Amma kemur í heimsókn

Þann 21. apríl koma amma Imba í sína fimmtu heimsókn til afkomendanna á Konsulentvägen! Hún kom fyrst í ágúst, svo í október, síðan nóvember, og fyrsta heimsóknin árið 2007 var í febrúar. Þá kom hún sérstaklega til að taka þátt í afmælisveislu Huga og í þetta sinn kom hún til að fagna sjö ára afmæli Maríu. Áður en að því kom áttum við þó góða helgi saman.

     

Þrátt fyrir allar heimsóknirnar eru enn nokkrir staðir á rúntinum okkar sem amma hefur ekki séð, þar á meðal Vaxholm. Við brunuðum því beint þangað af Arlanda og stungum okkur inn á besta kaffihús í heimi sem ég hef nú komist að því að heitir Café Silltrutan eða Kaffihúsið Síldarmáfurinn. Kaffihús þetta ætti að vera orðið lesendum síðunnar að góðu kunnt (voðalega er þetta eitthvað ljótt í hvorugkyni!) og það liggur við að það taki því ekki lengur að fara þangað með gesti þar sem allir hafa nú þegar skoðað milljón myndir þaðan og lesið lýsingar á veitingunum! Ég er þó að hugsa um að bera í bakkafullan lækinn með því að benda ykkur sérstaklega á begóníurnar í glugganum fyrir aftan sætu systkinin. Begóníur eru í miklu eftirlæti hér í Svíþjóð og eru, eftir því sem ég best fæ skilið, svona ekta gamaldsags gluggakistublóm. Það er því vel við hæfi að þau prýði alla gluggana á Síldarmáfinum þar sem gamli tíminn er þar í hávegum hafður.

Þótt það væri ekkert sérstaklega hlýtt þennan dag skein sólin skært og Huga fannst gott ráð við hitanum að vefja sig inn í flíspeysu og kúldrast utan í pabba sínum!

María tók þessa mynd af okkur mæðgunum ... ekki alveg í fókus en það skiptir nú minnstu! Mér þykir rétt að taka það fram að ég er ekki með svona ógurlega demantsnælu þarna í barminum (bara svo þið hélduð ekki að ég væri orðin algjör kelling hérna í útlegðinni!!!) Ég veit hins vegar ekkert á hvað glampar svona rosalega!

Hingað til hef ég haldið mig við ananasostakökuna á þessum stað en ákvað núna að prófa ekta sítrónu-marengstertu ... hreint út sagt himnesk!!!

    

Á hvað skyldu þessi þrjú vera að horfa ... jú máf uppi á ljósastaur (ekki þó síldarmáf)!

Amman með ömmukríli númer eitt og ömmukríli númer tvö. María var merkilegt nokk ekki að sækjast eftir hlutverki í Skyttunum þremur heldur um það bil að ljúka við ljúffengan súkkulaðiís.

Grínarar í Vaxholm!

Systkinunum þykir ákaflega gaman að príla á klöppunum sem mörg elstu húsanna á Vaxholm standa á. Ekki þótt þeim verra að fá ömmu með í leikinn.

Morguninn eftir fléttaði amma Maríu svona líka fínt ... um að gera að vera vel til hafður síðasta daginn sem maður er sex ára!

Því næst var stormað í Hammarskogs herrgård til að snæða hádegisverð. Það er enn ein perlan sem amma hafði ekki enn haft tækifæri á að heimsækja. Á herragarðinum er hægt að fá ótrúlega góðan husmannskost sem er svona ekta sænskur, dálítið gamaldags matur. Og kökuhlaðborðið ... maður lifandi!!!

Amma og María sætar saman.

Hugi bíður spenntur eftir pönnukökum með sultu og rjóma sem í Svíþjóð teljast fullgild máltíð ... en það vita auðvitað allir sem hafa lesið bækur Astridar Lindgren!

Ótrúlega sætir stákar sem ég á!

Og ótrúlega sæt stelpa!!!

Hugi lýsti því yfir að honum þætti hann eins og keisari þegar hann gengi niður þessar tröppur! Ég veit svo sem ekki hvaða keisarar eru með hrörlegar og mosavaxnar steintröppur í nágrenni halla sinna en hugmyndin er auðvitað mjög krúttleg!

    

Maríu og Huga finnst óskaplega gaman að leika njósnara í klettunum við herragarðinn. Þau eru samt fljót að rísa upp úr launsátri þegar ljósmyndarinn biður þau að kíkja og brosa!

Vorstúlka að tína blóm!

Á göngu okkar um nágrenni herragarðsins rákumst við á þessa ótrúlega leyndardómsfullu hurð. Finnst ykkur þetta ekki alveg eins og eitthvað úr Ævintýrabókunum?!

Hugi var ekki lítið upprifin yfir hurðinni dularfullu og var sannfærður um að þetta væri inngangurinn inn í mikla höll ... draugahöll!

Hið augljósa fór alveg framhjá drengnum, hurðin er bara inngangur inn jarðhýsi sem geymir vafalaust ekki mystískari hluti en kartöflur! Það er hins vegar að sjálfsögðu bara hið besta mál að vera með ímyndunaraflið í lagi! Hér sést hann hlaupa í burt frá hallardyrunum eftir að María hafði bankað á þær, var alveg viss um að út myndi spretta draugaher og þótt best að forða sér í tæka tíð!

Aprílmánuður hefur verið heldur umhleypingasamur hjá okkur í Uppsölum, ýmist hafa hér gengið yfir hitabylgjur með allt upp í 25° hita eða þá að það er skýjað, rok og 4° hiti! Þessi dagur var svona í svalari kantinum en þó bjartur og fallegur. Okkur hjónaleysunum þótti betra að vera vel búin!

Systkinin knúsast í lautinni þar sem hurðina dularfullu er að finna. Herragarðurinn í baksýn.

Hugi á hlaupum í brekkunni sem hann renndi sér niður á snjóþotu fyrir svo óskaplega stuttu síðan!

    

Á herragarðslóðinni er þessi gamali og holi trjástofn. Á bolnum er stórt gat sem maður getur auðveldlega smeygt sér inn um en beint á móti því er pínulítið gat og smá gögn sem hægt er að skríða út um hinum meginn. Hugi var mjög upprifinn yfir þessu og fannst hann alveg eins og lítill ísbjarnarhúnn að skríða upp úr snjóholunni sinni í fyrsta sinn! Ég hélt að drengurinn væri orðinn svona menntaður eftir allt Attenborough áhorf heimilismanna á Konsulentvägen en í ljós kom að hann hafði upplýsingarnar um hegðun ísbjarnarhúnanna úr hinu merka myndverki Mulan II!!!

María prófaði líka að vera ísbjarnarhúnn.

Síðar um daginn var komið við í Stadsträdgården þar sem börnin fengu útrás með því að klifra, príla, róla og sveifla sér. Hugi ríður húsum með vortrén í bakgrunni.

Meðan á öllu þessu stóð var ég hins vegar á vortónleikum karlakórsins Orphei Drängar ásamt Siggu sem var svo sæt að bjóða mér með sér en miðana hafði hún fengið í afmælisgjöf. Mér skilst að þetta séu vinsælustu tónleikarnir á svæðinu og að fólk standi í biðröð frá því kvöldið áður en miðasala hefst til að fá góð sæti! Þetta skil ég mæta vel eftir að hafa hlýtt á fimmtíu kjólklædda menn syngja af mikilli karlmennsku í hinum geysifallega tónleikasal Universitatsaulan! Nú er ég að hugsa um að gerast svona Orphei Drängar grúppía, mæta á allra tónleika og reyna að kynnast nokkrum hinna kjólklæddu. Hverjir vilja koma með mér á serenöðu tónleika með þeim 5. júní?! En hvað um það, hér að ofan sjáið þið síðustu myndinni af Maríu sex ára gamalli ... framhald í næsta albúmi!