Vorferð til Íslands

Dagana 10. - 20. maí dvöldum við á Íslandi, hittum vini og ættingja, létum bjóða okkur í mat hist og her um bæinn og spásséruðum Laugaveginn upp og niður. Ég var hins vegar herfilega lélegur ljósmyndari þessa daga og dró vélina ekki fram fyrr en rétt undir það síðasta þannig að myndirnar eru því miður frekar fáar og það tókst því miður ekki að festa alla góðu vini okkar og skemmtilegu viðburðina á filmu. En hér eru þær sem þó náðust!

Föstudaginn 16. maí brunuðum við út á Snæfellsnes til að taka þátt í skírn Arnaldar Kára sem fram átti að fara daginn eftir. Þjökuð af myndavélasamviskubiti neyddi ég Einar til að stoppa bílinn á miðri leið til að ég gæti tekið myndir af fallegu börnunum mínum í fallegu þjóðlegu peysunum sínum í fallegu íslensku landslagi!

Þau eru nú svo sæt þessi systkin að það er alveg óskiljanlegt að ég hafi ekki tekið fleiri myndir af þeim!

Glöggir lesendur taka eftir því að bæði börnin hafa verið klippt frá því síðustu myndir voru birtar af þeim! Hugi var reyndar klipptur hér í Uppsölum í byrjun maí en klippingin var svo herfileg að ég fór með hann til traustrar og gamalreyndrar íslenskrar hárgreiðslukonu skömmu eftir komuna til gamla landsins og bað hana að bjarga því sem bjargað yrði. Í sömu ferð voru vænir lokkar klipptir neðan af hárinu hennar Maríu og daginn áður hafði ég fengið sömu meðferð! Munið nú eftir að knúsa hárgreiðslukonurnar/-mennina ykkar næst þegar þið látið gera ykkur fín ... þetta fólk er dýrmætara en þið áttið ykkur á!!!

Þrátt fyrir myndatökustopp komumst við alla leið í Dal og hittum á Svanhildi, Sigurð, Ástþór Örn, Arnald Kára, Kötu og Ástþór eldri í fína veiðihúsinu við Straumfjarðará. Eftir góðan kvöldmat fengum við hjónaleysin góðfúslegt leyfi til að fara bara tvö saman út í kvöldgöngu - lúxus sem ég sé enn eftir að hafa ekki notið aðeins meira og oftar áður en börnin fæddust!

Straumfjarðará (detail)!

Tjaldur á skeri seint um kvöld.

Ég get ómögulega munað hvað þetta blóm heitir og ætlaði því að vita hvort ég gæti ekki fundið það í myndaleitinni í Google. Ég prófaði ýmis leitarorð til dæmis „sóley,“ „mýri“ og „íslenskar jurtir“ en fann ekkert. Hins vegar þótti mér afar athyglisvert að það var eiginlega alveg sama hvaða orð ég notaði ég fékk alltaf upp myndir af minni eigin síðu!!! Og það var ekki einu sinni alltaf þannig að þær myndir ættu við einhverjar plöntur því páfagaukurinn Sóley (sem afi Bíbí, Gitta amma og Pétur bróðir eiga) mætti til dæmis á svæðið sem og hangikjötslærið frá Mýri sem Hörður bauð okkur upp á jólin 2006! Ég held ég hafi bara aldrei lent í því áður að fá upp mynd frá mér á Google og því fannst mér æði sérstakt að mér skyldi endurtekið bent á eigin myndir þrátt fyrir ýmis ólík leitarorð!

Á heimleið.

Laugardaginn 17. maí var Arnaldur Kári skírður. Nokkru áður en athöfnin átti að fara fram fengu María og Hugi að fara með Ástþórunum eldri og yngri að sækja skírnarvatn í ánna. Hér eru þau að leggja af stað, velbúin í hellirigningu.

Og hér eru þessir sætu vinir komnir í sparifötin og stilla sér svona fínir upp fyrir mömmur sínar!

Þrjú á palli!

Og hér er skírnarbarnið ásamt fjölskyldunni sinni rétt fyrir athöfnina. Hafið þið séð svona sætt, dúllulegt og kátt skírnarbarn áður?! Já eða bara svona sæta fjölskyldu?!

Guðsonur minn, hinn dásamlegi Arnaldur Kári!

„Hvað eru þau eiginlega að fara að gera við mig afi?“

Stóri bróðir stóð sig einstaklega vel sem ljósberi og tók hlutverk sitt augljóslega mjög alvarlega.

Afi Ástþór heldur á drengnum undir skírn meðan afi Örn skírir hann.

Arnaldur Kári tekur lögboðinn blund í skírnarkjólnum að athöfn lokinni.

Skírnartertan var mér mjög að skapi enda um að ræða brúðartertu Friðriks og Mary sem við Svanhildur höfum löngum haldið mikið upp á enda eigum við góðar minningar frá brúðkaupsdegi þeirra ágætu hjóna!

Hin mjög svo fermingarlega mynd af skírnarforeldrunum!

Eftir að við mannfólkið vorum búin að borða á okkur gat í skírnarveislunni fórum við út í fjárhús til að gefa kindunum brauð og kíkja á litlu lömbin. María var vinsæl sem aldrei fyrr!

Þessi systkin voru nýkomin í heiminn og alvar agnarsmá!

  

María fékk að halda á litlu lambi og ljómaði eins og sólin!

Eftir fjárhúsaferðina brunuðum við í bæinn og við Einar héldum beint í mat til Þrastar Geirs og Unu Bjarkar! Hér erum við í óðaönn að borða steik og plana maí 2009!

Á sunnudeginum var loksins, loksins komið að langþráðri ferð á Gosa! Það er ekki oft sem afi Bíbí leikur í barnaleikritum og því hafa María og Hugi aldrei séð hann á sviði þrátt fyrir að vera orðnar vanar leikhúsrottur. Reyndar þurfti Hugi að fara fram að pissa akkúrat á meðan afi var á sviðinu en sem betur fer missti hann bara af smá! Eftir sýninguna fengum við að fara upp á sviðið og skoða okkur um. Hér er María að máta lyganefið hans Gosa!

Og hér eru María og Hugi í maga hvalsins!

Sem betur fer fjarlægðu sviðsmennirnir skipið áður en afi, María og Hugi voru dregin um borð og flutt til Allsnægtarlandsins.

         

Afi með börnin í búningsherberginu (með og án flass). Takið eftir hvað pabbi og Magga systir eru lík á hægri myndinni!

Hugi bauð svo sjálfum sér í pizzu í matsal leikaranna eftir sýninguna og við hin fylgdum með! Það var nefnilega önnur sýning á Gosa þennan sama dag og leikararnir þurftu að fá sér eitthvað í svanginn á milli.

Hugi lætur nú ekki tækifæri til að borða góðan mat fram hjá sér fara!

Eftir leikhúsið héldum við beint í heimsókn til Ingu sem bar í okkur veitingar af öllu tagi milli þess sem við spjölluðum og börnin léku sér. Hér dást María og Hugi að sipptækni Ísleifs.

Og hér eru vinkonurnar María og Björt Inga.

Við héldum svo heim einum og hálfum sólarhring eftir að þessar síðustu myndir voru teknar og vorum glöð að komast í litla húsið okkar milli blómstrandi eplatrjánna. Hins vegar þykir okkur afskaplega leiðinlegt að eiga ekki lengur möguleika á að hitta ykkur öll og sjáum líka svakalega eftir að hafa ekki tekið fleiri myndir af ykkur! Hér er engin mynd úr yndislegu fjölskylduboði á Bakkastöðum, af fjöruferðum eða humarveislu á Hvítasunnudag. Engar myndir af dásamlegum vortónleikum Mótettukórsins míns eða frábæru partýi eftir þá. Engar myndir af morgunverði með leynifélaginu mínu, síðdegiskaffi í Skeiðarvogi eða kvöldverði í Hlíðarhjalla. Og engin mynd af börnunum með langömmunum tveimur, a Akranesi og á Sóló. Allt eru þetta þó afskaplega kærar minningar sem við munum geyma með okkur alla tíð og framkalla aftur og aftur í huganum þrátt fyrir myndaleysið!

Takk fyrir okkur!