22.12.03

Spennan magnast!

Senn koma jólin, það hefur víst ekki farið hjá neinum.  Eyðsluhamurinn í hámarki og löngu hætt að tékka á VISA reikningnum eða einu sinni velta fyrir sér hvað gerist 3ja virka daginn í febrúar, koma tímar, koma ráð.  En jólin koma hvað sem öðru líður.  Ég hlakka mest til rólegheitanna sem ég ímynda mér að eigi eftir að setja svip sinn á hátíðahöldin.  En kannski verður það æsingur og þeytingur, hver veit?  Ég sé svona fyrir mér að krakkarnir fái svo ótrúlega spennandi jólagjafir að þau sitji bara dolfallin og leiki sér og foreldrarnir láti fara vel um sig  með smákökur og konfekt og sökkvi sér í jólabækurnar.  Smá stress að baki varðandi jólakort en örlög þeirra eru nú í höndum Íslandspósts og hægt að byrja að hafa áhyggjur af einhverju öðru.

Eitt sem hefur verið smá tilbreyting í að fylgjast með í blöðunum undanfarið eru harðar ritdeilur um hvort stafur jólasveinanna sé gildur eða gylltur, og hvort kanna standi á stól eða jólasveinn á hól.  Kann að virðast tómur hégómi en þegar betur er að gáð er þarna á ferðinni grundvallar spurning um það hvernig er gengið um munnlega hefð, ef svo má að orði komast og spurning um tilvist munnlegrar hefðar í nútíma samfélagi.  Ég verð nú að játa það að mér finnst það svona málfars-fasismi að fara að gefa út tilskipun um það hvernig á að syngja tilteknar jólasveina vísur og kveða þann dóm að arfleiðin sé röng.  Eftir að hafa lesið mismunandi sjónarhorn á þetta mál hef ég komist að minni niðurstöðu og mun ekki liggja á henni.  Stafurinn skal áfram vera gylltur og kannan er best geymd upp á stól, og hana nú!  En meðan pabbir reynir að halda í hefðina leiðréttir leikskólagengin dóttir hans hann í hvert skipti.

Veður

Hláka í dag og slabb á götum.   Þrátt fyrir 4° hita hefur ekki tekist að leysa þann snjó sem komið hefur.  Ef allt fer að vonum verður hann nú samt farinn fyrir jól og myrkrið mun ríkja að nýju!

The entire place is brightly
Illuminated and spiritually
Transformed,
Totally unobstructed
And clearly manifesting
Responsive interaction
Like box and lid or arrowpoints meeting

- Hung-chih

Lifið heil!

17.12.03

"One little christmas tree"

Fórum í dag og festum kaup á jólatré.  Það dugar ekkert minna en 2ja metra tré, bústið og fínt sem bíður þess í geymslunni að prýða stofuna á Bárugötunni.  Ég verð nú að viðurkenna að þó ég hafi nú ekki talið mig vera neitt sérstakt jólabarn þá er nú svolítill jólafiðringur í mér um þessar mundir, flautandi jólalög í vinnunni o.þ.h.

Gladdi mig mikið í dag þegar ég náði í nýjustu pöntun frá Amazon, hlakka til að hella mér í lestur um jólin.  Keyptar voru bækurnar Media Control eftir Noam Chomsky, The New Rulers of the World eftir John Pilger og Captive State eftir George Monbiot.  Nú þegar farinn að kíkja aðeins í Chomsky.

Veður

5-10 stiga hiti í dag og skúrir, almennilegt vetrarveður!

Lifið heil!

 

15.12.03

Ósköp venjulegur dagur í vinnunni, upphafið á síðustu heilu vikunni á heilsugæslunni.  Svo eru bara slys og bráðatilfelli eftir áramótin.  Það verður reyndar í fyrsta sinn sem ég vinn yfir höfuð á þeim vetvangi, spennandi. 

Ég var líka að frétta nokkuð gleðilegt í dag.  Það virðist vera gegnumgangandi stefna hjá öllum deildum að útrýma sólarhringsvöktum!  Farið hefur fé betra segi ég nú bara.  það er semsagt ekkert víst að ég þurfi nokkurn tíman aftur að standa 26 klst vakt!  Svona geta hlutirnir breyst. Þetta er svona angi af því sama og mótmæli ungra þingmanna við kvöldsetum á þingi.  Sniðið að þörfum eldri manna sem nenntu ekkert endilega að hanga heima á kvöldin.  Ekki beint fyrir nútíma fjölskyldufólk sem vill svona kunna deili á börnunum sínum áður en á unglingsárin er komið.  Sömuleiðis eru læknar farnir að gera þá kröfu að geta stundað fjölskyldulíf og yfir höfuð eiga líf fyrir utan fagið.  Þá þarf svona aðeins að breyta skipulaginu.

Guðrún kláraði ritgerðina sína í dag.  Það er nú dæmalaust hvað hún getur komið frá sér góðum texta á stuttum tíma þegar hún tekur sig til, sérdeilis áhugaverð ritgerð.  Nú er bara jóla-jóla framundan.

Veður

Orðið mun hlýrra en helgarveðrið.  Allir í pollagalla í leikskólanum og rússahúfunni lagt að sinni.  Nú hlusta ég á regndropana á þakplötunum.

Lifið heil!

 

12.12.03

Sjónvarpskvöld

Föstudagur og maður hálf tómur eftir vikuna.  fyrir fjölskyldumanninn er föstudagskvöld ekki svona kvöld sem maður skellir sér á djammið fram á nótt eldhress heldur kúrir í sófanum eftir að krakkarnir sofna, horfir á áreynslulítið sjónvarpsefni og klappar kettinum sínum.

Þrá manns eftir einhverju óvenjulegu, einhverju sem brýtur upp hversdagsleika dagana, getur stundum hlaupið með mann í gönur og í ólíklegar áttir.  Um átta leitið í kvöld heyrði ég þungar drunur úr austri.  Hugmyndaflugið fór af stað.  Þar sem það hafa blundað í mér heimsenda-hugmyndir frá því að ég man eftir mér (þegar ég var svona 10 ára var kjarnorkustríð ekki bara möguleiki heldur staðreynd og eina óvissan var hvenær það yrði).  Ég byrjaði að fara yfir möguleikana.  Stór jarðskjálfti? nei, nýbúið. Sprengjurnar að falla?  frekar langsótt.  Eldgos í Hengli?  Möguleiki!!  Með hjartslátt skimaði ég út um þakgluggann í vestur átt.  Svei mér þá ef það var ekki ljósrauður bjarmi yfir himninum í austur átt!!  Eftir skamma stund rann upp fyrir mér ljós.  Sprengingar og brennandi púður í regnbogans litum yfir austurbænum.  Einhver að halda flugelda sýningu án þess að láta mig vita.  Hálf vonsvikinn snéri ég mér að því að finna út hvað við ættum að borða í kvöldmat.

Komið er upp nýtt vandamál á heimilinu.  Hugi er búinn að læra að príla út úr rimla rúminu!  Nokkuð sem María komst aldrei upp á lag með.  Núna kemur litli maðurinn trítlandi fram svona 20 sinnum á kvöldi, kannski ekki bara af því að hann geti ómögulega sofnað, heldur kannski líka bara af því að það er hægt.  Afleiðing af þessum nýja möguleika blasti við okkur þegar við fórum að kíkja á krílin okkar nú um miðnættið.  Það blöstu við tvö steinsofandi kríli andfætis í rúminu hennar Maríu.  Litli drengurinn hafði semsagt rumskað, klifrað fram úr, verið of syfjaður og þreyttur til að leita að mömmu og pabba og einfaldlega skriðið upp í til stóru systur og haldið áfram sofa.  Svona getur lífið verið yndislegt!

Veður

Milt og stillt í dag.  Var smá krapi á götunum í morgun og María skildi ekkert í því af hverju snjórinn var litlaus!  Sennilega væri þetta svona svartur nætursnjór.  Hitinn yfir frostmarki og hægt að opna bíllæsingar vandræðalaust.

Lifið heil!

 

10.12.03

Her kött / hair cut

Byrjaði daginn í vinnunni á smá umræðu fundi með hinum námslæknunum á stöðinni og einum af heimilislæknunum.  Efnið var læknirinn í sjúklingshlutverkinu.  Það eru kannski ekki margir sem spá í það en það getur verið snúið fyrir lækna að vera sjúklingar.  Læknar sjúkdómsgreina sig sjálfir og meðhöndla út í ystu æsar, afneita einkennum, hika við að leita til kollega eftir aðstoð, fá ekki sömu nálgun frá kollegunum og aðrir sjúklingar, hikað við að skoða þá rækilega eða spyrja vel út í persónulega hluti.  Sama getur átt við fjölskyldur lækna en það er jú frægt að það er jafnvel líklegra að læknirinn líti fram hjá einkennum eigin fjölskyldumeðlima og þeir fái, þótt það virðist þversagnakennt, verri heilbrigðisþjónustu en aðrir borgarar.  Ég vona nú að ég hafi ekki fallið í þá gryfju. Allavegana lenti ég svo í því seinna um daginn að fá til mín kollega á stofuna, og auðvitað varð maður svolítið vandræðalegur og ekki alveg klár á hvernig maður átti að nálgast málið.

Eftir vinnu var svo farið með krílin í klippingu.  María stóð sig eins og hetja og lifði sig inn í hlutverkið að fara á klippistofu og láta gera sig fína, litla prinsessan.  Hugi var ekki alveg eins spenntur yfir þessu pjatti.  Allt í lagi að sitja í þessum rakarastól og lesa bók, en þegar var farið að úða vatni á hausinn á honum og toga í hárið úr öllum áttum hætti honum að lítast á blikuna.  Reynt var að sýna honum allar bækur og dót sem fannst á stofunni og dreifa athyglinni með einhverjum ráðum.  Það endaði nú með því að það þurfti að halda honum háorgandi meðan lögð var lokahönd á verkið og leikurinn barst meðal annars að hárþvotta körunum þar sem María hafði fengið að sulla.  Það tókst á endanum að klippa hann nokkuð symmetrískt og skammlaust og Hugi tók grafalvarlegur við sleikipinna í verðlaun fyrir frammistöðuna.  Hann var þó fljótur að taka gleði sína og sýndi vegfarendum á Laugaveginum hróðugur verðlaunin sín.

Á eftir var svo kvöldmatnum reddað á skyndibitastað.  Eftir smá drama yfir að hafa misst af Klæng (hetjan í jóladagatali sjónvarpsins) sofnuðu krílin dauðþreytt eftir átök dagsins.

Veður

Kalt í dag og stilla.  Hrímar stöðugt á bílana og læsingar frosnar.  Prýðilegt vetrarveður.

Lifið heil!

 

 

08.12.03

Skemmtilegt er myrkrið!

Já, það jafnast ekkert á við smá skammdegi svona í lok árs.  Ég tala nú ekki um þegar snjólaust er sem gerir myrkrið enn þyngra.  Að maður tali nú ekki um hlýindin.  Það er eins og maðurinn sagði, allir dagar eru góðir dagar.

Var heima hálfan dag í dag.  Hugi fór ekki á leikskólann þar sem hann var að ná sér eftir síðustu kvefpest.  Er orðinn hress núna og mætir eldhress í fyrramálið á leikskólann.  Plúsinn við það að vera heima er að ég slapp við að sitja undir áróðri lyfjakynna og éta mútumat.  Það hafði af einhverjum sökum sloppið lyfjakynnir inn í kennsluprógrammið í heimilislækningum.  Eini gallinn var að geta ekki verið með statement, þ.e. að hunsa mútumatinn hans vegna en ekki eins og maður hafi bara misst af fjörinu vegna veikinda sonarins.  

Átti notalega afmælishelgi með fjölskyldunni, missti reyndar af þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli, við Hugi héldum okkur heima með púsl og bækur meðan María og amma Imba fóru og hlýddu á skemmtiatriði og sáu ljósin tendruð.  Að sögn ömmunnar skyldi María orð og orð í ræðu fulltrúa vinabæjarins norska, ekki seinna vænna að hella sér í erlendu tungumálin.

Frétt vikunnar: Hells Angels hafa opnað útibú á klakanum, kominn tími til að við yrðum okkur út um svona skipulagða glæpastarfsemi eins og tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við

Veður

Hlýtt og blautt í dag sem áður, loftið ferskt og hægur andvari, fullt tungl veður í skýjum.

Lifið heil!

 

04.12.03

Síðasti dagur manns á þrítugsaldri.

Takk fyrir sýndan stuðning!  Það nenna semsagt einhverjir enn að kíkja við.

Byrjaði daginn í foreldra kaffi á Drafnarborg.  Mæðgurnar voru heima lasnar svo við feðgarnir reyndum að halda uppi merkjum.  Það var mjög leiðinlegt að þær skildu ekki komast því María missti af að koma fram á sínum fyrstu tónleikum.  Elstu krakkarnir sýndu árangurinn af tónlistarkennslu vetrarins.  Þetta var nú ansi krúttlegur kór og ekki laust við að væri smá sviðsskrekkur í sumum og athyglin ekki alveg 100%.  Þau stóðu sig samt eins og hetjur og stoltir foreldrar hlýddu hugfangnir á.  Svo var gætt sér á piparkökum sem krakkarnir voru búnir að baka og skreyta.  Það er alltaf mjög gaman að gægjast svona aðeins inn í þeirra heim og sjá hvað þau eru að bralla sem er ekkert lítið.  

Nú er framundan löng helgi, gat tekið út frí sem ég átti inni í tilefni dagsins. 

Veður

Hýindin halda áfram, 7° hiti núna í kvöld, ekki eins hvasst og undanfarið og mun minni rigning, mjög dimmt.

Lifið heil!

 

02.12.03

Betrumbót?

Kominn, enn og aftur.  Var að gera smá endurbætur á vefnum. Það verður nú að viðurkennast að maður hefur verið ansi slappur í netskrifum undanfarið.  Bendi áhugasömum á nýjan fítus, síðan "Tenglar", nokkrir áhugaverðir staðir þar.

Nú er reyndar komið langt fram á nótt og frekari dagbókarskrif geymd til morguns.

Veður

Hlánaði loksins í dag.  þungbúið og rigning af og til, 3-4° hiti.

Lifið heil!

 

 

 

 

17.10.03

Helgarfrí!

Eftir erfiða nótt með krílin að vakna á víxl, vatnssopa og pissuferðir, hefur maður verið frekar tuskulegur í dag.  Ekki bætti úr skák síðdegisvakt á heilsugæslustöðinni svo vinnan var ekki búin fyrr en 18:30 auk þess sem við vorum bara þrír læknar á stöðinnni, allir hinir á ráðstefnu.  Þetta gaf ágæta átyllu til að panta bara pizzu í kvöldmatinn og hanga fyrir framan sjónvarpið.

Hugi kom mér enn á óvart þegar ég kom heim úr vinnunni í dag.  Það var svo mikill kraftur í honum að hann hoppaði jafnfætis þvert yfir herbergi.  Mér sýnist hann vera farinn að þjálfa sig í langstökki jafnfætis. Á að líta er hann eins og lítill mannlegur gormur.

Veður

Hlýtt og stillt í dag, aðeins blautt en indælt (var reyndar inni í allan dag svo ekki alveg að marka mig)

Lifið heil!

 

16.10.03

Kominn mánuður frá síðustu færslu, kominn tími í að láta í sér heyra.  Sennilega eru allir hættir að kíkja á þessa síðu sökum tilbreytingarleysis.  

Það gengur allt sinn vanagang, vinnan, fjölskyldan, lestur.  Var í dag í kennslu í sambandi við framhaldsnámið í heimilislækningum.  Mér til mikillar skelfingar var kennslan haldin í húsakynnum Pharmanor sem er risastórt lyfjafyrirtæki(á íslenskan mælikvarða) sem var frekar vandræðalegt fyrir mig þar sem ég er nýbúinn að heita því að taka ekki við frekari ölmusu og matargjöfum frá lyfjafyrirtækjum.  Stundum er erfitt að standa á prinsippunum.

Krakkarnir eru hressir, María loksins að minnka hóstann.  Hún hóstaði nær stöðugt síðustu nótt en hefur ekkert heyrst í henni enn, vonandi er þetta bara búið í bili.  Hugi alltaf hress á leikskólanum en ansi þreyttur á kvöldin, þetta tekur á lítinn strák að hamast svona allan daginn.  Nú kemur bráðum helgi og allir geta slappað af.

Veður

Hýtt og gott í dag, hékk þurr að mestu en þungskýjað, gola.

 

Tilvitnun í www.globalissues.org 

... Inequalities in consumption are stark. Globally, the 20% of the world's people in the highest-income countries account for 86% of total private consumption expenditures - the poorest 20% a minuscule 1.3%. More specifically, the richest fifth:

Runaway growth in consumption in the past 50 years is putting strains on the environment never before seen.

Human Development Report 1998 Overview, United Nations Development Programme (UNDP)

Lifið heil!

 

16.09.03

Fjárans kapítalismi!

Er búinn að eyða talsverðum tíma undanfarið í að lesa greinar á www.globalissues.org .  Eins og ég minntist á í síðustu færslu er þarna fjallað um heimsmálin á gagnrýninn hátt og ekkert sérstaklega verið að taka málstað vesturlanda og hinna "siðmenntuðu".  Þarna eru ýmsar pælingar og staðreyndir sem hafa flogið í gegnum vitund manns en ekki haft áður afgerandi áhrif.  Það sem er kannski svona áhrifaríkt er að súmmera þetta upp.  Niðurstaðan er eiginlega sú að óheftur kapítalismi og frjálshyggja sé fulltrúi hins illa á meðal vor. Svona rétt í tengslum við þetta verð ég að minnast á okkar hæst virtan utanríkisráðherra og verðandi forsætisráðherra sem skyldi ekkert í vanþakklætinu í fulltrúum þróunarríkja á samkundu WTO í Cancun.  Þröngsýni þeirra gerir það að verkum að þeir vilja ekki þiggja góðgerðir iðnríkjanna og láta bara allt fara í hund og kött.  Meira vanþakklætið. 

Nóg um það, búinn að eiga yndislegan dag með börnunum líka.  Plokkfiskurinn bar reyndar ekkert að slá í gegn, þrumarinn bakti ólíkt meiri lukku, en allir sofnuðu saddir og sælir á kristilegum tíma.

Veður

Verið bara fínasta haustveður í dag, fór í göngutúr með krílin eftir leikskóla, komu á okkur nokkrir regndropar en annars bara stillt veður og yndislegt.

Do not try to seek the Truth
Just don’t cling to opinion
And you won’t linger in dualism.
Let go, leave things as they are
Obey the true nature of things
And you’re in harmony with the Way.

- T’sen T’sang

Lifið heil!

15.09.03

Allt að komast í gang.

Jæja, haustið er formlega gengið í garð.  Vetrarstarfið hafið í vinnunni, fyrsti fundur vetrarins meðal hópsins míns í framhaldsnámi í heimilislækningum var í dag.  Ég setti Maríu í fyrsta skipti með hlýju úlpuna á leikskólann í dag (reyndist svo vera bongó-blíða í allan dag).

Ég hef komist yfir að lesa svolítið undanfarið.  Var að enda við bókina "Fast Food Nation" sem tekur á skyndibitavæðingu nútímans, þeim kapítalisma og frjálshyggju sem knýr þá væðingu áfram og hrikalegar afleiðingar þessarar þróunar á mörgum sviðum, hristi svolítið upp í manni.  Svo hef ég líka verið að lesa á netinu.  Í fyrsta skipti dett ég inn á heimasíðu sem ég get hér um bil lesið eins og bók, og af nógu af taka.  Kíkið endilega við hér, ætti að vera skyldulesning fyrir okkur meðlimi nútíma-neyslusamfélags.

Mér finnst ótrúlega gaman að Hugi skuli nú vera kominn á leikskóla.  Hann er orðinn svo stór drengurinn.  Og ekki vantar ákveðnina.  Þó hann sé nú eins ljúfur og kátur og hann er þá getur hann stundum staðið ansi fast á sínu.  Þetta er sennilega góður eiginleiki þegar kemur að því að takast á við lífið en getur verið erfiður þegar maður bara heimtar að vera í úlpunni inni, neitar að vera með smekk (þó þörfin sé augljós) og finnist frámunaleg átroðsla að manni sé þvegið um munninn.  En svo er líka fljótt að gleymast og aldrei langt í þetta ómótstæðilega bros.

Veður

Nokkuð hlýtt miðað við árstíma þrátt fyrir hélu á bílum í morgun.  Stillt og heiðskírt, sannkölluð haustblíða.  Naut þess að verða vitni að sólarupprásinni hér í risinu kl. 0700 í morgun.

Sitting quietly alone
meditating is not hard.
What is hard is living
on a broad scale and
responding to the world at large.

- Wu Yubi (1391-1469)

Lifið heil!

 

24.08.03

Jæja.

Nú er maður farinn að slappast aðeins í skrifunum.  Ég hef nú reyndar borið því við að tölvan hefur verið upptekin öll kvöld þar sem Guðrún situr sveitt við ritgerðarsmíð, samt engin afsökun.

Búin að vera frekar viðburðalítil helgi, nema hvað guðrún er búin að vera á haus í ritgerð og Hugi e-ð lasinn eins og lesa má um hjá Guðrúnu.  Mest búinn að hugsa um hús og heimili, og lesa smávegis um ameríska skyndibitamenningu.

Þetta verður að nægja í bili, maður er svolítið stirður af stað eftir svona hlé.

Veður

Skúrir inn á milli en mestan part milt og gott veður, ansi hlýtt, 17-18°.

Thunder over the lake
Thus the superior person
Understands the transitory
In the light of eternity of the end

- I Ching (10th century B.C.)

Lifið heil!

 

12.08.03

Same old.

Annar dagurinn í vinnunni eftir sumarfrí.  Byrjaði vinnuna í gær ansi strembið, erfiður dagur auk þess að vera svona ekki alveg kominn í gang, þó fríið hafi náttúrulega ekki verið langt.

Hugi er ekki kominn með leikskólapláss.  Maður var náttúrulega gripinn svo ótrúlegri bjartsýni að hann myndi náttúrulega fá pláss löngu áður en hann yrði 2ja ára.  Það stendur reyndar tæpt og gæti brugðið til beggja vona.  Það er pínu ótrúlegt að hugsa til þess að allt í einu verði krílin bæði komin á leikskóla og enginn að passa hérna heima á daginn.  Huga finnst skemmtilegast að fara og sækja Maríu á leikskólann.  Hann fékk meira að segja að fara nokkrar bunur í rennibrautinni í leiðinni í dag.  Leikskóli finnst honum afar spennandi staður.  Það á svo eftir að koma í ljós hvernig það horfir við ef mamma og pabbi eru ekki á staðnum.

Eftir leikskólann hjá Maríu var svo farið niður í bæ í góða veðrinu og keyptur ísálfur.  María er nefnilega að standa sig ótrúlega vel í snuddu-bindindinu.  Ef vel gengur verður svo trommað niður í húsdýragarð og snuðunum komið fyrir á "snuddutrénu" þar sem krílin hengja snuðin sín í góðri trú um að þau komi til með að gagnast ungviðinu á bænum, það er kálfum, lömbum og gríslingum.  

Veður

Hlýtt, 14-16° í dag, smá vindur en sólskin í mestallan dag og í alla staði fínasta veður.  Ég er orðinn mjög þakklátur fyrir svalann á klakanum í ljósi nýjustu frétta af veðurfarinu hjá grönnum okkar.

There seems to be no one on the empty mountain,
And yet I think I hear a voice,
Where sunlight, entering a grove,
Shines back to me from the green moss.

- Wang Wei

Lifið heil!

 

09.08.03

Fjölskyldumót.

Fórum í dag á fjölskyldumót þar sem hóað var saman afkomendum móðurömmu minnar.  Haldið að Hlíðardalsskóla.  Það tók mig nú smá tíma að komast að nákvæmri staðsetningu á umræddum skóla en af þrjósku minni ætlaði ég mér að komast að því í gegnum netið.  Það hafðist á endanum og hægt að renna austur fyrir fjall í grenjandi rigningu og þoku. Þar var eytt saman part úr degi og síðan borðaður kvöldverður saman.  Það er alltaf gaman að þó ekki sé nema rétt sjá framan í ættingjana, sjá nýju meðlimina og fygjast með hvernig allir stækka og þroskast.  Undarlegt hvað tíminn líður orðið hratt.  Litlu krílin eru á engri stund orðin að unglingum og ekki er jú langt síðan að ég var einn slíkur.  Á leiðinni til baka var keyrt um þrengslin.  Það sló mig einhver sérstök fegurð á leiðinni.  Ég verð nú að játa að ég hef bara aldrei farið umræddan veg áður.  Það var dimmt yfir en samt einhver einkennileg birta í umhverfinu.  Mosinn svo skærgrænn í bleytunni að hann jaðraði við að vera sjálfslýsandi.  Svo virkar landslagið einhvern veginn á mann sem annars heims.  Með rigningunni og þessum einmana veg í gegnum hraunbreiðuna var þetta eitthvað svo fallegt.

Nú er komið heim og allir upp í rúm.  Ég hlakka til að halda áfram í bókinni minni "Fast food nation" en hún fjallar um hinn myrka veruleika skyndibitakeðjanna sem svo gríðarleg áhrif hafa á líf okkar.  Því er svo lofað á bakhlið bókarinnar að eftir lesturinn muni maður sennilega ekki hafa lyst á öðrum hamborgara.  Ég er spenntur.

Veður

Rigningardagur í dag.  Hékk þurr fyrir hádegi meðan ég fór með börnin á róló en síðan hafa komið hressilegir rigningakaflar, hellt úr fötu.  Annars stillt veður og ca 14°hiti.

Was it all a dream?
I mean those old bygone days.
Were they what they seemed?
All night long I lie awake
Listening to autumn rain.

- Ryokan (1758-1831)

Lifið heil!

08.08.03

Einar snýr aftur.

Kominn aftur eftir hlé í kjölfar minnistruflana á léninu okkar.  Það er nú komið í lag og ég kominn í gang aftur.  Er í millitíðinni búinn að spæna í mig eina skáldsögu, Sagan af Pí, alveg hreint mögnuð bók.  Ég rakst meira að segja á heimasíðu helgaða sögunni og hægt að skoða hana hér. Þetta er einmitt nýjasta bókin í Neon seríunni og hægt að nálgast í næstu bókabúð, mæli hiklaust með henni.

Var að endurnýja myndirnar á myndasíðunni Hvítt fyrir þá sem hafa áhuga.

Hér heima er allt að komast í rútínu, vinnan hefst eftir helgi, María byrjuð á leikskólanum og allt hefur sinn vanagang.

Veður

Búið að vera rigningarsamt í dag, grámi yfir borginni og nokkur vindur.  Frekar hlýtt þrátt fyrir þetta, 15 stig í dag.

The moon is a house
In which the mind is master.
Look very closely:
Only impermanence lasts.
This floating world, too, will pass.

- Ikkyu Sojun (1394-1481)

Lifið heil!

31.07.03

Mamma kemur heim

Jæja, fjölskyldan orðin heil aftur.  Guðrún lenti í gær 4 mín fyrir miðnætti og ég náði í hana á völlinn meðan Birna frænka sat hjá krílunum.   Síðan er búið að vera að skoða pakka frá útlöndum í dag, máta föt og þess háttar.  Tókum líka smá rúnt í IKEA, sluppum út aftur með nokkra litla hluti. Við fórum svo upp á Bakkastaði þar sem krílin voru í smá ömmuheimsókn og þáðum þar grillmat.  

Veður

Hvasst fyrri partinn, aldrei slíku vant fann maður aðeins fyrir vindi hérna á Bárugötunni.  Hangið þurrt í dag og jafnvel smá sólarglenna á köflum.  Heldur að lægja með kvöldinu.

Beware of gnawing the ideogram of nothingness:
Your teeth will crack.
Swallow it whole, and you’ve a treasure
Beyond the hope of Buddha and the Mind.
The east breeze fondles the horse’s ears:
How sweet the smell of plum.

- Karasumaru-Mitsuhiro (1579–1638)

Lifið heil!

 

29.07.03

Dýrin mín stór og smá.

Fórum í húsdýragarðinn í dag.  Eftir að hafa drukkið morgun/hádegiskaffi hjá Birnu frænku drifum við okkur af stað í húsdýragarðinn, ég, María, Hugi og Birna frænka.  Það var svona smá súld inn á milli en annars ágætasta veður.  Allir voru settir í regnstakka.  Sérstaklega var tilefni til að kíkja á grísina þar sem nýgotnir voru 22 gríslingar sem Maríu þótti ótrúlega sætir og mamman jafnframt ótrúlega stór.  Hin stóru dýrin voru svo öll úti svo það var farið í hringekjuna næst. María og Hugi settust í vagn í hringekjunni og pabbi stóð með og allir skemmtu sér vel, pabbi varð meira að segja hálfsjóveikur.  Þá var María komin í stuð og stefnan tekin á fjölskyldugarðinn með tilheyrandi leiktækjum.  María fékk að fara í bát og eitthvað tívolítæki með pabba meðan Hugi fylgdist með úr fjarska.  María reyndist bara upprennandi tívolí manneskja.  Ég velti því fyrir mér hvort það tengdist hinum óteljandi hoppum, skoppum kollhnísum og heljarstökkum sem hún hefur farið í gegnum sem ungabarn fyrir tilstuðlan pabba síns, eða hvort þetta er bara innbyggt í æskuna.  Allavegana var þetta hin besta skemmtun.  Svo var farið í extra-stóra leikgrind sem þarna var og hömuðust þau systkynin upp og niður stiga, í rennibrautir, eftir hengibrúm, gegnum rör o.s.frv.  Hugi sem var kominn langt fram yfir hádegisblundinn sló ekkert af í leiknum og sýndi það og sannaði að hann stæðist inntökupróf í hvaða leikskóla sem væri.  Eftir þessi ævintýri var vel þegið að setjast niður með kakó og kleinu og slappa af.  Eftir kakóið var kominn tími á að selunum skyldi gefið.  við drifum okkur að selalauginni og komumst að því að þar voru allir gestir húsdýragarðsins samankomnir og mynduðu þéttskipaðan hring umhverfis laugina og byðu í ofvæni eftir fóðruninni.  Svo kváðu við hrifningaróp og klapp þegar selirnir sýndu listir sínar við að eltast við loðnu, síld og silung sem var hent hingað og þangað um laugina.  María og Hugi voru gersamlega heilluð og ekki spurning hvaða dýr standa upp úr í þeirra huga.  Eftir stutta viðkomu hjá dúfunum, hænunum, kanínunum og refunum var haldið heim á leið.  Eftir langþráðan grjónarann (uppáhalds maturinn!) sofnuðu systkynin, þreytt eftir afrek dagsins.

Kristján bróðir kom í heimsókn og við skiptumst á að snoða hvorn annann, spöruðum mörg þúsund krónur í klippikostnað á einu bretti.  Þegar allt var orðið hljótt greip mig aftur fiðringur með digital myndavélina og má sjá afraksturinn hér.

Veður

Smá súld á köflum og skýjaþykkni yfir borginni mestallan daginn en létti heldur til í kvöld.  Ég er meira að segja ekki frá því að sólin hafi aðeins brotist í gegn.  Nær logn en hefði mátt vera hlýrra, ca 14°.

Sitting in the Mountains

Rock slab seat
Legs folded
Sitting alone
Not loathing noise
Not savoring silence
The carefree clouds concur.

- Jakushitsu (1290–1367)

Lifið heil!

 

28.07.03

Góðviðrisdagur.

Erum búin að eiga góðan dag í dag.  Fórum út í morgun út á róló.  Þau nutu sín í botn þar.  Huga fannst bara æðislegt að príla upp og niður í "kastalann", auðvitað þurfti líka að róla, vega salt, selja pulsur í lúgunni (í miklu uppáhaldi hjá Maríu, varningurinn og gjaldmiðillin eru hvort tveggja smásteinar og allt kostar fimmhundruð krónur).  Það var yndislegt að sitja bara í sólinni og fylgjast með þeim leika sér.  Eftir hádegið ætlaði ég svo í heimsókn til Róberts vinar míns upp á Kjalarnes.  Þegar við vorum rétt ókomin, búin að keyra í hátt í hálftíma, hringir áminning í símanum mínum, fara með Huga í 18 mán skoðun eftir 30 mín!  Ekkert annað að gera en að snúa við í skyndi og við náðum að mæta á mínútunni.  Það var mikil ös í ungbarnaeftirlitinu, mikið af börnum að fæðast í Vesturbænum, bæjarhluti á uppleið!  Síðan borðuðum við nesti á Landakotstúni og lékum þar aðeins líka.  Þá var bara eftir að skreppa í bæinn í blíðunni og kaupa fóður fyrir Bjart greyið sem er búinn að fasta í sólarhring, á það ekki annars að vera e-ð heilsusamlegt?  Þau fóru svo þreytt í rúmið eftir kvöldmat og bað og voru bara sofnuð á skikkanlegum tíma.  Reyndar var María með smá vandræði með að vilja ekki vera upp í rúmi.  Hún vildi endilega reyna að sofna sitjandi við hliðina á rúminu.  Hún er sjálfsagt minnug þess hvað okkur foreldrum hennar fannst sniðugt þegar við komum að henni steinsofandi sitjandi í sænginni við hliðina á rúminu (sjá mynd) og viljað nú endurtaka grínið.  Hún áttaði sig svo á því að þetta væri nú ekki þægileg svefnstelling og sofnaði á endanum upp í rúmi.

Það er allt gott að frétta frá Guðrúnu í Danmörku, voru í heimsóknum í dag.  Ég verð nú að segja að maður hlakkar til að fá hana aftur heim. 

Veður

Verið bara sól og blíða í dag.  Reyndar beið ég eftir hitaskúrnum, sá skúraskýin hrannast upp hérna austan og sunnan af, en við sluppum allavegana hérna vestan til.  17° hiti og hægur vindur.

Standing alone beneath a solitary pine;
Quickly the time passes.
Overhead the endless sky
Who can I call to join me on this path?

- Ryokan (1758-1831)

Lifið heil!

 

27.07.03

Sumarfrí og flandur.

Erum sama og ekkert búin að vera heima í dag.  Við Hugi fórum í morgun upp á Bakkastaði að hitta Maríu.  fengum pönnukökur þar.  Þau systkyn fóru svo að leika sér við vini sína í næsta húsi meðan pabbi boraði og skrúfaði upp eitt og annað fyrir Imbu ömmu. Eftir hádegi var svo lagt af stað austur á selfoss.  Mamma og Anna Björg systir lentu í smá vandræðum, brutu bíllykilinn að bílnum hennar mömmu.  Það vildi svo til að ég var með aukalykil svo það varð úr að við gerðum okkur ferð austur til að koma lyklinum í gagnið.  Á selfossi fengum við pönnukökur og fórum svo út með krílin á róló fyrir utan íbúðina hennar ömmu Kötu (mömmu minnar).  Það er ótrúlegt hvað þau gátu skemmt sér við að moka í sandi, róla sér hlaupa í grasinu og yfir höfuð bara vera til.  Mesta skemmtunin var að fara upp á hæð sem var þarna og hlaupa niður, mikið þrill.  Enn skemmtilegra var svo að fá að rúlla sér niður, þvílíkt stuð.  Síðan var borðaður pottréttur a la mamma áður en lagt var af stað í bæinn.  Að sjálfsögðu þurfti að stoppa í Hveragerði til að kaupa ís.

Útsýnið á leiðinn vestur yfir Hellisheiðina var stórbrotið.  Þykk skúraský en heiður himinn inn á milli.  Úr varð mikið samspil ljóss og skugga þar sem sólin lék í skýjunum og speglaðist í flóanum.  Hvað lífið getur verið fallegt.

Nú eru krílin komin í náttföt og upp í rúm og bíða eftir að svífa inn í draumalöndin, fyrir mér liggur að taka svolítið til, þvílíkt drasl.

Bendi áhugasömum á nýja myndasyrpu.

Veður

Smá skúrir í dag, að mestu bjart og sól, þykkir skýjahlunkar á sveimi en heiðríkja þeirra á milli.  Hlýtt og hægviðri.

Here you can rest and become
Clean, pure, and lucid.
Bright and penetrating,
You can immediately return,
Accord, and respond to deal with events.
Everything is unhindered,
Clouds gracefully floating
Up to the peaks, the moonlight
Glitteringly flows
Down mountain streams

- Hongzhi Zhengjue (1091–1157)

Lifið heil!

 

26.07.03

Grasekkill!

Keyrði Guðrúnu út á flugvöll í dag.  Vona bara að hún eigi eftir að njóta ferðarinnar sem ég efast ekki um. Ég verð að halda uppi heiðri þessarar heimasíðu á meðan og standa mig.  Ferðin suður gekk vel, smá rigning á leiðinni heim.  Fórum svo til ömmu Imbu á Bakkastöðum og borðuðum þar kvöldmat í góðra vina hópi.  Þarna var heill hópur af börnum sem skemmtu sér vel saman.  Það var yndislegt veður og notalegt þarna út í móa.  Krílin fengu frostpinna eftir matinn og án þess að nokkur skipti sér að röltu þau út á lítinn klett, settust þar niður með frostpinnana sína og horfðu út á sundin meðan þau nutu eftirréttarins.  Ótrúlegt hverju þau taka upp á stundum.  Að sjálfsögðu fékk svo María að verða eftir hjá ömmu sinni en Hugi var bara kátur að fara með pabba í "bullann" og lék við hvern sinn fingur á leiðinni heim.  Sofnaði svo fljótlega.

Ég er búinn að láta mér leiðast í kvöld yfir e-i endemis þvælu um Kobba kviðristu með Johnny Depp í aðalhlutverki.  Ekki einu sinni skemmtilegt, endaði með að slökkva í miðju lokaatriðinu.  

Frekar einmanalegt svona makalaus.

Var að lesa í Lesbók Morgunblaðsins um rit sem kallast Empire, skrifað af byltingarfrömuði og bókmenntafræðingi.  Virðist vera nokkurs konar greining á því valdi sem ræður í heiminum í dag og andspyrnu gegn því, ku vera málið í dag fyrir upplýst fólk sem er ekki sátt við veröldina eins og hún er.  Kannski maður ætti að glugga í hana við tækifæri.

Veður

Byrjaði með sól og blíðu, hreinlega sumarblíða.  Þykknaði upp og skúrir seinnipartinn en þurrt, stillt og hlýtt í kvöld, falleg sumarnótt.

Spring has its hundred flowers,
Autumn has its many moons.
Summer has cool winds,
Winter its snow.
If useless thoughts do not
Cloud your mind,
Each day is the best of your life.

- Wu-Men-Hui-Kai (1183–1260)

Lifið heil!

25.07.03

Komið frí, aftur.

Aftur kominn í stutt sumarfrí.  Tvær vikur í þetta skiptið.  Var lengi frameftir í vinnunni að ganga frá lausum endum, ómögulegt að skilja e-ð eftir þegar maður fer í frí.  Ég kalla það langt fram á kvöld að vera í vinnunni til kl. 18:30, þó það kallist nú ekki mikið á sumum bæjum og þó það sé ekki mikið miðað við gömlu góðu 26 klst vaktirnar sem tíðkast í minni stétt.  það er jú allt afstætt eftir aðstæðum.

Við fórum svo og náðum í krílin okkar til Imbu ömmu eftir vinnu hjá mér.  Það kostaði grátur og gnístran tanna að draga þau frá Bakkastöðum með loforðum um að komast fljótt aftur til ömmu og að fara og fá krakkamat á McDonalds á leinni heim.  Að ósk Maríu var sest inn á veitingastaðinn og fengið borð fyrir fjóra.  Ég verð nú að segja um þennan gamla vinnustað minn (jú, jú, hér talar fyrrverandi hamborgarameistari frá fyrstu dögum McDonalds á Íslandi) að þetta er einhver minnst kósí matsöllustaður sem maður kemur inn á.  Rusl og drasl á annatíma og þessi steríla hamborgara og frönskubræla.  Barnafjölskyldur eins og við að reyna að hemja dauðþreytt börn í e-um reddings kvöldmat, pappinn og draslið sem fylgir máltíðinni hrúgast í fjall á borðinu eftir sem líður á máltíðina.  María skemmti sér í öllu falli vel, fannst þetta hinn fínasti veitingastaður og vill að á morgun þegar við förum aftur á McDonalds að fá krakkamat borðum við aftur inni.  Hugi var ekki eins hress, brjálaður í skapinu, henti niður einum ávaxtasafa, sturtaði þremur frönskuskömmtum á einn bakkann og gerði svo heiðarlega tilraun til að sturta öllu saman niður á gólf.  Fyrir utan það vildi hann varla bragða á þessu alheims hnossgæti.  Maður fékk nú svona hálf skrítna tilfinningu að sitja þarna og reyna að troða í barnið sitt matnum sem er að gera út af við annan hvern Bandaríkjamann.  Svona er maður nú samkvæmur sjálfum sér.  Við erum jú svona venjuleg fjölskylda og gerum svona hluti sem venjulegar fjölskyldur gera.

Veður

Hlýtt í dag skýjað og lítils háttar rigning á köflum, svona ágætt íslenskt sumarveður.

A piece of mind as clear as the sky
Where clouds float freely into all.
This quiet night I do not lean toward sleep
But listen for leaves falling in my yard.
- Kuo-Yin ( c. 1111)

Lifið heil!

 

24.07.03

Áfram rigning.

Var dramatískur dagur í vinnunni.  Koma stundum tilfelli sem taka mestalla athygli heilu og hálfu dagana, svo er maður hálf undinn þegar maður kemur heim. Það er nú samt endurnærandi að heyra fagnaðarlætin þegar maður kemur heim og tvö lítil kríli bíða hoppandi eftir manni.

Var svolítið að pæla í rigningunni í dag.  Þetta er svolítið spurning um viðhorf hvernig manni finnst rigningin.  Stundum finnst manni rigningin hræðileg, blaut og ógeðsleg, setur í herðarnar og horfir niður.  Maður verður stífur og líður illa og heldur að það sé rigningunni að kenna. Svo getur maður líka tekið rigningunni, þetta er nú bara vatn, ekkert hættulegt, litið upp og notið þess að finna dropana á andlitinu. Eða eins og maður segir, mér finnst rigningin góð.

Veður

Skúrir í dag, bjart inn á milli en ekki sól, fínasta veður, stillt, ca 14° hiti.

Lifið heil!

23.07.03

Rigning í dag.

Fórum með Huga til læknis í dag, eitthvað sem við foreldrarnir höfðum smá áhyggjur af, en eins og við var að búast ekki nein ástæða til, drengurinn fílhraustur.  Það er svona, maður vill vera viss.

Krílin eru annars búin að vera yndisleg í dag.  Það er nú gaman að hafa þau svona heima allan tímann, þó ég sé nú reyndar ekki sjálfur heima þessa dagana en næstu viku verðum við óaðskiljanleg.  Þau eru himinlifandi að hafa ömmu Imbu í fríi líka og fá að vera extra mikið með henni.  Hugi er reyndar alltaf kátur með að komast af stað eitthvert, gaman að fara að heiman þegar hann er heima og jafn gaman að fara heim þegar kominn eitthvert annað.  Alltaf spennandi að fara í "bullann" (bíll).

Búinn að vera eitthvað hálf tuskulegur þessa dagana.  María og Hugi hafa verið að vakna á nóttunni til skiptis og það rýrir svo nætursvefninn þegar hann er slitinn í 3-4 búta.  Svo kemst maður náttúrulega aldrei nógu snemma í háttinn.

Veður

Rigning í dag.  Ekki sérlega hlýtt en frekar stillt veður. Gott fyrir gróðurinn!

Lifið heil!

22.07.03

Kominn aftur eftir nokkurt hlé.

Búið að vera nokkuð notalegt í dag.  Fór heim snemma úr vinnunni eftir frekar strembinn dag.  Búin að vera afslöppun meira og minna síðan.  Fór út á rúlluskauta, var ansi stoltur af mér að komast alla leið út að Gróttu og heim aftur.  Annars er þetta eiginlega ekki alveg nógu mikil átök að renna sér svona á skautum, reynir ekki nógu mikið á mann.  Kosturinn við þá er hins vegar að maður þarf að einbeita sér það mikið að því að skauta (allavegana þegar maður er ekki vanari en ég) að maður hefur ekki tíma til að vera að velta sér upp úr vandamálum dagsins, bara skauta.

Seinna fórum við út að borða á Horninu, pizzurnar þar alltaf jafn traustar.  

Þegar við komum heim voru krílin komin með ömmu.  Þau voru drifin í náttföt og steinsofnuð eftir minni háttar bardaga.

Nú eru bara 3 dagar í næsta frí og mína grasekkils daga.  Var að fletta upp veðurspánni næstu daga á vefnum og það birtist sama gráa rigningarskýið fyrir alla næstu viku í Reykjavík, en við látum það ekki á okkur fá, tökum bara fram regngallana og höfum það gott.  Hvar værum við án rigningarinnar?

Veður

Byrjaði með rigningu í morgun en birti svo til og fór í einar 17° um miðjan dag, sem sagt prýðileg blanda.

Lifið heil!

12.07.03

Líður að lokum sumarfrísins í bili, smá kvíði í manni að takast á við vinnuna á ný, stutt í næsta frí.

Fékk óvænta heimsókn í dag, vinur minn Róbert fluttur af Kjalarnesi hingað í vesturbæinn tímabundið í 2 vikur, er að passa íbúð á Ránargötunni, droppaði við í kaffibolla.  Ánægjulegt að fá hann svona í hverfið.  

Vorum að enda við að horfa á sænskan glæpó í sjónvarpinu.  Ótrúlegt hvað maður hefur mikla fordóma gagnvart öðru en breskum og amerískum myndum.  Þetta var bara fjandi góð mynd, tæpti á ýmsum samfélagslegum meinum, eins og von er í skandínavísku glæpasagna hefðinni segir bókmenntafræðingur heimilisins.  Hressandi að sjá svona e-ð annað en sömu gömlu bandarísku tuggurnar endalaust.

María er í gistingu hjá Imbu ömmu, nær alltaf að plata hana til að fá að gista þegar er komið í heimsókn, hún er ansi hörð í samningum sú stutta.

Veðrið

Búnar að vera ýmsar tegundir af rigningu í dag, allt frá nokkrum dropum og léttum úða upp í helli dembur.  Hitastigið áfram um 15° og nokkuð stillt.

Lifið heil!

 

10.07.03

Var með krílin að mestu í dag meðan Guðrún tók skúrk í að vinna að BA ritgerðinni sinni.  Fórum út á róló fyrir hádegi, reyni að hafa það fyrir reglu svona í fríinu að þau fái e-a hreyfingu úti við fyrir hádegi.  Það bætir matarlystina og svefninn hjá Huga.  Þau verða líka pirruð og ómöguleg ef þau fá ekki nóga líkamlega útrás.

Seinni partinn var svo fínasta veður og við fórum aðeins inn í Öskjuhlíð.  Þegar við vorum rétt kominn inn á milli trjánna hætti Maríu að lítast á þetta og vildi fara aftur í bílinn.  Ekki mikil skógarmanneskja.  Hugi var hins vegar í essinu sínu og fór þangað sem við fórum án þess að gera athugasemdir.  Eftir Öskjuhlíðina var stutt að fara í Nauthólsvíkina að líta á siglingaaðstöðuna og ylströndina.  Maríu fannst spennandi að sjá litlu skúturnar sem var verið að sigla á þarna úti á víkinni og sagði að sig langaði að fara að sigla á svona bát.  Pabbi varð nú að játa það að hann væri nú ekkert alltof mikill sjómaður sjálfur og sennilega ekki sniðugt fyrir 3ja ára telpur að fara á siglinganámskeið. Ströndin var náttúrulega líka spennandi.  Þar voru krakkar að busla í víkinni og María tók af mér loforð um að næst yrði haft með handklæði og sundföt svo hægt yrði að vaða í sjónum.  Í þetta skipti létu þau sér nægja að leika í leikaðstöðunni uppi í sandinum og voru alsæl.  Eftir kvöldbaðið rúlluðu svo allir útaf.

Veður

Búið að vera dálítill strekkingur í mestallan dag en hangið þurrt og verið nokkuð hlýtt, svona í kringum 15 gráðurnar. Heldur að hvessa nú með kvöldinu.

Lifið heil!

 

 

09.07.03

Fórum í heimsókn í dag til ömmu Guðrúnar á Sóleyjargötuna.  Það var ósköp notalegt, langt síðan við höfðum komið í heimsókn.

Það kom viss óeirð í mann í dag.  Það er alltaf þannig þegar maður finnur að maður er í fríi, þá finnst manni að maður eigi að vera að afreka e-ð.  Maður ætti að vera að ferðast eitthvað, fara eitthvað, gera eitthvað heimavið, lesa, bara vera að afkasta einhverju.  Það er eitthvað svo erfitt að gera ekki neitt, eða að minnsta kosti að réttlæta það fyrir sjálfum sér.  Ekki það að það er svosem nóg af verkefnum heima fyrir sem hafa setið á hakanum og þarf að huga að.  Það er helst að tíminn hafi farið í þessar blessaðar tölvur, ótrúlega tímafrekt, svona miðað við hvað þær spara manni mikinn tíma!

Búinn að vera frekar langur dagur, allir vöknuðu snemma, krílin búin að vera þæg og góð í allan dag (auðvitað með smá rispum inn á milli, svona eins og það á að vera).  Eitt sem við vorum að brosa að í dag og snerti mann eitthvað svo innilega.  Við vorum að keyra um bæinn, við Guðrún frammí og þau sitt í hvorum barnabílstólnum aftur í. Svo þegar ég lít aftur í sitja þau þar, þegjandi og róleg, skoða út um gluggana og haldast í hendur.  Þau hafa svosem gert það oft áður en þetta er alltaf jafn innilegt.  Það er enginn tilbúningur í kringum þetta, þeim bara líður betur að haldast í hendur þarna afturí og finnst það ekki vera neitt til að hafa orð á, kunna að meta nándina.  Allavegana, þetta er svona moment þar sem maður smitast af sakleysinu sem býr í þeim.

 

Veður

Búið að vera allar gerðir í dag.  Lognrigning í morgun, skúrir og rok í hádeginu.  Frekar hlýtt, þurrt og strekkingur seinnipartinn og nú undir kvöldið milt, hægur vindur og þurrt.  Ágætt að hafa smá fjölbreytni í þessu.

Lifið heil!

 

07.07.03

Rólegheit í dag, fyrsti formlegi frídagurinn, ekkert stórkostlegt afrekað.  Fór með krílin og Söru af neðri hæðinni út á róló fyrir hádegi.  Skruppum svo aðeins niður í bæ eftir hádegið, bæjarferð sem Hugi batt svo enda á með því að gera smá "gúnda" í buxurnar, orðið að leiðum vana hjá honum svonaa í bæjarferðum.

Ansi óhugnalegt þetta sprengiefna mál.  Ég meina, hvað gerir maður við 250 kg af dínamíti? Er ekki eina ástæðan til að stela því ef maður ætlar að sprengja e-ð?  Fær mann til að hugsa, ég segi nú ekki annað.  

Veður

Frekar blautt í dag, mild rigning að mestu en hlýtt og stillt eins og áður, svona voða lítið veður.

Lifið heil!

 

06.07.03

Ágætur dagur í dag.  María gisti hjá Imbu ömmu síðustu nótt og Hugi og ég sváfum bara fram eftir (sjá síðu Guðrúnar).  Svo fór Guðrún að syngja í messu meðan við Hugi höfðum það notalegt hérna heima.  

Eftir að Guðrún varin komin heim og allir búnir að borða lögðum við af stað, fórum fyrst að sækja Maríu og síðan var stefnan tekin austur á Selfoss.  Kristján bróðir er nýkominn heim í sumarfrí, en hann er að stunda nám í tækniskóla í Óðinsvéum, svona rafmagns-tækni-fræði.  Mamma vildi af þessu tilefni bjóða okkur í kaffi saman.  Sveinn bróðir kom líka með dætur sínar og konu svo þetta varð svona fjölskyldukaffi.  Það var heilmikið líflegt enda fimm kríli þarna saman komin.  Hugi náði að lita á eldhúsgólfið og reyndi svo að bæta fyrir það með því að fara af stað með eldhúskústinn og sópa fyrir ömmu sína, allur af vilja gerður.  Annars fór þetta allt vel fram og var hið ánægjulegasta.  Ferðin fram og til baka gekk bara vel þó það hafi verið viss kvíði í okkur gagnvart umferðinni þar sem nú er sunnudagur á einhverri mestu ferðahelgi ársins.

Nú er klukkan 23:20 og krílin nýsofnuð enda bæði búin að sofa vel í bílnum í bílferðinni og upptrekkt eftir daginn.  María fékk að fara upp í til Huga þar sem þau voru bæði of hress til að sofna.  Þar reyndi hún eftir bestu getu að lesa fyrir hann Lottubækurnar sínar og fleiri bókmenntir.  Hugi fylgdist með af áhuga.  Þau geta nú stundum verið ótrúlega góð systkyn og eíga eflaust eftir að verða samrýmdari þegar Hugi verður farinn að tala og skilja meira og skemmir ekki alltaf allt af óvitaskap sínum.

Bendi áhugasömum lesendum síðunnar á nýtt atriði, "Dagurinn" þar sem gefur að lýta myndasyrpu frá þessum degi. 

Veður

Búið að vera þungbúið og skúrir í dag en engin aftaka rigning.  Milt og stillt eins og áður.  Ágætis ferðaveður fyrir utan skúrina.

Lifið heil!

 

05.07.03

Kominn í smá sumarfrí.  Guðrún fór að hitta vinkonur sínar í dag og ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á listasafnið með Guðjóni Inga vini mínum og með krílin með.  Það var svolítið streð og maður náði kannski ekki að njóta þess til fullnustu.  María var alveg stillt en Hugi vildi helst ekki vera hjá manni og ef maður setti hann niður var hann rokinn fram á gang og í næsta stiga sem hann sá.  Svo er maður jú alltaf pínu hræddur um að þau fari að fikta við skúlptúrana eða káfa á málverkunum.  Það var svo hægt að stoppa þau í smá stund með eplasafa á kaffiteríunni.  Svo þurfti Hugi náttúrulega að gefa skít í listina í orðsins fyllstu eða "gúnga" eins og hann kallar það, svo það þurfti að bruna heim.  Þá vildi ekki betur til en svo að ég var læstur úti og þurfti að bíða eftir Guðrúnu til að komast inn.  Fann símann minn sem ég fann ekki áður en ég fór út.  Hann stóð upp á endann í garðinum þar sem loftnetið hafði stungist á kaf, sennilega eftir fall úr stofu glugganum.  Grunur beinist að ákveðnum ungum karlkyns fjölskyldumeðlim.  Hafði einmitt verið staðinn að því að príla í fyrrgreindum glugga fyrr um daginn.

Nú er María að göltrast með ömmu Imbu og Hugi að reyna að sofna inni í rúmi eftir stutta heimsókn á Bakkastaði.  Rúmið bíður og ekki seinna vænna að fara að sofa, klukkan hálf ellefu, enda allir ræstir af húsbóndanum litla kl 6:30 á morgnana.

Veður

Sæmilega hlýtt, gola framan af og lítilsháttar skúrir, ágætasta veður og notalegt að labba í bænum og leika út í garði.

Lifið heil!

 

03.07.03

Einn dagur eftir í vinnu, ótrúlega eitthvað mikill föstudagur í manni í dag, maður er svona kominn á undan sjálfum sér í frí.  

Nenntum ekki að elda í kvöld, tókum smá test á nýjum indverskum taktu-með-heim stað á Hverfisgötunni, Austurlandahraðlestin.  Ótrúlega góður matur, nokkuð sannfærandi indverskt bragð og vel útilátið.  Reyndar svona tveim verðflokkum fyrir ofan Shalimar sem hefur lengst af verið mikils metinn á Bárugötunni, en allt í lagi svona stöku sinnum.  Nóg borgar maður fyrir heitt flatbrauð með tómatsósu og osti í pappakassa (pizza).  Annars hefur kvöldið farið í að fylgjast með Skjá einum.  Ég er farinn að sýna ótrúlegan áhuga hljómsveit Íslands, Gleðisveit Ingólfs.  Svona skemmtilega hallærislegt, smá íslenskt real-tv.

Veður

Sama meðalmennsku veðrið, hlýtt, stillt, sólarlaust og þurrt.  Glittir í blátt á köflum.

Lifið heil!

 

02.07.03

Styttist í sumarfrí. Sífelldar umræður á kaffistofunni um hvað á að gera í fríinu, hvað er búið að gera í fríinu o.s.frv.  Á að fara eitthvað í fríinu?  Neei, ætli ég verði ekki bara mest heima.  Satt best að segja finnst mér það bara góð tilfinning.  Eða réttara sagt finnst mér það ekki freistandi tilhugsun að skipuleggja einhverja ferð með mikilli fyrirhöfn, eyða fé og tíma í það, byrja svo fríið á heljar vinnu við að komast af stað, á einhvern stað, stað þar sem erfiðara er að hugsa um krakkana en heima, þar sem maður finnur sig knúinn til að gera eitthvað til að nýta nú fríið og ferðina sem best.  Koma svo heim dauðþreyttur og taka langan tíma í að jafna sig eftir fríið.  Þetta er jú gömul tugga en ágæt röksemdafærsla fyrir heimapúka eins og okkur fyrir að hafa það bara náðugt í 101 í fríinu.  Svo eru þessir þjóðvegir líka stórhættulegir!

Nú bíður heil kvöldstund og ekkert sérstakt liggur fyrir, best að hella sér í lestur, sjónvarpið má eiga sig í kvöld.

Veður

Var ansi þéttur úði mestanpart í dag en stillt og milt.  Stytt upp með kvöldinu en enn þungt yfir.

Lifið heil!

 

01.07.03

Var að lenda i umræðum um blogg og þess háttar.  Var viðruð sú skoðun að ýmsir sem væru að blogga hefðu bara ekkert að segja og ættu lítið erindi inn á veraldarvefinn.  Þetta setti náttúrulega í gang heilmikla sjálfsskoðun hjá mér með mín skrif þar sem ég er í eðli mínu frekar sjálfsmeðvitaður maður.  Maður var svona afslappað að tjá sig aðeins á hverjum degi en nú kemur ákveðin ritstífla þar sem kröfurnar á frambærileika skrifanna verður meiri.  En svo er spurning, fyrir hvern er maður að skrifa?  Sjálfan sig?  Vini sína?  Fjölskylduna? Fólk sem maður þekkir ekki sem vafrar um vefinn?  Sennilega er þetta stundum eitt birtingarform sýniáráttu, hvar er hægt að opinbera sig meir en á vefnum?  Svo má náttúrulega ekki gleyma fólkinu sem maður þekkir en er ekki í daglegum samskiptum við, maður deilir hluta af lífi sínu.  Er ekki einmitt eitthvað svo mannlegt við það að vilja deila gleði sinni og sorg með öðrum og taka þátt í gleði og sorg annarra?  E.t.v. er það nú einmitt þessi hneigð sem gerir okkur að mönnum.  Þetta tengist jú líka inn á sjónvarpsmiðilinn eins og hann er í dag.  Allir vilja komast í sjónvarpið, að vera fyrir allra augum.  bloggið er svona manns einka útsending á því sem manni finnst merkilegt við líf sitt.  Og allir vilja sömuleiðis fylgjast með lífi annarra.  Gráta og hlæja með sápuóperuhetjunum, taka þátt í sálrænum átökum í raunveruleikasjónvarpinu.  Einn punktur sem kannski er vert að huga að í þessu, þegar maður fer að deila hugsunum sínum með öðrum þá afhjúpast þær einnig á nýjan hátt fyrir sjálfum manni.  Þannig fær maður svolítið gests-auga á sjálfan sig.

Í öllu falli tel ég að þetta sé allt saman hið besta mál.  Það að deila sínu og taka þátt með öðrum bindur okkur saman, lætur okkur finna að við erum ekki ein.

Veður

Fínasta veður í dag, sól að mestu og svona sæmilega hlýtt, 13-15°, heldur að þykkna upp með kvöldinu. Stillt veður.

Lifið heil!