Sumargestir

Þann 7. júní fengum við góða gesti hingað á Konsulentvägen - afar góða! Þá rættist langþráður draumur um að fá alla Hlíðarhjallafjölskylduna eins og hún legði sig í heimsókn hingað á Konsulentvägen. Svanhildur, Sigurður, Ástþór Örn og Arnaldur Kári mættu hingað akandi á bílaleigubíl frá Arlanda og það urðu fagnaðarfundir í garðinum! Og góðu minningunum fjölgaði hratt!

Fyrsta kvöldið okkar saman og það var þétt setinn bekkurinn við borðstofuborðið. Gleði, gleði!

  

Þessir tveir gátu sko alveg skemmt sér saman þótt eitt og hálft ár sé á milli þeirra. Baldur Tumi var líka alveg sjúkur í „destina“ eins og hann kallaði gestina (en var samt aðallega að meina Arnald Kára) einu nafni.

Og þessir, maður lifandi hvað þessir tveir eru góðir vinir! Mér fannst óendanlega gaman að geta búið um þá saman í herberginu hans Huga og vita að þeir ættu í vændum svona daga eins og við Svanhildur áttum sjálfar á árum áður þegar ég fór með henni og foreldrum hennar í sumarbústaðaferðir! Hér eru þeir báðir í Captain America bol - alveg óvart.

Einar útbjó pizzur venju samkvæmt á föstudagskvöldi nema fyrir níu manns í þetta sinn. Hann er samt ekki með heimsendingu.

Á þriðja degi okkar saman stóðu Svanhildur og Sigurður fyrir íslensku kvöldi þar sem boðið Dalslamb í aðalrétt ...

         

... en í forrétt var boðið upp á reyktan lax úr Straumfjarðará og heitreyktar gæsabringur. Allt alveg óheyrilega gott!

Arnaldur Kári og Rebbi bíða spenntir (og sætir!) eftir forréttinum í eldhúsinu.

Gjörið þið svo vel!

Við skelltum okkur svo að sjálfsögðu á Junibacken. Hér eru María og Baldur Tumi komin í myndaramma hjá Prinsessunni hans Pers Gustavssonar.

Á Sögutorginu fannst Ástþóri Erni og Huga skemmtilegast að hlaupa í hamstrahjólinu sem þið sjáið þarna fyrir aftan.

Baldur Tumi var kampakátur í heimsókn hjá Kalla á þakinu.

Og Arnaldur Kári hitti átrúnaðargoð sitt Pettson. Findus var væntanlega ekki langt undan.

Krakkarnir á Konsulentvägen mitt í sögunni hennar Elsu Beskow Olles skidfärd.

Hugi prófaði líka skíðin hans Olle.

         

Baldur Tumi átti smá móment með drekanum úr Svona gera prinsessur.

Mæðginin Arnaldur Kári og Svanhildur kanna aðbúnaðinn hjá Múmínfjölskyldunni.

         

Bræðurnir prófuðu að fara á bak á Litla kalli ... enda vanir hestamenn!

         

María og Baldur Tumi prófuðu hins vegar að lyfta honum en voru ekki alveg jafnsterk og Lína.

Vinir fyrir utan Sjónarhól.

Sjónarhóll spýtti út úr sér alls konar skemmtilegum krökkum!

Við erum nú ríkar, við vinkonurnar! Hvern hefði nú grunað þetta þegar við héldum GASL-sýningarnar á Vatni hér forðum daga!

Við fengum okkur hressingu á Junibacken ...

... og Baldur Tumi vildi fá allt alveg eins og María!

Á breytilega leiksvæðinu var Jan Lööf sýning og börnin skemmtu sér við að príla í skipum og flugvélum, kíkja inn í apa og fleira sniðugt ...

... meðan foreldrarnir skemmtu sér yfir klæðaburði annarra foreldra.

Þrjú á palli.

Þegar við vorum komin heim aftur las Svanhildur fyrir litlu strákana og Arnaldur Kári leyfði Findusi að fylgjast með.

Það er alveg hægt að leika með blöðrur og vökva garðinn bæði í einu.

Fjör!

Kátir blöðrustrákar I.

Kátir blöðrustrákar II.

María fékk fyrstu Hungurleikabókina frá fjölskyldunni í Hlíðarhjalla í síðbúna afmælisgjöf og var varla viðræðuhæf þessa daga! Svanhildur varð að senda bók númer tvö með hraði þegar hún komi heim og þá þriðju fengum við í Maxi. Það var svo lán í óláni fyrir mig þegar ég veiktist í lok júní að þessar bækur væru allar til á heimilinu því ég gat þá tekið við af Maríu og stytt mér stundir í pestinni.

Þegar hér var komið sögu skelltu Svanhildur, Sigurður, Ástþór Örn og Arnaldur Kári sér í sumarhús í nágrenni Norrtälje í eina 5-6 daga en komu svo aftur að því loknu og eyddu með okkur annarri helgi. Það var svo frábært að kveðjast þarna eftir fyrri syrpuna og geta sagt með gleði í hjarta: „Sjáumst á laugardaginn!“ Því það gerðum við, á laugardegi komu þau aftur og það kvöld var ég einmitt búin að lofa að halda partý ef Svíþjóð ynni Júrívisjón. Og svo unnum við bara! Hér eru litlu mennirnir að stytta sér stundir meðan við hin elduðum mat, bökuðum kökur og skreyttum fyrir partýið.

Hugi og Ástþór voru liðtækir í skreytingunum en eyddu líka góðri stund úti að bardúsa. Þegar þeir kölluðu á okkur að koma að sjá kom í ljós að þeir voru búnir að útbúa allt sögusviðið í Neverending Story í sandkassanum.

Sniðugir strákar!

Það er svo langt síðan ég sá Neverending Story að ég man ekki alveg hvaða persóna þetta átti að vera - en fínt var það!

Það var auðvitað flaggað með sænska fánanum á sigurtertunni!

Þið verðið bara að ímynda ykkur dúndrandi Euphoria undir þessari mynd!

Á sunnudeginum fórum við í aldeilis frábæra ferð á Gröna Lund þar sem Ástþór Örn og Hugi létu drauma um salíbunur í Vilda Musen rætast. Því miður var myndavélin mín ekki með í för en Svanhildur tók þónokkrar! Daginn eftir buðu heiðurshjónin í Hlíðarhjalla hins vegar upp á prinsessutertu hér við eldhúsborðið!

Angry Birds bræður.

Síðasta kvöldið okkar saman sátum við öll lengi saman og spjölluðum í stofunni, ja fyrir utan litlu mennina sem voru farnir að leggja sig.

Það var talað, hlegið - og geispað!

Morguninn eftir var komið að kveðjustund - og ekkert „Sjáumst á laugardaginn“ í boði í þetta sinn. En þá er bara að herða upp hugann og byrja strax að hlakka til að hittast næst, hvar eða hvenær sem það nú verður.

Takk fyrir dásamlega samveru elsku vinir! Þar sem þið eruð nálægt verður alltaf mitt „draumahús“!