Vinkonudagar

Svefnsófinn hér á Konsulentvägen er heldur betur orðinn liðugur, sprettur fram og til baka án nokkurra vandræða. Nú síðast var það Svanhildur vinkona mín sem sá um að halda honum í þjálfun en hún heimsótti okkur dagana 30. ágúst til 4. september.

Daginn eftir komu Svanhildar til landsins héldum við stöllurnar til Stokkhólms í stórborgarferð. Og hvar gæti verið betra að byrja slíka ferð en einmitt á Vetekatten?! Það er rétt að taka það fram svona strax í byrjun að við vinkonurnar vorum svo hrikalega uppteknar við að spjalla og hlæja að við gleymdum mjög oft að draga upp myndavélarnar til að festa kodak mómentin á filmu. Þess vegna er ekki beint hægt að segja að þetta myndaalbúm segi samfellda ferðasögu í krónólógískri röð.

Löngu löngu eftir að við vorum búnar að sporðrenna prinsessutertu á Vetekatten stóðum við á Riksbron á leiðinni yfir í Gamla Stan. Ég veit að þið trúið því sjálsagt ekki en þetta var virkilega besta myndin sem ég átti af okkur við þetta tækifæri!!!

Við versluðum miiiikið þennan dag! Meira að segja ég sem þó var bara heima hjá mér (eða svona næstum því) lét visakortið aðeins finna fyrir því. Við enduðum svo velheppnaða stórborgarferð á pizzu í Gamla Stan áður en við héldum aftur á Konsulentvägen.

Helgarbröns á Konsulentvägen með nýbökuðum bollum og steiktum grænum tómötum. Þar sem hitastigið hér er farið að síga niður undir frostmark á næturnar þorði Einar ekki öðru en að taka alla tómatana sína, paprikurnar og chilliin inn. Margir tómatanna voru enn heiðgrænir og voru þeir því snarlega steiktir að amerískri fyrirmynd. Ótrúlega góðir!

Í tilefni af komu Svanhildar keypti ég mér stóran vönd af dalíum af einni blómasölukonunni niðri við á. Ótrúlega fallegar finnst ykkur ekki?

Eftir síðbúinn bröns og helling af hangsi héldum við í Hammarskogen. Það er orðið ansi langt síðan við Konsulentarnir komum þangað og því hafði það algjörlega farið framhjá okkur að herragarðurinn hefur verið lokaður síðustu vikur vegna endurbóta. Það var því ekki hægt að fara inn og fá sér kaffi og kökur þannig að herragarðsferðinni var snarlega breytt í náttúruskoðunarferð. Hér er Svanhildur í miðri kastaníuhneturannsókn.

Einar tók lífinu með ró undir eikar- og kastaníutrjánum ...

... en María fór hins vegar í fýlu, faldi sig bak við tré en kíkti af og til framundan því til þess að sjá hvort enginn ætlaði nú að koma til að reyna að hressa hana við!

Á endanum tók Einar sig til og sturtaði einfaldlega fýlunni úr henni. Sú aðgerð hefur margoft verið framkvæmd hér á Konsulentvägen og þykir virka vel á litla fýlupúka. (Mér finnst rétt að taka það fram að María er skellihlæjandi á myndinni!)

Hugi skemmti sér vel yfir meðferðinni á stóru systur.

Nú erum við vinkonurnar búnar að læra allt um það hvernig kastaníuhnetur eru uppbyggðar, vaxa og þroskast.

Náttúruskoðun í fullum gangi.

Við vorum ekki þau einu sem höfðum látið okkur detta í hug að heimsækja Hammarskogen þennan dag. Þarna var margt um manninn og að minnsta kosti tveir fjölmennir hópar voru þarna samankomnir nestis- og leikjaferðum. Á þessari mynd sést hluti stórfjölskyldu að leik í brekkunni við herragarðinn en ég bið ykkur sérstaklega að gæta að gallakældda, skeggjaða manninum sem stendur þarna bak við steininn. Við fylgdumst með honum góða stund og okkur sýndist hann ekki tilheyra fjölskyldunni heldur bara vera einn að væflast þarna. Okkur þótt maðurinn haga sér dálítið skringilega en það tók þó öllu fram þegar hann fór allt í einu að kveikja lítið bál þarna ofan á steininum!!! Undarlegt mál allt saman og við stallsystur hefðum svo sannarlega verið til í að rannsaka það aðeins nánar ... verst bara að við erum orðnar 31 árs og því dálítið áberandi ef við værum í spæjaraleik!

Hugi í holu tré við herragarðinn í Hammarskogen ... og hvað eru mörg h í því?!!

Við vinkonurnar vorum ekki aðgerðarlausar þessa daga Svanhildar hér í Svíþjóð ... ó, nei! Milli þess sem við létum greipar sópa í búðum, þömbuðum kaffi á kaffihúsum og rannsökuðum kastaníuhnetur sátum við í sófanum á Konsulentvägen og prjónuðum eins og við ættum lífið að leysa. Svanhildur prjónaði ungbarnapeysu, ég prjónaði dúkkupeysu og María sat á milli okkar og langaði þessi lifandis ósköp að sinna einhverri handavinnu líka þannig að hún hnýtti hnúta af miklum móð!

Ég þorði ekki að sýna Einari allt dótið sem ég keypti í Stokkhólmi, að minnsta kosti ekki allt í einu, þannig að ég var að smátína það fram næstu daga. Hér hafði ég einmitt sýnt honum snilldarlegan appelsínuskrælara sem hann er að prófa á myndinni (reyndar á límónu, það virkar ekki nærri eins vel eins og sjá má á svipnum á Einari). María tekur nokkur spor í forgrunni.

Á sunnudeginum var haldið til Vaxholm. Í glugga bókabúðar í miðbænum rákum við augun í þessa ótrúlega krúttlegu kisu sem lá þarna milli bókanna og svaf! Búðin var reyndar lokuð og ekkert lífsmark að sjá inni í henni þannig að kannski kisi sé húsvörður?

Óskaplega fallegur hvítur kisi með eitt blátt auga og eitt grænt. (Ef mig misminnir ekki eru þannig kettir yfirleitt blanda af síamsköttum og venjulegum húsköttum.) Ég vona annars að það verði opið í bókabúðinni næst þegar ég kem til Vaxholm og ég geti því heilsað betur upp á þennan krúttlega bókakisa og jafnvel fengið hjá honum meðmæli með einhverjum nýjum sænskum skáldskap! Miðað við hvernig hann hagaði sér þarna úti í glugga trúi ég því alla vega að hann viti allt um bækurnar í búðinni!

Næsta stopp var svo að sjálfsögðu á Síldarmáfinum góða.

Eins og ég hef áreiðanlega áður sagt er eitt af því skemmtilegasta við kaffihúsið Síldarmáfinn að þar er hægt að skoða eldgömul dagblöð og tímarit, flest frá því um miðbik eða fyrri hluta síðustu aldar. Hér er Svanhildur að lesa árnaðaróskir í tilefni stórafmæla í sænsku útgáfunni af Húsfreyjunni!

Okkur fannst þessi algjör dúlla, 90 ára!!!

Og alveg ótrúlegt að þessi „gamla“ kona væri bara fimmtug!

En þessi þótti okkur allra, allra best!!! Ebba Sundholm hefði sómt sér ákaflega vel innan um gömlu kennslukonurnar í Austurbæjarskóla á sínum tíma, það vorum við vissar um!!! Ætli það sé vegna hattflykkisins sem hún ber á hausnum að augun fara alveg í kross?!

Í öðru tímariti fundu Svanhildur og Einar samskonar árnaðaróskadálk fyrir karlmenn sem þau stúderuðu af mikilli nákvæmni. En ég tók bara myndir. Af blómum og fólki!

Kökurnar á Síldarmáfinum eru alveg hreint dásamlegar og Svanhildur varð ekki fyrir vonbrigðum með heslihnetu súkulaðikökuna sína.

Eftir Síldarmáfinn var svo haldið í hefðbundna gönguferð um gamla hverfið í Vaxholm. Hugi prílari er hér ansi hreint hátíðlegur á svip uppi á kletti!

Við vinkonurnar í Vaxholm.

Svanhildur, María, Hugi og Einar á rölti eftir litlu malargötunum milli gömlu timburhúsanna.

Í lítilli búð þarna innst inni í gamla hverfinu fékk María að kaupa súkkulaðipeninga handa sér og Huga. Hún er gríðarlega hrifin af súkkulaðipeningum og biður ævinlega um að fá að kaupa svoleiðis þegar við rekumst á þá. Ekki nóg með það þá heimtaði hún að ég tæki margar, margar myndir af sér með peninginn góða!

Ég held að ég hafi aldrei áður birt mynd af þessum sætu húsum hér á síðunni ... annars fer ég nú að verða komin langleiðina með að hafa sýnt ykkur öll húsin í Vaxholm!

Bútur af grindverki, reipi, stigi, einfalt gler í glugga, falurauðir veggir og flagnaðar þakplötur ... svo fallegt!

Síðasta heila degi Svanhildar hér í Svíþjóð eyddum við vinkonurnar í verslunarferð í Uppsölum. Hér erum við staddar í hádegismat á Café Linné, voða sætt kaffihús í miðbænum sem er vinsælt meðal stúdentanna. Við eilífðarnámsmeyjarnar féllum því vel þarna inn!!!

Einar stóð fyrir indverskri veislu síðasta kvöldið.

Þegar við Svanhildur vorum yngri vorum við voða oft í eins eða keimlíkum fötum. Okkur þóttum við reyndar alls ekki eins klæddar á þeim tíma, Converse skórnir voru nefnilega ekki í sama lit, Big Star gallabuxurnar ekki alveg af sömu gerð, krossbolirnir úr 17 ekki úr alveg sama efni og rauðu gallajakkarnir ekki keyptir í sömu búð ... að okkar mati skildi því himinn og haf á milli! Nokkrum árum síðar áttuðum við okkur þó á því að við höfðum vitanlega verið alveg ótrúlega lummulegar, tvær í nákvæmlega eins dressum! En mikið óskaplega er nú gott að við erum alveg vaxnar upp úr þannig hallærisgangi núna!!! Hér sjáumst við vinkonurnar í glænýjum peysum og pilsum sem við höfðum keypt okkur í Stokkhólmi nokkrum dögum áður.

Aumingja Einar fékk það hlutverk að taka vinkonumyndir af okkur í vinkonudressunum. Við hlógum hins vegar svo mikið að hver myndinn á fætur annarri eyðilagðist og langflestar komu einhvern veginn svona út!!!

Og hér má sjá prjónaafrakstur þessarar heimsóknar Svanhildar. Ungbarnapeysan tilbúin þótt tölurnar vanti og dúkkupeysan klár líka þótt hlutföllin séu ansi undarleg reyndar!

Þetta afrekuðum við á bara fimm dögum auk þess sem við náttúrulega æddum um bæði Stokkhólm og Uppsali, létum greipar sópa í búðunum, keyptum vinkonudress, drukkum kaffi, borðuðum prinsessutertur, hlógum og rifjuðum upp dásamlegan vinskap síðustu 22ja ára!

Elsku Svanhildur mín, takk fyrir komuna og komdu aftur sem fyrst!

P.s. Þú ert besta vinkona okkar!!!