Vor í Vänge

Í heilt ár er ég búin að bíða spennt eftir því að maímánuður renni upp, mánuðurinn þar sem plómu- og eplatrén mín blómstra, sírenurunnarnir springa út og bústnir rósaknúmpar myndast! Vertu velkominn maí!

Mánuðurinn hófst með frábæru veðri og framkvæmdum í garðinum sem enn sér ekki fyrir endan á. Hér er Einar að moka í sólinni.

Og hér er hressingin sem ég færði vinnumanninum eins og sannri húsmóður sæmir. Tveggjahæða súkkulaðismákökur með cappucinokremi á milli og lime og myntu scholle!

         

Litlu Konsulentarnir fengu sér hins vegar frostpinna enda höfðu þau lítinn áhuga á kræsingunum sem móðir þeirra bar fram.

Hugi vill helst vera allan daginn úti að leika um þessar mundir og þá yfirleitt í einhverjum æsilegum ofurhetjuleikjum. Mér þótti því ansi dúllulegt þegar hann sýndi mér þetta sæta „hreiður“ sem hann var búinn að búa til í einu eplatrénu og þar hvíldu þær sig hetjurnar og fengu sér siestu í sólinni!

Maríuhænurnar eru komnar á kreik fyrir þó nokkru síðan og hér er ein dúlla að skottast eftir plómutrénu mínu sem þarna er alveg við það að fara að springa út.

Maríuhænur eiga að tákna gæfu og því fannst mér tilvalið að smella einni mynd af henni með húsið mitt í baksýn. Megi þar gæfa og gleði ríkja um ókomin ár!

Maí er ekki bara tími plómutrjánna og sírenanna heldur líka sápukúlanna!

Fyrstu helgina í maí fengum við góðan gest í stutta heimsókn. Gitta kom við hjá okkur eftir hina árlegu ballettkeppni í Mora og gisti eina nótt. Við byrjuðum auðvitað á að kynna hana fyrir herragarðinum í Hammarskogen og þar snæddum við elgskjötbollur og pönnukökur með sultu sem hvort tveggja rann ljúflega niður.

Hugi er ekki lengi að sporðrenna einum pönnukökuskammti og er yfirleitt enn svangur á eftir! Þessa dagana finnst mér ég líka næstum því geta séð hann stækka!

Krakkarnir vildu auðvitað sýna Gittu ömmu alla skemmtilegustu staðina í kringum herragarðinn eins og hola tréð ...

  

... og tréskipið. Þarna eru þau bæði um það bil að fara að stinga sér á bólakaf út í hlýjan sjóinn sem þó er hættulegur enda uppfullur af hákörlum og risakolkröbbum!!!

Þegar heim á Konsulentveg var komið tók við litabókastund enda er Gitta algjör meistari í að lita og börnunum þykir því mikil upphefð að fá að fylgjast með henni að störfum og sýna henni sínar myndir ... alveg eins og mér þegar ég var lítil!

Tvær einbeittar!

Árið 2007 buðum við öllum gestum sem okkur sóttu heim upp á grilluð satay kjúklingaspjót en 2008 hefur verið ár Thai beef salatsins! Í þetta sinn var svo sumarleg Pavlova borin fram í eftirrétt enda ballerína í heimsókn!

Eftir kvöldmatinn stóð Hugi fyrir húslestri þar sem hann heimtaði að allir settust í kringum hann í sófanum og skoðuðu saman myndir af honum þegar hann var lítill!!! (Hann skoðar þessi albúm á hverjum degi núna og vill yfirleitt að ég sitji með honum og segi honum hvað hann hafi verið sætur og hvað ég hafi elskað hann mikið um leið og ég sá hann fyrst!) Eftir að heimilismenn höfðu setið í gegnum þrjú Hugaalbúm ákváðum við að leyfa Maríu að láta ljós sitt skína líka og las hún því fyrir okkur úr bók að eigin vali. Það þarf varla að taka það fram að Hugi hafði lítinn áhuga á að hlusta á hana!!!

Plómutréð 9. maí 2008! Ég trúi því ekki þegar ég skoða þessar myndir að ég eigi eitthvað svona fallegt bara rétt fyrir utan dyrnar mínar!

Ég var búin að gera áreiðanlega fimm tilraunir til að mynda blómstrandi plómutréð almennilega en var aldrei sátt við árangurinn. Þennan dag var hins vegar heiður himinn, glaða sólskin og Einar búinn að fikta eitthvað í myndavélinni þannig að allar myndir sem smellt var af urðu fínar!

Verðandi plómur!

Mér tekst aldrei almennilega að mynda blómstrandi tré úr fjarlægð en þarna til hægri sjást plómutrén tvö þótt þau líti dálítið gráleit út.

Og svo eru það saumaafrekin! Ég vil samt taka það fram að allar þessar saumamyndir eru ekki bara til að ég geti montað mig heldur líka þannig að ég eigi örugglega mynd af öllu sem ég hef gert á vísum stað og einhverjar smá upplýsingar! Ég sé nefnilega enn eftir að hafa ekki frá upphafi myndað öll prjónaverkefnin mín! Nema hvað, þetta eru sem sagt ferðalagatöskur systkinanna. Taskan hans Huga er ný og betrumbætt útgáfa af þeirri sem ég hef áður sýnt mynd af hér enda hafði ég klúðrað henni aðeins of meira en ásættanlegt var. Maríutaska er svo alveg eins nema auðvitað úr öðru efni.

Mér finnst þetta Galdrakarlinn í Oz efni eitt það allra sætasta sem ég hef séð!

         

Fóðrið og vasarnir. Huga taska var með sitthvoru efninu í bak- og framhluta en Maríutaska var öll úr Oz efninu að utan.

  

Ég saumaði alveg brjálæðislega mikið áður en við fórum til Íslands um miðjan maí því ég vildi auðvitað geta montað mig sem mest! (Því eru náttúrulega langflestir sem lesa þessa síðu búnir að sjá allt þetta dót og því ekki von á að fiska mikið hrós núna!) Ég var ótrúlega ánægð með þessa einföldu buddu sem ég spókaði mig heilmikið með í gamla landinu!

Og ein svona mynd til að þið sjáið almennilega þetta undurfallega efni!

Þessa tösku hannaði ég svo alveg sjálf! Reyndar er það svo sem ekkert til að stæra sig af þar sem maður þarf ekki annað en að kunna nokkur grunnatriði til að geta gert nánast hvernig tösku sem er! Þetta fallega efni var upphaflega diskamottur sem ég keypti hræbillegar út úr búð og sneið til!

Taskan er smellt saman í miðjunni og þar sem annar hlutinn af smellunni er svo ljótur saumaði ég þessa fínu tölu yfir sem hafði upphaflega fylgt með einhverjum jakka sem varatala.

Ég sá hins vegar strax að ég gæti alveg betrumbætt töskuna fullt og dreif mig því út í búð eftir fleiri diskamottum. Þær voru að vísu búnar en til löberar úr sama efni sem ég keypti í staðinn og bjó til þessa tösku sem er með breiðara axlarbandi og svona spæl yfir opið. Töskunni er svo lokað með segulsmellu þannig að hnappurinn er bara til skrauts.

Og svo setti ég auðvitað innanávasa fyrir gsm-síma og varaliti!