Frábæri febrúar

Nokkrar myndir frá afmælismánuðinum mínum - þó engin frá afmælinu né nokkru sem tengist því!

Í byrjun febrúar var ég alveg búin að fá nóg af kaldranalegu útsýninu úr eldhúsgluggunum. Snjórinn er ósköp fallegur en mér finnast þessir gluggar alltaf eitthvað svo tómir, sérstaklega á veturna. Ég vil ekki hafa gardínur í þeim eða kappa af neinu tagi en ákvað þess í stað að hengja upp skraut, jafnvel eitthvað sem minnti á vorið.

Mér finnst þetta lífga heilmikið upp á eldhúsið og er búin að vera voða ánægð með mig!

Hins vegar hefðu þessar myndir sennilega frekar átt heima í komandi hannyrðaalbúmi þar sem ég er nú farin að pota þar inn ýmsu sem hvorki flokkast undir að prjóna eða sauma. Og hér var meira að segja saumað! Lesendur síðunnar eru sjálfsagt farnir að átta sig á því að fátt elska ég meira af veraldlegum hlutum en pappírsdúllur! Ég hef löngum notað þær til að skreyta pakka og fyrir jólin föndraði ég nokkrar myndir með þeirra aðstoð (sem sjá má hér) en þarna í byrjun febrúar datt mér í hug að sauma nokkrar dúllur í ólíkum stærðum saman og hengja upp. Til þess notaði ég gamlan silkiþráð sem mér áskotanðist um daginn, fagurlega upplitaðan og bara dásamlegan í einu og öllu. Ég veit að þetta lítur einfalt út en ég var áreiðanlega hálfan daginn að þróa þetta og henti trilljón dúllum og spottum!

Ástæðan fyrir öllu þessu föndri voru þó þessar fögru kopardúllur sem ég hafði keypt en ekki almennilega vitað hvað ég ætti að gera við ... fyrr en þarna. Þær hefðu verið svolítið einmana einar og sér í gluggunum svo ég varð að finna upp á einhverju með.

Og til að ofhlaða þetta nú örugglega festi ég nokkur svona silkipappírsblóm á vírinn líka.

Á þessum árstíma finnst mér alveg nauðsynlegt að vera með svolítið af vorlaukum í pottum inni, svona rétt til að minna mann á að snjórinn muni bráðna á endanum. Bláar perluhyacintur eru í almestu uppáhaldi.

Og af afskornum blómum slær ekkert túlípönum við. En það vitið þið auðvitað nú þegar.

Eruð þið ekki alveg að elska blómamyndirnar teknar á nýju vélina?!

Það tognar úr perluhyacintunum með hverjum deginum.

Hvert blóm er svo agnarsmátt en ótrúlega fullkomið.

Á þessum tíma var ég líka með hvítar hortensíur í stofugluggunum. En þær tókst mér nú að drepa á örfáum vikum - eins og vanalega.

Við Baldur Tumi fórum í búninga á öskudaginn. Hann var drekaungi en ég var ægilega þreytt og tætt heimavinnandi húsmóðir í fæðingarorlofi. Þóttum við bæði mjög sannfærandi í hlutverkum okkar.

Mögulega sætasti drekaungi sem sést hefur!

Baldur Tumi vildi ólmur að við færum út að hengja öskupoka á fólk en ég sagði honum að hér í Svíþjóð væri engin stemmning fyrir slíku og vissar líkur á að kallað yrði á lögregluna þannig að þá ákváðum við að vera bara inni að skemmta okkur í staðinn. Enda út af fyrir sig bara frekar frábært að fá að vera uppi á borði að leika, eins og sjá má.

Nú held ég að ég verði að hætta að setja inn drekaungamyndir, áður en ég fæ hjartastopp af ást og aðdáun! Verð bara að birta þessa þannig að það sjáist undir þessar krúttlegu iljar á litla drekanum!

Einar er duglegur að æfa sig á nikkuna og um þetta leyti var hann um það bil að ná tökum á „Maðurinn með hattinn“. Var hann þá vinsamlegast beðinn um að fara að læra nýtt lag!

Systkinin sofnuð yfir Let's dance á föstudagskvöldi.

Bræðurnir skoða bók saman.

  

Og eftir smá lestrarstund gefur Hugi litla bróður sínum morgungrautinn.

Veturinn hefur verið sá snjóþyngsti í manna minnum. Ja, alla vega frá 1966! Svona var umhorfs á pallinum okkar 21. febrúar. Eins og sjá má var sólbekkurinn til taks!

Og svona var umhorfs við garðshliðið.

Finnið snjóálfinn!

Hugi uppi í tréhúsinu rétt áður en hann stökk í næsta skafl.

María og Hugi vaða snjóinn.

Þetta er nýja uppáhaldsmyndin mín!

  

Staðið í snjó og stokkið í snjó.

Á þessum tíma var hægt að fara allra sinna ferða á skíðum!

Fer þessum snjómyndum ekki að linna? Jú, þessi af Huga og Maríu ofan á skaflinum sem hlóðst upp þegar mokað var frá bílastæðinu er sú síðasta í bili! Í einmitt þessum skafli grófu þau sér tvöfalt snjóhús, ansi myndarlegt.

Baldur Tumi er nýjungagjarn og atorkusamur ungur maður. Honum finnst ekki gaman að leika sér með sama dót endalaust og kann því jafnframt illa að vera ævinlega á sömu stöðum í húsinu. Þetta krefst þess að foreldrarnir hugsi skapandi og frumlega! Dótið í eldhússkúffunum hefur löngum verið vinsælt en þarna datt mér í hug að stilla honum bara upp við eina skúffuna. Þetta fyrirkomulag sló í gegn ... í svona þrjá daga!

Skúffufjörið dugði ekki nema í tuttugu mínútur í senn og þá þurfti að finna upp á einhverju enn öðru! Hér var ég búin að setja allt á annan endann í svefnherberginu og draga rúmið hans Baldurs Tuma undir gluggann til að leyfa honum að standa þar og kíkja út. Mér finnst einbeitingarsvipurinn á þessari mynd þar sem hann virðir snjóinn fyrir sér alveg ómótstæðilegur!

Ómótstæðilegur er annars orð sem kemur sífellt upp í huga minn þegar Baldur Tumi er annars vegar. Sjáiði til dæmis þessar ómótstæðilegur kinnar!

Og þennan ómótstæðilega grallarasvip!

 

Já og þennan ómótstæðilega spékopp!

         

Við Hugi erum búin að vera að sauma svolítið út að undanförnu. Hugi vinnur með frjálsri aðferð og ber sig fagmannlega að.

Og hér er smá sýnishorn af mínu verkefni sem vonandi kemst einhvern tímann nógu langt til að hægt verði að birta mynd af því fullbúnu í handavinnualbúmi!