Vorverkin

Það er að ýmsu að huga á Konsulentvägen þegar aprílmánuður gengur í garð. Það þarf að raka lauf, klippa tré og runna og sá fræjum. En sem betur fer gefst nú tíma til annars konar skemmtunar líka.

Einar kom heim eftir rúmlega vikudvöl á Íslandi á sjálfan gabbdaginn 1. apríl. Við hin vorum himinlifandi að fá hann aftur og börnin voru sérstaklega ánægð með gjafirnar sem hann hafði keypt handa þeim í fríhöfninni. Hér eru feðgarnir að byggja fríhafnar-flugvél.

María, stemmningskonan mikla, skellti sér hins vegar í sumarkjól og út á pall með sitt góss. Það var nefnilega alveg frábært veður þennan dag eftir ansi leiðinlegan marsmánuð, sólin skein og fuglarnir sungu sem var einhvern veginn alveg í takt við heiðríkjuna í sinni okkar Konsulenta. Ég held líka að Einari hafi liðið eins og Aslan þegar hann snýr aftur til Narníu, snjórinn bráðnar, laufin spretta fram úr greinunum og blómin teygja sig upp úr moldinni!

Fyrstu helgina í apríl sinntu Einar og börnin vorverkum í garðinum meðan húsmóðirin sat inni og saumaði á nýju saumavélina. Hún gaf sér þó tíma til að smella nokkrum myndum af duglegu vinnumönnunum í vorsólinni.

Skrælnuð lauf á leiðinni í safnhauginn.

Matjurtagarðurinn var líka stunginn upp þennan dag með dyggri aðstoð Huga og Maríu.

Hugi fann ánamaðk og heimtaði mynd.

María færist ekki lítið í fang!

Systkinin snæða epli á pallinum eftir langan skóladag í síðustu viku.

Við höfum lítið sem ekkert getað notað snjóþoturnar í vetur, ja nema þá helst til þess að hvolfa úr þeim regnvatninu og búa til polla sem gaman er að hoppa í.

Síðustu helgi skelltum við okkur í Bror Hjortshus á Norbyvägen hér í Uppsölum. Húsið er fyrrum bústaður listamannsins Bror Hjort og þar er bæði hægt að skoða verk eftir hann og húsið sjálft. Í þetta sinn var það þó gestasýningin sem dró okkur á staðinn en núna í apríl stendur yfir sýning á Múmínmyndum og öðrum verkum eftir Tove Jansson. Það má náttúrulega ekki taka neinar myndir inni á safninu en hér erum við fyrir utan vinnustofu Bror Hjorts og sjá má ýmsa skúlptúra hans í stóra glugganum.

María tók þátt í Múmínspurningaleik og fékk þetta ótrúlega fína Múmínkort að launum fyrir að hafa svarað öllum spurningunum.

Hjónaleysin föl og fá eftir veturinn!

Hugi á harðaspretti.

Daginn eftir ferðina á Múmínsýninguna héldu feðgarnir garðverkunum áfram og klipptu rifsberjarunnana sem voru orðnir heldur skrímslalegir.

Hugi duglegur að safna saman greinunum.

Ég fer yfirleitt og geng einn örstuttan hring í skóginum á morgnana þegar ég er búin að koma börnunum í skóla og leikskóla. Ég vildi óska að ég gæti leyft ykkur að heyra hvernig undirtekur í honum af fuglasöng þessa dagana en þessi mynd verður víst að duga!

Myndavélin var með í för þennan daginn í þeim tilgangi einum að taka myndir af litlu sætu blåsipponum sem skreyta skógarbotninn um þessar mundir. Þær eru öruggt merki um að sumarið nálgist óðfluga!