Vor og væmni í mars

Marsmánuður hefur verið okkur Konsulentum einstaklega ljúfur. Það hefur verið alveg ótrúlegt að fylgjast með vorkomunni og breytingarnar sem hafa orðið þennan mánuðinn hafa verið ótrúlegar, frá frosti og snjó í byrjun mánaðar til sólskins og 18° hita undir lok hans! Manni leyfist nú að fagna slíku og vera dálítið væminn í eins og einu myndaalbúmi, er það ekki?!

Súpermann þarf líka stundum að hvíla sig og slaka á uppi í hægindastól! Sætar þessar tásur!

Stundum plata ég systkinin til að fara með mér í hárgreiðsluleik. Leikurinn fer fram með þeim hætti að þau greiða mér og fikta í hárinu á mér og ég lygni aftur augum og nýt þess að láta dekra svona við mig! Eitt sinn þegar María var að greiða mér fannst Huga hann illa svikinn að fá ekki að vera með og datt í hug að hann gæti þá bara greitt pabba sínum í staðinn! Ekki er alveg ljóst hvort pilturinn er svona ótrúlega mikill húmoristi eða þjáist af miklum athyglisbresti eða jafnvel sjóntruflunum! Hvað um það Einar settist viljugur í hárgreiðslustólinn og hér sést hann „njóta“ dekursins!

Eftir fjölmargar tilraunir til að setja spennur og teygjur í pabba varð þetta lendingin: gullspöng!

Um miðjan mánuðinn fann María maríuhænu úti á tröppum. Vakti þetta mikinn fögnuð viðstaddra og var myndavélin að sjálfsögðu dregin fram í tilefni tímamótanna! Þær eru flottar saman nöfnurnar, báðar í stíl í rauðu!

Svo skemmtilega vill til að ég á að minnsta kosti tvær vinkonur sem eru alveg jafnmiklir maríuhænuaðdáendur og ég! Inga og María, þessi er fyrir ykkur!!!

Flugtak!

Fyrir skemmstu uppgötvaði ég miklar framkvæmdir í toppi grenitrés í næsta garði. Tréð blasir við út um svefnherbergisgluggann okkar Einars og þar sem við höfum tímabundið flutt vinnuaðstöðuna þangað inn eyði ég miklum tíma í að horfa út á þetta tré! Það vakti því athygli mína þegar skötupar tók að gera sér stöðugar ferðir upp í tréð og undanfarnar vikur hef ég fylgst með þeim byggja risastór hreiður þarna uppi við topp. Hér sést skatan (eða skjór á íslensku) hvít, svört og grænblá, í óða önn að snyrta framtíðarheimilið! Ég verð svo glöð þegar ég sé þetta ástfangna par að hjartað tekur aukaslag!

Það er búið að vera nóg að gera hjá þeim við að flytja sprek og strá í hreiðrið og hér sést annar fuglinn fljúga af stað með eitthvað sem væntanlega hefur ekki þótt nógu gott! Minnir mig á þegar Einar reynir að kaupa eitthvað til heimilisins og ég sendi hann annað hvort strax til að skila því eða sting því ofan í skúffu!!!

  

Núna þegar það er orðið „heimafínt“ í tréhúsinu að sögn Maríu, er vinsælt að fá nesti í boxi til að fara með þangað út. Hér eru systkinin í einni slíkri ferð eftir að komið var heim úr skóla og leikskóla. Ótrúlega notalegt að geta bara sent þau út á bolnum þótt komið sé undir kvöld! (Hugi er reyndar fastur í þessari sóræningjaflíspeysu og ég er strax farin að kvíða því að ná honum úr henni þegar hitinn fer að stíga upp fyrir 25 gráðurnar!)

  

Vorboðar á Konsulentvägen. Svona greinar eru eitt helsta tákn vorkomunnar hér í Svíþjóð og seldar fyrir formúgu í blómabúðum þessar vikurnar. Við erum heppin að hafa eina slíka alveg ókeypis við sólpallinn okkar! Þetta loðna er miklu mýkra en þið ímyndið ykkur!!!

María með Maðka maðk á útidyratröppunum.

   

Þarna rótar hún í laufinu sem ég er búin að raka saman í vikunni í leit að vin handa Maðka. Mér til mikillar ánægju flúði Maðki rétt á meðan, ég er ekkert sérstaklega hrifin af ánamöðkum á útidyratröppunum hjá mér enda les ég þar blöðin og drekk kaffi á daginn eftir að sól hækkaði á lofti!

Vá, hvað hún er sæt þessi stelpa sem ég á!!! Og verður 7 ára eftir bara 24 daga!!! Vá!