Desemberstúss

Hinar og hressar desembermyndir

         

Baldur Tumi brandarakall var í óvenjumiklu stuði á aðventunni, hér í stígvélum af Maríu stóru systur sinni.

Ég var aldrei búin að sýna ykkur hinn aðventukrans heimilisins. Ég var svo ótrúlega skotin í þessum kertabökkum frá hinni sænsku og frábæru búð Granit en fannst ég ekki alveg geta réttlætt kaup á slíku þar sem ég ætlaði jú auðvitað að gera grenikransinn með Einari. En þegar þeir voru komnir á 50% afslátt í vikunni eftir fyrsta sunnudag í aðventu lét ég slag standa og henti upp eldhúss-aðventukransi í flýti. Í botninum eru ilmandi anísfræ og sveppir og hitt settið af tölunum mínum fékk svo að hanga á kertunum.

Lúsíuljósin voru dregin fram í desember við mikinn fögnuð minnsta mannsins sem fannst þau fádæma fín.

Skemmtilegast af öllu var að telja ljósin, „sjö átta sjö átta ...“.

         

Ofan í búningakistunni hans Huga fannst þessi gamli jólasveinabúningur sem hann notaði kannski fjögurra eða fimm ára. Hann var auðvitað allt of stór á Baldur Tuma en okkur þótti samt rétt að prófa og setja upp fínu húfuna sem María bjó sjálf til og gaf honum í jólagjöf í fyrra. Honum fannst þetta meiriháttar!

         

Svo meiriháttar að daginn eftir þurfti aftur að klæða hann í dressið og taka nýjar myndir! Þetta hefur sennilega verið einhvern veikindadaginn en í desember voru systkinin þrjú á Konsulentvägen veik í samanlagt á fjórðu viku með bara einum degi inn á milli þar sem allir fóru í skóla og leikskóla!

Einn dimman föstudagseftirmiðdag hituðum við krakkarnir okkur glögg, drógum fram spil og höfðum það kósí. María og Hugi höfðu haft Nobelmiddag í skólanum fyrr um daginn og voru því enn klædd í sitt fínasta púss. Það er sem sagt hefð í sænskum skólum að bjóða upp á fínan hádegisverð sama dag (eða þar um bil) og Nóbelsverðlaunin eru afhent í Stokkhólmi. Þá er gengið í matsalinn eins og fína fólkið gengur inn í salinn í Stadshuset, setið til borðs strákar og stelpur til skiptis og áhersla lögð á almennilega borð- og mannasiði. Matráðskonan er svo búin að útbúa þríréttaðan hádegisverð og allir eru klæddir í spariföt. Mjög skemmtilegur siður sem sagt!

María er búin að vera á leiklistarnámskeiði í haust og þann 14. desember fengum við loksins að sjá afraksturinn þegar okkur var boðið á sýningunna Roger og Josefin sem þau höfðu skrifað handrit að alveg sjálf. Leikritið fjallar um uppsetningu ónefnds leikhóps á verkinu Roger og Josefin sem er byggt á Romeó og Júlíu og fjallar um mafíufjölskyldu og sirkúsfjölskyldu sem elda grátt silfur saman og svo mafíusoninn Roger og sirkúsdótturina Josefin sem verða ástfangin. María lék eina sirkússysturina (ja eða réttara sagt leikkonuna sem lék sirkússysturina) og sést hér ásamt vinum sínum í einu atriðinu.

Sirkúsfjölskyldan að störfum.

Sirkússystirin leiðbeinir sirkúsbróðurnum. Gaman að segja frá því að strákurinn sem lék hann heitir einmitt Elis í raun og veru! María ætlar svo að halda áfram í leiklistinni á næstu önn svo nú erum við þegar farin að hlakka til að sjá hverju þau Elis og öll hin finna upp á vorið 2012!

Mér finnst Baldur Tumi hafa stækkað eitthvað undarlega mikið milli úlpna! Að vísu var þessi græna orðin ansi hreint snolluð á honum í haust og hefði mátt skipta út fyrr en engu að síður finnst mér þetta gríðarlegur vöxtur!

Jólakortamynd ársins var tekin á síðustu stundu eins og svo oft áður. Og eins og svo oft voru aðstæður til myndatöku ekkert frábærar. Það var þungbúið úti og erfitt að ná björtum myndum án þess að nota flass, María greyið var svo kvefuð að hún var með hálflokuð og þrútin augu og rauðan nebba á annarri hvorri mynd, Baldur Tumi vildi aðallega einbeita sér að því að hræra í haframjölinu sem María var með í skálinni og Hugi varð allur uppspenntur af stressinu og ýmist hló tryllingslega eða skældi. Á tímabili var ég að hugsa um að senda bara mynd af fína eldhússkápnum mínum sem ég hafði raðað öllu hvíta postulíninu mínu í fyrir myndatökuna! En eins og svo oft áður hefst þetta allt að lokum og árangurinn varð þessu fína fína mynd af litlum bakarabörnum!

Jólaundirbúningur fyrir Íslandsferðina í fullum gangi og aumingja hreindýrin mín alveg að drukkna í pakkaskriðu. Svo var bara að troða öllu ofan í ferðatösku ásamt nokkrum spjörum og fljúga til gamla landsins!