum og pússuðum til að láta það líta út fyrir að vera gamalt og slitið en ekki keypt í Ikea fyrir 10 árum síðan! Svo var ég ótrúlega ánægð með kaupin á lampanum sem stendur á því. Mig langaði hrikalega mikið í lampa í uppáhaldsbúðinni minni sem kostaði litlar 2800 sænskar krónur. Ég var náttúrulega ekki að fara að kaupa hann og kættist því mjög þegar ég fann þennan einfalda skrifborðslampa í Ikea sem var næstum eins (ég sé að Ikea ætlar að verða mikið leiðarstef í þessu albúmi!). Ég sit svo mikið í þessu horni og prjóna og þá þarf maður gott vinnuljós. Já og lampinn, hann kostaði 140 krónur! Það síðasta sem er vert að benda á á þessari mynd er svo Herra Köttur, sæta gula kisan í sófanum. Svanhildur bjó hann til handa Baldri Tuma áður en hann fæddist og hann er vanalega í vöggunni hans að passa hann en hafði farið á smá flakk og ég vildi auðvitað ná honum á mynd áður en hann stykki aftur af stað!

Jólakortin sómdu sér vel á veggnum yfir hátíðirnar.

Jólastemmning í glugganum. Tilgangsleysi þessa albúms verður sífellt ljósara því líkt og með sófahornið, veggina og flest annað í herberginu er ég ekkert búin að ákveða endanlega hvernig ég ætla að hafa gluggann. En hey, hann var fínn um jólin og allt í lagi að festa það á filmu hvað svo sem gerist síðar!

Að lokum er svo ein mynd af gömlu setjarahillunni minni. Ég var búin að vera að velta því fyrir mér að mála hana hvíta þar sem mér fannst hún einmitt líka með smá svona svartholseffekt! Svo tímdi ég því alls ekki þar sem hún er svo fallega slitin og mikil listasmíð. Í staðinn þreif ég hana vel og olíubar og ákvað að setja bara ljósa og bjarta hluti í hana til að létta yfirbragðið. Blúnduhjartað bjó ég til sjálf og hvíta hjartalaga jólakúlan fær nú held ég að vera þarna áfram þótt jólin séu búin. Svo er þarna enn einn postulínsfuglinn, keyptur með þeim sem stendur ofan á hvítu bókunum og þeim á aðventukransinum, og nokkrar gamlar tréspólur með silkiþræði í ýmsum grænum tónum. Og svo stafirnir okkar Einars, allt voða væmið! Eftir að ég tók myndina hef ég að vísu bætt einum hlut við, skapalóni (eins og þeim sem ég skrifaði God jul með) með tölustafnum 5 - af því að við erum fimm í fjölskyldunni. Væmið? Já, já, því meira því betra!