Vetrarsnjór og veikindi

Tvennt einkenndi janúarmánuð öðru fremur hér á Konsulentvägen. Annars vegar mikill snjór, hins vegar mikil veikindi.!

Það snjóaði gríðarlega yfir áramótin og var þó mikill snjór fyrir! 2. janúar var því allt á kafi og djúpt á stígnum heim að litla og hlýja húsinu okkar.

En hvað er nú þetta úti við garðshliðið?

Það eru María og Hugi í snjóhúsi með kertaljós og góðar bækur að lesa!

Snjóhúsið gerðu þau sjálf með smá aðstoð ömmu sinnar.

Húsið var mikil listasmíð, meira að segja með þakglugga!

Á þrettándanum var jólunum hent út ... en komust ekki langt fyrir snjó!

Baldur Tumi náði að flækja sig illilega í prjónadótinu mínu meðan ég var að spjalla í símann! Ég hló svo mikið að honum að ég mátti til með að smella af honum einni mynd áður en ég losaði flækjuna sem náði nokkra hringi í kringum fæturna og eina umferð yfir höfuðið!

Baldur Tumi á ekki í nokkrum vandræðum með að spila á orgelið þótt fótstigið sé! Hann prílar bara upp á pedalana og spilar á meðan hann lætur sig síga niður!

Feluleikur á bak við orgelið er líka mjög vinsæll, sérstaklega þegar myndavélin er nærri!

Stóru systkinin fóru aðeins með þann litla út í garð enda hefur hann lítið komist út sökum ófærðar og kulda.

Hann er aðeins að taka snjóinn í sátt!

              

Piparkökuhúsinu var fargað um miðjan janúar og Baldur Tumi nældi sér í heilan vegg sem hann nartaði í yfir Let's Dance milli þess sem hann tók nokkur dansspor fyrir framan sjónvarpið.

Svo herjaði kvefpest á okkur. Einar byrjaði en var þó nógu hress til að mæta í vinnu, Hugi var heima einn dag í sitt hvorri vikunni, Baldur Tumi lagðist með yfir 40° hita og María var heima í viku samfleytt. Undirrituð hélt dampi í bústörfum og barnaumönnun en er enn að jafna sig á hóstanum nú í febrúar þegar allt útlit er fyrir að næsta kvefpest sé mætt á svæðið! Hvað um það, hér er Hugi að lesa fyrir litla lasna bróður sinn.

Einn koss Hugi, þú ert svo góður að lesa fyrir mig!

Og svo var það María sem var lasin heima og lék við lasinn litla bróður. Hér eru þau að lita saman.

Baldri Tuma þykir rosalega gaman að lita og teikna (les: krassa!) svo við erum afskaplega hrædd við hvers kyns penna og blýanta á glámbekk. Finn á mér að það er stutt í að ég komi að útkrotuðum veggjum, parketti eða innréttingum!

Og að lokum er svo eitt nýtt vídeó af Baldri Tuma að „tala í símann“. Maður kann kannski ekki mikið að tala en á samt ekki í neinum vandræðum með að líkja eftir alvöru símtali!

Ég má svo til með að henda inn einu gömlu vídeó líka. Þetta er frá kyssutímabilinu sem gekk yfir síðasta haust! Að vísu er það ekki liðið í þeim skilningi að litlinn vill enn kyssa okkur en hann er hættur að koma hlaupandi langar leiðir með munninn galopinn þegar maður biður um koss!