Afmæli, aðventa og annríki

Það er alltaf nóg að gera í desember, hér er brot af því besta!

Fjörið í desember hófst með afmælisdegi Einars þann 5. en þá varð hann 35 ára, hvorki meira né minna. Við vöknuðum snemma að vanda, drukkum kaffi og heitt kakó, borðuðum pönnukökur og fylgdumst með afmælisbarninu opna pakka.

Einar farinn að glíma við fyrstu gjöfina og Hugi horfir áhugasamur á.

Upp úr pakkanum kom þessi fíni sloppur frá fjölskyldunni og íklæddur honum hóf Einar að opna gjöfina frá Huga.

Frá Huga fékk hann Nigella Express sem vakti lukku. Hugi valdi þessa bók sérstaklega eftir að hann sá að í henni var uppskrift að epla martini! Sá drykkur kemur nokkuð við sögu í eftirlætisbíómyndinni hans og hefur því verið í miklu uppáhaldi að undanförnu... alla vega þangað til hann komst að því að epla martini væri áfengt, þá fékk hann vægt sjokk!

María gaf pabba sínum dvd disk með öllu því besta frá Björn Gustavsson, m.a. brot úr Melodifestivalen, Parlamentet, Morgonsoffan og fleiri skemmtilegum þáttum.

Að lokum fékk afmælisdrengurinn mynd að gjöf frá frúnni en það gleymdist alveg að festa hana á filmu eftir að umbúðapappírinn var fokinn.

Helsta ósk Einars á afmælisdaginn var að gera piparkökuhús með Maríu og Huga. Við hringdum því í ömmu á Sóló sem gaf okkur uppskriftina og málin að sínu húsi. Hér er allt komið saman nema þakið og systkinin stolt af afrakstrinum.

Mitt eina framlag til hússins var að skreyta þakið en það dugði samt til þess að mér tókst næstum að klúðra öllu! Ég setti nefnilega ofgnótt af smartís á plöturnar og þær urðu svo þungar að illa gekk að líma þær á grindina auk þess sem hún brast undan öllum þunganum þegar loks tókst að setja þakið á!

Afmælisbarnið tekur á móti hamingjuóskum.

Einar gerir örvæntingarfulla tilraun til að líma þakplöturnar á. Skömmu seinna féll húsið saman!

Daginn eftir tókst þó að líma allt upp á nýtt og fá húsið til að haldast í heilu lagi! Það er auðvitað ekki alveg eins fínt og hjá ömmu á Sóló en við stefnum að því að bæta okkur á komandi árum!

Ég keypti mér fullt af amaryllisum til að njóta yfir aðventuna, hér er einn af þeim.

Og hér eru tveir aðrir afskaplega fínir. Þessir hétu nú reyndar mini-amaryllis ... ég sé ekki alveg hvað er svona lítið við þá!

María, Hugi og Einar skreyttu svo piparkökurnar sem bakaðar voru úr afgangnum af piparkökuhúsinu. Húsfreyjan var hins vegar fjarri góðu gamni þar sem hún sat við frá morgni til kvölds til að reyna að ljúka við allar handgerðu jólagjafirnar (sjá næsta albúm!).

Það er hefð fyrir því í Vänge skola að 2. bekkur sjái um Luciuhátíðina. Í ár var því komið að Maríu og félögum og við foreldrarnir fengum að koma og horfa á þau lussa að morgni 12. desember. Hér er „tågað“ inn í leikfimisalinn.

Herra og fru Tomte, piparkökukarlar og stjärngossar.

María og allar hinar þernurnar syngja jólalögin af innlifun.

Og svo lussaði barnakórinn í Vänge kyrka. Hér er verið að æfa áður en konsertinn hófst.

María æfir útgönguna hátíðleg á svip með kertaljósið sitt.

Og svo rann stundin upp og allir tåguðu inn.

María var ánægð með tónleikana þótt hún setji hér upp þennan stúrna svip. Kannski hún hafi verið svona súr yfir að pabbi hennar skyldi senda hana ógreidda á tónleika?! Mamman var nefnilega sjálf að lussa og gat því ekki haft yfirumsjón með svona málum eins og vanalega!

Daginn áður en við héldum í jólafrí til Íslands fórum við á jólahlaðborð á herragarðinum í Hammarskog. Þetta er þriðja árið í röð sem við förum og ég efast um að við eigum eftir leggja þann sið af fyrr en bara við flytjum til Íslands aftur.

Einar skartaði nýjum gleraugum á herragarðinum en þau sem hann hefur borið frá því við kynntumst duttu endanlega í sundur á aðventunni. Við María aðstoðuðum hann við að velja ný gleraugu og höfðum það eitt að leiðarljósi að þau væru sem allra líkust þeim gömlu. Þrátt fyrir það voru þetta þó nokkur viðbrigði og það tók okkur fáeina daga að venjast breyttum Einari.

Hugi kunni best að meta heitreykta laxinn og skóflaði honum í sig af bestu lyst.

María var hins vegar hrifnust af eftirréttunum ...

... enda voru þeir ekki af verra taginu! Þar mátti meðal annars finna ótal tegundir af heimagerðu konfekti, knäck, sultukökur og bláberja panna cotta.

Og eftir jólahlaðborðið var loksins, loksins gefið grænt ljós á piparkökuhúsið!

Terminator?

Kvöldið fyrir brottför til Íslands var ástandið í stofunni svona! Auk allra jólagjafanna fluttum við með okkur tvær síðbúnar afmælisgjafir, eina brúðargjöf og eina sængurgjöf!

Við Einar skáluðum í jólapilsner meðan við pökkuðum inn síðustu gjöfunum og létum okkur hlakka til Íslandsdvalarinnar.