Vorbyrjun 2012

Það byrjaði að vora hjá okkur strax í lok febrúar og marsmánuður var einkar hlýr og mildur. Að vísu hefur apríl síðan verið óvenjukaldur og hráslagalegur en hér koma alla vega myndir frá vorlegum mars.

         

Við byrjum á smá svona bak-við-tjöldin-seríu! Hér var ég í óðaönn að taka forsíðumyndina af Huga þegar Baldur Tumi ákvað að hann yrði að ná nokkrum góðum myndum líka. Hann mætti því með sína myndavél sem hann fékk fyrir nokkru frá vinum sínum Ástþóri Erni og Arnaldi Kára, tróð sér fyrir framan mig og tók að smella af í gríð og erg!

Það skipti hann auðvitað engu þótt myndavélin geri bara ljósblossa og skemmtileg hljóð en taki engar myndir í alvörunni! Við hin hlógum svo mikið að tárin runnu enda var hann óborganlega einbeittur við þetta.

         

Einar tekinn til við fyrirsætustörfin en eitthvað virðist vera að ryðja sér leið inn á myndsviðið!

Jú það er paparzzinn Baldur Tumi mættur til að ná bestu skotunum! Og auðvitað þarf hann að standa klofvega yfir myndefninu alveg eins og hinn ljósmyndarinn - alveg sama þótt hann nái varla niður!

         

Hugi fékk þessa undurfögru peysu frá ömmu sinni. Ég hef nú varla séð svona fallega prjónaflík áður! Og úr alpaca ull sem slær náttúrulega öllu við í mýkt og notalegheitum.

Í byrjun mars kom afi Bíbí í heimsókn til okkar meðan Gitta var með nemendur í ballettkeppni í Falun. Afi nennti að lesa alls konar bækur sem foreldrarnir eru löngu búnir að stræka á og Baldur Tumi var alsæll!

Við drifum afa í skemmtiferð til Sigtuna og Baldur Tumi og hesturinn hennar Pippi komu með.

Við stoppuðum auðvitað í kókosbollubílnum á leiðinni!

Herrarnir fyrir framan ráðhúsið (sem við höfum sagt svo oft frá hér á þessari síðu að það verður ekki gert einu sinni enn!).

Síðan skelltum við okkur á kaffihúsið Tant Brun. Þangað höfum við oft komið en alltaf að sumarlagið og þá setið úti í garðinum. Þetta var í fyrsta sinn sem við vorum inni í húsinu sem er að mig minnir frá 18. öld og hressilega skakkt og skælt.

Baldur Tumi var alla vega ánægður með þetta!

Við hin vorum að vísu svolítið spæld yfir að síðustu semlurnar skyldu seljast fyrir framan nefið á okkur en gerðum okkur bláberjapæ og vínarbrauð að góðu.

Við pabbi yfirlýst og hress.

Baldur Tumi á heimleið, hjartaknúsarinn mikli.

Hér á síðunni vofir enn yfir vörutalning á Musselmalet stellinu mínu! Ég veit um að minnsta kosti eina manneskju sem fullyrðir að hún bíði spennt eftir henni! Þangað til almennilegri talningu verður hrint í framkvæmd birti ég þessa mynd. Hér vantar þó eitt og annað, t.d. stóru fötin mín tvö, kertastjakana og litlar skálar. En finnst ykkur þetta ekki samt glæsilegt safn? Og ótrúlegt að ég hafi komist yfir það nánast allt á einu ári?!

         

Fyrir nokkrum árum síðan keypti ég mér kamelíu. Mér þótti óskaplega vænt um hana og hún var afskaplega falleg jafnvel þótt hún væri ekki í blóma. Hún reyndi tvisvar að blómstra hjá mér en knúmparnir dóu alltaf áður en þeir spurngu út og eftir seinna skiptið hrundi tréð alveg í kjölfarið. Um daginn rakst ég á kamelíur í blómabúð og ákvað að freista gæfunnar aftur. Blómin eru ævintýralega falleg! Þessi gerð heitir hinu mjög svo rómantíska nafni Svanavatnið!