Nokkrar nóvembermyndir 2009

Betra er seint en aldrei!

Baldur Tumi stundaði stífar setuæfingar í nóvember. Það er vandasamt að halda jafnvægi eins og sjá má.

Þetta er allt saman svolítið skemmtilegt.

María er búin að vera að æfa sig að lesa á ensku og þýða (ég vara stórlega við að reyna að segja eitthvað leyndó á útlensku fyrir framan hana og halda að það skiljist ekki!). Hér er hún að lesa upp úr hinni frábæru The Animals' Merry Christmas fyrir pabba og Baldur Tuma sem virðist skemmta sér prýðilega yfir sögunni um syngjandi jólatréð.

Við settum upp nýjar bókahillur í gestaherberginu þetta haustið og gátum rýmt svolítið til í svörtu skápunum í stofunni fyrir vikið. Ég raðaði bókunum eftir mínu eigin gerræðislega kerfi, það er að segja, mig langaði mjög mikið að hafa eitthvað ákveðið kerfi á bókunum en hafði samt líka ákveðnar skoðanir á því hvar hver bók ætti (eða kannski aðallega ætti ekki) að vera og þær hugmyndir voru ekki alltaf neitt sérstaklega rökréttar. Til dæmis var ég með einn flokk fyrir ljósmyndabækur en langaði alls ekki að setja þangað bók með myndum eftir hina krúttlegu Anne Geddes. Ég fann henni því stað í hillunni með öllum meðgöngu-, fæðinga- og uppeldisbókunum og þar stendur hún fremst sem nokkurs konar inspirasjónsrit í barneignum! Maður verður náttúrulega að byrja á byrjuninni sko! Alla vega, bókunum hefur verið raðað og hér sjást svörtu skáparnir. Gestaherbergið og hillurnar þar eru hins vegar til sýnis í öðru albúmi.

Svo má ég til með að birta hér mynd af matarstellinu sem sagt hefur verið frá á þessari síðu og var flutt fram og til baka um húsið þangað til okkur tókst loks að búa til pláss fyrir það í eldhússkápnum.

Þetta er óskaplega fallegt stell, keypt á slikk í lagersölu. Þessir tilteknu diskar eru 2. flokks sem þýðir að það eru smávægilegar misfellur í glerjungnum, loftbólur eða eitthvað slíkt. Við völdum okkar diska bara vel úr staflanum og finnst stellið ekkert verra fyrir því!

Þessi mynd hefur auðvitað birst áður en er svo hrikalega krúttleg að hún fær að vera í albúmi líka!

Hann var almennt mikið krútt í þessari myndatöku drengurinn og hér er ein önnur því til sönnunar.

Við heimilismenn köllum hann stundum Punktinn eftir að hann fór að sitja þar sem hann er eiginlega bara eins og ein lítil kúla. Takið sérstaklega eftir því að höfuðið er næstum jafnstórt og allur búkurinn!

Í tengslum við breytingarnar í gestaherberginu ákvað ég að skipta út eldgömlum myndum af Maríu og Huga í römmum. Nú er líka kominn nýr kútur sem þarf sitt pláss og mér fannst almennt tímabært að stokka þetta vel upp. Í því skyni tók ég smá myndasyrpu af krílunum mínum þremur og birti hér brot af afrakstrinum.

Þrátt fyrir margar fínar myndir af Baldri Tuma hefur engin þeirra ratað í ramma þar sem ég notaði bara sætu myndina af honum á sex mánaða afmælinu sitjandi í rúminu.

Baldur Tumi reyndist ósamvinnufús í hópmyndum og ýmist reif í hárið á öðrum fyrirsætum ...

... eða kleip í nefið á þeim!

Grísirnir þrír!

Það er örugglega ekki til sætari systkinamynd í öllum heiminum!

Stóru sætu.