Jól og áramót 2010

Og loksins komu jólin ...

Það er hefð hjá Kertasníki að gefa krökkunum á Konsulentvägen súkkulaðijólasveina í skóinn og þetta árið fékk Baldur Tumi sinn eigin pínu ponsulitla jólasvein sem hann mátti bragða á eftir morgunmatinn.

         

Og svo var þrifið og skreytt fram eftir degi. Hér er hluti af heimagerða skrautinu þetta árið. Ég lærði loksins að flétta svona hjörtu! Ég man að vísu eftir að hafa gert það sem barn en gat ekki fyrir mitt litla líf rifjað upp hvernig þetta var gert. Það vildi mér til happs að krakkarnir eru alltaf með einn föndurdag í skólanum fyrir jólin og þá var meðal annars  í boði að gera svona hjörtu og María ákvað einmitt að spreyta sig á þeim. Hún gat því komið mér á sporið aftur.

         

Úr sama pappír gerði ég svo líka nokkur kramarhús og hengdi allt upp á víra sem ég strengdi yfir stofugluggana.

Og svo, seint og um síðir, allt of nálægt klukkan sex, var allt tilbúið! Þarna fyrir endanum má bæði sjá nýja skenkinn (sem er nú ekki enn alveg tilbúinn, það vantar alla vega á hann höldur) og svo aðalföndurverkefni jólanna, fína fína blúndukransinn minn með ljósunum. Ég ætlaði reyndar að gera hann í fyrra og keypti blúndurnar þá en náði því svo ekki. Mér fannst því ekki annað koma til greina en að gera hann í ár. Þar sem ég vann næstum alla undirbúningsvinnuna fyrir ári (með smá aðstoð Einars) var ég enga stund að henda honum saman núna, kannski hálftíma! Ég elska kransinn minn!

Hér sést hann aðeins nær ...

... og svo förum við enn nær til að skoða fallegu dádýrin mín. Í öllum fínu dönsku blöðunum mínum eru allir alltaf með svona dádýr til að skreyta á jólum og ég hef þráð að eignast svona í mörg, mörg ár en aldrei fundið neitt. Skömmu eftir síðust jól sá ég loksins eitt lítið og ekkert rosalega fínt dádýr á netinu sem ég keypti strax og fékk sent alla leið frá Kóreu! Bara nokkrum vikum seinna sá ég svo þessi þrjú á jólaútsölu í einhverri danskri netverslun og keypti þau líka um hæl! Síðan sá ég að þetta litla var til í einni af uppáhaldsbúðunum mínum í Stokkhólmi í haust. Þá var ég auðvitað búin að eignast það en fannst skemmtilegt að framboðið skyldi allt í einu vera svona mikið eftir margra ára dádýrakreppu. Og svo bættist enn í dádýrasafnið mitt um jólin en við komum að því síðar. Þannig að á einu ári hef ég farið úr núll dádýrum í sex ... og er það vel!

Og blessað jólatréð! Það fór betur en á horfðist ... eða þefaðist réttara sagt! Við Einar vorum að þrífa langt fram á nótt og ég tók eftir því að lyktin var aðeins farin að skána áður en við fórum að sofa. Þar sem við erum bara með loftborinn hita í húsinu erum við ósjálfrátt með stöðuga loftræstingu og áður en við fórum að sofa stilltum við hana á fullan kraft til að reyna að veðra lyktina út og kannski þurrka tréð í leiðinni. Og þegar við komum niður á aðfangadagsmorgun eftir allt of lítinn svefn var hún horfin! Að vísu var hræðilega kalt í húsinu á móti (það næst nefnilega ekki að hita loftið ef maður stillir allt á fullt) en því má jú bjarga með arni og kertaljósum.

     

Ég eignaðist annars óvenju mikið af nýju jólaskrautið þetta árið. Hér er til dæmis risastór og glæsilegur fugl, ugla og íkorni.

Og hér ægifögur kúla.

Hér sést svo gluggaskreytingin, fléttuðu hjörtun og kramarhúsin ásamt hekluðum snjókornum sem ég segi betur frá og birti myndir af í komandi handavinnualbúmi.

Messan í útvarpinu (ja eða tölvunni) og Einar sker hamborgarhrygginn góða.

         

María og Baldur Tumi voru sæt, svöng og spennt en Hugi virðist ekki hafa fest á filmu við þetta tilefni.

Allt tilbúið, gleðileg jól!

Maturinn var himneskur, ég segi það og skrifa h-i-m-n-e-s-k-u-r! Og sem betur fer þykir okkur öllum hamborgarhryggurinn góður, María og Hugi elska hann og Baldur Tumi borðaði hann með bestu lyst þetta kvöld (en fúlsaði svo við honum síðar - hann hefur dálítið skrykkjóttan matarsmekk). Eftir borðhaldið var gerð tilraun til að taka jólatrésmynd af systkinunum en Baldur Tumi hafði lítinn áhuga á að vera með og barðist um í fanginu á systur sinni.

         

Hann var hins vegar meira en til í að stilla sér upp svona sóló! Hafið þið séð dásamlegri jólaherramann?! Svo yndislegur að virða fyrir sér kúlur og ljós!

Svo var líka gaman að virða fyrir sér alla þessa pakka!

         

Einmitt þarna uppgötvuðum við Baldur Tumi skemmtilegan leik sem var sambland af feluleik og fyrirsætustörfum! Hann fór þannig fram að Baldur Tumi faldi sig á bak við jólatré og ég tók andköf af undrun og æpti „Hvar er Baldur Tumi“ þangað til hann stökk fram skælbrosandi og glaður. Þannig fékk ég þessar fínu myndir af honum og hann fékk skemmtunina af bæði feluleiknum og að sjá myndirnar af sér eftir á en það þykir honum hin mjög ánægjulegt! Leikurinn hefur hins vegar dregið dilk á eftir sér því allar götur síðan drífur hann sig í að fela sig um leið og ég dreg upp myndavélina! Og hann er alveg hættur að stökkva svona glaður fram heldur brunar bara beint að mér til að sjá myndina í glugganum - þótt ekki hafi gefist færi á að taka eina einustu mynd!

Hér má meðal annars sjá afleiðingarnar af þessu! Þetta átti að vera óskaplega fín bræðramynd en Baldur Tumi vildi endilega stilla sér upp bakvið tréð. Reyndar er þetta held ég fyndnasta mynd sem ég hef séð lengi svo hún stendur algjörlega fyrir sínu!!!

Eftir að hafa náð þessum fínu myndum af Baldri Tuma átti ég enn eftir að taka almennilegar myndir af stóru börnunum. Þau stilltu sér því upp við tréð prúð og fín en þá vildi sá litli endilega fá að vera með - á sínum forsendum!

Nei, er ekki kominn tími á að hætta þessu myndarugli og fara að borða möndlugrautinn, gæti Hugi verið að hugsa! Og ég er hjartanlega sammála!

Möndlugrauturinn var sömuleiðis dásamlegur og ekki spillti fyrir að ég fékk möndluna ... aftur!

         

Áður en við fórum í pakkana héldum við hins vegar jólatónleika í stofunni. Við vorum öll búin að æfa eitt jólalag sem við kynntum og spiluðum hvert fyrir annað. Hér er Hugi að kynna sitt lag sem var „Við óskum þér góðra jóla“ og María spilar „Bjart er yfir Betlehem“ meðan Baldur Tumi reynir að máta spariskóna hans Huga.

         

Ég spilaði svo „Klukknahljóm“ og Einar spilaði „Jólasveinar ganga um gólf“ á gítarinn við slíkan fögnuð að æstir áhorfendur ruddust inn á sviðið og voru fjarlægðir af gæslunni!

Og svo var loksins komið að pökkunum!!!

Allir þurfa að hjálpast að við lesa á merkispjöldin.

Mikill spenningur var að sjá hver fengi stóra pakkann og María að vonum glöð þegar í ljós kom að hann var merktur henni!

Baldur Tumi var orðinn dálítið þreyttur og fékk því að opna fyrstu gjöfina. Ég valdi pakka sem mér þótti líklegt að innihéldi dóti og það stóð heima, þetta fína læknasett frá afa Bíbí og Gittu ömmu hélt honum hugföngnum næsta hálftímann eða svo!

Hugi opnaði næstur og fékk Harry Potter lego kastala frá okkur foreldrunum!

María gat ekki beðið með að opna þann stóra og steig trylltan fagnaðardans þegar í ljós kom að hann innihélt hljómborð, alveg eins og hún hafði óskað sér!

Baldur Tumi fékk þessa dásamlega fínu jólasveinahúfu frá Maríu sinni. Húfuna hafði hún búið til alveg sjálf í saumatímum í skólanum. Reyndar náði hún ekki að klára hana þar svo við lukum við þetta saman hér heima á aðfangadag en hún gerði hana alveg sjálf!

Enn meira lego hjá Huga! Þetta geimskip hafði hann lengi langað í og var að vonum glaður þegar það kom upp úr pakka frá ömmu Imbu.

Baldur Tumi var algjört bíó þegar pakkinn frá Þórunni frænku var opnaður. Þau tvö höfðu átt margar góðar stundir saman fyrir framan geislaspilarann þegar Þórunn var hjá okkur í nóvember auk þess sem Þórunn hafði þá séð hve ótrúlega gaman hann hafði af Skoppu og Skrítlu svo auðvitað sendi hún honum geisladisk með þeim vinkonunum. Fyrst byrjaði hann á að grandskoða diskinn alvarlegur á svip.

Svo gerði hann okkur það alveg ljóst á sinn mállausa hátt að hann vildi að þessi diskur yrði spilaður NÚNA!

Ætlar enginn að hjálpa mér með þetta?!

         

Ekki var um annað að ræða en að standa upp úr sófanum og setja diskinn í. Baldur Tumi klappaði af æsingi meðan pabbi hans opnaði diskinn. Þegar Skoppa og Skrítla voru farnar að hljóma í stofunni dró hann einn borðstofustólinn að hillunni og stóð svo fyrir neðan spilarann og klappaði með tónlistinni!

Hugi var líka alsæll með gjöfina sína frá Þórunni frænku og öllum hinum á Miklubraut.

Þreyttur Baldur Tumi og nýja náttljósið frá mömmu sinni.

Hann stenst þó ekki mátið að skoða fína boxið sem mamma fékk frá Þórunni frænku dálítið fyrir háttinn. Við hin fylgdum fljótlega á eftir og sofnuðum vært umvafin hreinum rúmfötum eftir að hafa lesið dálítið í jólabókunum okkar. Það er fátt betra!

Afslöppuð stemmning á jóladagsmorgni og María ... nei ég meina Baldur Tumi spilar tölvuspil í stofusófanum. Takið eftir fínu jólanáttfötunum. Og takið eftir fínu hvítu jóladádýrunum í glugganum þarna fyrir aftan. Þau fékk ég frá sænska Tomtanum sem hefur mikið dálæti á mér.

Feðgarnir kíktu líka á tölvuspil og svo vann Einar í því að setja saman jólagjöfina hans Baldurs Tuma.

Litla jólabarn ... litla saklausa jólabarn.

Sjáið mig! Er þetta ekki krúttlegasta hjól sem þið hafið nokkurn tímann séð?

Það er meira að segja með tengivagni! Óendanlega fallegt barn er þó í einkaeigu og fylgir ekki með í settinu.

Smákökuboð og spilastund að hefjast á annan í jólum.

Þið munið eftir dásamlega vetrarboxinu mínu sem ég keypti á Gotlandi í sumar er það ekki? Það var að sjálfsögðu dregið fram um jólin og hýsti polkagrisabräckið okkar. Þegar við flytjum til Íslands ætlum við að búa til polkagrisabräck í stórum stíl og gefa öllum vinum og ættingju í jólagjöf. Þetta er nefnilega besta gotterí í heimi!

Þetta ótrúlega skemmtilega spil gaf ég Huga í jólagjöf þar sem við höfðum skemmt okkur konunglega við að spila það í foreldrakaffi í frístundaklúbbnum hennar Maríu skömmu fyrir jól. Það var ekkert síðra að spila það við borðstofuborðið hérna heima eftir kökuátið.

Ég var smátt og smátt að mynda allt fína jólaskautið mitt milli jóla og nýárs þar sem ekki gafst almennilegur tími til þess fyrir jólin. Hér sjáið þið til dæmis hvað ég gerði fínt með jólaóróunum mínum. Hún Rósa Munda svilkona mín er ekki bara netsnillingur mikill heldur líka skreytisnillingur. Hún hefur gjarnan gert ótrúlega fallega grenilengju fyrir sína óróa og ég fékk leiðbeiningar hjá henni fyrir jólin um hvernig hún gerði hana. Þegar á hólminn var komið hafði ég hins vegar engan tíma til að hrinda því í framkvæmd en flaug í hug seint á Þorláksmessu að gera nokkurs konar imbaútgáfu af grenilengjunni. Hún fór þannig fram að ég vafði álstöng sem ég átti með blómateipi og víraði svo pínulítið af silkifuru sem ég átti þar utan um. Svo braut ég bara borðana saman utan um stöngina og festi þá með títuprjónum.

Kannski ekki alveg jafnfínt og grenilengjan hennar Rósu Mundu en dálítið hressandi samt.

 

Og kransinn góði. Uppruna hans má rekja til föndurdrottningarinnar Mörthu Stewart sem var með svona krans á síðunni sinni einhvern tímann fyrir löngu. Eftir að ég sá hann dreif ég mig í að panta pappírsblúndurnar sem eru þýskar og ætlaðar til að þræða blómvendi í gegnum. Risastóru járnhringina í grunninn lagði ég hins vegar ekki í að panta frá Ameríku þannig að ég bað Einar að hjálpa mér að útbúa eitthvað svipað. Ég var búin að kaupa tvær aðrar seríur í kransinn en hvorug þeirra hentaði þegar til kastanna kom þannig að ég dreif þessa sem ég átti í fórum mínum fram og tók plastblómin bara af. Þar sem pappírsdúllurnar höfðu hins vegar tilhneingu til að renna fram af datt mér í hug að setja plastblómin bara á utan yfir dúllurnar til að halda þeim föstum og held að það komi jafnvel betur út ef eitthvað er. Eini vandamálið við kransinn er bara hvar eigi að geyma hann milli ára! Það er enn óleyst og þar af leiðandi er hann bara enn uppi í vegg hjá mér!

María og Baldur Tumi hafa svolítið verið að gramsa í búningakistunni að undanförnu og sá litli birtist því stundum í skemmtilegum múnderingum. Sú alvinsælasta er þessi gamli læknabúningur af Huga sem Baldri Tuma þykir mjög flottur! Hann var til í að standa svona fínt uppstilltur í smá stund en svo ...

... mundi hann auðvitað eftir leiknum að fela sig bak við tréð! Þvílík hamingja!

Honum finnst alveg tilheyra að vera með Star Wars lasersverðið við læknabúninginn ... kannski ekki skrýtið, eru ekki laseraðgerðir það nýjasta í öllu?!

Hér má svo sjá möndlugjöfina mína, þetta frábæra púsl sem við púsluðum milli jóla og nýárs, okkur öllum en þó sérstaklega Maríu til mikillar ánægju (ef miðað er við myndina alla vega!).

Daginn fyrir gamlársdag kom amma Imba til okkar svo við fengum Mr. Turkey gerðan af meistarans höndum á síðsta degi ársins.

Amma og minnsti ömmustrákurinn. Baldur Tumi er ótrúlega hrifinn af ömmu sinni og einmitt þegar þessi mynd var tekin var hann í óða önn að bera í hana konfektmola!

María og Hugi voru líka ánægð með ömmu ... og konfektið! (Þarna fyrir aftan sjást hvítu dádýrin mín vel.)

Hmmm ... hvað ætli ömmu þyki nú best af þessu.

         

Á nýársdag fylgdist Baldur Tumi spenntur með nágrannanum moka snjó af þakinu hjá sér. Hér kyngdi nefnilega niður snjó á gamlársdag - og var hann þó ærinn fyrir.

Við gæddum okkur aftur á hamborgarhrygg á nýársdag enda hafði amma alveg misst af slíkum kræsingum um jólin.

        

Hugi og María voru ánægð með það og svöng eftir að hafa leikið sér úti í snjónum um daginn.

Stubburinn var líka kátur.

 

Í þetta sinn fúlsaði hann við hryggnum en borðaði brúnaðar kartöflur með bestu lyst þótt hann hafi ekki litið við þeim áður. Grænar baunir eru hins vegar sívinsælar.

Gleðilegt nýtt ár allir!!!