Vor og vatn

6. mars var yndislega fallegur og blíður vordagur og við Bárugötufjölskyldan sáum okkur ekki annað fært en að láta tiltekt og þrif bíða um stund og skella okkur út til að njóta hans ... þó ekki væri nema í örlitla stund. Þegar við vorum komin heim og ég skoðaði myndirnar sem höfðu verið teknar á þessum rúnti okkar sá ég að þó það hafi ekki verið markmiðið, kom vatn við sögu á þeim flestum. Á þeim örfáu sem sýna engan vökva er vorstemmningin augljós ... vor og vatn!

Við byrjuðum á Borgarbókasafninu þar sem skila þurfti nokkrum bókum og fá aðrar lánaðar. Á safninu er þetta æðislega fiskabúr sem börnunum þótti ótrúlega skemmtilegt að skoða. Það var líka tilvalið fyrir smá myndatöku! Ég er ótrúlega ánægð með þessa ... finnst svo fínt hvernig fiskurinn er þarna beint yfir öðru auganu!

Það er eins og María sé að fara að smella einum kossi á litla fiskinn!

Alltaf til í að vera með eitthvað spaug fyrir ljósmyndarann!!! Hugi hins vegar festis ekki á filmu enda hafði hann í nógu að snúast á safninu! Hann fann stóra og mikla bók sem var einmitt um fiskabúr, svona fyrir fólk sem er með risastór ferskvatnsbúr og hugsar ekki um annað, mælir hitastig og seltumagn! Þessa bók vildi Hugi endilega fá að láni! Við foreldrarnir nenntum hins vegar engan veginn að burðast með doðrantinn og laumuðum honum í hilluna aftur þegar enginn sá til!

Það er líka gaman að klessa andlitinu alveg upp að búrinu!

Mamman með börnin úti í góða veðrinu. Eftir safnferðina gátum við ekki hugsað okkur að fara strax heim og ákváðum að rölta aðeins meira.

Næsta stopp var við Ingólfstorg.

Gosbrunnurinn er alltaf vinsæll og Hugi náði meira að segja að fá sér sopa úr drullupollinum þarna undir áður en hann var stoppaður af! Ullabjakk!

Mér finnst þessi mynd líka fín!

Hugi er alveg æstur yfir þessari rauðu húfu sem gengur undir hinu tímaskakka nafni „jólasveinahúfan“. Drengurinn fer ekki út fyrir hússins dyr nema með þetta ágæta höfuðfat og finnst hann í meira lagi flottur! Jakkinn er sömuleiðis í uppáhaldi og kallast „súkkulaðijakkinn“!

Systkinin skokka saman við gosbrunninn.

Eftir stutt stopp við öndvegissúlurnar á torgi Ingólfs ákváðum við að enn væri ótímabært að fara heim og héldum því næst á Hamborgarabúllu hverfisins. Á leiðinni varð þó að taka eina mynd af móður og börnum ...

... og eina af pabba krabba!

Eftir hamborgara og franskar á Búllunni var aðeins komið við í höfninni til að kíkja á bátana. María þurfti að tjá sig svolítið um það allt saman!

Þegar við vorum búin að standa þarna í dágóða stund skaut þessu andargreyi allt í einu upp úr kafi. Það varð að sjálfsögðu að taka nokkrar myndir af öndinni og þessi er dálítið fyndin ... með gogginn upp á gátt.