Alls konar í júní

Júní var kaldur, blautur og (fyrir utan skemmtilegu heimsóknina okkar) fremur viðburðasnauður mánuður hér á Konsulentvägen.

         

Einar bakaði óendanlega góðar rabarbara- og vanillubollur í byrjun júní. Við höfum sjaldan smakkað eitthvað jafngott ... eða fallegt!

Bollurnar voru kaldhefaðar sem þýðir að smjörið og mjólkin eru ekkert hituð og deigið látið hefa sig lengur á móti. Inni í var svo fylling með möndlumassa, smjöri, rabarbara og vanillufræjum.

Það var handagangur í öskjunni!

         

Fjölskyldan var samt í lítilli myndastemmningu.

Hér er Baldur Tumi að vera selur í baðinu, sérdeilis glæsilegt atriði hjá honum verð ég að segja.

Ég tók mig til og klippti barnið sjálf og var ekkert smávegis stolt af afrakstrinum. Baldur Tumi stóð sig líka mjög vel og sat kyrr og stilltur allan tímann.

Finnst ykkur þetta ekki flott hjá mér?!

Baldur Tumi er reyndar svo sætur að hann myndi sjálfsagt vel þola misheppnaðar klippingar ... en ég er samt fegin að þetta varð ekki einhver alger hryllingur.

Elskaða barn!

Það var haldin sumarhátíð á leikskólanum hans Baldurs Tuma. Jenny uppáhaldsfóstra spilaði á gítar og allir sungu hraustlega með - nema Baldur Tumi!

Hann virtist samt ekkert vera feiminn, bara upptekinn við að virða allt fólkið fyrir sér og njóta þess að hlusta á aðra flytja skemmtilega tónlist!

Við fengum okkur nesti í grasinu eftir ekki-sönginn.

Hugi var með en María missti af fjörinu þar sem hún var enn í skólanum.

Þegar von er á fjölda gesta þarf auðvitað að þrífa og taka til. Og á meðan foreldrarnir þeysast um með tuskur og moppur er ágætt að fá að byggja hús úr sófanum og sitja þar inni með ferða dvd-spilarann og horfa á Pippi vinkonu sína.

Svo komu gestirnir og fóru aftur til að dvelja í sumarhúsi. Á meðan luku María og Hugi skólaárinu 2011-2012 og fögnuðu skólaslitunum uppi í eplatrénu í garðinum.

Það er erfitt að velja fínustu myndina, þær eru allar svo æðislegar!

Duglegu, skemmtilegu, kláru og sætu stóru börnin mín.

Það er augljóslega mjög gaman að vera komin í sumarfrí!

Svo komu gestirnir aftur og fóru svo aftur en í þetta sinn heim til sín. Þá er ekkert annað í stöðunni en að spila og syngja Pippi-lagið nokkrum sinnum í gegn.

Með góðri samvinnu á gítarinn hljómar þetta jafnvel enn betur!